28.01.1956
Neðri deild: 54. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

146. mál, framleiðslusjóður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og hæstv. forsrh. hefur nú mælt fyrir, heitir „frv. til laga um framleiðslusjóð“. Það ætti að heita frv. til laga um gjaldþrot núverandi stjórnarstefnu.

Hver hefur verið stefna þeirrar ríkisstj., sem nú situr? Hæstv. ráðh. var fáorður um stjórnarstefnuna. Hann sagði aðeins, að ríkisstj. væri ágæt, og það segir hann vafalaust sjálfur, af því að hann veit það eins og allir aðrir, að þeim fer utan ríkisstj. ávallt fækkandi, sem segja, að ríkisstj. sé ágæt, jafnvel á Alþingi, hvað þá með þjóðinni. En það má rifja upp í örfáum orðum, hver hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. Hún hefur í fyrsta lagi verið hallalaus rekstur atvinnuveganna, þ. e. engir ríkisstyrkir til framleiðslunnar, og í öðru lagi hefur hún verið frjáls verzlun. Hver er reyndin? Hvernig hefur stefnan verið framkvæmd? Er verzlunin frjáls? Því þarf ég ekki að lýsa og skal ekki ræða það mál hér; svo kunnugt er það, að á verzluninni eru núna höft, höft í einu versta formi, sem höft geta verið, Það er ekkert lýðræðislegt eftirlit með því, hvernig höftunum er beitt. Framkvæmdirnar eru í höndum fáeinna embættismanna, aðallega í bönkunum.

Er rekstur atvinnuveganna hallalaus? Um það fæst svar í þessu frv.

Nú á að leggja á 150 millj. kr. skatta til þess að greiða atvinnuvegunum styrki. Nú er með öðrum orðum svo komið, að lagt er til, að á því ári, sem nú er að byrja, verði stjórnarstefnan um hallalausan atvinnurekstur og enga styrki til framleiðslunnar framkvæmd með því að innheimta 150 millj. kr. skatta til þess að greiða í styrki til atvinnuveganna. Það er því ekki ofmælt, að með þessu frv. sé hæstv. ríkisstj. í raun og veru að fella neyðarlegan dóm yfir sjálfri sér og stefnu sinni.

Hæstv. forsrh. hefur áður staðið í þessum ræðustól til að leggja fram till. um sama vandamálið og nú steðjar að íslenzkum sjávarútvegi. Hvað sagði hann þá, og hvað gerði hann þá? Og hvað sögðu þeir sérfræðingar, sem hann þá og líklega enn leggur mest upp úr, hvað segja um málið? Það var 1950, sem ástand sjávarútvegsins var ekki ósvipað því og það er núna í meginatriðum. Þá, fyrir réttum sex árum, lagði hæstv. forsrh. fram frv. til laga um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl. Það er það frv., sem er hliðstæða þessa frv., sem nú liggur fyrir. Grg. þess byrjaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir síðustu alþingiskosningar lýsti Sjálfstfl. því yfir, að hann teldi, að nauðsyn bæri til, að af hendi löggjafans yrði svo um hnútana búið, að atvinnurekstur landsmanna yrði í meðalárferði rekinn hallalaus án styrkja úr ríkissjóði, og jafnframt yrði að því stefnt að aflétta svo fljótt sem auðið væri höftum og bönnum á sviði verzlunar og viðskipta.“

Þeir flokkar, sem nú stjórna landinu, hafa stjórnað því í þau sex ár, sem liðin eru, síðan þetta frv. var lagt fram. Þeir hafa haft sex ár til að framkvæma þá stefnu, sem Sjálfstfl. lýsti yfir í kosningunum árið áður, að það ætti að búa svo að atvinnurekstri landsmanna, að hann yrði í meðalárferði rekinn hallalaus án styrkja úr ríkissjóði og verzlunin yrði frjáls sem fyrst. Hvernig er ástandið eftir sex árin? Nú þarf 150 millj. til að styrkja þann atvinnurekstur, sem gera átti hallalausan, og allir vita, hvernig komið er verzluninni. Í skjali, sem lagt var fram varðandi vandamálin, sem þá steðjuðu að, voru margvíslegar upplýsingar um þær leiðir, sem þá voru einkum taldar koma til greina, en það var sú leið, sem var farin, gengislækkunin, sú leið, sem var talin koma til greina af ýmsum og sumpart hafði verið farin áður, leið hins tvöfalda gjaldeyris, þ. e. a. s. bátagjaldeyrisleiðin, og svo í þriðja lagi styrkjaleiðin. Þessar þrjár leiðir voru vegnar og metnar af sérfræðingum ríkisstj., og ríkisstj. gerði ummæli þeirra að sínum, skoðanir þeirra að sínum skoðunum. Það er mjög fróðlegt að athuga örfá af þeim ummælum, sem þessir sérfræðingar höfðu um styrkjaleiðina, þá leið, sem nú á að fara til lausnar aðsteðjandi vandamálum.

