31.01.1956
Efri deild: 57. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

146. mál, framleiðslusjóður

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það er um þetta mál eins og flest önnur stórmál, sem koma hér fyrir hv. Alþingi, að öll aðalatriði þess eru ráðin, áður en það kemur hér til umræðu. En þetta mál hefur þegar verið þrautrætt í hv. Nd., auk þess stendur svo á um það, að umr. um það, opinberar og frammi fyrir alþjóð, standa yfir, og get ég því fallizt á, að það sé ekki sérstök ástæða til þess, að stjórnarandstæðingar í þessari hv. deild bregði út af þeirri venju sinni að tefja ekki framgang mála með málþófi.

Hv. 2. landsk. þm. og hv. 4. þm. Reykv. hafa þegar í umr. um það frv. til tekjuöflunar, sem lagt var hér fyrir hv. deild fyrir nokkrum dögum, markað afstöðu stjórnarandstæðinga í þessari hv. deild til beggja þessara mála, sem verða vart aðskilin. Það eru frv. til stórkostlegrar tekjuöflunar í ákveðnu skyni. Það má vitanlega deila um, hve mikil þörfin sé til tekjuöflunar vegna sjávarútvegsins, og það má vitanlega deila um, hve mikið þurfi til þess, að fjárlög 1956 verði afgreidd greiðsluhallalaus. Um það, hve mikla fjárhagslega aðstoð sjávarútvegurinn þurfi, hafa engar skýrslur verið lagðar fram, eins og bent hefur verið á í umr. um þetta mál. Þær eru ekki fáanlegar. Þær eru taldar trúnaðarmál hæstv. ríkisstj. og hennar ráðgjafa. Það hafa ekki heldur að mínu viti verið færð nein fullnægjandi rök fyrir því, að það þurfi að leggja stórkostlegar nýjar álögur á þjóðina nú, til þess að hægt sé að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Ég er sjálfur auk þess alls ekki sannfærður um, að það sé alltaf höfuðnauðsyn í einu landi að afgreiða fjárlög greiðsluhallalaus. Það mætti benda á mörg dæmi þess, að meiri fjármálamenn en þeir, sem stjórna fjármálum Íslendinga, hafa ekki gert þetta að skilyrðislausri reglu, hvernig sem á stendur. En það hefur verið af hálfu stjórnarandstæðinga hér á hv. Alþingi sýnt fram á, að það sé hægt að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög nú, aðeins ef þær upphæðir um tekjuöflun, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., sem við höfum haft til meðferðar, væru áætlaðar eins og reynslan hefur sýnt þær. Auk þess liggur fyrir stórfelldur tekjuafgangur frá s. l. ári. Um allt þetta má deila, og um allt þetta hljóta deilur að standa, ekki aðeins hér innan þingsalanna, heldur munu þær standa frammi fyrir þjóðinni og með þjóðinni næstu vikur og mánuði.

Ég get verið stuttorður um þetta mál og snúið mér frá því að ræða um það, sem mest er deilt um í þessu sambandi. Ég vildi taka hinn kostinn: að benda á það, sem mér virðist ekki vera hægt að deila um, og það eru einkum tvö atriði.

Mér virðist ekki vera hægt að deila um það, að þær álögur, sem lagðar eru nú á þjóðina með þessum frv., hljóta að verða til þess að stórhækka verðlag í landinu, auka dýrtíð, vegna þess að þær eru lagðar á allan almenning í landinu og koma til verðhækkunar á nauðsynjavörum almennings. Þær hljóta að hækka vísitöluna, framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu, innan fárra mánaða a. m. k., en auk þess er verðlag að ýmsu leyti og verulegu leyti óbundið í landinu, og reynslan sýnir og sannar, að það eru til menn og hópar manna, sem nota sér hvert tilefni til verðhækkana á ýmsum vörum til þess að leggja á meiri verðhækkanir en tilefni er til. Það eru til hópar manna, sem stjórnarblöðin sjálf, a. m. k. stjórnarblaðið Tíminn, kalla verðbólgubraskara í þessu landi. Það eru þeir menn, sem nota þá verðbólguþróun, sem á sér stað, hvert tilefni til verðhækkana, til meiri verðhækkana, til þess að taka gróða í sinn vasa. Þessi hefur reynslan orðið af þeim kauphækkunum, sem hafa átt sér stað, og af þeirri tekjuöflunarlöggjöf, sem hefur verið sett á undanförnum árum.

