31.01.1956
Efri deild: 57. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

146. mál, framleiðslusjóður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu á valdi hæstv. ríkisstj. og hennar flokka að ákveða það og meta, hvort hún telur ástæðu til, að þetta mál fari til nefndar. Í sjálfu sér skiptir það ekki mjög miklu máli frá mínu sjónarmiði, því að það er vitað og yfirlýst, að hér er búið fyrir fram að ráða örlög frv., áður en það kemur hingað í þessa deild.

Um það verður ekki deilt, að sjávarútveginum er, eins og komið er, nauðsyn á mjög mikilli aðstoð, til þess að þeir, sem hann stunda, geti notið sömu lífskjara og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Hins vegar skortir mig með öllu möguleika á því að dæma um, hvort þessi þörf er réttilega metin í frv. því, sem hér liggur fyrir, og hvort þær till. til aðstoðar, sem þar eru gerðar, eru við hæfi eða ekki.

Hæstv. ríkisstj. hefur kosið að hafa þann hátt á í þessu efni að fela fyrir þingheimi þær skýrslur, rannsóknir og athuganir, sem hún hafði falið sérfræðingum sínum að afla og þeir að sjálfsögðu hafa lagt mikla vinnu í. Sérfræðingarnir hafa einnig, geri ég ráð fyrir, séð ástæðu til að benda á leiðir, benda á úrræði. Till. í einu formi eða öðru hafa þeir væntanlega gert til hæstv. ríkisstj. Ef svo er, þá eru einnig þessar till. fullkomið leyndarmál.

Ég er samþykkur þeim þætti þessa frv., að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess að veita útgerðinni aðstoð, en get ekki metið, eins og málið liggur fyrir, hvort þörfin er rétt metin í þessu frv. En ég er ósamþykkur þeirri leið til tekjuöflunar og því fyrirkomulagi, sem er á þessu haft og í frv. felst. Ég hefði talið þýðingarmikið, ef hæstv. ríkisstj. hefði greint frá, á hverjum rannsóknum og að hve miklu leyti á till. sérfræðinganna hún byggir þetta frv.

Ég fæ ekki skilið, hvers vegna hæstv. ríkisstj., sem metur þörf sjávarútvegsins á aðstoð, að því er mér skilst, eitthvað nálægt 250 millj. kr. á þessu ári, tekur ekki þann háttinn, sem einlægastur væri, að taka þetta fé einn veg eða annan og láta renna í einn sameiginlegan sjóð, sem trúnaðarmenn hæstv. ríkisstj. og fulltrúar frá þeim, sem eru aðilar að þessu máli, þ. e. a. s. útvegsmönnum og sjómönnum, ættu sæti í stjórninni fyrir.

Þessa leið hefur hæstv. ríkisstj. ekki kosið að fara. Bátagjaldeyrisfyrirkomulagið hefur sérstaka stjórn og umsjón. Sölusamband innkauparéttinda útvegsmanna mun hafa þriggja manna stjórn, sem sér um þá gjaldeyrisverzlun, sem er í sambandi við útgáfu B-skírteina. Þetta fé rennur svo um hennar hendur til útgerðarmanna, eins og kunnugt er. Síðan á að leggja á sérstök gjöld eftir frv., sem eiga að renna í framleiðslusjóð, sem á svo til viðbótar að jafna metin og gera kleift að halda útveginum gangandi.

Mér hefði sýnzt miklu einlægara, að öll þessi aðstoð væri sameinuð á einum stað og að yfirstjórn þess sjóðs, sem myndaður yrði, væri í höndum fulltrúa frá þeim aðilum, sem eiga að njóta fjár úr honum, og ríkisvaldsins, sem hefur tekið féð af almenningi til þess að leggja í sjóðinn. Mér er óskiljanlegt, að þessi háttur skuli ekki upp tekinn, úr því að ríkisstj. telur, að ekki nægi lengur bátagjaldeyrisfyrirkomulagið. Ég hef það líka fyrir satt, að eitt af því kannske ekki mjög marga, sem sérfræðingarnir hafa verið sammála um, hafi einmitt verið það, að ef væri myndaður sérstakur framleiðslusjóður, þá væri rétt að fella bátagjaldeyriskerfið niður og láta þær tekjur, sem útgerðarmenn hafa haft af því, renna í framleiðslusjóð.

