28.01.1956
Efri deild: 53. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ræða frsm. minni hl. gaf ekki ástæðu til þess, að ég fari að lengja hér umr. nema að einu leyti, þ. e. að því er snertir þá skriflegu till., sem hann lagði fram.

Ég vil þá geta þess, að erindi frá bifreiðarstjórafélaginu Hreyfli barst fjhn., þegar hún hélt fund sinn áðan, og hún sá sér ekki fært að verða við óskum bifreiðarstjóranna, þ. e. a. s. meiri hl. Minni hl. hefur nú aftur á móti gengið til móts við þá. Ég vil að þessu gefnu tilefni upplýsa og benda á, að bifreiðaskattur ásamt gjaldi af hjólbörðum og slöngum var ákveðinn 1949 og hefur haldizt óbreyttur síðan, og hann er ekki miðaður við verð, heldur við þunga. Hann hefur verið 3 kr. af kg hjólbarða og slangna, en nú er lagt til, að hann verði 6 kr. Þungaskattur bíla hefur verið 36 kr. af 100 kg, en nú er lagt til, að hann hækki um helming, þ. e. af bifreiðum, sem eru til fólksflutninga aðallega. Svo er þungaskattur af þeim bílum, sem nota annað eldsneyti en benzín,90 kr. af 100 kg, og það er lagt til, að hann hækki um 50%. Þegar á það er litið, hvað verðlag hefur breytzt í landinu og gildi peninga síðan 1949, er ekki hægt að segja, að harkalega sé að farið í þessu efni.

Um benzínskattinn þarf ég ekki að tala, ég gerði það áðan, og það liggur ljóst fyrir, að hann hvílir létt á hér í okkar landi, borið saman við það, sem er í öðrum löndum, og er þó meira, sem þarf að gera hér fyrir vegi, en annars staðar yfirleitt vegna þess, hve landið er stórt og miklar vegalengdir. Meiri hl. sem sagt taldi sig ekki geta orðið við óskum bifreiðarstjórafélagsins, og hann leggur því til, að till. hv. minni hl. verði felld.