28.01.1956
Neðri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þar sem hv. 9. landsk. þm. er veikur og getur ekki mætt hér á þessum fundi nú, mun ég segja hér nokkur orð fyrir hans hönd í sambandi við það nál., sem hann hefur lagt fram í þessu máli. Ég geri að vísu ráð fyrir því, að það sé með öllu óþarft að hafa langt mál um þetta á þessu stigi málsins, þar sem útséð er, að frv. þetta verður nú samþykkt í þeim búningi, sem ríkisstj. hefur farið fram á, og langar umræður um málið hafa ekkert verulegt gildi hér á Alþ., eins og komið er. Af því mun ég líka hafa mín orð tiltölulega fá og kannske færri en efni frv. út af fyrir sig gefur tilefni til.

Í aðalatriðum er efni þessa frv. það, að lagt er til, að tekjur ríkissjóðs verði hækkaðar samkvæmt þessu frv. um 68 millj. kr., eftir því sem næst verður komizt. Ef út er reiknuð sú álagshækkun á vörumagnstolli og verðtolli, sem hér er ráðgerð, og gengið út frá þeirri fjárhæð, sem innheimt hefur verið af vörumagnstolli, og þeirri fjárhæð, sem innheimt hefur verið árið 1955 af verðtolli, þá er alveg sýnilegt, að sú hækkun, sem ráðgerð er á þessum liðum, hlýtur að fara eitthvað yfir 50 millj. kr.

Þetta er hægt að reikna út. Hins vegar er vitanlega hægt að deila lengi um það, hvort búast megi við því, að verðtollurinn verði eins hár á árinn 1956 og hann reyndist á árinu 1955, hvort innflutningur muni verða eins mikill og hann var og hvort eitthvað muni falla úr af tiltölulega tollháum vörum. Um það getur vitanlega enginn sagt með neinni vissu fyrir fram. En eigi að miða við það, sem verið hefur, er sýnilegt, að þessi hækkun nemur röskum 50 millj. kr. Sé á sama hátt reiknað út, hvað hækkunin muni verða mikil af 20 aura aukagjaldi af benzíni, mun láta mjög nærri eftir reynslunni, að það muni nema um 8 millj. kr. Þetta eru 58 millj. í tekjuhækkun. En svo er lagt til, að bifreiðaskattur verði tvöfaldaður, og hann mun á árinu 1955 vera rétt um 6 millj. kr. og þó heldur yfir, og er þá komið í 64 millj. kr. hækkun. Þá er enn lagt til, að lagt verði aukagjald á bílagúmmí, en eftir því sem flutt hefur verið inn af þeirri vöru nú s. l. ár, má fyllilega búast við því, að þessi gjaldaauki nemi 4 millj. kr. Sé því gengið út frá því, sem verið hefur á árinu 1955, er þarna greinilega um ekki undir 68 millj. kr. tekjuhækkun að ræða.

En þetta eru ekki einu till., sem hæstv. ríkisstj. leggur hér fram um að auka við tekjur ríkissjóðs. Hún hefur svo farið aðra leið, og meiri hl. fjvn. hefur lagt hér fram f. h. ríkisstj. till. um að hækka tekjur af síma og pósti um 5 millj. kr. Enn fremur hefur meiri hl. fjvn. lagt til f. h. ríkisstj., að sá háttur verði á hafður á árinu 1956, að þeim skatti, sem lagður hafði verið á tóbak til þess að styrkja síldarsöltun hér við Faxaflóa, skuli ekki ver ja í því skyni, sem hann var lagður á fyrir, heldur á hann nú að renna í ríkissjóð. Er því hér einnig um beina tekjuhækkun fyrir ríkissjóð að ræða, og eins og þetta hafði verið áætlað á fjárlögum, var það 6.3 millj. Þarna er því eftir annarri leið farið fram á að hækka tekjur ríkissjóðs um 11.3 millj.

