28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Menn hafa nú beðið alllengi eftir að fá að vita um bjargráð ríkisstjórnarinnar, eins og það hefur verið kallað, og nú er loks svo komið, að þau eru sýnd hv. Alþingi og almenningi. Mikið hefur verið rætt um það manna á milli undanfarið, hversu miklu þær nýju álögur mundu nema, sem hæstv. ríkisstj. teldi sig þurfa að leggja á landsfólkið. Ég hef heyrt þar nefndar ýmsar upphæðir, 130 millj., jafnvel 150–160 millj., en það sýnir sig nú, að þegar tillögurnar koma fyrir Alþ., þá er um hvoruga þessa upphæð að ræða, heldur miklu hærri upphæð, a. m. k. 200 millj., samkvæmt áætlun hæstv. ríkisstj. sjálfrar.

Hæstv. fjmrh. tók svo til orða í umr. um fjárlögin í gær eða fyrradag, þegar rætt var um það, hversu úthluta skyldi nú greiðsluafgangi ársins 1955, milli 50 og 60 millj. kr., að það færi hrollur um sig, þegar hann hugsaði til þess, hvernig farið hefði fyrir landsfólkinu, ef ekki hefði verið hægt að úthluta þessum 50 millj. þann veg, sem gert er ráð fyrir í till. hans til breytinga á fjárlögunum.

Ég verð að segja það, að ef hugsun um slíkt hefur vakið hroll hjá hæstv. ráðh., þá skil ég ekki annað en það sé kominn hrollur í hann nú, þegar hann ásamt meðráðherrum sínum ungar út frumvörpum um nýja skatta ofan á það, sem fyrir er, rösklega 200 millj. kr., en það er eftir áætlun ríkisstjórnarinnar samanlögð upphæð þeirra álagna, sem á að leggja á landsfólkið samkv. þessu frv., sem hér er til umr. nú, og samkv. frv. um framleiðslusjóð, sem er til umr. í Nd. nú samtímis.

Það er augljóst mál öllum og ekki sízt jafnglöggum manni og hæstv. fjmrh., að álagning slíkrar skattafúlgu ofan á það, sem fyrir er, hlýtur að hafa stórfelld áhrif í þjóðfélaginu, hlýtur að leiða til verðhækkana, hlýtur að leiða til aukins framleiðslukostnaðar, hlýtur að leiða til þess að rýra gildi íslenzku krónunnar. Og mig furðar mjög á því, ef hæstv. ráðh. kennir ekki hrolls, þegar hann leggur þessi frv. fram og mælir fyrir þeim, því að hann hlýtur að sjá, hverjar afleiðingarnar verða.

Samkv. fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir, og tillögum meiri hl. fjvn. um breytingar á því, virðist séð, að fjárlögin verði afgreidd þannig, að gjöld og tekjur verði nokkurn veginn jafnt, eða eitthvað á milli 650 og 660 millj. króna. 652 millj. kr. ætla ég að það sé samkv. tillögum meiri hl. fjvn. Við þessi útgjöld má svo bæta, ef samþykkt verður frv. um framleiðslusjóð, sem mun nú vera ráðið, 153 millj. kr. Þar við má enn bæta bátagjaldeyrisálaginu, sem mun vera áætlað ekki minna en 110 millj. kr. Þessar álögur samtals nema þá rétt í kringum 915 millj. kr. samkvæmt áætlun hæstv. ríkisstj. sjálfrar. En öll þekkjum við „Eysteinsáætlanir“, ef ég mætti nota það orð. Öll þekkjum við, hversu varlega hæstv. fjmrh. hefur jafnan áætlað tekjur ríkissjóðs á undanförnum árum, þannig að óhætt mun að fullyrða, að hér sé vanáætlað um 1020 millj. kr., og er þá ljóst, að álögur á landsfólkið eru komnar eitthvað nokkuð á annan milljarð, eitthvað yfir 1000 millj. kr.