Þeir segja á bls. 28 í þessu frv. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, þar sem þeir ræða hinar ýmsu leiðir, sem til greina koma: „Þá væri í öðru lagi hægt að halda áfram styrkjaleiðinni með því að stórhækka skatta árlega. Sú leið mundi leggja þungar byrðar á allan almenning án þess að leiðrétta það jafnvægisleysi, sem nú er í þjóðarbúskapnum.“ Þetta er einn dómur þeirra um styrkjaleiðina. Annar er nokkrum blaðsíðum síðar, á bls. 31, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur þessi setning: „Ætti að halda áfram styrkjaleiðinni, yrði að leggja á nýja skatta eða hækka skatta, sem fyrir eru, og það talsvert meir en gert var ráð fyrir í tekjuliðum frv. Alls mundi þurfa nýja skatta, sem nema a. m. k. 75 millj. kr. Þar sem tekjuöflunin hlyti að ganga í svipaða átt og frv. gerði ráð fyrir, má líta á frv. sem áætlun um framkvæmd styrkjaleiðarinnar.“ Átt er við það frv., sem hafði legið fyrir Alþ., áður en gengislækkunarfrv. kom til.

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að það mundi kosta 75 millj. að leysa aðsteðjandi vanda án gengislækkunarinnar. Þetta ofbauð sérfræðingunum og hæstv. ríkisstj. svo fullkomlega, að þeir töldu fjarstæðu að fara leiðina. Nú á að leggja á 150 millj. kr. skatta, og engum ofbýður á stjórnarheimilinu.

Sérfræðingarnir segja enn fremur nokkru síðar þessar setningar, þar sem þeir meta gildi styrkjaleiðarinnar, kosti hennar og ókosti: „Aðalókostur styrkjaleiðarinnar frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð er sá, að hún leysir í raun og veru ekki vandamál útflutningsframleiðslunnar, sem berst í bökkum jafnt eftir sem áður, og á það ekki aðeins við um útgerðarmennina, heldur og aðra framleiðendur. Styrkjaleiðin lofar engu um bætta verzlun, sem þegar til lengdar lætur er höfuðvandamálið, og hún er heldur ekki viðunandi bráðabirgðalausn, m. a. vegna þess, að útflutningsframleiðslan mundi verða meiri við hagstæðari kringumstæður. Reynsla undanfarinna ára sýnir augljóslega, að til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum eða jafnvel til þess eins að halda öllu í horfinu er styrkjaleiðin ekki fær. Hún skapar ekki nein skilyrði til þess, að hægt verði að stöðva dýrtíðina, koma jafnvægi á þjóðarbúskapinu og þá um leið jafnvægi við útlönd og létta höftunum af verzluninni. Styrkjaleiðin gefur ekkert loforð um betra í framtíðinni.“

Þetta er höfuðniðurstaða tveggja aðalráðunauta hæstv. ríkisstj. fyrr og nú, dr. Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs prófessors Björnssonar, þ. e., að styrkjaleiðin lofi engu um betra í framtíðinni. Engu að síður hefur hæstv. ríkisstj. nú gert styrkjaleiðina, hina margfordæmdu styrkjaleið, að höfuðstefnumáli sínu til lausnar aðsteðjandi vandamálum. Ekki svo að skilja, að nú sé rætt um sömu styrki. Nei, nú er um að ræða helmingi meiri styrki en þá, nákvæmlega helmingi hærri upphæð, og samt er leiðin farin.

Hverjar eru orsakir þessa ófremdarástands, sem nú er í íslenzkum efnahagsmálum? Hæstv. ríkisstj. segir, að það séu kaupgjaldshækkanirnar, sem áttu sér stað á s. l. vori, kaupgjald hækkaði um 22% á s. l. ári, þar sé að leita orsaka alls þess, sem aflaga fer nú í íslenzku efnahagslífi.

