17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Síðastliðinn vetur gerði ég hv. Alþingi grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1954. Það var bráðabirgðayfirlit og gert með fyrirvara, eins og vant er. Reikningur hefur nú verið saminn fyrir það ár, og hafa háttvirtir alþingismenn fengið í hendur aðalreikninginn.

Tekjur og gjöld á reikningnum eru aðeins hærri en á bráðabirgðayfirliti. Einkum sýndi það sig, að eftirstöðvar af tekjum urðu minni við lokauppgjör en gert var ráð fyrir.

Gjöld á rekstrarreikningi reyndust tæplega 5 millj. kr. hærri samtals en ráð var fyrir gert í yfirlitinu. Stafar sú hækkun nærri eingöngu af því, að til vegaviðhalds var notað 4.6 millj. kr. meira en gefið var upp, þegar bráðabirgðayfirlitið var samið. Hin raunverulegu fjárfestingarútgjöld á 20. gr. reyndust 1.6 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir, og er það vegna þess, að stjórn flugmálanna lagði þessa fjárhæð í framkvæmdir umfram það, sem gefið var upp til fjmrn., þegar bráðabirgðayfirlitið var samið.

Eins og sjá má af reikningnum, stóðst heildarútkoman fyllilega það, sem gert var ráð fyrir, og er raunar nokkru betri en bráðabirgðayfirlitið sýndi.

Þegar ég gaf bráðabirgðayfirlit um afkomuna 1954, gerði ég ekki mjög ýtarlegt yfirlit um skuldir ríkissjóðs og breytingar á þeim. Ég sé því ástæðu til þess að geta þess nú, að skuldir þær, sem ríkissjóður stendur sjálfur straum af, námu sem næst 175 millj. í árslok 1954. Þá tel ég ekki með í þeirri fjárhæð notaðar fjárveitingar, sem geymdar eru, né annað geymslufé, sem mér virðist ekki ástæða til að telja með skuldum í þessu sambandi. Sé þessi fjárhæð skuldanna borin saman við skuldirnar í ársbyrjun 1950, kemur í ljós, að skuldir þær, sem ríkissjóður stendur straum af, hafa lækkað um 70 millj. á 5 árum. Föstu lánin hafa verið borguð niður jafnt og þétt og nokkuð höggvið í lausar skuldir. Hefur ríkissjóður þó á þessu tímabili tekið nærri 25 millj. kr. lán í Landsbankanum vegna kaupa á tíu togurum.

Þensla, sem verið hefur í efnahagskerfi landsins þetta ár og þó einkum síðan kauphækkanirnar urðu s. l. vor, hefur aukið tekjur ríkissjóðs frá því, sem gera mátti ráð fyrir, þegar fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru sett, en þegar fjárlögin voru sett, var gert ráð fyrir stöðugu verðlagi, svo sem verið hafði þá nærfellt í þrjú ár.

Það sem af er árinu, hefur innflutningurinn verið um það bil 5% hærri en á sama tíma í fyrra, en svo virðist sem tollhærri vörur hafi verið fluttar inn tiltölulega meira en áður, því að tolltekjur hafa vaxið meira en um 5%. Kemur hér fyrst og fremst vafalaust til greina bílainnflutningurinn.

Of snemmt er að fullyrða, hvað tekjurnar muni verða á árinu, en vafalaust verða þær eitthvað yfir 600 milljónir. Ríkissjóður verður á hinn bóginn fyrir ýmsum óvæntum útgjöldum á árinu. Koma þar til hækkaðar launauppbætur, útgjöld vegna almennra verðhækkana, sem átt hafa sér stað, útgjöld vegna óhappa í samgöngumálum, umframgreiðslur til jarðræktarframkvæmda, vaxandi greiðslur til þess að borga niður dýrtíð með vaxandi neyzlu þeirra vara, sem niður eru greiddar, o. fl. o. fl., sem of langt yrði hér að telja að sinni. Þrátt fyrir allmikil aukaútgjöld virðist þó augljóst, að nokkur greiðsluafgangur verði á árinu.

Þá kemur hér til, að s. l. sumar varð eitt hið örðugasta til heyskapar um Suður- og Vesturland, er sögur fara af. Hlýtur hið opinbera að hlaupa undir bagga, þar sem verst er ástatt, á hliðstæðan hátt og tíðkazt hefur áður á síðari árum, þegar slík áföll hefur hent. Eru þau mál nú í deiglunni.