Ég verð að segja það, að mig furðar, að hæstv. ríkisstj. skuli leggja þessar till. fram, ekki vegna þess, að mér sé ekki ljóst, að hér þarf að gera ýmsar ráðstafanir, sem nokkurt fé þarf til, þó að mat mitt á því sé annað en hæstv. ríkisstjórnar, heldur vegna hins, að ég sé ekki, að nokkrar ábendingar um ráðstafanir til þess að draga úr því, að þessi nýja skattabyrði margfaldist og auki verðbólguna í landinu og framleiðslukostnaðinn, séu gerðar eða gert ráð fyrir í frumvörpunum. Það er ekki með einu orði minnzt á það, að nokkuð skuli gert til þess að draga úr því eða koma í veg fyrir, að þessar nýju 200 millj. kr. í álögum verði gróðalind fyrir milliliði, sem vörurnar fara í gegnum hendurnar á og leggja á þessar upphæðir sömu álagningu eða hærri en þeir hafa lagt á aðrar vörur og annað fé, sem þeir hafa haft handa á milli.

Sé gert ráð fyrir, að til uppjafnaðar sé álagningin eitthvað á milli 40 og 50% hjá milliliðum, sem vörurnar og féð fer í gegnum hendurnar á, þá er ekki um að ræða 200 millj. skatt, heldur upp undir 300 millj. skatt, sem er lagður á almenning í landinu, sumpart til ríkissjóðs og sumpart sem aukið fé til þeirra, sem annast dreifinguna, sem féð og vörurnar fara í gegnum hendurnar á, sem annast milliliðastarfsemi í landinu, að ótöldum þeim afleiðingum, sem hlýtur að leiða almennt af því, þegar verðlagið hækkar almennt, þeim áhrifum, sem það hefur á verð fasteigna og gildi peninga.

Þetta er nú almennt um efni þessa frv. og hins frumv., sem nú er til umr. í hv. neðri deild.

Í grg. þessa frv. er því haldið fram af hæstv. ráðh., að ástæðan til þess, að það er borið fram, sé sú, að ef samþykktar verða þær till. til hækkunar útgjalda fjárlaganna, sem meiri hl. fjvn. hefur lagt fram, verði halli á fjárlögunum milli 40 og 50 millj. kr., sem nauðsynlegt sé að jafna, og að þessu frumvarpi sé ætlað að sjá ríkissjóði fyrir tekjum til þess að tryggja jöfnuð á fjárlögunum.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það sé nauðsynlegt, að fjárlögin séu afgreidd hallalaus. En ég er þeirrar skoðunar, að jafnnauðsynlegt og það sé hitt, að áætlunarupphæðir fjárlaganna séu settar svo nærri því, sem ætla má að þær verði, sem hægt er að gera á hverjum tíma. Og ég vil fullyrða það, að í fjárlfrv., sem nú liggur fyrir, er það ekki gert að því er snertir tekjuáætlun fjárlaganna. Ég vil fullyrða, að það er óþarft að sjá ríkissjóði fyrir nýjum tekjum með sérstakri löggjöf til þess að tryggja, að fjárlögin verði hallalaus. Til þess nægja þeir tekjustofnar, sem nú eru fyrir hendi samkvæmt gildandi lögum, ef ekki er gert ráð fyrir, að innflutningi hraki stórkostlega frá því, sem hann var á s. l. ári, og ef til þess er ætlazt, að hæstv. ríkisstj. fylgi ákvæðum fjárlaganna, en taki sér ekki sjálf fjárveitingavald í hendur. Ég skal nú leiða að þessu nokkur rök.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir af hæstv. ríkisstj., að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 49 millj. kr., og það telur hæstv. ríkisstj. að muni þurfa til þess að brúa bilið eða afgreiða fjárlögin hallalaus. Ég tel í fyrsta lagi fullvíst, að tekjur af samþykkt þessa frv. mundu verða stórum meiri en 49 millj. kr. Að þessu sinni skal ég láta mér nægja að benda aðeins á eitt atriði til að sýna fram á þetta. Verðtollurinn á s. l. ári reyndist vera 178 millj. kr., innborgað til 31. desember. Samkv. frv. á verðtollurinn að hækka um 25%. Fjórði hlutinn af 178 millj. kr. er nærfellt 45, eða 44½ millj. kr.

