28.01.1956
Neðri deild: 54. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

146. mál, framleiðslusjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það frv., sem hæstv. ríkisstj. hér hefur lagt fram og á að vera hennar lausn, fundin eftir mikla innbyrðis erfiðleika, er, ef maður ætti að segja það í stuttu máli, hvað tekjuöflunina snertir rán, sem er rökstutt með lygi. Og ég held, að það veiti ekki af, ef við eigum að geta rætt þessi mál af einhverju viti hér, að hæstv. forsrh. leggi fram dálítið betri upplýsingar en hann nú hefur gert og hætti að reyna að rökstyðja þessar álögur, sem hann er að leggja hér á, með kauphækkunum hjá verkamönnum og það fái að koma alveg í ljós eins og það er, hverjir það eru, sem eru að drepa sjávarútveginn á Íslandi.

Það efast enginn um, að útgerðin þarf að fá stórfé. Það efast heldur enginn um, að sjávarútvegurinn skapar og er grundvöllur að öllum þeim gróða, sem skapaður er á Íslandi. Það þýðir, að ef við ætlum að hjálpa sjávarútveginum, til þess að hægt sé að reka hann, þá verðum við að rannsaka, hvert gróðinn fer, sem sjávarútvegurinn skapar, hvaða aðilar það eru í þjóðfélaginn, sem halda áfram að raka til sín ekki aðeins tugum millj., heldur hundruðum millj. kr. í gróða, í tekjuafgang, á sama tíma sem sjávarútvegurinn er eftir skilinn með tap. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þessi mál koma hérna fyrir, en ég spái því, að þó að fyrir liggi að leggja á annað hundrað millj. kr. á þjóðina, þá muni verða jafnerfitt að fá upplýsingar um þetta mál og meðan við höfum verið að ræða það áður, þó að engar till. hafi legið frammi um neina tekjuöflun. Ég vil þess vegna leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. og ríkisstj. í heild að gefa okkur hér upplýsingar um raunverulegt fjárhagslegt ástand útgerðarinnar og í öðru lagi upplýsingar um afkomu þjóðarbúsins í heild. Þar með á ég við, hvernig sá gróði, sem skapast í þjóðarbúinu, skiptist á milli verzlunarstéttarinnar eða verzlunarauðvaldsins, bankanna og annarra þeirra aðila, sem þessi gróði rennur til. Við getum þrætt endalaust um þessi mál hér, á meðan við getum ekki fengið fram upplýsingar um þessa hluti, því að þetta er það raunverulega, sem fyrst og fremst skiptir máli, þegar við erum að ræða um sjávarútveginn.

Það verða allir áreiðanlega sammála um tvennt, annars vegar, að sjávarútvegurinn sé grundvöllurinn að öllum okkar þjóðarbúskap og þar með líka grundvöllurinn að allri þeirri auðsöfnun og gróðasöfnun, sem er til á Íslandi, og hins vegar, að sjávarútvegurinn sé rekinn með gífurlegu tapi. Það er hægt að deila um það og menn geta verið hér ósáttir um það, talið, að það nemi kannske nokkrum tugum millj. kr. meira eða minna, en að það sé gífurlegt tap og að hann þurfi hátt upp í þær álögur, sem hér eru, og kannske allar, það efast menn ekki um. Nú veit ég, að það hafa farið fram rannsóknir á þessum hlutum, og ég veit, að hæstv. ríkisstj. situr inni með niðurstöður um þetta, og hvað eftir annað alla þessa mánuði, sem þessi mál hafa verið hér til umr. eða hefur borið á góma, hefur stjórnarandstaðan hér farið fram á að fá eitthvað af þessum upplýsingum, og henni hefur alltaf verið neitað um það, henni hefur meira að segja verið neitað um að fá þær sem trúnaðarplögg. Þó vitum við, að mánuðum saman eða a. m. k. vikum saman eru sérfræðingar ríkisstj. búnir að sitja við að rannsaka þetta. Hvernig stendur á því, að það er ekki hægt einu sinni fyrir Alþ., hvað þá fyrir þjóðina, að fá upplýsingar um þessa hluti? Hvernig stendur á því, að ríkisstj. hefur hagsmuni af því að fela þessar upplýsingar fyrir þjóðinni? Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að koma fram og segja, eins og sagt er með þessum tveim frv., sem hér er verið að leggja fyrir í dag: Við leggjum hátt upp í 200 millj. kr. nýjar álögur á þjóðina, en við fáumst ekki til þess að leggja fram rökin fyrir því, að þessar álögur séu nauðsynlegar? — Hvers konar grundvöllur er þetta, sem hæstv. ríkisstj. ætlast til að málið sé rætt á? Mig skal ekki undra, þó að stólarnir séu tómir hér á Alþ. Umræður um þýðingarmestu málin, eins og hvorki meira né minna en hátt í 200 millj. kr. álögur á þjóðina, eru komnar inn á það stig, að fyrst er þetta athugað innan ríkisstj. á grundvelli einhverra leyniplagga, sem ríkisstj. fær, síðan er fyrirskipað á nokkrum þingflokksfundum stjórnarflokkanna hér niðri: Nú skuluð þið, þm. góðir, trúa þessu, sem ráðherrarnir segja, og samþ. þetta, — og síðan gæta þessir góðu þm. stjórnarflokkanna þess að vera helzt hvergi nærri, til þess að engin samvizka eða engin rök gætu truflað þá, þegar farið væri að ræða þessi mál. Og ríkisstj. gætir þess um leið að halda öllum sínum plöggum leyndum, þannig að enginn maður fái að gagnrýna þetta eða skyggnast fyrir um, hvernig ástandið raunverulega sé. Ég vil segja við þessa hv. stjórnarflokka, sem tala hér og þreytast aldrei á að tala um lýðræði og þingræði: Ef þeir halda, að þetta eigi eitthvað skylt við þau hugtök, þá fara þeir villir vegar. Hér er með hreinum einræðisaðferðum fyrst þeirra eigin stjórnarflokkum fyrirskipað að trúa þeim leyniplöggum, sem ráðherrarnir hafa, og síðan þar með meiri hlutanum á Alþ. skipað að samþykkja þetta og ekki að spyrja út í hlutina og sizt af öllu að fara að grufla út í þá, það gæti verið hættulegt.