Því miður gefur þó þessi niðurstaða ársins, sem er að líða, ekki von um, að það verði létt hlutverk að afgreiða nú fjárlög fyrir næsta ár, svo gersamlega hefur nú skipt um í efnahagsmálum landsins. Kemur þetta glöggt fram, þegar ég gef yfirlit um fjárlfrv. og horfur almennt í sambandi við það.

Greiðsluafgangur ríkissjóðs á undanförnum árum hefur komið að stórkostlegu liði. Sumpart hefur hann verið notaður til þess að greiða fyrir hinum mest aðkallandi framkvæmdum í almannaþágu, en að því leyti sem hann hefur ekki verið borgaður út, hefur hann gengið til þess að höggva í lausaskuldir ríkissjóðs og þannig orðið til stórkostlegs stuðnings um leið við að mynda og halda við því jafnvægi í verðlagsmálum, sem hér stóð til mikilla hagsbóta fyrir alla nærfellt í þrjú ár.

Greiðsluafgangur undanfarinna ára hefur ekki náðst með skatta- og tollahækkunum. Skattar og tollar hafa þvert á móti verið lækkaðir nær því árlega eitthvað, sem kunnugt er. Tekjur ríkissjóðs hafa samt sem áður vaxið með vaxandi framleiðslu í landinu og greiðsluafgangur þá komið fram, blátt áfram vegna þess, að ríkisútgjöldunum hefur verið haldið í skefjum, þau hafa ekki vaxið að sama skapi og tekjurnar. Ríkisútgjöldin hafa sem sé ekki fylgt þeirri útþenslu, sem orðið hefur í landinu almennt á undanförnum árum. Þess vegna hefur greiðsluafgangur orðið ár eftir ár.

Ég kem þá að fjárlagafrv., sem fyrir liggur. Heildargreiðslur eru í frv. ráðgerðar 578 millj., en á núgildandi fjárlögum eru heildargreiðslur fyrirhugaðar 515 millj. Gjaldabálkurinn, að 20. gr. meðtalinni, er því 63 millj. kr. hærri í þessu frv. en í gildandi fjárlögum. Tekjubálkurinn er á hinn bóginn áætlaður 579 millj., og er það 63½ millj. hærra en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Fjárlagafrv. hækkar því stórkostlega frá fjárlögum þessa árs, og er það auðvitað í samræmi við það, sem allir hafa búizt við. Það alvarlegasta er, að því fer fjarri, að í þessu frv. séu öll kurl til grafar komin. Í frv. er t. d. hvorki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýrra laga um atvinnuleysistryggingar né nýrra launalaga, en um báða þessa lagabálka hafa verið gefin fyrirheit, sumpart í sambandi við verkfall það, sem háð var á s. l. vori, og sumpart í framhaldi af því. Ég mun nú gera nokkra grein fyrir helztu breytingum á þessu frv. frá gildandi fjárlögum.

Eitt fyrsta verkefnið, þegar semja á fjárlagafrv., er að gera sér grein fyrir því, með hvaða dýrtíðarvísitölu eigi að reikna. Þetta verður að ákveða strax að vorinu, því að undirbúningur fjárlagafrv. byrjar í júnímánuði í stofnunum og ráðuneytum. Rn. bað að þessu sinni hagstofustjóra að gera tillögu um, með hvaða vísitölu reikna skyldi í frv. Þetta gerði rn., þar sem tímabil hins stöðuga verðlags var sýnilega á enda og stórfelldar verðbreytingar fram undan. Hagstofustjóri taldi, að vegna kauphækkana, sem þá nýlega höfðu komið til framkvæmda, mundi vísítalan hækka um 8½–9 stig fyrir áramótin vegna hækkana á innlendum vörum og þjónustu, síðan mundi væntanlega koma önnur vísitöluhækkun snemma á næsta ári, og gerði hann ráð fyrir. að bein hækkun á vísitölunni vegna kauphækkananna yrði samtals 12½–13 stig. Taldi hann rétt að gera ráð fyrir 12 stiga hækkun á vísitölunni að meðaltali fyrir árið 1956, en vísitalan var 161 stig, þegar þetta álit var samið. Hefur því samkv. þessu í fjárlagafrv. verið gert ráð fyrir vísitölu 173 að meðaltali fyrir næsta ár. Í gildandi fjárlögum er á hinn bóginn gert ráð fyrir vísitölunni 158. Er því um að ræða hvorki meira né minna en 15 stiga hækkun á vísitölunni, og veldur það gífurlegri hækkun á fjárlagafrv.