Ég sé enga minnstu ástæðu til þess, eins og horfir, að áætla verðtollinn lægri á þessu ári, 1956, en hann hefur reynzt á árinu 1955, og lætur þá nærri, að þessi upphæð ein, verðtollshækkunin, svari til þess, sem hæstv. fjmrh. telur að þurfi til þess að jafna halla fjárlaganna. Hinir aðrir liðirnir í frv. gefa a. m. k. milli 15 og 20 millj. kr., og ætla ég, að skeiki þar ekki miklu við áætlun fjmrh. sjálfs, þannig að sýnt er, að það er óhætt að áætla þessar tekjur ekki minni en yfir 60 millj. kr. En það má segja, að það skipti ekki mestu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið er það: Er þörf á því að hækka skattana til þess að fá jöfnuð á fjárlögunum að samþykktum þeim till., sem meiri hl. fjvn. ber fram um aukin útgjöld og telja má víst að verði samþykktar?

Samkv. uppgjöri hv. fjvn. er talið, að það þurfi um 46 millj. kr., til þess að fjárlögin verði hallalaus. Ég lít hins vegar svo á, að margir veigamestu tekjuliðirnir séu stórum lægra áætlaðir í fjárlagafrv. en ástæða er til og rétt verður að teljast. Ég skal aðeins benda á nokkra stærstu liðina.

Verðtollurinn er í frv. nú áætlaður 155 millj. kr. fyrir árið 1956, en innborgað var hinn 31. des. rösklega 178 millj. kr. Ég vísa til þess, sem ég fyrr sagði, að verðtollurinn hefur farið vaxandi ár frá ári og á hverju ári farið mikið fram úr því, sem hæstv. ráðh. hefur áætlað hann. Enn er eitthvað óinnkomið af verðtolli frá 1955, þann 31. des. Það er engin skynsemi, nema menn geri ráð fyrir stórkostlegum þrengslum og mikið minnkuðum innflutningi og vandræðum, að áætla verðtollinn lægri á næsta ári en hann hefur reynzt á s. l. ári.

Næsti liður af stórliðum er söluskatturinn. Hann er í fjárlfrv. áætlaður 120 millj. kr., en hefur reynzt innborgaður 31. des. s. l. 130 millj., eða 10 millj. kr. meira en hann er áætlaður fyrir næsta ár. Það er sama að segja um þennan skatt og verðtollinn, að hann hefur jafnan farið stórkostlega fram úr áætlun hæstv. ráðherra. Um þennan skatt stendur svo á, að hann hlýtur að hækka með hækkandi verðlagi. Verðlagið er nú þegar hærra en það hefur verið að jafnaði árið 1955, og allt bendir til þess, að verðlagið verði enn hærra, svo að miklu munar, á árinu 1956, þannig að það er alveg fullvíst, að þessi skattur hlýtur að hækka, ekki aðeins verða jafn, 10 millj. kr. hærri en áætlað er á frv., heldur veruleg hækkun ofan á það.

Um benzínskattinn og bifreiðaskattinn ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð. Það liggur í augum uppi, að þegar fjölgar um 3000 bifreiðar í landinu á einu ári, eins og gerðist á s. l. ári, hlýtur benzínnotkun og benzínskattur að aukast stórkostlega. Bifreiðaskatturinn eykst einnig, þegar 3000 nýjar bifreiðar koma inn. Benzínskatturinn er áætlaður aðeins 11.5 millj. kr., hér um bil sama og hann reyndist innborgaður 31. desember. Og það er fullvíst, að hann hlýtur að verða stórum mun hærri á næsta ári, og slíkt hið sama er einnig um bifreiðaskattinn að segja án hækkunar.

