28.01.1956
Neðri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hann gaf okkur í stjórnarandstöðunni kost á að kynna okkur þetta frv. sem trúnaðarmál, áður en hann lagði það fram, og bað um, að ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tefja það, sökum þess, hvernig háttaði um sölu á vörunum, sem það fyrst og fremst leggst á. Við munum ekki gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að berjast það harðvítuglega í þessu máli, að það tefjist þess vegna, því að það er auðséð, að málið á að ganga í gegn. Hitt finnst mér, að ríkisstj. megi athuga, að henni ber að hafa sinn atkvæðameirihluta til taks, þegar hún ætlar að þvinga mál fram á þennan hátt. (Fjmrh.: Það er sanngjörn krafa.) Það er mjög sanngjörn krafa. En það er hins vegar hlutur, sem yfirleitt kemur ekki fyrir í þinginu. Það er nú búið að drepa svo allan dug úr þm. stjórnarliðsins, að þegar þeir ekki lengur yfirleitt fá að tala í neinum málum og láta í ljós neina sjálfstæða skoðun og eiga ekkert eftir annað en að fá einstaka sinnum að rétta upp hendurnar og venjulega með slæmum málum, þá eru þeir farnir að letjast á því að sitja á bekkjunum, og þess vegna er það ekki nema sanngjarnt, að ríkisstj. geri sérstakar ráðstafanir til þess, að þeir séu viðstaddir og að stjórnarandstaðan þurfi ekki bókstaflega að hjálpa málunum áfram með því að greiða atkvæði á móti afbrigðum eða öðru slíku.

Fyrsta atriðið í sambandi við þetta frv. er sú stefna, sem hæstv. fjmrh. fer inn á. Hann leggur hér fram frv. um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, — og kemur nú einu sinni enn þá gamli bandormurinn eða höggormurinn til sögunnar í þinginu að nýju, alltaf er hann vakinn upp með nokkurra ára millibili, — og segir, að nú vanti sig til þess að geta afgreitt fjárlögin. Þetta er þskj. 302, og á þskj. 290 eru nokkrar brtt. við fjárl., m. a. brtt. frá hæstv. fjmrh., og það er dálítið gaman að athuga þetta tvennt í samhengi.

Hann fer fram á við okkur með þessu frv., sem hér liggur fyrir í dag, að það sé lagður skattur á almenning, sem muni gefa um 50 millj. kr. í ríkissjóðinn, annars verði ríkissjóður alveg ófær um að greiða það, sem á honum hvíli. Samtímis leggur hann svo fyrir brtt. um að veita úr ríkissjóði 54 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1955, sem hann sagði um, þegar þau fjárl. voru ákveðin, að það væri alveg óhjákvæmilegt að innheimta þær álögur, sem þá væru til, vegna þess að annars mundi ekki vera nóg í ríkissjóði til þess að borga. M. ö. o.: Hann hefur 54 millj. kr. afgangs, sem hann leggur til í dag við okkur að ráðstafa. Hann hefur afgangs 54 millj. kr. frá árinu 1955. Svo kemur hann hér fram fyrir okkur og segir: Viljið þið ekki lofa mér að leggja á sérstaklega 50 millj. kr. fyrir næsta ár? — og segir þá aftur, að þetta sé til þess, að hann hafi nú eitthvað upp í að borga, þó að við vitum, að þetta sé til þess, að hann hafi eitthvað afgangs, milli 50 og 100 millj., til þess að ráðstafa á næsta ári, eins og hann er að ráðstafa þessum 54 millj. kr. núna á þskj. 290.

Það hefði verið einfaldast af hæstv. fjmrh. að taka þessar 54 millj. kr. af tekjuafgangi 1955 og segja: Má ég ekki hafa þetta til vara fyrir fjárl. 1956? — Þetta er nokkurn veginn sama upphæð. Og það, sem ég vildi ræða við hann í þessu sambandi, er stefnan í þessu. Það er þessi stefna að leggja nefskatta á almenning til auðsöfnunar fyrir ríkissjóð eða einstök fyrirtæki í landinu. Er þetta rétt stefna, eða er hún röng?