Það er engum efa bundið, að útgerðin þarf peninga og hún þarf mikla peninga. En af hverju þarf hún þessa miklu peninga? Er það vegna þess, að það skapist enginn gróði á Íslandi og allt sé rekið með tapi, ríkissjóðurinn, bankarnir, heildverzlanirnar, innflutningsfyrirtækin, útflutningsfyrirtækin og allt saman þetta? Er það vegna þess? Nei, það er ekki vegna þess. Það er vegna þess, að sjávarútvegurinn er af pólitískum valdhöfum í landinu settur í þá aðstöðu, að hann er látinn tapa. Hann er rúinn inn að skinninu. En á sama tíma eru aðrir aðilar í landinu látnir græða. Hinir pólitísku valdhafar skammta þessum aðilum gróðann, en skammta sjávarútveginum tapið. En af því að sjávarútvegurinn er sá aðilinn, sem mjólkar þó öllum gróðanum, þegar öllu er á botninn hvolft, verður þó að halda honum lifandi. Menn sjá það nokkurn veginn, meira að segja þeir, sem völdin hafa, að menn græða ekki hér á því að reka banka eða verzla með gjaldeyri eða flytja inn olíu og selja hana eða flytja inn aðrar vörur, ef enginn gjaldeyrir er til þess að verzla með og ef enginn sjávarútvegur er í gangi. Þó að merkilegt megi virðast, sjá þeir þetta, þessir herrar, sem stjórna málum þjóðarinnar þannig, að sjávarútvegurinn er látinn tapa svona. Þess vegna henda þeir um hver áramót einhverju í sjávarútveginn til þess að reyna að halda honum gangandi. Og þegar að því kemur, að hent er í hann, eftir að jafnvel er búið að stöðva hann einn mánuð eða lengur, þá er sagt hér á Alþ.: Ja, ykkur varðar nú ekkert um það, hvernig stendur á því, að það þarf að henda þessum peningum í sjávarútveginn til þess að láta hann ganga. — Valdhafarnir nota sér þá aðstöðu, að þeir ráða ríkisvaldinu, og þeir beita ríkisvaldinu þannig, að tapi er skellt á sjávarútveginn, en gróða frá sjávarútveginum veitt í sérstakar stofnanir í þjóðfélaginn. Hér er gengið út frá því, — og ég skal út af fyrir sig ekki draga neitt í efa þær tölur, ég hef ekki aðstöðu til þess, ég efast ekki um, að ýmsir mundu gagnrýna þær, og það er endalaust um þær hægt að deila, yfirleitt misnotkun eða misrétti og annað slíkt í því sambandi, — en við skulum segja, að það sé enginn efi á því, að það þurfi þarna stórfé, það þurfi þarna á annað hundrað millj. til útgerðarinnar. En hvaða aðilar eru það þá í þjóðfélaginu, sem hafa gróða nú sem stendur og hefðu ekki þennan gróða nema vegna þess, að sjávarútvegurinn er til, og vegna þess, að hann er rekinn?

Við skulum taka innflutningsaðilana. Við skulum taka olíuhringana, heildsalana og aðra slíka. Hvernig stendur á því, að hvernig sem beðið er um upplýsingar um það hér á Alþingi, hverju gróði þessara stofnana raunverulega nemi, hvað verzlunarauðvaldið í heild, olíuhringarnir og aðrir slíkir græði, að það er aldrei hægt að fá neinar upplýsingar, ekki neitt svar, ekki neina tilraun til svars, ekki neina rannsókn? Það var nýlega sýnt fram á það hér, að mismunurinn á olíuverði í smábæ í Þýzkalandi og hér heima á Íslandi væri um 50 millj. kr. á ári af þeirri olíu, sem báta- og togaraflotinn kaupir. Við höfum áður fengið upplýsingar um, að slík olía væri miklu lægri í Noregi en hér. Af hverju fást aldrei neinar rannsóknir á þessu? Við höfum staðhæft hér, að gróði olíuhringanna sé að komast í 30–40 millj. kr. á ári. Af hverju er ómögulegt að fá í gegn rannsóknir á þessum hlutum? Við öllum blasir gífurleg fjárfesting þessara aðila, sem þeir afskrifa jafnóðum. Það fæst rannsakað tap á sjávarútveginum, en það er ómögulegt að fá rannsakaðan gróðann hjá þeim aðilum, sem græða á því að verzla við sjávarútveginn. Hvernig stendur á þessu? Stendur þannig á því t. d., að olíuhringarnir í landinu eru eign valdamikilla aðila í Sjálfstfl. og Framsfl., og það eru höfð helmingaskipti á milli þessara olíufélaga Sjálfstfl. og Framsfl. um innflutninginn og söluna á olíunni til landsins? Hvað eftir annað höfum við óskað eftir upplýsingum um þetta, en það er eins og þetta sé „tabú“, eins og um þetta sé algerlega bannað að tala, eins og þetta sé eitthvert heimilisleyndarmál stjórnarflokkanna. En finnst mönnum nú eðlilegt, að stjórnarandstaðan gleypi við álögum á almenning, á meðan hennar staðhæfingar í þessu efni, studdar ýmsum líkum, fást ekki ræddar, fást aldrei nokkurn tíma ræddar hér?

Það er vitanlegt, að verzlunarauðvaldið á Íslandi græðir, það tapar ekki. Ef það tapaði, mundi vafalaust vera komið fram með einhver frv. hér um að styðja það. En það koma ekki frv. um það. Menn vita, að það græðir. En það er ómögulegt að fá neina niðurstöðu um, hve mikið það græðir. Við getum öðru hverju séð í skýrslum, að á ári eins og 1953 sé veitt til verzlunarinnar alveg sérstaklega 73 millj. kr. í lánum frá bönkunum hérna, margfalt meira en til eins þarfra hluta og húsbygginga eða annars slíks. Við getum séð, að á sama tíma sem dregið er jafnvel að lána til sjávarútvegs, séu aukin þannig lánin til verzlunarinnar. En það er ómögulegt að fá í gegn rannsóknir á þessum hlutum.

Á einstaka sviðum getum við sjálfir séð eitthvað. Þeir bankar, sem mest græða, græða á því að verzla með gjaldeyri þjóðarinnar. Bankarnir græða eftir upplýsingum Framkvæmdabankans 57 millj. kr. á árinu 1954. Ég býst við, að sá gróði sé raunverulega meiri. Ég hef staðhæft það, að gróði bankanna væri varla minni en 60–70 milljónir, og er mér ofur lítið kunnugt um, hvernig þessir reikningar þeirra eru færðir. Þessir bankar græða á því, að sjávarútvegurinn gengur. Sjávarútvegurinn framleiðir gjaldeyrinn, sem þeir verzla með, borgar þeim sjálfur allmikið fé í vexti og stendur undir allri þeirri verzlun, sem gefur bönkunum þeirra gróða. Er nokkurt hóf í því og nokkurt vitrænt skipulag á þeim þjóðarbúskap, að undirstöðuatvinnuvegurinn skuli ganga með yfir hundrað milljón króna tapi, en bankar, sem lifa á þessum atvinnuvegi, skuli koma út með um 60 millj. kr. gróða? Er óeðlilegt, að mönnum detti í hug: Er ekki hægt að minnka þennan gróða og láta sjávarútveginn bera sig betur?

