31.01.1956
Efri deild: 58. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

146. mál, framleiðslusjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að auðvitað er það ofmælt, ef ég hef sagt, að þessi mikla tekjuþörf, sem við tölum um og gerð er grein fyrir í því frv., sem hér er til umr., stafi öll af kauphækkununum frá því í vor. Það er náttúrlega fjarri sanni, að það sé rétt. En sú nýja aðstoð, sem um er að ræða, einkum til bátaflotans, stafar að verulegu leyti að mínu viti af þeim ástæðum. Svo að ég færi sjálfur fram bara eitt einasta atriði, sem mundi mótmæla þeirri staðhæfingu minni, að öll nýja tekjuþörfin stafaði af kauphækkunum, skal ég minna á það, að olía hefur hækkað svo mikið í verði, að ég hygg, að það muni auka dagleg rekstrargjöld togaranna um 1200–1300 kr. Ég viðurkenni fyllilega, að mér er ljóst, að þetta stafar ekki allt af þeim ástæðum, þó að mínar skoðanir að öðru leyti séu óbreyttar um áhrif kaupgjaldsins á nýjar þarfir fyrir aðstoð útveginum til handa.

Ég skal svo aðeins segja það, að ég vil ekki taka hér upp neinar deilur við hv. 4. þm. Reykv. um það, að krónan hafi ekki lækkað í verði. Ég hef einmitt þvert á móti haldið því fram, að krónan sé raunverulega lækkuð í verði, og hef sagt það opinberlega, að þeirri staðreynd þýði ekkert að mótmæla, því að það finni allir gjaldþegnar þessa þjóðfélags á öllum sviðum.

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja um þetta, enda situr sízt á mér að gera það, svo skjóta afgreiðslu sem hv. stjórnarandstæðingar vilja veita málinu.