Ég álít, að hún sé röng. Ég álít, að það nái ekki nokkurri átt og að það sé bara að blekkja sjálfan sig að vera að leggja tolla á neyzluvörur almennings til þess að taka þá peninga síðan og ráðstafa þeim í þá stóru útlánasjóði bankanna. Í fyrsta lagi er algerlega óréttlátt að leggja slíkan skatt á alþýðu manna til þess eins að safna auði handa forríkum fyrirtækjum, þó að það séu ríkisfyrirtæki. Og ég býst við, að hæstv. fjmrh. hafi orðið var við það, að þó að hann leggi til í þessari brtt. við fjárl., að þetta sé lánað fiskveiðasjóði, Búnaðarbankanum og öðrum slíkum, þá er þegar komið fram yfirboð frá einum þm. Sjálfstfl. um, að þetta sé gefið, þetta sé látið sem óafturkræft framlag til viðkomandi sjóða. Ég geng út frá, að það sé fyrsti forsmekkurinn að kosningunum, að það eigi að sjá til, hvort Framsfl. stenzt samkeppnina við Sjálfstfl., þegar Sjálfstfl. segir: Við skulum gefa Búnaðarbankanum, við skulum gefa fiskveiðasjóði, — og hvort fjmrh. fellst þá ekki heldur á, að Framsfl. eigi að gefa líka, jafnvel þó að hann vilji ekki eyða þessu fyrir ríkissjóði. Og þá erum við sem sé komnir inn á það, að við leggjum á verðtoll, við leggjum á vörumagnstoll, við leggjum tolla á nauðsynjar almennings til þess að gefa í ákveðna forríka sjóði. Þetta er hlutur, sem ekki á að eiga sér stað.

Í öðru lagi, ef menn vildu gera eitthvað svona, ef menn vildu fara inn á þá stefnu að leggja vörutolla og verðtolla á almenning, neyzluvörur hans, til þess að safna í digra sjóði, þá á að segja þetta fyrir fram. Það á að segja við alþýðu manna fyrir fram: Nú legg ég til, að það sé lagður skattur á allt korn í landinu t. d., til þess að fiskveiðasjóður geti fengið mikla peninga. Þetta treysti ríkisstj. sér ekki til að gera, vegna þess að hún álítur, að slík stefna mundi ekki eiga upp á pallborðið hjá almenningi. Hún gerir þetta á annan hátt. Hún gerir þetta á þann hátt, að fjmrh., sem er kunnur fyrir að vera góður búmaður fyrir ríkissjóð, er látinn barma sér hér hvert einasta ár, barma sér og barma sér og meira og meira, fá alla til að vorkenna sér, hvað vesalings ríkissjóðurinn sé nú illa staddur, þangað til hann er búinn að betla út úr sínum stjórnarstuðningsmönnum nógu mikla peninga til þess að geta komið næsta ár og sagt: Sjáið nú, hvað ég er góður búmaður!

Þessi háttur getur ekki gengið. Að leggja nefskatt á almenning til þess að safna í digra sjóði, sem fyrir eru, nær ekki nokkurri átt.

Hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann talaði fyrir þessari till. sinni á þskj. 290, að sér hefði þótt hryllilegt að hugsa til þess, ef það hefði ekki verið hægt að koma fram með þessar till. núna. Það er vitanlegt, að ríkisstj. hefur allan tímann verið að reyna að fá lán handa þessum sjóðum erlendis. Það hefði verið hægt að fá lán handa þessum sjóðum erlendis, ef ríkisstj. væri ekki eins þrælbundin og hún er í sambandi við alla sína lánapólitík. Þess vegna er farið inn á þá aðferð að taka þetta af almenningi á þennan hátt og reyna nú að læða því einu sinni enn þá í gegn með því frv., sem hérna liggur fyrir.

Ég álít, að þessir hlutir verði að hætta. Ef menn vilja fara að safna auði handa ríkinu eða ákveðnum fyrirtækjum með þessum aðferðum, þá eiga menn að segja það fyrir fram og gera það að stefnuatriði. Eins og sakir standa núna, væri nær að taka þessar 54 millj., sem þarna eru afgangs, og láta hæstv. fjmrh. geyma þær til næsta árs og borga þá, ef það skyldi vanta þetta upp á fjárl. 1956, sem hann segir að muni vanta. Þess vegna álít ég strax hvað þetta snertir, að allar þessar tillögur hæstv. ráðh. séu óþarfi.