Hvað gerir svo ríkið sjálft? Hvað gerir ríkisbúskapurinn sjálfur? Okkar þjóðarbúskapur veltir á ári í kringum 3000 millj. kr., það er það, sem við höfum að skipta úr. Hvað tekur ríkið sjálft til sín? Ríkið tekur yfirleitt til sín í kringum 600 millj. kr. Hvernig hefur það verið undanfarin ár? Ríkið hefur tekið til sín fyrir utan það, sem fjárlögin hafa ákveðið, hátt í 100 millj. kr. aukreitis, sem er bein auðsöfnun, sem síðan er hlutað út í ýmislegt, ýmislegt af því vafalaust þarflegt, en er engu að síður bein auðsöfnun. Hvers konar víðtækt skipulag er það og þjóðarbúskapur, að undirstaða alls þjóðarbúskaparins, sem ríkisbúskapurinn líka byggist á, sjávarútvegurinn, skuli vera látinn ganga með yfir 100 millj. kr. tapi, en ríkið rífa til sín fram yfir fjárlög hátt upp í 100 millj. kr. á ári, sem auðvitað er tekið úr þessari sömu köku? Dettur nokkrum manni í hug að halda því fram, að það væri nauðsyn á því, að sjávarútvegurinn væri látinn ganga með yfir 100 millj. kr. tapi, þegar ríkið tekur til sín upp undir 100 millj., þegar bankarnir taka til sín um 60 millj., þegar verzlunarauðvald, olíuhringar og aðrir slíkir taka til sín tugi milljóna? Haldið þið, að það væri ekki hægt að skipuleggja þetta þannig, ef valdhafarnir vildu það, að sjávarútvegurinn fengi ekki aðeins þær yfir 140 millj. kr., sem hann tapar núna, heldur dálítinn gróða þar að auki, til þess að menn sæktust eftir því að kaupa togara, en hins vegar væri minnkaður gróðinn hjá öllum hinum aðilunum?

Við getum tekið fleiri aðila. Hvernig er með vátryggingarfélögin, skyldu þau ekki græða? Hvernig er með flutningaskipin? Skyldu þau ekki raka saman fé á því m. a. að flytja hraðfrysta fiskinn? Og hvernig skyldi það vera með alla verðbólgubraskarana, sem fjmrh. ber nú sérstaklega fyrir brjósti? Hvað skyldu þeir vera búnir að hrúga til sín mörgum tugum og hundruðum milljóna króna á því, hvernig ríkisstj. á undanförnum árum hefur spennt upp allar fasteignir í verði með sinni fjármálapólitík? Ég vil segja: Meðan hæstv. ríkisstj. fæst ekki til þess að leggja plöggin á borðið um þessi mál, meðan hún fæst ekki til að leggja fyrir okkur rannsóknina á öllum þessum gífurlega gróða einokunarauðvaldsins í landinn, þessum gróða, sem er rifinn þannig burt frá sjávarútveginum, að honum er ekkert eftir skilið nema tapið, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að það sé samþykktur einn einasti eyrir til að leggja á alþýðu manna. Þetta er hins vegar hinn mikli leyndardómur ríkisstjórnarinnar. Öll hennar plögg, allar hennar hagfræðinga- og sérfræðingarannsóknir eru látnar vera leyniplögg. Þau gætu e. t. v. komið upp um eitthvað af þessu. Hef ég þó satt að segja frekar trú á, að meira að segja sérfræðingar ríkisstj. rannsaki þessa hluti frekar lítið, m. a. vegna þess, að þeim sé sagt að vera ekkert að hnýsast í það, sem þeim komi ekki við. Þetta einokunarauðvald, sem rífur þannig til sín hundraða milljóna króna gróða af þjóðinni, af sjávarútveginum, er í þeirri sérstöku aðstöðu, að það ræður ríkisvaldinu, það hefur þá aðstöðu, að ef einhver þegn í þjóðfélaginu, t. d. mennirnir, sem skapa allan þennan gróða, verkalýðurinn, vilja fá eitthvað pínulítið af þessu eða jafnvel vilja bara halda í, þannig að þeir hafi það, sem þeir hafa haft, þá stendur þetta einokunarauðvald þannig að vígi með ríkisvaldið í sínum höndum, að það getur gert ráðstafanir til þess að ræna þessu jafnóðum af verkalýðnum aftur með frv. eins og þessu.

Þessi einokunarklíka, sem rænir þannig á annað hundrað milljónum króna af sjávarútveginum, ætlar auðsjáanlega — það sjáum við á þessu frv. — engu að sleppa af sínum ránsfeng, en nota ríkisvaldið til þess að velta alltaf yfir á alþýðuna jafnóðum öllu því, sem hún neyðist til að gefa sjávarútveginum eftir, svo að hann geti gengið, svo að gullhænan haldi áfram að verpa, svo að mjólkurkýrin drepist ekki. Og hvernig stendur á því, að þessir valdhafar hafa hagsmuni af því að reka efnahagspólitík þjóðarbúskaparins á þennan hátt? Þessir valdhafar, þetta einokunarauðvald, sem ræður ríkinu, ræður bönkunum og ræður innflutningsverzlun og útflutningsverzluninni, situr fyrst og fremst fyrir um lánin úr bönkunum. Þetta einokunarauðvald setur peningana, sem það fær að láni í bönkunum, í fasteignirnar í landinu, í verzlunina, í atvinnutækin og annað slíkt. Þessu einokunarauðvaldi er lánað fé þjóðarinnar, sparifé barnanna, sem sérstaklega var verið að skora á börnin að leggja nú í bankasjóðina, áður en þetta frv. kom fram. Þetta einokunarauðvald kaupir fasteignirnar í landinu, og þetta sama einokunarauðvald lækkar síðan verðmæti krónunnar ár frá ári. Ef það einhvern tíma borgar sínar skuldir til baka, þá verður það með krónum, sem eru aðeins partur af því, sem krónan var, þegar lánin voru veitt. Þannig eru eignir stóreignamanna hækkaðar í verði, skuldir stóreignamanna lækkaðar. Þannig er svikamyllan látin ganga áfram, á meðan þessir valdhafar geta notað ríkisvaldið til þess.