Þær álögur, sem nú eru lagðar á þjóðina, eru tollar, auknir tollar og söluskattur, þó að sumt af þeim heiti nú öðrum nöfnum en þeir hafa áður verið nefndir. Það liggur ekkert fyrir um það, þótt það ætti að vera hægt að reikna það út af fróðum mönnum, hvað vísitalan muni hækka beint vegna þessara ráðstafana, sem nú eru gerðar, en það er augljóst mál, að það hlýtur hún að gera. En auk þess sýnir reynslan, að hækkanir á verðlagi í landinu muni verða meiri.

Nú var sýnt fram á það af hagfróðum mönnum í byrjun s. l. árs, að það hefði á undanförnum árum orðið stórfelld rýrnun á kaupmætti þeirra launa, sem verkamenn og aðrir launþegar báru úr býtum samkvæmt gildandi vísitölu, vegna þess að hækkanir á verðlagi, aðrar en þær, sem fólgnar eru í vísitölunni, höfðu átt sér stað. Þannig höfðu raunveruleg laun verkamanna lækkað um allt að 20%, miðað við árið 1947, í byrjun s. l. árs. Það var vegna þessarar staðreyndar, sem það var viðurkennt af öllum sanngjörnum mönnum á s. l. ári, að verkamenn þyrftu kauphækkun. Í kjölfar þeirrar kauphækkunar hefur svo orðið stórfelld verðlagshækkun í landinu, og er um það deilt, hvort það sé kauphækkununum einum að kenna eða öðrum aðilum. Mér virðist það liggja alveg ljóst fyrir, að þessar stórfelldu verðlagshækkanir, sem hafa orðið, stafa ekki af kauphækkununum einum, heldur af því, að verðbólgubraskarar hafa tekið miklu meiri hluta í sinn hlut en áður var.

Þegar nú vísitalan hækkar sem bein afleiðing af þessum nýju tollum og sköttum og slík verðhækkun verður sem reynslan hefur sýnt og við vitum að hefur átt sér stað, hvað verður þá vísitalan orðin, þegar verð á landbúnaðarvörum hækkar á næsta hausti lögum samkvæmt? Það mætti vafalaust fara nærri um það, en það liggur ekki fyrir. Mér er nær að ætla, að hún yrði þá nálægt 200 stigum. Og hvað verður þá orðin kaupgjaldsrýrnun verkamanna, og hvað verður um kostnað útgerðarinnar, þegar svo er komið?

Í sambandi við umr. um þetta mál, eins og það ber nú að, og þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, vakna hjá mér endurminningar um fyrstu persónuleg kynni mín af hæstv. forsrh. haustið 1949, þegar við vorum á ferð um Gullbringu- og Kjósarsýslu, og ég sá hann þar og heyrði í fyrsta skipti tala til sinna kjósenda. (Forsrh.: Og varðst strax stórhrifinn.) Já, það er rétt. Ég var að ýmsu leyti hrifinn af því, hvað hæstv. forsrh. var fimur að tala við sína kjósendur. Hann hafði þá verið utan ríkisstj. nokkuð á þriðja ár, en flokkur hans hafði setið í þeirri ríkisstj. og ráðið þar mestu. Sú ríkisstj. hafði gert á árunum 1947–49 nákvæmlega sams konar ráðstafanir og þær, sem verið er að gera nú. Hún hafði hækkað sömu tollana, söluskattinn og með sömu afleiðingum og við stjórnarandstæðingar nú spáum um afleiðingar af þessum ráðstöfunum. Hæstv. forsrh. var ekki frammi fyrir sínum kjósendum myrkur í máli um það, hve heimskulegar þessar ráðstafanir hefðu verið. Hann var ekkert að draga úr því, þó að hann væri formaður þess flokks, sem mestu hafði ráðið um stefnu ríkisstj. Hann sagði: Þessir skattar og tollar, sem hafa verið lagðir á almenning, á þjóðina, eru drápsklyfjar, og þær koma fyrir ekki, þær verða ekki nema til ills eins. Í þeim er engin varanleg lækning fólgin, síður en svo, og nú þolir þjóðin ekki meira, sagði hann þá. Og hann spurði: Eða hver er það, sem mundi þora að leggja á, þótt ekki væri nema næstu 10 milljónirnar, í styrki til atvinnuveganna? Hver þorir? — Og nú spyr ég: Hver þorir að leggja á næstu 100 eða 200 milljónirnar í styrki til atvinnuveganna með sama hætti og felst í þessum frv., sem nú liggja fyrir? Þora hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að leggja meiri drápsklyfjar en þetta á þjóðina með sama hætti í styrki handa atvinnuvegunum?

Hæstv. forsrh. og hans stjórn hafa nú gert það sama og eru að gera nákvæmlega það sama og stjórn sú, sem var kennd við Stefán Jóhann, gerði á árunum 1947–49. Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, sagði þá við þjóðina: Það, sem hefur verið gert, er gengislækkun. Það er hart, að þeir menn, sem hafa stutt þessa stjórn, þykist nú vera á móti gengislækkun, því að þeir hafa verið að framkvæma gengislækkun.