Svo kem ég að þessu frv. sjálfu og hinum einstöku liðum þess og röksemdafærslum hæstv. ráðh. Þær voru vægast talið barnalegar. Hæstv. ráðh. vildi segja okkur, að þessir tollar hafi því miður raunverulega farið hlutfallslega sílækkandi undanfarið, og það var rétt eins og hann vildi segja, að honum hefði bara láðst að hækka þetta til samræmis við dýrtíðina; þetta væri bara yfirsjón, sem hann hefði uppgötvað núna; þetta væri bara orðið á eftir; það væru til álögur á landsmenn, sem hefðu ekki fylgzt með annarri dýrtíð í landinu. Óttaleg vandræði! Hæstv. fjmrh. veit ekki, hvað húsaleigan hefur hækkað hérna í Reykjavík. Ætli það væri ekki rétt fyrir hann að athuga það? Þar er alveg ljómandi hlutur að miða við. Er það ekki ágæt röksemdafærsla næst, að að vísu þyki hagkvæmt að hafa ekki húsaleiguna í vísitölunni, vegna þess að þá mundi kaup manna hækka til samræmis við það, sem húsaleigan hækkaði, en hins vegar væri alveg ágætt að miða við einhverja raunverulega húsaleiguvísitölu, þegar menn ætla að fara að hækka hina og þessa skatta, sem hefur láðst að hækka eða hafa dregizt aftur úr? Þessi hæstv. ráðh., sem alla sína tíð hefur alltaf verið að tala á móti verðbólgu og á móti dýrtíð, kemur nú allt í einu fram og færir það sem ein höfuðrök, að því miður hafi dýrtíðin ekki hækkað jöfnum skrefum alls staðar, sums staðar hafi hún komizt fram úr. Og þá leggur hann ekki til að kippa þar til baka. Nei, hinir, sem hafi drattazt aftur úr, einhverjir liðir, sem ekki hafi getað spjarað sig í dýrtíðarkapphlaupinu, skuli ekki verða aftur úr héðan af.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefði ekki notað þessa röksemdafærslu, ef honum væri nokkurn veginn sjálfrátt með þá hluti, sem hann er að gera þessa dagana. Það er alveg auðséð og auðheyrt á báðum þeim hæstv. ráðh., sem við höfum rætt við í þessari d. í dag, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að hjá þeim er raunverulega komið svo, — mér datt í hug á dönsku orðatiltæki um þetta, eins og danskurinn segir: „Desto galere, desto bedre“ — því vitlausara, því betra; það sé sem sé um að gera, að það, sem nú verði að gera, sé gert allt saman sem vitlausast; og það, sem virðist vera aðalatriðið hjá hæstv. fjmrh., sé, að það hafi ekki verið, eins og danskurinn mundi segja, „system í galskabet“, að það hafi ekki verið kerfi í dýrtíðarvitleysunni fram að þessu, það hafi einstök atriði í dýrtíðarvitleysunni dregizt aftur úr og þetta dugi ekki. Áfram með þetta. Upp með þetta. Skrúfum þetta áfram á einum degi í gegnum þingið.

Það er vitanlegt, og hæstv. forsrh. upplýsti okkur um það, af hverju þetta er. Þetta er vegna þess, að þessir tveir stjórnarflokkar eru búnir að ákveða, að nú skuli þessu skellt í gegn eins og söluskattinum 1948, síðan skuli verða kosningar á miðju ári, eins og var 1949, síðan skuli verða gengislækkun á árinu næsta þar á eftir, skömmu eftir að búið sé að kjósa, þegar nógu langur tími sé liðinn til þess, að þessir tveir stjórnarflokkar séu búnir að koma sér saman. Þess vegna er bezt, áður en allt er gert vitlaust á þennan hátt, að það sé búið að jafna alla liðina, því að það skilja menn, að þegar gengið er fellt, þá fellur það jafnt alls staðar, svo að það er engin hætta á, að það verði neinn liður aftur úr. Það er því um að gera að vera búinn að hjálpa liðunum, sem drógust aftur úr, á sinn stað, og það er það, sem fjmrh. er að gera núna.

Hæstv, fjmrh. verður að afsaka það, þó að það séu til menn hjá þjóðinni og meira að segja á þinginu, sem álíta, að það gerði ekkert til, þó að dýrtíðin væri ekki jafnbölvuð alls staðar, þó að það væru einstaka liðir, þar sem ekki væri lagt jafnmikið á neyzluvörur almennings og á aðrar. Og það er einmitt þess vegna, að ef til vill eru einstaka menn hér í þinginu, sem kunna ekki að meta þessa röksemdafærslu, og ég er einn af þeim.