Það er skiljanlegt, að það sé erfitt að fá þessa valdaflokka til þess að gefa upplýsingar um gróða einokunarauðvaldsins, að það sé erfitt að fá þá til þess að ræða þetta, og er það ekki vegna þess, að ég hafi aldrei minnzt á þetta mál áður, að ég kem fram með þetta nú. Hæstv. ríkisstj. er búin að hafa mörg tækifæri til þess að leggja þetta fyrir. Ég held ég hafi ekkert tækifæri látið ónotað til þess að krefja hana sagna um þennan gróða. Þrátt fyrir það gefur hæstv. forsrh. hér í sinni framsöguræðu ekki eina einustu upplýsingu um eitt einasta atriði í þessum málum, og mátti hann þó vita, að ég mundi spyrja að þessu. Hins vegar kemur hann með það, að kaupgjaldið hafi hækkað. Og hvað veit hæstv. forsrh. sjálfur viðvíkjandi kaupgjaldinu? Það, sem hann veit, er það, því að um það hefur hann skýrslur, að kaupgjaldið er lægra, raunverulegt kaupgjald hér í Reykjavík, kaupmáttur tímakaupsins er lægri en hann var 1947. Kaupmáttur tímakaupsins er lægri meira að segja eftir verkfallið í sumar en var 1947. M. ö. o.: Verkamenn hafa á þessum 8 árum ekki hækkað sitt kaup um einn einasta eyri hvað kaupmáttinn snertir. Í þessi 8 ár hefur það staðið í stað, sem þeir geta keypt fyrir það, sem þeir fá fyrir einn vinnutíma. Það eru aðrir aðilar, sem hafa skrúfað krónuna niður og verðbólguna upp á þessum 8 árum. Það eru þeir aðilar, sem hafa fellt gengi krónunnar, þeir aðilar, sem hafa hrúgað hverjum skattinum og tollinum á á fætur öðrum, þeir aðilar, sem hafa sleppt öllu braski í þjóðfélaginu lausu, þeir aðilar, sem hafa afnumið allt verðlagseftirlit og leyft öllum, sem gátu grætt, að græða, þeir aðilar, sem hafa afnumið húsaleigulögin, þeir aðilar, sem hafa raunverulega sagt við fólkið í þjóðfélaginu: Græðið þið, hver sem betur getur. Okrið þið, hver sem betur getur. Peningarnir, það er það, sem þið eigið að reyna að ná í. — Þetta hefur verið siðalögmálið, sem hefur legið til grundvallar fyrir öllum aðgerðum ríkisstj., og samkvæmt því hefur öll hennar löggjöf verið. Afleiðingin af því er m. a., að húsnæði, sem flestar atvinnurekendastéttir í þeim löndum, þar sem þær ráða, hvort sem við lítum til Englands eða Skandinavíu, húsnæði, sem er eitt af því, sem þær reyna að halda niðri, til þess að kaupgjald þurfi ekki að hækka vegna hækkaðs húsnæðis, hefur farið upp úr öllu valdi fyrir beinar aðgerðir núverandi valdaflokka, sem afnámu húsaleigulögin. Húsaleiga í Reykjavík fyrir 3 herbergja íbúð er í dag í fjöldamörgum tilfellum 1500–2000 kr., en var fyrir samsvarandi húsnæði fyrir 10 árum 150 kr. Húsnæði hefur tífaldazt, á sama tíma sem kaup hefur tvöfaldazt. Þetta hef ég sagt hér áður við ríkisstj. Hún hefur ekki reynt að mótmæla því. Henni hefur ekki heldur dottið í hug að reyna að gera neinar ráðstafanir gegn þessu. Hún kvartar um fjárfestingu og fjárfestingin fari í ýmsa „ópraktíska“ hluti, hún fari ekki í togara og ekki í báta, heldur í alls konar brask. Mér þætti gaman að vita, hvort það væru í leyniplöggum hagfræðinganna upplýsingar um það, hvað er búið að festa mikið fé, þó að ekki væri nema hérna í Reykjavík, í að kaupa gamlar íbúðir, sem byggðar voru fyrir stríð. Heil hús kannske kostuðu 30–40 þúsund, en hver íbúð í þeim hefur verið seld núna á upp undir fjórðung milljónar. Það er búið að sprengja upp með þessu móti verðlagið hvað þessa hluti snertir í skjóli afnáms húsaleigulaganna hjá núverandi stjórnarflokkum, búið að skapa meiri dýrtíð, sem var alveg óþarfi að skapa, búið að festa með því fé, sem var vitlaust að láta nokkurn tíma festast í þessum hlutum. Hver afglöpin hafa rekið þarna önnur, en ríkisstj. hefur ekki nokkurn tíma einu sinni fengizt til þess að ræða afleiðingarnar af þessum ráðstöfunum. Hins vegar er aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, látið birta sama leiðarann í 6 mánuði, aðeins um einn einasta hlut, að allt illt, sem ríkisstj. ætli að gera, sé kaupgjaldshækkun að kenna. Þannig á að reyna að berja inn í menn, hvað sem það kostar, þessari lygi, þessari, eins og eini hagfræðiprófessorinn, sem við höfum hér, orðaði það áðan, „mestu falskenningu, sem uppi er í íslenzkum stjórnmálum“.

En fæst hæstv. ríkisstj. nokkurn tíma til þess að reyna að rökstyðja þessa hluti og reyna að ræða þessa hluti hérna við okkur? Þorir hún að reyna að koma fram með eina einustu mótbáru á móti því, að það sé hennar pólitík, sem hafi valdið dýrtíðinni? Þorir hún að reyna að hrekja það, að kaupmáttur tímakaupsins sé lægri en hann var 1947? Nei, hún reynir það ekki. Hún reynir engin rök í þessu máli, ekki nokkur. Hennar eina ráð er í krafti þægðar sinna flokka þingmanna að keyra hlutina í gegn, án raka, án umræðna, án hugsunar, bara í tómri blindni. Þetta hefur verið hennar pólitík, þegar hún ákvað þessa hluti. Þetta var hennar pólitík, þegar hún afnam húsaleigulögin. Þetta var hennar pólitík, þegar hún lækkaði gengið. Þetta hefur alltaf verið hennar pólitík. Það eina, sem hún hefur sagt við okkur í stjórnarandstöðunni, er þetta: Í guðanna bænum verið þið nú ekki að tefja fyrir málinu, það fer fram hvort sem er.