Mér þætti æskilegt, að hæstv. forsrh. gæti upplýst, hverjar ástæður liggja til þess, að þessi einfalda og sjálfsagða leið hefur ekki verið farin.

Um fyrirkomulagið að öðru leyti vil ég segja það, að mér virðist þetta óþarflega flókið og margbrotið, sumpart um stuðning til útgerðarmanna, togaranna sérstaklega, bátaeigendanna sérstaklega, og sumpart framlag til vinnslustöðvanna, frystihúsanna eða saltfisksverkunarstöðva eða herzlustöðva eftir mjög mismunandi reglum og með því skilyrði einu, að ákveðið verð sé greitt. En höfuðókosti þessa frv. tel ég þó það, hvernig fjárins er aflað, og gallar þess fyrirkomulags, sem upp á að taka samkvæmt frv., eru fyrst og fremst þeir, að með því að heimta tekjur sjóðsins inn með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, þá er um leið verið að draga úr, minnka, ég vil ekki segja gera að engu, — draga úr og minnka aðstoðina til útvegsins. Um leið og gjöldin eru lögð á neyzlu almennings í landinu, sem hlýtur að leiða til vaxandi verðhækkunar og aukins framleiðslukostnaðar, er verið að þyngja róðurinn fyrir þeim, sem aðstoðina á að veita.

Mér hefði því þótt sjálfsagt, að þess mætti vænta, að þar sem hæstv. ríkisstj. hefur nú svo lengi haft þessi mál til athugunar og gert þau að sínum einkamálum, þá hefði hún fundið einhverjar leiðir til þess að afla fjárins með öðrum hætti en þeim, sem hér er gert, þ. e. a. s. að hækka verðið á nauðsynja- og neyzluvörum fólksins í landinu og skapa nýja gróðamöguleika fyrir þá, sem græða á hverjum nýjum tolli. (Gripið fram í.) Já, það er ekki gott að láta vera að segja allan sannleikann, þó að utan eldhúss sé.

Ég minnist þess, að hæstv. ráðherra hafði þau orð fyrir nokkru, þegar rætt var um stóreignaskatt og annað í sambandi við það, að hann skyldi sjá um, að féð yrði sótt í rottuholurnar, ef menn vildu ekki fúslega láta það af hendi, sem hefðu grætt á verðbólgunni þá. Mér hefði þótt einsýnt, að hæstv. ríkisstj. hefði leitað eftir því að taka fé til þessarar aðstoðar frá þeim aðilum, leita þess í þeim rottuholum, sem gróði undanfarinna ára mest hefur verið falinn inn í. Engin viðleitni er sýnd í þá átt í þessu frv., þvert á móti. Í Nd. hefur flokksmaður minn lagt fram till., sem miða í þessa átt. Að sjálfsögðu er ekki hægt á þessum stutta tíma og með þeim litlu upplýsingum, að ég ekki segi engum, sem fyrir hendi eru, að ganga frá ýtarlegri till. í þessu efni, en hún er þó a. m. k. ábending til hæstv. stjórnar og Alþingis um það, hvert sé að leita fjárins til þess að leggja þessa aðstoð fram. Einnig tel ég, að nauðsynlegt sé, að hið opinbera, ríkisstj., sem tekur þetta fé af almenningi og leggur til útgerðarinnar, fylgist með því, hversu þetta fé er notað, og gæti þess, að það sé eingöngu notað þar, sem raunverulega er þörf á.

Ég skal svo láta þetta nægja við þessa umr., en mun fyrir 2. umr. reyna að bera fram brtt. svipaðs efnis og þær, sem hafa komið í Nd. Annars verður hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar að ákveða, hvort þeim þykir ástæða til að vísa málinu til nefndar eða ekki. Það er á þeirra valdi að kveða þar á um.