Þá er bezt að athuga þessa einstöku liði. Vörumagnstollurinn og verðtollurinn, sem eftir áætlun hæstv. fjmrh. eiga að gera um 41 millj. kr., ef væri miðað við allt árið, líklega um 40 millj. ella, eru þær álögur, sem leggjast beint á almenning og hans neyzlu í þessu. Ef að vanda lætur, mundu þessir tveir liðir raunverulega koma út með í kringum 50 millj. kr. eða upp undir það einir saman, ef við reiknum eins og reynslan hefur kennt okkur að reikna, þegar búmaðurinn hæstv. fjmrh. barmar sér.

Þessi skatta- eða tollahækkun er alveg óþörf, gersamlega óþörf, og þess ekki verð að láta sér detta í hug að samþykkja hana.

Þá kemur hæstv. fjmrh. með till. um benzínskatt, að hækka hann um 20 aura. Ég athugaði í frv., hvort það væri nokkur till. frá hæstv. ráðh. um nokkurt verðlagseftirlit eða verðlagstakmörkun í sambandi við benzínhækkunina. Það er ekki. (Fjmrh.: Það er hámarksverð á benzíni.) Já, en það hámarksverð skilst mér að muni eiga að fá að hækka samsvarandi þessum skatti. Eða vill hæstv. fjmrh. gefa hér þá yfirlýsingu, að hámarksverð á benzíni verði ekki hækkað þrátt fyrir þessa skatthækkun? Ef hann vill gefa þá yfirlýsingu, þá þykir mér mjög vænt um það, því að það var einmitt það, sem ég ætlaði að koma að.

Ég álít, að þessi benzínskattur, þessir 20 aurar, sé ekki meira en hæfilegur til þess, að hringarnir geti deilt honum á milli sín, stjórnarflokkarnir og þeirra olíufélög geti skipt þessu á milli sín. Þetta eru ekki nema 5 millj. kr. Ég man eftir, að einu sinni í gamla daga, þegar ein stjórn var hér, sem Framsókn og Alþfl. stóðu að, var benzínið hækkað um 4 aura lítrinn, og þá voru vissir menn, sem voru utan við þá stjórn, sem héldu því fram, að það væri hægt að láta olíuhringana bera þetta. Þá fór það svo, að það varð verkfall hérna í Reykjavík á öllum bifreiðum, og það endaði svo, þrátt fyrir alla yfirlýsingu olíuhringanna um, að þeir gætu ekki borið þennan 4 aura benzínskatt, að þeir urðu samt að lækka það benzínverð, sem þeir höfðu hækkað um 4 aura, og lækka það um meira en þessa 4 aura, vegna þess að almenningur tók í taumana. Það var enginn efi á því, að olíuhringarnir gátu borið þessa 4 aura hækkun þá, og 4 aura hækkun þá er eins og 40 aura hækkun núna, þannig að þessari 20 aura og þó að meira væri geta olíuhringarnir ósköp vel skipt á milli sín. Þetta hefur kannske verið misskilningur hjá mér, það sé meiningin hjá hæstv. fjmrh., að það eigi alls ekki að gefa leyfi til þess, að benzínið hækki það sem þessu svarar, og þá vona ég, að hann lýsi því yfir hér á eftir, en ef ekki, þá held ég, að hann ætti að taka það til athugunar að láta hringana skipta þessu bróðurlega í helmingaskiptum.

Þá er till. um skatt á bifreiðarnar og skatt á hjólbarðana, og það er nú ekki verið að fara í neinn greinarmun um það, hvort í hlut eigi gamlir bílar, sem menn verða þá máske að liggja í sífellt að vera að gera við og séu orðnir dýrir, eða lúxusbílarnir, sem auðmennirnir hafa flutt inn nú. Enn fremur er ekki verið að gera neinar aðrar ráðstafanir í því sambandi. En það er rétt hins vegar, að hv. þm. fái að vita af því, að bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hér í höfuðstaðnum hefur í dag sent svo hljóðandi bréf til þm., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp:

„Til Alþingis, Reykjavík.