Hæstv. forsrh. sagði, að verkamenn hefðu síðasta vor hækkað sitt kaup og atvinnureksturinn — og þá hugsaði hann fyrst og fremst um sjávarútveginn — hefði ekki borið það. Yfirstéttarklíkan í landinu bar vel kauphækkunina. Hún hefði vel getað látið þá hækkun í té. Aðstaðan er hins vegar þannig, að verkalýður landsins nær ekki til þessarar yfirstéttarklíku öðruvísi en gegnum atvinnurekendurna. Atvinnurekendastéttin er sá aðili, sem verkalýðurinn verður að semja við. Og atvinnurekendastéttin á síðan sinn aðgang að þessum háu herrum, að valdaklíkunni í þjóðfélaginu, að einokunarauðvaldinu, sem ræður verzluninni, sem ræður bönkunum, ræður útflutningnum og innflutningnum og ræður skipaflutningunum og ýmsu öðru slíku, og skammtar verkalýðnum og skammtar sjávarútveginum skít úr hnefa, ef hún getur. Erfiðleikarnir eru, að verkalýðurinn nær ekki til þessarar einokunarklíku nema með pólitískum aðgerðum. Hann nær ekki til hennar með þeim daglegu aðgerðum. Og þessi einokunarklíka, á meðan hún enn þá hefur ríkisvaldið í sínum höndum, situr í þeirri aðstöðu að geta með lögum, eins og hérna er lagt til, velt yfir á þjóðina því, sem hún neyðist til þess að láta til atvinnurekendastéttarinnar, í þessu tilfelli sjávarútvegsins.

Það var líka alveg greinilegt, um það leyti sem verkamenn voru komnir í þá aðstöðu að hafa 20% lægra kaup hvað kaupmátt tímakaupsins snerti fyrir verkfallið í vor en þeir höfðu 1947, og þá er þó ekki reiknað með húsaleiguhækkuninni, það var þegar þeir voru komnir í þá aðstöðu að krefjast þess að reyna að ná einhverju af þessu til sín, að hæstv. forsrh. sagði, að þeir skyldu vita það, að svo framarlega sem þeir reyndu að knýja fram kauphækkun, þá skyldi ekki standa á ráðstöfununum til þess að ná þessu aftur af verkalýðnum. M. ö. o.: Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að hvað sem gert yrði í þjóðfélaginu af hálfu verkalýðsins, af hálfu atvinnurekenda, þá skyldi einokunarauðvaldið halda sínum gróða óskertum, og það er það, sem einokunarauðvaldið er að tryggja sér í dag. Þegar verkamenn höfðu rétt ofur lítið sinn hlut og samt ekki náð því, sem þeir höfðu 1947, þegar sjávarútvegurinn, sem er í verstri aðstöðu meðal atvinnurekenda, verður að fara fram á við ríkið að hjálpa sér og þegar á að fá eitthvað til þess að gera honum kleift að ganga, þá kemur einokunarauðvaldið í farmi þessara tveggja flokka og segir við þjóðina: Nú skalt þú borga mér 200 milljónirnar, svo að ég haldi mínum gróða áfram. Ég ætla engu að sleppa. — Bankarnir, ríkissjóðurinn, olíuhringarnir, allir þessir aðilar skulu sannarlega engu sleppa. Það er það, sem er inntakið í III. kaflanum í þessu frv., og það er það, sem er framkvæmdin á hótun hæstv. forsrh. Þetta frv. er hvað tekjuöflunina snertir hefndarráðstafanir einokunarklíkunnar á Íslandi gegn verkalýðnum og um leið áframhaldandi ráðstafanir til að auka braskið í þjóðfélaginu og til að auka verðbólguna í þjóðfélaginu.

Ef þessar till. í III. kafla þessara laga, sem ég hér fyrst og fremst tala um, því að það er það, sem ég hef nægan kunnugleika til þess að geta þó rætt um, verða samþykktar, þá vona ég, að hæstv. ríkisstj. sé alveg ljóst, að sú dýrtíð, sem er aukin með þessum á annað hundrað millj. króna, sem þarna eru lagðar á, verður aldrei aftur tekin. Ég skil ekki í, að það geti verið nokkur maður hér inni, sem dettur í hug, að eftir að búið er að leggja á þessar hátt í 200 milljónir, sé hægt aftur að fara að tala um eitthvað, sem heiti verðlækkun eða verðhjöðnun eða eitthvað þess háttar. Það væri hrein og skær fávizka. Það, sem gert er með því að samþykkja þennan III. kafla, er því að festa þá dýrtíð í sessi, sem þarna er sköpuð. Það þýðir að lækka raunverulega allt sparifé í verði, ég skal ekki staðhæfa hvað mikið. Hér sagði hv. 1. landsk. áðan, að þetta mundi þýða vísitöluhækkun allt upp í 10%, og þegar hún hleður á sig, þá má mikið vera, ef það færi ekki að nálgast það, að það væri farið að lækka allt sparifé og krónuna raunverulega í gildi um a. m. k. 10%. Enn fremur vonast ég til, að hæstv. ríkisstj. sé það ljóst, að með þessum hennar ráðstöfunum í III. kaflanum kallar þetta aftur á skatta eitthvað í þessa áttina að ári, því að þá verða þessar hennar ráðstafanir búnar að hlaða á sig, þannig að til þess að bæta upp afleiðingarnar af þessum ráðstöfunum fyrir útveginn þarf — ég veit ekki, hvort þeir kalla það framleiðslusjóð eða hvað þeir kalla það — þá þarf einhvern nýjan sjóð og nýjar álögur.