Það liggur nú nokkuð ljóst fyrir, hver áhrif kauphækkanirnar hafa haft á innanlandsverðlagið í haust og þar með á verðvísitöluna, og kemur í ljós, að áætlun hagstofustjóra frá því í vor stenzt alveg — má heita nákvæmlega. Þá er einnig rétt að taka það fram, að hagstofustjórinn hafði einnig gert áætlun um áhrif kauphækkana á verðlagið, á meðan á verkfallinu stóð í vor sem leið, og komizt að svipaðri niðurstöðu. Var hlutaðeigendum öllum þetta fullvel ljóst þá þegar. Það er því næsta kátlegt, þegar þeir aðilar, sem þá öldu reistu, þykjast nú reka upp stór augu og undrast verðhækkanir innanlands, sem þó voru hverju mannsbarni fyrirsjáanlegar strax í vor og rækilega sagðar fyrir, svo rækilega, að tæpast mun hafa farið fram hjá nokkrum þeim, sem kominn er til vits og ára.

Í fyrravetur var nokkuð hækkuð grunnlaunauppbót til opinberra starfsmanna og afnumin vísitöluskerðing að nokkrum hluta. Þessar ráðstafanir, en þó alveg sérstaklega hækkun dýrtíðarvísitölunnar, sem ég var að greina frá, valda því, að launaútgjöld ríkisins í þessu frv. munu vera um 29 millj. kr. hærri en á gildandi fjárlögum.

Hér til viðbótar koma svo, þegar þar að kemur, nýju launalögin, sem mjög nauðsynlegt er að setja á þessu þingi til þess að samræma launakjör opinberra starfsmanna við önnur laun, eins og nú er komið.

Ekki er ástæða til þess að rekja hér fjölmarga einstaka liði frv. né breytingar á þeim frá gildandi fjárlögum, því að langflestar breytingarnar stafa einmitt af þessu, sem nú þegar hefur verið frá sagt. En nokkra liði er ástæða til að minnast á, einkum nýja liði eða eldri liði, sem hafa breytzt verulega af öðrum ástæðum en þeim, sem nú hafa verið greindar.

Gert er ráð fyrir, að vaxtaútgjöld ríkissjóðs lækki um 1 millj. 432 þús. Þessi liður hefur sífellt farið lækkandi á undanförnum árum, og veldur því lækkun þeirra skulda, sem ríkissjóður stendur sjálfur straum af, svo sem ég hef þegar drepið á.

12. gr., útgjöld vegna læknaskipunar og heilbrigðismála, hækkar stórkostlega ár frá ári. Valda því að verulegu leyti nýjar ráðstafanir í heilbrigðismálum. Í fyrra kom þar inn nýr liður: stóraukinn stuðningur til sjúkrahúsa. Í þessu frv. hækkar rekstrarhalli ríkisspítalanna um 4 millj. kr. Mjög stafar þetta af launahækkunum, en hér kemur einnig til, að auka á verulega starfrækslu landsspítalans, bæta þar við barnadeild og stækka handlækningadeildina, en hvort tveggja þetta mjög aðkallandi nauðsyn. Verður hægt að koma þessu í framkvæmd, þar sem hjúkrunarkvennaskólinn á að flytja í sitt nýja húsnæði á næsta ári. Þá tvöfaldast húsrými fávitahælisins í Kópavogi á næsta ári, og fylgir því að sjálfsögðu aukið starfslið og kostnaður. Þá fjölgar rúmum og sjúkrahúsum mjög ört, sem betur fer, og fleiri komast á sjúkrahús en áður af þeim, sem þess þarfnast. Aukast þá greiðslur ríkissjóðs vegna sjúkra manna og örkumla, en greiðslur til sjúkra manna af ríkisfé eru mjög bundnar við, að þeir fái sjúkrahúsvist. Þá setti síðasta Alþingi ný læknaskipunarlög, og er gert ráð fyrir, að þau auki útgjöldin um 400 þúsundir. Enn fremur var á síðasta þingi breytt lögum um heilsuverndarstöðvar, og er ráðgert, að sú breyting hafi í för með sér 500 þús. kr. hækkun á ríkisútgjöldum.

