28.01.1956
Efri deild: 53. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. 1. umr. þessa máls er nýafstaðin og ýtarleg. Rökin liggja hér enn í loftinu frá þeirri umr. og geta gert það að verkum, að 2. umr. megi verða styttri, svo að málið geti farið þá hröðu ferð, sem því er ætlað að fara af eðlilegum nauðsynjum.

Fjhn. athugaði málið, en klofnaði, eins og þskj. bera með sér. Meiri hl. n., 4 af 5, hefur skilað nál. á þskj. 306 og mælir þar með samþykkt frv. með einni breytingu þó. Aðalafstöðu sína byggir meiri hl. á þeim rökum, sem telja má að hafi komið mjög ýtarlega fram í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr., og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau nema að mjög takmörkuðu leyti.

Frv. þetta er í mjög nánum tengslum við afgreiðslu á fjárlögunum, eins og tekið hefur verið fram. Því er ætlað að afla tekna, til þess að tekjur geti orðið á móti gjöldum við afgreiðslu fjárlaganna, en öllum kemur saman um það, sem ábyrgð bera á þeirri afgreiðslu, að þar sé skarð, eins og nú standa sakir, sem þurfi að fylla. Minni hl. fjhn., hv. 4. þm. Reykv., skilar séráliti, sem enn hefur ekki verið útbýtt, en afstaða hans hefur komið mjög greinilega fram við umr. hér á undan. Og afstaða stjórnarandstöðunnar allrar er ein og hin sama, sem sé sú, að það sé ekki þörf á að afla meiri tekna en núgildandi tekjuöflunarlög mundu leiða af sér fyrir ríkissjóðinn. Þetta byggir stjórnarandstaðan á ýmsu, en aðallega því, að á síðustu árum hafi verið rangt áætlaðar tekjur samkvæmt þessum lögum, sem gilt hafa, og óþarflega mikið tekið í ríkissjóðinn til þess að mæta gjöldunum. Nú er það svo, að hygginn bóndi miðar ekki ásetning sinn við það, sem beztu vetur geta látið hann komast af með, heldur gerir hann ráð fyrir því að þurfa að mæta meðalvetri eða jafnvel vondum vetri. Og þegar á að gera áætlun fyrir ríkissjóðinn, þá er vert að hafa svipaða afstöðu og forsjáll bóndi við ásetning. Ég er líka í raun og veru viss um það, að sú bjartsýni, sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni gegn þessu frv. eða aukinni tekjuöflun stafar miklu frekar af því, að stjórnarandstaðan telur sig ekki þurfa að bera ábyrgð á ásetningnum, heldur en hún sé trúuð á það, að góðæri það í tekjuöflun, sem verið hefur undanfarin ár, sé ábyggilegt til að endurtaka sig.

Það er mikið mælt á móti hækkun á vörumagnstolli og verðtolli, og í því sambandi er þó vert að taka til greina, að sá viðauki, sem þar er um að ræða, snertir ekki allra brýnustu nauðsynjar fólksins, svo sem mjöl, grjón, sykur, korn, salt, kol og steinolíu.

Um 2. lið 1. gr., sem meiri hl. fjhn. leggur til að felldur sé niður, er þess að geta, að um hann var nokkur ágreiningur innan meiri hl. En samkomulag varð um að leggja til, að hann yrði felldur niður úr þessu frv., því að í rann og veru má segja, að hann eigi ekki sérstakt erindi með tekjuöflunarfrv., sem miðað er við það að jafna fjárlögin. Þess vegna er eining um það af hálfu meiri hl. að mæla með því, að hann verði felldur niður, og um það er till. á þskj. 307.