Vér leyfum oss hér með að mótmæla harðlega þeirri hækkun á rekstrarvörum og þungaskatti bifreiða svo og öðru, sem orsakar aukinn kostnað við rekstur leigubifreiða, sem felst í frv. til laga um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, er lagt hefur verið fyrir Alþ. í dag. Vér gerum kröfu til þess, að leigubifreiðar verði undanþegnar almennum álögum á bifreiðar, þar sem leigubifreiðar eru, eins og allir vita, í þjónustu almennings og þó sérstaklega þeirra, sem engin ráð hafa til að eignast bifreið til eigin nota, enda mundu slíkar álögur óhjákvæmilega stórhækka öll fargjöld með leigubifreiðum, sem mundi gera hvort tveggja, að gera fólki ókleift að nota þessi farartæki og draga stórlega úr atvinnumöguleikum þeirra manna, sem hafa akstur leigubifreiða að atvinnu.

Í b-lið athugasemda frv. er gert ráð fyrir ívilnunum á bifreiðaskatti til nokkurra aðila, og teljum vér, að leigubifreiðar til mannflutninga ættu tvímælalaust að njóta slíkra ívilnana, ef færðar eru sönnur á, að bifreiðin sé einvörðungu notuð sem leigubifreið.

Þar sem oss hefur gefizt naumur tími til að athuga greint frv., þá höfum vér ekki getað farið neitt ýtarlega út í einstakar greinar þess, þótt æskilegt hefði verið. Væntum vér þess, að hv. Alþ, sjái, hve brýn nauðsyn það er að undanþiggja leigubifreiðar frá þeim gífurlegu hækkunum, sem í frv. felast. Sjái Alþ. sér hins vegar ekki fært að verða við framangreindum kröfum vorum, þá viljum vér eindregið mælast til þess, að fjmrh. verði veitt heimild til að falla frá fyrirhuguðum tollum og sköttum á leigubifreiðar í samráði við félag vort.

Í fullu trausti á góðan skilning alþm. á máli þessu, þá leyfum vér oss að vænta þess, að Alþ. verði við framangreindum kröfum vorum og tilmælum.

Virðingarfyllst,

f. h. bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils,

Bergsteinn Guðjónsson, formaður.“

Ég vildi eindregið óska þess, að hæstv. ráðh. vildi svara þeim spurningum, sem settar eru fram í þessu bréfi, og hvað það er, sem hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér í sambandi við undanþágurnar, sem hún þarna talar um. Það er yfirleitt, þegar um slíkt er talað, bezt að vita fyrir fram, hvernig eigi að nota það, til þess að misnotkun eigi sér ekki stað í sambandi við það.