Allar þessar ráðstafanir í heilbrigðismálum eru mjög þarfar og ánægjulegt, að þær komast í framkvæmd, og enginn vafi er á því, að frekari átaka er þörf, enda standa menn í stórræðum í þessum efnum víðar, þótt mesta átakið sé hin stórfellda stækkun landsspítalans, sem nú er unnið að. Þessum framkvæmdum ber að fagna af heilum hug. Jafnframt er mönnum skylt að minnast þess, að aukin heilbrigðisþjónusta og önnur slík þjónusta kostar fé, þótt því sé síður en svo á glæ kastað. Gallinn er bara sá, að sú hlið málanna vill stundum gleymast, þegar menn bölsótast út af ríkisútgjöldum og sköttum.

Þá er rétt að minnast á 13. gr. B, samgöngur á sjó. Rekstrarhalli strandferðanna er í frv. áætlaður 4½ millj. kr. hærri en í fjárlögum þessa árs, en þó nokkru lægri en áætlun forstjórans. Hér kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi stórfelld hækkun á útgjöldum vegna launahækkana, því að síðan undirbúningur núgildandi fjárlaga fór fram, hafa margir nýir kjarasamningar verið gerðir, sem snerta launagreiðslur á sjó. Hafa allir þessir samningar haft í för með sér verulegar hækkanir á kaupi áhafna á skipum og ýmis aukin fríðindi. Þá hækkar fæðiskostnaður verulega. Óhjákvæmilegt er að framkvæma flokkunarviðgerð á tveimur skipum, og er kostnaður við þetta áætlaður 750 þús. umfram venjulegt viðhald. Hins vegar hefur ekki þótt fært að hækka fargjöld eða farmgjöld með skipunum til þess að vega á móti þessum auknu útgjöldum. Þykir verða að láta dreifbýlinu í té strandferðaþjónustuna gegn óbreyttum gjöldum á næsta ári, þótt það þýði aukna byrði fyrir ríkið.

Þá er að minnast fáum orðum á 14. gr. B, kostnað við kennslumál. Sú grein hækkar í frv. um 12 millj. 4½ þús. frá gildandi fjárlögum. Hér koma launahækkanir fyrst og fremst til greina og stöðug fjölgun starfsmanna frá ári til árs vegna fjölgunar á nemendum. Hér hefur einn liður hækkað sérstaklega, og það er kostnaður við iðnfræðslu. Á síðasta þingi var lögfest, að ríkissjóður skyldi taka á sig hliðstæðan kostnað við iðnfræðslu og hann hefur borið vegna gagnfræðamenntunar. Þetta hefur verulega útgjaldaaukningu í för með sér. Vex kostnaðurinn um liðlega eina milljón á næsta ári vegna nýju laganna. Þá er á þessari grein einnig nýr liður vegna löggjafar frá síðasta Alþingi um aukin framlög til almenningsbókasafna. Áður hefur að vísu verið veitt fé til bókasafna og lestrarfélaga, en samkv. nýju lögunum hækka þessi framlög um 782 þús. á ári, eins og nú horfir. Að öðru leyti er hin gífurlega hækkun á 14. gr. B, kennslumálum, vegna árlegrar útþenslu í fræðslukerfinu í samræmi við fólksfjölgun í landinu og að einhverju leyti vegna bættrar aðstöðu til gagnfræðamenntunar og framhaldsmenntunar og svo vegna hækkunar á launum.

Þá er 16. gr. A, gjöld til landbúnaðarmála. Gjöld samkv. jarðræktarlögunum hækka mjög verulega vegna breytingar á framlögum til jarðræktar og framræslu. Hækkar framlag ríkissjóðs til þessara mála um 3 millj. og 300 þús., ef gert væri ráð fyrir sömu framkvæmdum og urðu 1954. En komið hefur í ljós, að framlag vegna jarðræktar og framræslu hefur verið of lágt sett í fjárlögin undanfarið, framkvæmdir meiri ár frá ári en gert var ráð fyrir, og þykir ekki fært annað en að hækka þennan lið um 4 millj. og 800 þús. frá því, sem er í gildandi fjárlögum, en þar af eru vegna nýju laganna 3 millj. og 300 þús., eins og ég sagði áðan.

Lögboðinn hluti ríkissjóðs af kaupi héraðsráðunauta hækkar um 220 þús. samkv. lagabreytingum frá í fyrra, frá síðasta þingi, og framlag til kaupa á jarðræktarvélum hækkar um 400 þús. kr. samkv. lögum frá sama Alþingi. Á hinn bóginn er lækkaður í frv. kostnaðurinn við sauðfjársjúkdómavarnirnar um 1 millj. 333 þús. kr., en sá liður hlýtur að breytast gersamlega og verða að hækka á ný, þar sem í ljós hefur komið nauðsyn fjárskipta á nokkru svæði, frá því að frv. var samið.