Sú tekjuhækkun, sem ríkisstj. fer því fram á, er samkvæmt þessu frv. 68 millj. og samkvæmt öðrum till. 11.3 millj., eða 79.3 millj., og ekki yrði ég neitt hissa, þó að þessar tekjur yrðu jafnvel nokkru drýgri en ég hef reiknað með að þær yrðu á þessu ári.

Rökstuðningurinn fyrir því af hálfu ríkisstj., að það þurfi að leggja á þessa nýju skatta og tolla, er svo fólginn í því, að hætta sé á, að tekjur ríkissjóðs samkvæmt þeim tekjuöflunarlögum, sem ríkissjóður nú býr við, verði ekki nægar til þess að standa á móti gjöldum. Eftir því sem meiri hl. fjvn. leggur nú til, leggur hann til, að heildarútgjöld á fjárlögum verði rétt um 640 millj. kr., en tekjurnar á árinu 1955, sem var að líða, munu verða nokkru hærri.

Þegar búskapurinn er á þessa leið, geta menn spurt sig sjálfir að því, hvort það liggi fyrir ástæður til þess að fara að leggja á landsmenn, eins og nú er háttað, allar þær álögur, sem hér er lagt til að leggja á þá. Eins og venjulega segir vitanlega hæstv. fjmrh.: Já, en þetta var nú árið, sem var að líða, en það má búast við öllu miklu svartara á árinu, sem nú er byrjað. Nú verður innflutningurinn minni, nú detta niður tekjurnar, og nú þurfum við að hafa eitthvað í rassvasanum til þess að hlaupa upp á í lokin. Og ekki er nú heldur amalegt að hafa þá einhvern afgang í árslokin til þess að deila út á milli góðra stofnana, eins og gert hefur verið síðustu árin. — En þetta er hæstv. fjmrh. búinn að segja nú í mörg ár í röð, og þessar skýringar hans hafa alltaf reynzt vera rangar, og eins og málin standa nú í dag, eru engar líkur til annars en að þessar skýringar hans séu jafnrangar enn. Á árinu, sem var að líða, og nú í byrjun þessa árs eru m. a. að koma til landsins fjöldamargir nýir fiskibátar, líklega verða um 40 fleiri nýir fiskibátar að veiðum á komandi vertíð en voru á vertíðinni s. l. vetur. Ég geri mér því fyllilega vonir um, að aflinn muni enn aukast og hann muni líka aukast eftir því sem tíminn líður lengra fram og friðunarlöggjöfin stendur lengur. Fari þá svo, að aflinn fari vaxandi, fara vitanlega líka gjaldeyristekjur þjóðarinnar vaxandi, og innflutningurinn mun fara vaxandi og tekjurnar af þeim ástæðum einnig vaxandi. Það er því engin ástæða til þess að leggja á alla þessa nýju skatta, sem hér er farið fram á, og það virðist vera orðinn mjög hættulegur veikleiki á þeim mönnum, sem fá að ráða því, að svona er áfram haldið ár eftir ár, að bæta í sífellu við þær byrðar, sem lagðar eru á landsmenn, þó að þær vitanlega velti síðan aftur fram í hækkuðu verðlagi, sem vitanlega hlýtur að íþyngja framleiðslulífinu. Geta menn búizt við því, að yfir 50 millj. kr. samkv. þessu frv. í hækkuðum tollum á allar vörur, sem fluttar eru til landsins svo að segja, hljóti ekki að koma fram í verðlaginu? Og geta menn búizt við því, ef verðlagið hækkar mikið, að laun hækki ekki á eftir? En hækkun launa hlýtur svo vitanlega að íþyngja framleiðslunni.

Það er því afstaða Sósfl., að það sé gersamlega ástæðulaust að lögfesta þá tekjuöflun, sem hér er farið fram á, og er þar stuðzt við tölur, sem liggja fyrir, en ekki einhverja svartsýnisspádóma, sem þeir menn eru að spá, sem alltaf hafa reynzt spá rangt um þessa hluti. Við leggjum því til, að þetta frv. verði fellt, því að það séu ekki rök fyrir því að samþykkja þetta.