Svo að síðustu: Hæstv. fjmrh. sagði, að raunverulega væri með þessum till., sem fyrir okkur liggja hér í dag, skattabyrðin hin sama og hefði verið. Mismælti ekki hæstv. ráðh. sig? Gleymdi hann ekki einhverju pínulitlu, þegar hann var að tala um skattabyrðarnar í dag? (Gripið fram í.) Já, en skyldi nú ekki ríkissjóður eiga framleiðslusjóðinn? Skyldu það ekki vera álögur á almenning líka? (Gripið fram í.) Jæja, en skyldi ekki ríkissjóður eiga framleiðslusjóðinn líka, þegar þar að kæmi? Álögurnar verða þær sömu, hvort sem það er skipt um og kallað eitthvað nýtt, nema þarna búi eitthvað annað á bak við. Mér hefur satt að segja verið að detta það í hug út frá því, hvað mér gekk illa að fá Framsókn til að svara fyrir sig í sambandi við umr., sem hérna fóru fram í dag í sambandi við framleiðslusjóðinn, hvort Framsfl. sé ekki með því frv. Er það svo, að hæstv. forsrh. stendur eiginlega einn með það frv.? Ég var þá búinn að lýsa því yfir og vitna í grein í því frv. um, að ríkisstj. stæði að því í heild og ekki í pörtum, svo að ég þykist hafa lagabókstaf fyrir mér í því, að Framsfl. standi að því líka. Þess vegna held ég, að það sé alveg óhætt fyrir hæstv. fjmrh. að minnast þess, þegar hann talar um álögurnar á almenning og hvað ríkisstj. sé nú að taka til baka af því, sem hún kunni að einhverju leyti áður að hafa létt af almenningi, að ríkisstj. er í dag að leggja þyngri byrðar á almenning eu nokkurn tíma hafa verið lagðar á hann áður. Og hvort sem það er látið ganga í gegnum ríkissjóðinn eða framleiðslusjóðinn, og sumt af því, sem er í ríkissjóðnum núna, kemur meira að segja í gegnum dýrtíðarsjóðinn, þó að það fari aldrei lengra, þá held ég, að það sé alveg greinilegt, að samábyrgðin um að leggja þessar álögur á er sú sama. Og það, sem ég vil spyrja um í því sambandi, er: Er þetta niðurstaðan af þeim bollaleggingum, sem Framsfl. hefur verið með í vetur viðvíkjandi því, hvaða stjórnarstefnu skuli taka upp, þetta frv., sem núna liggur fyrir og hæstv. fjmrh. hefur verið að mæla með, og þetta frv., sem við vorum að ræða í dag um framleiðslusjóðinn og hæstv. forsrh. var þá að mæla með? Er þetta niðurstaðan? Er þetta árangurinn af öllum samningum, sem farið hafa fram í vetur á milli Alþfl. og Framsóknar? Er þetta niðurstaðan um nýja og betri stjórnarstefnu og betri í garð alþýðu en þá, sem verið hefur? Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt í sambandi við umræðurnar um þessi mál hér á þinginu, þegar nú á að knýja hér í gegn 50–60 millj. kr. álögur í sambandi við þetta frv. og 100–150 millj. kr. kannske í sambandi við hitt, að við fáum að vita þetta. Álögur upp undir 200 millj. kr., ýmist framlengdar eða lagðar á nýjar, gera það eðlilega að verkum, að við hljótum að spyrja, hvert sé verið að stefna með þessum hlutum. Það er spurningin. Er það þetta, sem Framsókn kallar vinstri stefnu? Okkur finnst satt að segja vera stefnt til hægri. Okkur finnst meira að segja vera stefnt til verðbólgu. Okkur finnst meira að segja stefnt til vísitöluskrúfu. Og það er þá meira en lítið laus skrúfan í stjórninni, eins og einn góður þm. skaut hér fram í áðan, ef hún er farin að rugla vinstri og hægri líka í þokkabót við það, hvað sé upp og niður.

Ég held þess vegna, að hæstv. fjmrh. ætti nú, fyrst hann skaut sér hjá því að taka þátt í umr. í dag um framleiðslusjóðinn, að ræða við okkur, hvort sem hann gerir það nú við 1. umr. eða við þær seinni, um stefnu Framsóknar í þessum efnum. Hann vildi gera mikinn greinarmun á framleiðslusjóði og ríkissjóði. En má ég spyrja hann: Þegar söluskatturinn var lagður á um árið, átti hann allur saman að renna í dýrtíðarsjóð, og það átti að vera einn geysilega sjálfstæður sjóður, en hvað er eftir af honum í dag? Það er ekkert nema tekjuöflunarleiðirnar eftir af honum, sjóðurinn er sjálfur farinn, tekjuöflunin orðin beint í ríkissjóð, I. og II. kafli farnir, tekjuöflunarákvæðin úr III. kaflanum eftir.

Ef Sjálfstfl. og Framsókn eiga eftir að fara saman með stjórn landsins lengur, ef þau eiga eftir að ganga í varanlegt og vanheilagt hjónaband, sem fólkið forði okkur frá, þá er ég hræddur um, að það líði ekki mörg ár, áður en I. og II. kafli úr l., sem var verið að afgreiða til fjhn. í dag um framleiðslusjóð, verði felldir niður og tekjuöflunarhlutinn úr II. kaflanum verði framlengdur og þá verði ekki lengur gerður greinarmunur á ríkissjóði og framleiðslusjóði. Þetta endar allt í sömu hítinni, ef haldið er áfram eins og nú er stefnt, ef haldið er áfram að hlífa einokunarauðvaldinu í Reykjavík við að bera þær byrðar, sem það á að bera, og haldið áfram að hlaða á alþýðu, eins og gert er með þessu frv., sem hérna liggur fyrir, eins og gert var í enn stærri stíl með frv., sem lá fyrir í dag. Hins vegar mega flokkarnir vera vissir um það, að alþýðan hristir þá af sér.