Í sambandi við 16. gr. B, til sjávarútvegsmála, er ástæða til að minnast á tvennt. Í fyrsta lagi er hér nýr liður: framlag til fiskveiðasjóðs Íslands samkv. lögum, er sett voru um sjóðinn á síðasta Alþingi. Þetta framlag nemur 2 millj. kr. árlega, og eru 2 millj. á fjárlagafrv. Þá er enn hækkuð fjárveiting til þess að gera tilraunir með nýjar síldveiðiaðferðir. Mestur hluti þessarar fjárveitingar er notaður til að gera út varðskipið Ægi til fiski- og síldarrannsókna. Þarf að búa skipið enn betri rannsóknartækjum en gert hefur verið fram að þessu. Einnig er nokkuð af þessari fjárveitingu notað vegna tilrauna til að veiða síld með nýjum aðferðum.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á, að á 15. gr. B er gert ráð fyrir nokkuð auknum kostnaði við fiskideild atvinnudeildar háskólans. Stendur þetta í raun og veru allt saman í sambandi hvað við annað. Gert er ráð fyrir að fjölga þar starfsliði við fiskideildina. Þetta er í sambandi við áherzlu þá, sem lögð hefur verið á og lögð er á að auka haf- og fiskirannsóknir, fiskveiðitilraunir og fiskimiðaleit. Jafnframt því sem fé er lagt til útgerðar skipa í þessu skyni, bæði Ægis og rannsóknarskipsins Maríu Júlíu, þarf að efla liðskost í landi til þess að vinna úr þessum rannsóknum.

Undanfarið hafa verið síauknar fjárveitingar til þessara mála, enda mun vandfundin betri ávöxtun fjár fyrir þjóðina en rannsóknir þessar og tilraunir. Reynsla okkar og reynsla annarra sýnir þetta glöggt. Lítur út fyrir, að af þessu starfi öllu ætli að verða glæsilegur árangur. M. a. vegna þessa starfs er viðhorf til síldveiða nú mjög að breytast, möguleikar að skapast til þess að ná síldinni með ýmsu móti, sem áður hefur verið talið óframkvæmanlegt. Mætti nú segja mér, að á næstu árum yrðu enn stórfelldari breytingar til bóta í þessu tilliti en við höfum átt að fagna undanfarið. Hefur verið reynt að hlynna að þessu starfi og fiskirannsóknum yfirleitt með auknum fjárveitingum, og er stefnan enn hin sama í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Á 16. gr. B eru tveir nýir liðir, sem ástæða er til að minnast á. Það er fyrst fjárveiting til kaupa á jarðbor, 1 millj. 250 þús. kr., og 1 millj. kr. fjárveiting til þess að starfrækja þennan bor.

Okkur er brýn nauðsyn að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsins, og þjóðin á mikið undir því að geta notfært sér alla þá möguleika til hins ýtrasta, sem náttúran býður. Ómögulegt er að koma þessu við, nema þjóðin eigi góð rannsóknartæki. Vísindamenn okkar hafa sýnt fram á, að ómögulegt er að komast eftir því, hvaða verðmæti við eigum í iðrum jarðar, með tilstyrk þeirra ófullkomnu tækja, sem við nú höfum til þess að beita fyrir okkur í því efni. Djúpboranir, sem svo eru kallaðar, eru ekki mögulegar með þeim tækjum, sem við höfum nú, þótt þau hafi reynzt gagnleg eigi að síður. Til þess að vita, upp á hvað hin dýpri jarðlög hafa að bjóða, verður því svo að segja hvað sem það kostar að kaupa og starfrækja fullkomnari jarðbor. Verkefni fyrir slíkan jarðbor bíða nú víða og eru svo að segja ótæmandi. Gert er ráð fyrir, að hinn nýi bor kosti eitthvað yfir 2 millj. kr. Þótt hér sé ekki veitt öll fjárhæðin, er vonast eftir því, að hægt verði að kaupa bor strax í vetur. Áætlað er, að það kosti um 2 millj. kr. á ári að starfrækja þetta tæki og að litlar beinar tekjur komi upp í þann kostnað fyrst um sinn að minnsta kosti. Fjárveiting sú, sem sett er á frv. til þess að starfrækja borinn, er því miðuð við, að hann verði í notkun hálft næsta ár.