Auðvitað þýðir þetta launahækkun á eftir hjá verkalýðnum. Auðvitað þýðir þetta, 10% álagið á t. d. byggingarefni og annað slíkt, hækkun á húsakosti og húsaleigu og öðru slíku. Þetta hleður allt saman á sig. Þetta heldur áfram sömu hringavitleysunni sem hefur verið pólitík ríkisstj. undanfarin ár. Það virðist líka mjög greinilegt, að það sé tilætlunin. Það er ekkert einasta ákvæði í þessum lögum, sem talar um eitthvert verðlagseftirlit, einhverjar takmarkanir á því, hvað megi hækka vörurnar eftir þetta, ekki snefill af neinu slíku, allt saman þurrkað út. Það er eins og hæstv. fjmrh., sem einu sinni gat aldrei opnað sinn munn án þess að tala um verðbólgu, sé nú orðinn einn allsherjarumboðsmaður verðbólgunnar á Alþingi og nú megi hann ekki einu sinni lengur heyra minnzt á eða sjá í sínum frv. neitt um verðlagstakmarkanir eða neitt í þá áttina, og hefði mönnum þó kannske fundizt ástæða til þess, þegar farið er að hlaða á almenning nefsköttum, sem eru hátt á annað hundrað millj. króna.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., og raunar hafa fleiri spurt að því hérna áður: Hvað heldur hún, að þessar hennar till. muni hækka verðlagið í þessu landi á þessu ári, og hvað heldur hún, að bara vegna þessara ráðstafana þyrfti að öllum öðrum kringumstæðum óbreyttum að bæta miklu við handa útveginum um næstu áramót? Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hugsar bara með sér: Ja, ég verð hvort sem er ekki þá. Ég þarf ekkert að vera að hugsa um það. Við látum hverju ári nægja sínar þjáningar. Þetta er sams konar vitleysa og ég gerði í fyrra og hittiðfyrra, og hún hefur dugað mér fram að þessu, og hví skyldi hún ekki duga mér áfram, hví skyldi ég ekki komast í gegn við kosningar, þó að ég hagi mér svona? Og svo er henni alveg sama um, hvernig hitt gengur. Ákveðnir aðilar hafa þarna sína stóru hagsmuni. Þeir aðilar eru voldugir, þeir eiga góðar fasteignir, þeir byggja fín hús, þeir reisa hallir, og þeir prenta blöð í sínum höllum til þess að koma því inn í almenning, að það eina, sem meiri hluti Íslendinga, launþegarnir, ekki megi fá, sé kauphækkun, á meðan einokunarauðvaldið í landinu gramsi til sín upp undir 200 millj. kr. af árlegum tekjum þjóðarinnar. Svona á hringrásin að ganga.

Það er auðvitað margt í þessu frv., sem mann mundi langa til þess að spyrja um, ef einhver von væri um, að það væri hægt að knýja einhver svör yfirleitt út úr ríkisstj., t. d. í sambandi við 6. gr., verðuppbæturnar til landbúnaðarins, sem áætlaðar eru 15 millj. kr. Gætum við fengið að sjá þennan verðútreikning, hvað reiknað er með miklu magni, hvað reiknað er með mikilli upphæð og öryggið fyrir því, að það fari ekki fram úr þessum 15 millj.? Ég vil minna á, að ég man eftir því 1954, þegar samþ. voru á 6 mín. hérna í þinginu ákveðnar uppbætur viðvíkjandi útflutningi á vissum landbúnaðarafurðum, sem menn gengu út frá að væri mjög lítil upphæð, en reyndist síðan skipta tugum millj. kr. Um leið og menn eru sammála um, að bændur þurfi að fá sitt, þá er alveg sjálfsagt að leggja reikningana fyrir um það, og það er rétt, að ríkisstj. gefi okkur um leið upplýsingar um, hvort við gætum ekki fengið þetta sama jafnvel út og bændurnir gætu fengið alveg jafnmikið, þó að við verðum þessu fé til þess að borga niður kjöt hér heima og aðrar slíkar afurðir og gera landsmönnum sjálfum mögulegt að borða meira af þeim en þeir gera núna, því að það mega þessir hv. stjórnarflokkar muna eftir, að á þeirra tíma var það, sem jafnvel mjólkurneyzlan í Reykjavík í þrjú ár fór minnkandi, þó að sífellt bættist við fólkið, vegna þess að menn höfðu ekki efni á því að drekka eins mikla mjólk og þeir vildu.

Ég vona, að báðir stjórnarflokkarnir muni það, að frá því í marz 1950 og þangað til eftir verkfallið í desember 1952 náði mjólkurmagnið, sem selt var í Reykjavík, alla þessa 30 mánuði aldrei því, sem það var í marz 1950, og menn geta séð það, að þegar menn jafnvel spara við sig mjólkina og það verkamennirnir hér í Reykjavík, þá mundu margir geta borðað meira af kjöti og landbúnaðarafurðunum, ef þeir hefðu efni á því. Það má fyllilega athuga það, áður en öllum peningunum er fleygt í útlendinga hvað þetta snertir, hvort landsins eigin börn mættu ekki fá meira af okkar góðu landbúnaðarframleiðsluvörum. Þetta vil ég aðeins segja vegna þess, að það væri gott að fá þessar upplýsingar um leið.

Ég tek eftir í 10. gr., að stjórn sjóðsins og greiðslur úr honum á að vera í höndum tveggja manna. Já, náttúrlega. Hví skyldi brugðið út af reglunni? Hvað sem öllu öðru líður, þó að þjóðarbúskapurinn sé að farast og allt annað slíkt, helmingaskiptin skulu standa. Hefði nú ekki verið hugsanlegt fyrir ríkisstj., sem vildi bægja frá sér óþarfa tortryggni um hennar réttlæti og hennar heiðarleik, að leggja t. d. þarna til, að það væri t. d. 5 manna stjórn, kosin af Alþ., sem sæi um þetta, og jafnvel að henni væri falið að rannsaka um leið, hvort bankarnir og ríkissjóður og innflutningsfyrirtækin og skipafélögin og aðrir slíkir græddu ekki eitthvað ofur lítið, þeir gætu dundað við það, á milli þess sem þeir skiptu þessu upp? En ég sé, að helmingaskiptareglan þykir öruggari.

Svo er hér í 19. gr. ákaflega skemmtileg ákvörðun. Hún hljóðar svo: „Þar sem talað er um ríkisstj. í lögum þessum, er átt við ríkisstj. í heild.“ Það er sem sé ekki ríkisstj. í pörtum. Á ég að skilja þetta svo sem ríkisstj. hafi verið í dálitlum pörtum, þegar hún var að koma þessu saman, og partarnir séu ekki alveg samstæðir, svo að það þyki vissara að taka fram í lögum, að hún sé öll saman ábyrg fyrir því? Fyrir okkur í stjórnarandstöðunni er það náttúrlega ekkert lakara. Það gerir það eðlilegt, að við komum til með að spyrja jafnt Framsfl. sem Sjálfstfl. um þessa pólitík og ábyrgðina á henni.

Hvað snertir grg. fyrir frv. er ákaflega hart að byrja hana með þeim ósannindum, sem ég gat um í upphafi míns máls, og reyna ekki með einu einasta orði að koma inn á það, að erfiðleikar sjávarútvegsins stafi af því, hvernig reytt er af honum af hálfu valdaaðilanna í þjóðfélaginu.

