28.01.1956
Neðri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjhn., mæli ég með því, að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, en hef skrifað undir nál. með fyrirvara og vil með því vekja athygli á því, að ég ber ekki ábyrgð á þeim gjöldum, sem lögð hafa verið á ríkissjóðinn og gera það nauðsynlegt, að þessir skattar eru nú á lagðir. Ég benti á það allrækilega hér í vetur, þegar deilan stóð um samþykkt nýrra launalaga og um að borga vísitölu með verðlagsuppbót upp í topp, að þessar ráðstafanir hlytu að kalla á nýja skatta umfram það, sem nú væri. Og sannleikurinn er sá, að sú skattaupphæð, sem hér er farið fram á að leggja á til viðbótar, er sprottin af þessum orsökum. En það er nú svona, að þegar búið er að ákveða gjöldin, verður að útvega tekjur til þess að mæta þeim gjöldum, og í því sambandi vil ég segja það, að ég hlýt að taka góðar og gildar þær áætlanir, sem hv. fjvn. hefur gert um tekjur ríkisins á næsta ári. Og ég sem fulltrúi Sjálfstfl. í hv. fjhn. get ekki annað en mælt með þessu frv., þar sem ekki hefur orðið neitt samkomulag um aðrar ráðstafanir til þess að fá tekjur í ríkissjóðinn en það, sem hér liggur fyrir. Fyrir þessu vildi ég gera grein, um leið og ég viðurkenni, að eins og nú er komið verður naumast hjá því komizt að bæta þessum tollum, sem hér er farið fram á, við þær álögur, sem áður eru á lagðar.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál, enda þótt rík ástæða væri til að geta um ýmislegt í því sambandi, sem verkar þannig, að ég fyrir mitt leyti hefði talið heppilegri aðrar leiðir út úr því vandræðamáli, sem hér er um að ræða.