Sams konar innskot í þetta frv. má segja að sé álag það á innflutningsgjald af benzíni, sem ætlað er sem tekjuöflun til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga og í brúasjóð, 5 aurar á hvorn stað, sem gera samtals, eftir því sem áætlað er, 5 millj. kr. Meiri hl. fjhn. er þessu samþykkur, enda er hér ekki um stórt atriði að ræða og mikil þörf, sem kallar eftir þessum framkvæmdum. Meiri hl. treystir því, að þó að þarna sé safnað í sjóð, sem verður svo sennilega ráðstafað af þeim, sem með þessi mál fara utan Alþ., að þeim tekjum, sem koma þarna, til þess að hægt sé að vinna að endurbótum, byggja stórbrýr og koma á nauðsynlegum tengivegum milli héraða, verði réttlátlega úthlutað til landshlutanna og megi þess vegna koma að eðlilegum og sanngjörnum notum fyrir þá, sem þarna eiga sérstaklega hlut að máli. En eins og menn vita, eru tengivegir, sem mikill áhugi er fyrir og nauðsyn að koma á í öllum landshlutum svo og ógerðar brýr, sem brúasjóður hefur ekki annað að byggja.

Þegar um það er að ræða, hvort réttmætt sé að hækka innflutningsgjald af benzíni, þá er vert að athuga það, sem hæstv. fjmrh. raunar drap á, að álag á benzín hefur verið minna hér á landi en annars staðar yfirleitt, og það miklu minna en í nágrannalöndunum, Norðurlöndum. Ríkið hefur tekið 48 aura af lítra í skatt til ríkissjóðsins hér, en í Danmörku hefur verið tekið kr. 1.32, í Noregi kr. 1.05 og í Svíþjóð kr. 1.01, og verðlagið er, eins og sakir standa, kr. 1.75 hér, kr. 2.13 í Danmörku, kr. 2.19 í Noregi og kr. 1.92 í Svíþjóð. Ef frv. þetta verður að l., má gera ráð fyrir því, að það, sem íslenzka ríkið tekur, verði milli 80 og 90 aurar á hvern lítra, og nær það alls ekki því, sem aðrar þjóðir taka af benzíni í sinn ríkissjóð.

Við tölum oft um það, að það séu miklar álögur á Íslandi. En á það ber þá að líta jafnframt, að það er mikið, sem þjóðfélagið á Íslandi gerir fyrir þegna sína, og það er afar mikil efnahagsjöfnun, sem á sér stað í gegnum ríkissjóðinn. Þess vegna er það, að þeir skattar, sem við tökum, eru ekki látnir af hendi þannig, að steinn sé yfirleitt tekinn í staðinn. Og því er betur, að efnahagsástand og atvinnulíf á Íslandi er þannig nú, að ekki er ástæða til þess að berja barlómsbumbur fyrir landsfólkið. Hitt er svo annað mál, að telja má, að fyrir framtíðina sé ekki öryggi eins mikið og æskilegt væri. En mér er spurn: Mundi öryggið vaxa, þó að ríkissjóðurinn kæmist í greiðsluþrot? Mundi öryggið vaxa, ef Alþ. gengi þannig frá fjárlögum, að vafasamt væri, að ríkissjóður gæti innt af höndum það, sem hann hefur tekið að sér að inna af höndum, hvað þá ef hann kæmist í greiðsluþrot? Það er eins og fjmrh. sagði, ef slíkt ástand myndaðist, þá mundi það verða eins og olía á eld verðbólgunnar, og það má líka fullyrða, að þá mundi margur maður á Íslandi, ekki sízt þeir fátæku, finna til þess, að fokið væri í skjól. Ég held þess vegna, að þótt æskilegt hefði verið, að ekki hefði þurft að hækka álög, þá þurfum við ekki að vera afar hnuggnir yfir því, meðan ríkissjóður gerir það fyrir landsfólkið, sem bann gerir nú. Og ég verð að segja það, að ég hef ekki orðið þess var, t. d. í fjvn., að þar komi fram till. um, að hægt sé að spara, svo að verulegu nemi, eða vilji sé til þess — nema síður sé — hjá stjórnarandstöðunni að lækka þær greiðslur, sem ríkissjóði er talið skylt að inna og honum er gert að inna samkvæmt fjárlögum. Afleiðing gjaldanna verður svo eðlilega sú, að sjá þarf fyrir tekjum á móti, og sú tekjuöflun hvílir ekki svo þungt á þjóðinni — ég fullyrði það — að við getum ekki talið, að velgengni sé í landinu.