Það er eftirtektarvert, að með þessu frv., sem er á vissan hátt endurtekning á frv., sem áður hafa komið fram, er hins vegar endanlega fellt allt burt, sem að einhverju leyti átti að reyna að hemja það, að sérstakur gróði yrði af ráðstöfununum. Það eina, sem ekki virðist mega raska, eru gróðamöguleikar allra þeirra, sem njóta gjaldeyris sjávarútvegsins. Verðlagstakmörkun, verðlagseftirlit eða annað slíkt, það fer ekki mikið fyrir því, og mér þætti satt að segja gaman að vita það, þegar ríkisstj. var að ræða þetta í pörtum, hvort annar parturinn af henni hafi aldrei komið fram með það, t. d. Framsóknarparturinn, að það væri heppilegt að hafa þarna verðlagseftirlit, og mér þætti vænt um, ef Framsfl. á á annað borð einhvern málsvara hérna í d., að hann gæfi upplýsingar um það, eða hvort hann hefur gleypt þetta allt saman hrátt. Það er annað frv., sem liggur fyrir okkur núna um leið og í eru till. frá hæstv. fjmrh. í sambandi við fjárl., sem hæstv. fjmrh. var að minnast á í gær, þar sem hann var að tala um, hvað það hefði verið óhugsandi tilhugsun fyrir sig, ef hann hefði ekki haft t. d. m. a. 10 millj. kr. til þess að stinga í einn sjóð. Og ég vil nú spyrja: Ef hæstv. fjmrh. er svona óskaplega glaður yfir því að hafa pínt með tollum af neyzluvörum almennings út úr almenningi 10 millj. kr. til þess að stinga í einu ákveðinn bankasjóð, sem kannske er 100 millj. og kannske eitthvað annað, og ef hæstv. fjmrh. svo um leið gerir ráðstafanir eins og þessar, sem minnka raunverulegt verðgildi þeirra, ja, t. d. 100 millj. kr., sem fyrir voru í þessum bankasjóði, um 10% smátt og smátt, finnst þá hæstv. fjmrh. þetta vera fjármálaspeki? Hverju er hann bættari að hafa tekið þessar 10 millj. undan blóðugum nöglum almennings og lækka 100 millj. kr. sjóðinn, sem hann setti þetta í, um 10% um leið? Sjá þeir menn, sem gera þessar ráðstafanir, ekki, að það er Kleppsvinna, sem þeir eru að vinna? Einokunarauðvaldið, sem ræður landinu, hefur að vísu möguleika til þess að ræna alltaf í gegnum ríkisvaldið af alþýðu, en þeir gera ekki annað með þessu móti en að mala niður krónuna og mala niður sjóðina og mala niður tiltrúna til sparifjárins og peninganna í landinu, því að þeir hafa til allrar hamingju ekki það vald að geta haldið áfram að ræna almenning og komið honum niður á það stig, að hann lifi verr en hann hafði lifað áður hér á Íslandi, fyrir 1947.

Þessi Kleppsvinnubrögð, sem hér eru viðhöfð, stafa af græðgi þess einokunarauðvalds, sem ræður þessu landi og enn þá fer með ríkisvaldið, og þetta einokunarauðvald er að eyðileggja okkar þjóðarbúskap. Það er núna í 7 ár búið að hindra, að nokkur nýr togari væri keyptur til landsins, að þeim auðsköpunartækjum, sem drýgst eru í að skapa auðinn í þjóðfélaginu, væri fjölgað. Og þetta sama einokunarauðvald fær að eyðileggja núna tiltrúna til gjaldeyrisins, tiltrúna til gengisins, tiltrúna til sparifjárins með þeim ráðstöfunum, sem það þarna er að gera, allt vegna þess, að það tímir ekki að sjá af þeim peningum, sem það hrífur til sín, tímir ekki að sjá af einhverju af þeim l00 millj., sem ríkissjóður tekur aukreitis inn á ári, tímir ekki að sjá af einhverjum af þeim 60 millj., sem bankarnir taka inn, tímir ekki að sjá af einhverju af þeim gróða, sem olíuhringarnir og aðrir heildsalar hafa, og hefur valdaaðstöðu til þess að ná sér jafnóðum niðri á þjóðinni og verkalýðurinn gerir einhverjar ráðstafanir til þess að bæta sinn hag.

Ég get skilið þessa pólitík frá sjónarmiði harðsvíraðasta auðvaldsins hér í Reykjavík, og kann þó svo að fara, að meira að segja þess fylgjendum í alþýðuhópi, fylgjendum Sjálfstfl., fari að finnast nóg um. Ég á bágar með að skilja þessa pólitík frá sjónarmiði Framsfl., nema hann sé orðinn öllu samgrónari verzlunarauðvaldinu og einokunarvaldinu en ég jafnvel hafði gert mér hugmynd um, og hef ég þó oft gagnrýnt hann fyrir of náin samskipti í þeim efnum. En mér þætti vænt um það, ef Framsfl. á einhvern málsvara hér í þessari hv. d., — ég er nú hræddur um, fyrst hæstv. fjmrh. er hér inni, að hann eigi engan, hann á hendur máske til þess að réttast upp, þegar kemur að því að greiða atkv., en ef hæstv. fjmrh. er hér nærri, þá er ég vonlítill um, að hann eigi málsvara, — en mér er spurn: Framsfl. er, eftir því sem ég bezt veit, búinn að standa í samningum við Alþfl. frá því í haust um stjórnarráðstafanir og stjórnarstefnu almenningi í hag. Er þetta afleiðingin af samningunum? Eru þetta bjargráðin, sem þeir hafa fundið út? Það væri æskilegt, að Framsfl. gæfi upplýsingar um það. Það er ekki til neins að ætla að píska í gegn hér á Alþ. frv. eins og þetta, sem hér liggur fyrir, taka hátt á annað hundrað millj. kr. af almenningi og segja svo á eftir: Ég er alveg saklaus af þessu. — Annaðhvort er þetta stefna eða þetta er ekki stefna, og ef þetta eru afleiðingarnar af því að vera búnir að rökræða við Alþfl. í marga mánuði um stjórnarstefnu á lýðræðissinnuðum endurbótagrundvelli, ef þetta eru endurbæturnar og ef þetta er lýðræðið, þá held ég, að Framsfl. eigi að fara að biðja fyrir sér. Við, sem höfum einhverja reynslu hér í þinginu, vitum alveg og skiljum alveg, fyrr en skellur í tönnunum, hvað hér er að gerast. Ég vil minna hv. stjórnarflokka á, að nákvæmlega sams konar frv. og þetta fluttu þeir og settu í gegn 1948, lögin nr. 100 þá 29. desember, lögin um söluskatt. Það hét þá lög um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, og fyrsti kaflinn var um, hvað gera skyldi fyrir útveginn, annar kaflinn var þá um síldveiðarnar, og þriðji kaflinn var um dýrtíðarsjóð. Og þriðji kaflinn er líka núna um, hvernig skuli afla framleiðslusjóði tekna, það, sem hét dýrtíðarsjóður þá og átti að vera til að standa undir framleiðslunni í landinu, heitir framleiðslusjóður núna. Alltaf eru það ný og ný nöfn. Nú er búið að fella fyrsta og annan kafla þessara laga úr gildi, þriðja kaflanum var haldið, það var tekjuöflunin, hitt var fellt úr gildi, það var fiskábyrgðin. Og ég veit svo sem, að ef hæstv. fjmrh. fær að koma nærri fjármálum áfram, þá líða ekki mjög mörg ár þangað til fyrsti og annar kafli í þessum lögum, það sem er gert fyrir útgerðina, verða felldir úr gildi, en álögurnar í þriðja kafla koma til með að haldast og það verður gefin út ný bráðabirgðabreyting nokkurra laga, þar sem ákveðið verður, að tekjuöflunaratriðin í III. kafla þessara laga skuli standa.