Ég vildi ekki mótmæla þessum skilningi hæstv. forsrh. þá, og ég geri það ekki enn. Það, sem verið er að gera nú, er gengislækkun.

Hæstv. forsrh. sagði þá við þjóðina, að hann gæti með einn pennastriki afnumið styrkina til atvinnuveganna, tryggt styrkjalausan atvinnurekstur í landinu framvegis — styrkjalausan og blómlegan atvinnurekstur. Og pennastrikið kom. Hæstv. forsrh. stóð fyrir því. Hann gerði það pennastrik í byrjun árs 1950, og hann hefur síðan haft fimm ár til þess að sjá afleiðingarnar. Eru nú hér blómlegir, styrkjalausir atvinnuvegir? Nú, eftir að hæstv. forsrh. hefur stjórnað í fimm ár og hefur haft nægan meiri hluta á þingi, liggur fyrir árangurinn af þessu ágæta ráði, pennastrikinu frá 1950, og nú er gripið til sama ráðs og áður: styrkja til atvinnuveganna. Allir okkar atvinnuvegir ganga með styrkjum. Og það er gripið til sama ráðsins og áður, það eru lagðar drápsklyfjar á þjóðina í tollum og sköttum, neyzlusköttum, sem hljóta að hækka vísitöluna, verðbólguna og auka dýrtíðina.

Lengi framan af stjórnarárum þessarar hæstv. ríkisstj., sem nú situr, var það viðkvæðið í öllum ræðum hæstv. ráðherra og þeirra stuðningsmanna, að ríkisstj. stæði fyrst og fremst í baráttu við dýrtíðina, baráttu gegn verðbólgunni, það væri hennar höfuðmarkmið að stöðva verðbólguna. Ég veit, að það verður ekki einn einasti af fylgismönnum eða forsvarsmönnum hæstv. ríkisstjórnar til þess í þeim umræðum, sem nú standa yfir, að segja, að með þessum ráðstöfunum sé verið að stöðva verðbólguna, stöðva dýrtíðina, stöðva þá óheillaþróun, sem hefur átt sér stað í okkar þjóðfélagi nær óslitið síðan 1939.

Ef við lítum svo á allir, að þetta sé óheillaþróun, að áframhaldandi verðbólga og gengisfall, sífellt gengisfall íslenzku krónunnar, sé óheillaþróun, — og það láta allir svo sem þeir vilji stöðva hana, ég vil ekki rengja menn um það, — en hvað er þá í vegi fyrir því, að það sé hægt að stöðva þessa þróun?

Það vita allir og viðurkenna allir, að vinnandi stéttir þjóðarinnar græða ekki á þessari þróun. Þær eru í sífelldri hættu um það, að lífskjör þeirra rýrni og versni vegna þessarar þróunar og að þær falli niður á annað og lægra stig um alla sína afkomu og lífskjör og niður á lægra menningarstig, af því að efnaleg kjör þeirra versna.

Það verða fáir til þess að halda því fram, að þjóðin í heild sinni græði á þessari þróun. Það virðast allir viðurkenna, að það sé öllu líklegra, að hún tapi á henni. En það eru til menn, sem græða á henni. Það er ómótmælanlegt, að það eru til hópar manna, kannske ekki ýkja fjölmennir, sem hafa grætt stórfé á þessari þróun, kannske hundruð milljóna. Það eru þeir, sem standa í vegi fyrir því, að það sé hægt að stöðva þessa þróun, jafnvel þótt flestir meini það, sem þeir segja, að þeir vilji stöðva hana. Þessir menn kunna að vera til í öllum flokkum, en ég er ekki í neinum vafa um, að þeir eru fyrst og fremst í Sjálfstfl. Þess vegna er það, að ég hef ekki neina trú á því, að Sjálfstfl., þótt hann réði einn og þó að hann segðist vilja stöðva þessa þróun, gerði það. Ég trúi því ekki, að forustumenn hans gætu það. Svo sterk held ég að þessi öfl, sem hafa grætt milljónir, hundruð milljóna á þessari verðbólguþróun, séu innan Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh. sagði í útvarpsumræðunum í gærkvöld, að það væri ekki hægt að stjórna þessu landi án Sjálfstfl. Ef það er, þá hef ég ekki mikla trú á því, að það verði unnt í náinni framtíð að stöðva þá þróun, sem hefur átt sér stað og á sér stað í dag. En þetta er nú staðhæfing hæstv. forsrh. fyrir hönd síns flokks. Hann fullyrðir, að það sé ekki hægt að stjórna þessu landi án Sjálfstfl. En það hefur nú samt verið gert um nokkur ár. Og ég hef trú á, að það sé hægt.