En má ég minna á, að hér var óbreytt kaupgjald frá árslokum 1952 til vors 1955, eða því sem næst? Þá skyldi maður halda, ef kenning hæstv. ríkisstj. væri rétt, að allt hefði verið í himnalagi í íslenzkum efnahagsmálum á árabilinu 1953–55. En var svo? Þarf ég að spyrja á þessum stað, hvort svo hafi verið? Vita ekki allir, að það var á árinu 1954, sem togararnir raunverulega stöðvuðust, sem hallarekstur í togaraflotanum var orðinn svo mikill, að stöðvun stóð fyrir dyrum, og hæstv. ríkisstj. tók þann kostinn að hverfa fyrir alvöru inn á styrkjaleiðina og leggja á sérstaka skatta til þess að greiða togurunum rekstrarstyrk, 2000 kr. á dag? Það var ekki kauphækkun, sem olli því, að þannig fór. Það hafði smám saman verið að síga á ógæfuhlið fyrir togurunum, þangað til meinið var orðið óviðráðanlegt án sérstakra aðgerða þegar 1954, og þá var styrkjapólitíkin tekin upp.

Það verður af engri skynsemi sagt, að kaupgjaldshækkanir hafi valdið þessu ástandi, því að ekkert kaupgjald hafði hækkað í næstum 2 ár, þegar togararnir gáfust upp.

Ég lít svo á, að það sé einhver mesta falskenning, sem nú er haldið á loft í íslenzkum stjórnmálum, að kaupgjaldshækkunin vorið 1955 sé undirrót þess, hvernig komið er fyrir íslenzkum atvinnuvegum. Sannleikurinn er sá, að kaupgjald var þegar hækkað á frjálsum vinnumarkaði, alllöngu áður en kom til kaupgjaldshækkunar samkvæmt samningum vorið 1955. Það voru hin almennu markaðslögmál á vinnumarkaðinum, sem höfðu þegar hækkað kaupið. Framboð og eftirspurn höfðu fengið að ráða kaupgjaldinu á vinnumarkaðinum undanfarin ár. Og hví skyldi framboð og eftirspurn ekki ráða kaupgjaldinu á vinnumarkaðinum? Og hvers vegna skyldu þeir vera hissa á því, að kaupgjaldið ákveðist að meira eða minna leyti af framboði og eftirspurn, einmitt þeir, sem telja, að vöruverðið eigi að ákvarðast af framboði og eftirspurn? Þeim ætti sízt að koma það á óvart.

En hvað var það, sem hafði hækkað kaupið á hinum frjálsa vinnumarkaði? Á því er enginn vafi, að það var fyrst og fremst tvennt. Það var annars vegar varnarliðsvinnan, það sérstaka ástand, sem skapaðist á vinnumarkaðinum vegna hennar, og svo hins vegar það, að öllum hömlum var létt af fjárfestingunni á þessu tímabili. Þetta tvennt, varnarliðsvinnan og hin hóflausa fjárfesting, hin stjórnlausa fjárfesting, sem efnt var til, var undirrót þess, að kaupgjald var á öllu tímabilinu 1953–1955 að smáhækka á hinum frjálsa vinnumarkaði, en þó að vísu mjög ójafnt. Kaupgjaldshækkunin var langsamlega mest í fjárfestingarvinnunni og annarri skyldri vinnu, en aftur á móti miklu minni á ýmsum öðrum sviðum. Einmitt þetta, hvað kaupgjaldið var misjafnt vegna hins óskipulagða vinnumarkaðar, var ein höfuðundirrót þess, að kom til verkfallsins mikla 1955 og á þann hátt, sem til þess kom.

En ríkisstj. átti einmitt kost á því að hafa áhrif á það, sem átti sér stað í varnarliðsvinnunni og fjárfestingunni. Hún hafði eða átti að hafa völd yfir þróuninni á báðum þessum sviðum. En hún brást. Það, sem gerðist, var, að ríkisstj. brást. Hún sveikst um að hafa stjórn á varnarliðsvinnunni, eins og nauðsynlegt var. Af því hlauzt sú ringulreið á vinnumarkaðinum, sem varð með ójafnri kaupþróun á hinum ýmsu sviðum.

Sannleikurinn er og sá, að í samningunum vorið 1955 hækkaði kaupgjaldið alls ekki upp í hið frjálsa markaðsverð á vinnu við fjárfestingarstörfin. Strax daginn eftir að samningarnir höfðu verið gerðir, var greitt hærra kaupgjald á ýmsum sviðum heldur en samkvæmt hinum opinberu kauptöxtum, svo að það er núna á ýmsum sviðum hærra en opinberir kauptaxtar gera ráð fyrir. Hæstv. ríkisstj. sér ekkert við þetta að athuga. Af hverju ekki? Af því að þar er um hagsmuni þeirra að ræða, sem kaupa vinnuna fyrir yfirverð með einhverjum hætti. Það er ekkert að athuga við hátt kaup frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj., ef vinnukaupandinn græðir á því, að kaupið sé hátt. Þá er það ágætt. En ef kaupgjaldshækkunin er með þeim hætti, að hún að einhverju leyti skerðir gróða eða gróðamöguleika vinnukaupandans, þá er hún allt í einn orðin hábölvuð. Þetta er mergurinn málsins, sem hér er um að ræða.