En hvað var svo það, sem gerðist eftir að söluskattslögin voru samþ. Söluskattslögin komu í gildi 1949. Fyrsta árið, sem þau voru í gildi, var 1949, og hvað gerðist 1950? Árið 1950 var gengið fellt. Fyrir okkur, sem þekkjum ráðstafanir þessara flokka, þessara stjórnarflokka, er alveg gefið mál, að næsta atriðið, sem þessir tveir stjórnarflokkar koma sér saman um, er gengislækkun, bein afleiðing af þeim ráðstöfunum, sem þeir gera núna, og þá koma þeir til með að segja: Ja, það er raunverulega búið að fella gengi krónunnar með þessum ráðstöfunum, sem þarna voru gerðar, með bátagjaldeyrinum og ýmsu öðru slíku, og það, sem við þess vegna erum að gera með því að lækka gengið, er bara að skrá hana rétt. — Lögin um söluskatt voru samþ. 29. des. 1948. Þau tóku þannig gildi fyrir árið 1949. Á miðju árinu 1949 fóru fram kosningar. Eftir að búið var að kjósa þessa tvo hv. stjórnarflokka aftur í meiri hluta hér á Alþ., felldu þeir gengið. Þeir rifust ósköp pínulítið um það á þessum tíma, hvort Sjálfstfl. ætti að sitja einn í stjórn undir forsæti hæstv. núverandi forsrh. eða hvort þeir mættu báðir verða samferða um það að lækka gengið. Það var það eina, sem þá greindi á um. Og þegar Framsfl. var þá kominn í stjórnina með Sjálfstfl., var allt í lagi með að fella gengið, sem hafði ekki verið í lagi, á meðan Sjálfstfl. lagði það til einn. Ég get vel hugsað mér, að það yrði einhvers konar deila núna. Ég get jafnvel líka hugsað mér, að þessir tveir flokkar kæmu sér saman um að hafa t. d. kosningar í sumar, það passar alveg inn í tímaröðina, og eftir kosningarnar í sumar rifust þeir máske fyrst eitthvað um það, hvort Sjálfstfl. ætti einn að mynda stjórn eða jafnvel hvort Framsfl. ætti að komast í stjórnina með, og þegar hann væri kominn í stjórnina með, þá væri gengislækkunin næst. Og það liggur við, að mig hálflangi til að spyrja hæstv. forsrh. samvizkuspurningar: Er máske ein af ástæðunum til þess, að ríkisstj. er svona óvenju treg á að láta okkur hafa nokkuð af plöggunum, sem hagfræðingar hennar hafa útbúið, — hún var nefnilega ekki svona treg á það við gengislækkunina, þá fengum við stóra bók, sem Benjamín útbjó, — er máske ein af ástæðunum til þess sú, að hagfræðingarnir hafi lagt til gengislækkun og kaupbindingu? M. ö. o.: Er það næsta, sem á að koma á eftir þessu frv. hérna, gengislækkun og kaupbinding, en auðvitað bara ekki fyrir kosningar, heldur eftir kosningar, eins og maður skilur ósköp vel?

Ég býst ekki við að fá mikil svör við því. Ég býst við, að hæstv. ríkisstj. vilji láta allt vera á huldu um, hvað þarna á að verða. En hv. 1. landsk. sagði hér áðan í sinni ræðu um þessi mál, að þetta frv. táknaði gjaldþrot núverandi stjórnarstefnu. Mig mundi langa til að beina fyrirspurn til hans: Hvaða stjórnarstefnu er Alþfl. reiðubúinn til að setja í staðinn? Ég held, að það sé erfitt að ræða mál eins og þessi öðruvísi en að marka það, og það verður gerð tilraun til þess í áframhaldandi umr. um þetta mál, hvers konar stjórnarstefnu menn vilja taka upp hér á Íslandi.

Ég hef nú gert tilraun til þess að reyna að fá ríkisstj. til þess að gefa nokkrar upplýsingar í þessum málum, reynt að fá hana til þess að ræða það, sem er aðalatriði í þessum málum, reynt að fá hana til þess að gera einhverja grein fyrir þeim ægiþunga, sem einokunarauðvaldið hér á Íslandi liggur á sjávarútveginum með. Ég veit, að hún muni ekki kæra sig um að ræða það. Ég veit, að hún vill láta það vera svo að segja sitt fjölskylduleyndarmál. Það þýðir, að við munum náttúrlega gera það, sem við getum, til þess að knýja það fram, að þær gífurlegu álögur, sem hér eiga að leggjast á almenning, verði lagðar á einokunarauðvaldið sjálft. Ef þeir flokkar, sem við kosningar telja sig vinstri flokka og telja sig vilja berjast fyrir alþýðuna, meina eitthvað með því, þá er nú tækifæri fyrir þá til þess að standa á móti því, að einokunarauðvaldið geti haldið áfram öllum sínum álögum, bæði á sjávarútveginn og almenning, þá er nú tækifæri fyrir þá til þess að leggja þessar álögur á einokunarauðvaldið sjálft, og þá er nú tækifæri til þess að hindra, að verðbólguskrúfan haldi áfram, þannig að gera verði ráðstafanir að ári til þess að létta af sjávarútveginum afleiðingunum af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. leggur til að gerðar séu nú.