Þá er augljóst, að stimpilgjöldin hljóta að hækka með hækkandi verðlagi í landinn, eins og líka sýnir sig að þau hafa gert á s. l. ári, því að þau voru komin upp í 15 millj. kr. 31. des., en samt eru þau áætluð fyrir næsta ár aðeins 13½ millj. kr.

Ég fullyrði, að ef ekki er gert ráð fyrir beinu hruni og vandræðum, má treysta því, að þessir tekjustofnar, sem ég hér hef nú nefnt, hljóta að hækka a. m. k. svo, að nægir til þess að jafna þann mismun, sem meiri hl. fjvn. telur nú að sé á gjöldum og tekjum fjárl. Það er því alveg óþarfi að minni hyggju að samþykkja þetta frv. Það er að ófyrirsynju gert, nema sá sé tilgangurinn einn að láta ríkisstj. enn hafa til ráðstöfunar stórar fjárfúlgur umfram fjárlög, sem hún geti ráðstafað eftir sínum geðþótta og leitað svo, eftir því sem henni sýnist, seint og síðar meir samþykkis Alþingis eftir á fyrir nokkrum hluta af greiðslunum. En slíkt á ekki að ske og engin ástæða til þess, síður en svo, að skapa nokkurri ríkisstj., allra sízt þeirri, sem nú situr, slíka möguleika. Niðurstaða mín af þessu verður því sú, að það sé óþarft að samþykkja þetta frv. til þess að tryggja jöfnuð á fjárlögunum, hér sé verið að veita ríkisstj. fé umfram þarfir, miðað við þau útgjöld, sem meiri hl. er búinn að koma sér saman um að bæta inn í fjárlagafrv.

Ég skal ekki hafa þessi mín orð miklu fleiri að þessu sinni. Ef til vill gefst mér tækifæri til þess að fara nánar út í þetta við 2. umr. málsins. Ég hef ekki getað fallizt á þetta frv. og legg til, að frv. verði fellt, af þeim ástæðum, sem ég hér hef greint.

Mér virðist, að þegar litið er til þess, hvað nú. er að gerast í Nd., og þess, sem telja má víst að samþykkt verði þar, þá sé alveg furðulegt í viðbót við það, sem þar er farið fram á, að ætlast til þess, að hækkaðir séu þeir skattar og tollar og þau gjöld, sem farið er fram á að hækkuð séu í þessu frv. Ég fæ ekki betur séð en að eftir því sem bezt er hægt að gera sínar áætlanir fyrir næsta ár, ef miðað er við, að atvinnuvegir landsmanna haldist í gangi, megi telja fullvíst, að tekjur ríkissjóðs að óbreyttum lögum nægi til þess að mæta þeim gjöldum, sem tekin verða upp í fjárlögin samkv. tillögum meiri hl. hv. fjvn.

Hæstv. ráðh. drap á það, að æskilegt væri að geta afgreitt þetta frv. nú þegar á þessum degi. Ég mun ekki halda hér uppi neinu málþófi eða tefja framgang málsins. Stjórnarliðið verður að ákveða það sjálft fyrir sitt leyti, hvort það vill beita afbrigðum til þess að koma málinu í gegn. Ég vildi þó óska, áður en málið væri afgreitt, að færi gæfist á að útbýta því nál., sem ég fyrir kl. 4 var búinn að afhenda til prentunar, og vænti, að það lánist. En það vildi ég segja sem mína skoðun, að í raun og veru tel ég eðlilegast, að nokkurn veginn yrðu samferða þau tvö frumvörp um nýjar álögur, sem nú liggja fyrir sitt í hvorri deild. Þessi mál snerta hvort annað, og er því ekki óeðlilegt, að svo væri, en að sjálfsögðu er það á valdi hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokka, hvernig hún hagar afgreiðslu málsins.