Ég endurtek það, að ég tel þá kenningu, að kauphækkunin 1955 sé höfuðundirrót erfiðleikanna nú, einhverja mestu falskenningu, sem nú sé uppi í íslenzkum stjórnmálaumræðum. Raunveruleg orsök ófremdarástandsins er stjórnleysið, sem verið hefur á fjárfestingunni, það, að verðlagseftirlitið var afnumið og verðlaginu á ýmsum vörum sleppt lausu og skapaðir gífurlegir gróðamöguleikar á ýmsum sviðum. Orsökin er enn fremur eftirlitslaus og röng bankapólitík. Í raun og veru er eini ljósi punkturinn í allri heildarstefnu hins opinbera í fjármálum og efnahagsmálum fjármálastjórn sjálfs ríkissjóðsins; það verður að viðurkennast. En á hinum sviðunum öllum, sem skipta máli, hefur ríkisstj. mjög yfirsézt.

Það vakti athygli mína, að í áramótagreininni, sem birt var af hálfu Sjálfstfl. í málgagni hans við s. l. áramót og var í það skipti rituð af hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssyni, fann hann upp annan sökudólg við hlið Alþýðusambandsins, sem bæri höfuðábyrgðina á ófremdarástandinu í efnahagsmálunum nú, og það var Landsbankinn. Grein hans varð ekki skilin öðruvísi en að höfuðsökudólgarnir væru tveir, annars vegar Alþýðusambandið, verkalýðshreyfingin, og hins vegar Landsbankinn. Um fjárfestinguna ræddi hann ekkert. Um afnám verðlagseftirlitsins ræddi hann ekki heldur neitt. En það er sannarlega undarlegt, að í málgagni Sjálfstfl. skuli landsbankavaldinu stillt upp sem höfuðsökudólg í þessum efnum.

Ég tel það rétt, að bankakerfið í heild hefur brugðizt á undanförnum árum, og það er ein höfuðástæða þess, hversu illa er komið. En það er spaugilegt að lesa gagnrýni á þessu, sem sérstaklega er beint að Landsbankanum,í málgögnum Sjálfstfl. Landsbankanum er stjórnað af 8 mönnum, 5 manna bankaráði og þrem bankastjórum. Fimm af þessum átta mönnum eru framámenn Sjálfstfl. Sjálfur forsrh. situr í bankaráði Landsbankans. Einn af helztu mönnum Sjálfstfl. á þingi, hv. þm. A-Húnv. (JPálm), situr í bankaráði Landsbankans til dæmis, þannig að Sjálfstfl. hefur hreinan meiri hluta í bankaráði Landsbankans og í bankastjórn hans. Samt sem áður les maður það í málgagni Sjálfstfl., að stefna Landsbankans hafi verið alröng, svo hættulega röng, að líkja megi því við hina óþjóðhollu afstöðu verkalýðshreyfingarinnar.

Í þessu frv. er í raun og veru ekki fólgin nein lausn á þeim vanda, sem nú steðjar að sjávarútveginum, af þeirri einföldu ástæðu, að tekjuöflunarráðstafanirnar eru þannig, að þær munu hafa í för með sér sjálfkrafa mjög verulega hækkun á vísitölunni, þá um leið hækkun á kaupgjaldi og þá um leið hækkun á framleiðslukostnaði, sem síðan mun aftur íþyngja útgerðinni, allri framleiðslunni, að mjög verulegu leyti.

Ég hef enn sem komið er auðvitað ekki haft tíma eða aðstöðu til þess að athuga, hversu vísitalan muni hækka mikið vegna þessara ráðstafana, en ef ég má leyfa mér að nefna einhverja ágizkun í því sambandi, þá tel ég, að það geti varla orðið minna en 8–9 stig, sem vísitalan muni hækka vegna þessara ráðstafana. Síðan hækka landbúnaðarvörurnar auðvitað á sínum tíma, og má þá geta nærri, að útvegurinn fær mjög fljótlega á sig aftur verulegar byrðar vegna þeirra ráðstafana, sem hér eru gerðar.