Hæstv. forsrh. sagði einnig í umræðunum í gærkvöld, að stjórnarandstæðingar hér á Alþingi væru sjálfum sér sundurþykkir. Ekki skal ég neita því með öllu. Það er vitanlegt, að markmið og stefnur þeirra ýmsu fylkinga, sem eru í stjórnarandstöðu á Alþingi, eru ekki hin sömu. En afstaða þeirra í þessum málum er svo lík, að ég held, að það sé enginn vandi að samræma tillögur þeirra og sjónarmið í þeim. Ég held, að þeir hafi líka yfirleitt allir komið auga á, að verkalýður og vinnandi stéttir, sem þeir telja sig fulltrúa fyrir, græða ekki á áframhaldandi verðbólgu og gengisfalli, og þess vegna er það skylda þeirra sem fulltrúa þessara stétta að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að stöðva verðbólgu og gengisfall.

Ég er sannfærður um, að þessar ráðstafanir, sem nú er verið að gera, eru aðeins bráðabirgðaráðstafanir. Ég er sannfærður um, að innan skamms verður aftur farið að segja: Slíkar bráðabirgðaráðstafanir eru nú ekki færar lengur. Nú verður að leggja til annarrar og stærri atlögu. — Og það verður sagt: Verkalýðssamtökin eru þar í veginum — eins og sagt er nú í dag og hefur verið sagt síðustu mánuði, að það hafi verið verkalýðssamtökin, sem á s. l. ári eyðilögðu alla hina góðu og göfugu stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Ég er sannfærður um, að stjórnarandstæðingar, þó að þeir séu í ýmsum hópum, muni, þegar að því kemur, að það eigi að leggja til slíkrar atlögu gegn verkalýðnum og samtökum hans, standa sameinaðir. Ég er ekki heldur alveg viss um, að flokkar hæstv. ríkisstj. séu alveg lausir við að vera eitthvað sundurþykkir. Það hefur komið fram í umræðunum um þessi mál, að einstakir þingmenn, trúir stuðningsmenn hæstv. forsrh. að öðru leyti, hafa lýst yfir því, að þeir fylgdu þessum málum sáróánægðir, sárnauðugir. Hv. þm. A-Húnv. kvað svo að orði, að hann dragnaðist aðeins sárnauðugur með þessu fyrirhugaða máli hæstv. forsrh.

Ég er ekki viss um, þó að það hafi ekki komið eins skýrt fram, að allir hv. þm. Framsfl. séu hrifnir af þessum ráðstöfunum. Það bendir mjög margt til þess, að það sé langt frá því. Og það bendir mjög margt til þess, að það sé langt frá því, að Framsfl. hafi svo misskilið hagsmuni sinna umbjóðenda, að það geti ekki komið að því, að hann í heild sinni líti nokkuð svipuðum augum á þessi mál og stjórnarandstæðingar gera í dag, eins og þeir menn, sem bera fyrir brjósti hag vinnandi stétta í landinu, en þar með tel ég hiklaust bændur. Ég held, að það geti komið að því, ef og þegar kemur að því, sem ég býst við að verði ekki mjög langt að bíða, að það verði reynt að leggja til atlögu við verkalýðssamtökin í þessum málum, þá geti runnið tvær grímur á Framsfl. í heild sinni, hvorum megin hann skipar sér. En hitt er ég sannfærður um, að undir merkjum Sjálfstfl. verður aldrei unninn bugur á verðbólgu og dýrtíð í þessu landi né heldur stöðvuð sú sífellda gengislækkun, sem á sér stað, heldur verður þess ekki langt að bíða, að Sjálfstfl. segi, eins og hann sagði 1949 og 1950: Það er til lækning við öllum þessum meinsemdum. Hún heitir gengislækkun. Og það er ekki annað en að kveða niður með löggjöf og harðfylgi þá andstöðu, sem kann að vera í þjóðfélaginu gegn slíkri lækningu.

Þær bráðabirgðaráðstafanir, sem nú verða samþykktar hér, eru ekki lækning. Þær eru þvert á móti. Þær eru aðeins innspýting í þjóðarlíkamann, sem gerir illt verra, eins og hæstv. forsrh. lýsti nákvæmlega sams konar ráðstöfunum, sem gerðar voru af ríkisstj. á árunum 1947–49.

Ég mun ekki hafa þetta mál mitt lengra að sinni. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls og því, hverjar ég býst við að verði afleiðingarnar af samþykkt þessara ráðstafana.