28.01.1956
Neðri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Eins og þegar hefur komið fram, var ágreiningur í fjhn. um afgreiðslu málsins, og liggja fyrir tvö nál. skrifl., frá meiri og minni hl. n. Meiri hlutinn lítur svo á, að ekki verði hjá því komizt að afla ríkissjóði nýrra tekna, til þess að fjárlögin, sem væntanlega verða afgreidd hér á þingi næstu daga, geti orðið hallalaus. Vil ég í því sambandi benda á það, að í framhaldsnál. hv. fjvn. um fjárlagafrv. á þskj. 288 er frá því skýrt, að greiðsluhallinn á fjárlagafrv. sé nú um 45½ millj., ef gengið er út frá því, að þær till. um breytingar á frv., sem fyrir liggja frá hv. nefnd, verði samþykktar, og er því vissulega þörf allmikilla tekna til þess að jafna þennan halla. Það er því till. meiri hl. í fjhn., að frv. þetta verði samþykkt eins og það liggur fyrir.

Frv. hefur þegar fengið afgreiðslu í hv. Ed., og var gerð þar á því lítils háttar breyting, sem fjhn. þessarar deildar telur sízt til bóta á frv. Hefði fjhn. þessarar deildar talið æskilegra, að sú breyting hefði ekki verið gerð, en telur þó ekki fært að flytja brtt. um að setja frv. í upphaflegt horf og fara þannig að vísa því aftur til Ed., þar sem mjög er þá óvíst, hvernig tækist um afgreiðslu málsins. Einn nefndarmanna í meiri hl., hv. þm. A-Húnv., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, sem ég geri ráð fyrir að hann geri grein fyrir hér í umræðunum, ef hann telur ástæðu til.