En hvað á þá að gera? er von að spurt sé. Hvað á að gera? Eitthvað verður að gera útveginum til bjargar. Allir sjá, að hann var stöðvaður um áramótin og mundi vera stöðvaður áfram, ef ekkert væri aðhafzt. Auðvitað verður því ekki á móti mælt, að gera þarf ráðstafanir til bjargar sjávarútveginum. Framleiðendur sjávarafurða, hið vinnandi fólk við sjávarsíðuna, þarf að fá stærri hluta af kökunni, sem þjóðin í heild bakar með vinnu sinni, en þeir fá nú. Spurningin er í fyrsta lagi: Hversu mikil á stækkun þess hluta að vera, sem þeir, sem vinna við sjávarútveginn, eiga að fá? Og svo í öðru lagi, af hverjum á að taka þessa stækkun?

Ég er þeirrar skoðunar, að sú stækkun á hlutdeild sjávarútvegsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þ. e. það, sem tekið er af öðrum til að bæta hlut hans, sé óþarflega mikil. Ég mun við þessa 1. umr. ekki rökstyðja þetta rækilega. Ég mun láta það bíða til síðari umr. þessa máls, en hér vil ég aðeins láta þess getið, að hagfræðinganefnd sú, sem hæstv. forsrh. nefndi í framsöguræðu sinni áðan og gerði athuganir á því, hversu mikið þyrfti að bæta hlut sjávarútvegsins, gerði ekki ráð fyrir jafnmiklum álögum í þessu skyni og gert er ráð fyrir í þessu frv. hér, og skeikar þar nokkrum tugum milljóna.

En aðalatriðið er þó hitt, aðalgallinn á þessum ráðstöfunum er þó sá, að það, sem tekið er af öðrum til að rétta sjávarútveginum, er tekið á ranglátan hátt. Það er tekið á þann hátt aðallega, að lagt er jafnt gjald, sama gjald á allan innflutning, hvort sem hann er nauðsynlegur eða ónauðsynlegur. Það er í þessu frv. bókstaflega engin tilraun gerð til þess að leggja þyngri byrðar á þá, sem hafa breið bök til þess að bera þær, en hina. Það eru bókstaflega engar ráðstafanir gerðar til þess að láta hina ríku og tekjuháu greiða meira en hina fátæku. Mér liggur við að segja, að yfir frv. sé hreint íhaldsyfirbragð, næstum óskammfeilið íhaldsyfirbragð. Það er framhald af þeirri stefnu, sem tekin var upp með löggjöfinni um húsnæðismálastjórn. Þar var engin tilraun gerð til þess að mismuna þeim, sem góða aðstöðu hafa, og hinum, sem bága aðstöðu hafa. Áður hefur þó venjulega verið gerð einhver tilraun í þá átt að jafna kjörin milli hinna ríku og hinna fátæku, milli stéttanna, þegar svona stórkostlegar byrðar hafa verið lagðar á. Slíkt virðist vera talið óþarfi lengur. Til svo mikils meira treysta íhaldsöflin sér í þjóðfélaginu nú en þau hafa gert undanfarin ár.

Þegar fluttar eru till. um 150 millj. kr. flutning á tekjum á milli stétta, er óverjandi að gera ekki ráðstafanir til þess að ganga örugglega úr skugga um, að ekki séu greiddir meiri styrkir en nauðsynlegt er. Það er óverjandi að gera ekki ráðstafanir til þess að jafna aðstöðumun stéttanna, jafna tekjur þeirra, að draga úr óhófsgróða og braski, en hlífa þeim, sem höllum standa fæti í lífsbaráttunni. Engar slíkar ráðstafanir eru í þessu frv., en það eru slíkar ráðstafanir, sem Alþfl. vill gera, um leið og útveginum er hjálpað. Það eru slíkar ráðstafanir, sem Alþfl. telur óhjákvæmilegt skilyrði þess, að hægt sé að grípa til ráðstafana útveginum til hjálpar, sem þó vissulega eru nauðsynlegar.

Ég sagði áðan, að þetta frv. væri í raun og veru engin lausn á grundvallaratriðum þess vanda, sem að steðjar. Það er áframhald á rangindaráðstöfunum undanfarinna ára. Fyrir 6 árum kom gengislækkunin, af því að tvöfalt gengi var talið enn verra. Svo kom tvöfalda gengið, þ. e. bátagjaldeyririnn, af því að skattar og styrkir voru taldir enn verri, og nú loksins koma skattarnir og styrkirnir, sem ávallt hafa verið taldir hið versta, svo að við höfum fengið allt þrennt. Við höfum fengið gengislækkunina, við höfum fengið bátagjaldeyrinn, og við höfum fengið skattana og styrkina.

Hæstv. ríkisstj. leggur til að gera það, sem hún var búin að segja þjóðinni í 6 ár að aldrei mætti gera. Sú stjórn, sem gerir slíkt, á að fara. Hún getur ekki haft traust þjóðarinnar.