31.01.1956
Efri deild: 57. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

146. mál, framleiðslusjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég tel ekki óeðlilegt, að hv. framsögumenn stjórnarandstöðunnar hafi flutt hér nokkra greinargerð fyrir skoðun sinni, og ég verð fullkomlega að viðurkenna það, að þeir hafa í þeim greinargerðum mjög forðazt allar málalengingar. Ég var að mælast til þess og hygg, að það sé nokkuð sameiginlegur vilji okkar allra, að þetta mál fái nú fljóta afgreiðslu. Mér er ljóst, að ef ég nú svara þeim ádeilum, sem hafðar hafa verið hér í frammi á ríkisstj. og efni þess frv., sem hér er borið fram, má sú ósk ekki ná fram að ganga, að okkur lánist að afgreiða þetta mál fyrr en þá síðla nætur. Ég finn út af fyrir sig enga tilhneigingu heldur hjá mér til að byrja að karpa um málið, meðfram og einkum kannske yegna þess, að í fyrsta lagi hefur verið hóflega í málin farið, þó að menn hafi látið sín rök í ljós, og í öðru lagi og einkum af hinu, að ef ég svara nú því, sem mér þykir mest um vert að svara, þá mundi ég með því endurtaka ræðu hæstv. fjmrh. og mína eigin ræðu í útvarpsumræðunum í gær, en þær ræður hlustuðu menn á og græða ekki sérstaklega á að heyra aftur.

Ég leiði aðeins athygli að því, að þetta frv. er stutt þeim rökum, sem einnig eru viðurkennd, skilst mér, af andstæðingum, að útvegurinn þarf á aðstoð að halda, og af hendi ríkisstj. eru lögð fram gögn um það, að aðstoðarþörfin skapist af kaupgjaldshækkununum, sem urðu á s. l. hausti. Ég vil leiðrétta þann smávægilega misskilning, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að það séu sérfræðingarnir, sem hafi samið þetta leyniplagg, sem var talað um af hans hendi. Sérfræðingana í þessu máli nefnum við embættismennina, sem um það hafa fjallað ár eftir ár. Hitt var hagfræðingaálit, sem átti að dæma um ástand í fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar, kom auðvitað inn á þetta mál í leiðinni, en margt annað einnig.

Ég skal svo aðeins leyfa mér út af því, sem hv. 6. landsk. sagði um mína ádeilu á háa skatta á árunum 1947–49, sem sjálfsagt er rétt og satt, — ég minnist þess nú ekki sjálfur svo nákvæmlega, ég segi margt og viturlegt og held ekki um það skrá, — en ég minni aðeins á það, sem ég sagði í gær, að við vissar aðstæður eiga vissar ráðstafanir og við breyttar aðstæður aðrar ráðstafanir. Og alveg eins og ég taldi gengisfellingu nauðsynlega 1950, hygg ég, að ég gæti fært sterk rök að því, að einmitt þessi leið sé nú réttari en gengisfelling, því að ég hygg, svo að ég segi ekki meira, að gengisfelling í dag mundi fljótlega gefa okkur aðra gengisfellingu.

Og svo, herra forseti, hlýtur það að vera minn hlutur í þessu máli að lofa andstæðingunum að deila hæfilega á mig án þess að deila á þá, ef óskir mínar um fljóta afgreiðslu málsins eiga að ná fram að ganga, sem einnig undir niðri eru þeirra óskir, hvað sem þeir um það segja. Um leið og ég vísa til minna fyrri raka og raka hæstv. fjmrh. í útvarpsumræðunum í gær fyrir því frv., sem hér er til umræðu, — og ég vísa einmitt til þeirra raka fremur en þess, sem sagt var í hv. Nd. og hv. efri deildarmenn höfðu ekki tækifæri til að hlusta á, — þá skal ég nú láta máli mínu lokið og þætti vænt um, ef hv. d. teldi það viðunandi, að málið gæti gengið nefndarlaust til 2. umr. og við gætum þá lokið því fyrir kvöldverð.