05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða langt mál um tillögur mínar í þessu máli; þær eru hv. dm. kunnar frá fyrri þingum og koma auk þess mjög greinilega fram í því nál., sem ég hef gefið út á þskj. 141, og get því að langmestu leyti vísað til þess, sem þar er sagt.

Ég vil þó rétt aðeins benda á, eins og reyndar tekið er fram í nál., að ég tel, að hér sé stefnt að öfugu takmarki með því að afnema skerðinguna á verðlagsuppbótinni. Ég tel, að það sé heppilegri leið í sambandi við dýrtíðarmálin í heild að halda skerðingunni og færa takmarkið, 34560 kr., niður á við smátt og smátt, en afnema það ekki, og færi fyrir því þau rök, sem tekið er fram í nál., m. a. það, að reynslan hefur sýnt, að með því að greiða fulla verðlagsuppbót á laun almennt verður dýrtíð í engu landi stöðvuð og ekki frekar hér en annars staðar, og þess vegna sé farið í öfuga átt að því takmarki, sem allir vilja stefna að: að treysta gjaldmiðil landsins og halda dýrtíðinni niðri í landinu. Ég hef einnig bent á í nál., að með breytingum á skattalögunum var hlutur þeirra manna, sem urðu að búa við skerðinguna á verðlagsuppbótinni, bættur allverulega, þar sem þeir héldu meiru af sínum launum, eftir að þeim lögum var breytt, og eru því betur settir en var, þó að ekki sé gerð á sú breyting, sem hér er lögð til. Ég hef enn fremur bent á, að einmitt þessi flokkur launamanna hefur á mörgum sviðum alls konar möguleika til þess að afla sér aukatekna umfram aðaltekjurnar, og er hv. þm. það einnig ljóst. Skal ég m. a. benda á í sambandi við það, að svo að segja hver og einn einasti kennari við menntastofnanirnar í Reykjavík hefur auk sinna launa eins mikið í aukatekjur fyrir kennslu við sömu stofnanir, en slíka möguleika hafa ekki hinir lægra launuðu, hvorki starfsmenn ríkis og bæja né aðrir lægra launaðir menn í þjóðfélaginu, og er þetta allt tekið fram í nál., auk þess sem ég bendi á í nál., að nú liggur fyrir Alþingi nýtt frv. til launalaga, og ef það frv. verður samþ., þá er sýnilegt, að þessi lög, sem hér er verið að setja, verða afnumin aftur á þessu sama þingi, ef búið verður að samþykkja frv., því að sjálfsagt er að taka þá þessi ákvæði upp í hin nýju launalög. Hv. frsm. sagði, að ríkisstj. muni hafa gefið loforð um að leggja þetta frv. fyrir Alþingi. Ég sé ekki annað en hún hafi staðið við það loforð. Frv. hefur verið lagt fram og rætt, en hins vegar hefur ekki hæstv. ríkisstj. getað lofað því, að það skyldi verða gert að lögum, því að til þess þarf samþykki meiri hluta Alþingis, og sé ég enga ástæðu til að samþykkja frv. af þeim ástæðum einum, þó að hæstv. ríkisstj. hafi gefið loforð um að leggja frv. fyrir.

Hv. frsm. sagði einnig, að það væri sýnilegt, að það þyrfti að vera launamismunur eftir því, hver sú staða væri, sem verið er að launa fyrir. Það er alveg rétt, og er tillit tekið til þess í launalögunum. Hins vegar er það ekki ófrávíkjanlegt grundvallaratriði, að verðlagsuppbótin þurfi að greiðast 100% á öll launin, og kemur þar margt til greina, m. a. fjárhagsmál þjóðarinnar í heild, og í þessu tilfelli hér, eins og ég hef bent á, að það sé síður en svo nokkurt ranglæti að skerða launin við hátekjumenn vegna þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa á öðrum sviðum, þegar þjóðarbúið krefst þess, og að það sé þá einnig rétt að fara aðra leið í þeim málum en hér er farið, eins og ég hef bent á.

Um hitt atriðið, sem hv. frsm. sagði, að fyrra meginatriðið í rökstuddu dagskránni fengi ekki staðizt, þá get ég ekki fallizt á, að það sé réttur skilningur. Rökstudda dagskráin, sem ég legg til að samþykkt verði, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að lagt hefur verið fram af ríkisstj. frv. til nýrra launalaga á þessu þingi, sem fjárhagsnefndir beggja deilda eru sameiginlega að athuga, og með því að afnám skerðingar á verðlagsuppbót og launagreiðslur torveldar að hamla á móti vaxandi dýrtíð í landinu, þykir ekki rétt að samþykkja þetta frv., og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þetta frv. er fellt, þá gilda sömu ákvæði um þessi mál og gilda í dag, þ. e., að launin verða greidd með skertri uppbót, þar til ný launalög hafa verið samin, svo að mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hv. frsm. fær það út úr þessu orðalagi, að dagskráin geti ekki staðizt.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Ég vildi gera afstöðu mína skýra til þessa máls, eins og ég hef gert áður, og legg því til, að rökstudda dagskráin verði samþykkt.