Á gildandi fjárlögum er 6 millj. kr. aukaframlag til almannatrygginganna. Var það sett vegna rekstrarhalla trygginganna og vegna þess, að nokkuð vantaði á, að ríkissjóður hefði undanfarið borið 1/3 af tryggingaútgjöldum, svo sem í öndverðu var byggt á. Í frv. er ekki gert ráð fyrir aukaframlagi til trygginganna, þar sem þessi mál eru öll í deiglunni nú sem stendur. Hætt er þó við, að auka verði fjárveitingu til trygginganna, áður en frá fjárlögunum verður gengið, eftir nýjustu tíðindum um afkomu þeirra.

Á 19. gr. er liður til dýrtíðarráðstafana. Lagt er til, að þessi liður hækki um 7 millj. og 900 þús. Samt er gert ráð fyrir óbreyttum niðurgreiðslum á næsta ári frá því, sem nú er, en þetta fé gengur allt til þess að greiða niður verð á innlendum afurðum. Neyzla innlendra afurða í landinu fer á hinn bóginn stöðugt vaxandi, sem betur fer, og þar með hækkar sú fjárhæð, sem verja verður til þess að greiða niður verðið að óbreyttum reglum. Þá hefur það komið í ljós undanfarið, að þessi liður hefur alltaf verið of lágt áætlaður, aldrei verið gert ráð fyrir eins mikilli aukningu á sölunni og orðið hefur.

Þá er nýr liður á 1.9. gr., sem nefndur er „til aukningar löggæzlu og tollgæzlu“, 1 millj. kr. Það er yfirleitt kvartað um ófullnægjandi löggæzlu með vaxandi þéttbýli og aukinni umferð. Brýn þörf er einnig að efla tollgæzluna. Þessi mál eru öll í athugun hjá fjmrn. og dómsmrn., en þeim athugunum var ekki svo langt komið, þegar gengið var frá fjárlagafrv., og er ekki enn, að leitað verði sundurliðaðrar fjárveitingar til úrbóta í þessum málum. Til dæmis er það ekki ljóst enn, að hve miklu leyti hægt verður að nota aukinn mannafla bæði til tollgæzlu og löggæzlu. Þar sem þessi mál standa þannig, er það ráð tekið að setja einn lið á fjárlögin til aukningar löggæzlu og tollgæzlu og gert ráð fyrir, að þeirri fjárveitingu verði varið til þessara mála með samkomulagi þeirra tveggja ráðuneyta, sem hér eiga hlut að máli.

Þá er þessu næst rétt að benda á, að fjárveitingar til nýrra vega, vegaviðhalds, fjárveitingar til skólabygginga og til fjárfestingarútgjalda yfirleitt með sárafáum undantekningum, sem ég kem að sumum hér á eftir, eru óbreyttar að krónutölu í þessu fjárlagafrv. frá því, sem þær voru í gildandi fjárlögum.

Vegna þeirra kauphækkana og verðhækkana, sem orðnar eru og verða, þýðir þetta, að fjárveitingar til fjárfestingarmála eru í raun og veru lækkaðar í þessu frv. allmikið frá því, sem þær eru í gildandi fjárlögum. Treystir ríkisstj. sér ekki til að hækka þessar fjárveitingar að krónutölu frá því, sem þær eru nú, miðað við hið ískyggilega útlit um afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga fyrir næsta ár og einnig með sérstöku tilliti til þeirrar gífurlegu fjárfestingar, sem nú á sér stað af hálfu annarra aðila. Það skal einnig tekið fram í þessu sambandi, að til þess að reyna að draga nokkuð úr fjárfestingunni hefur ríkisstj. á yfirstandandi ári látið undir höfuð leggjast að nota ýmsar fjárveitingar til bygginga í Reykjavík, og verða þær fjárhæðir geymdar og notaðar til þessara framkvæmda, þegar möguleikar eru á að koma þeim áleiðis.

Undantekningar frá hinni almennu reglu í frv. um fjárveitingar til fjárfestingarmála eru þessar helztar:

Til eignaaukningar landssímans er gert ráð fyrir 1 millj. kr. hærri fjárhæð en í gildandi fjárlögum. Er þar stærsti liðurinn 400 þús. kr. fjárveiting til stuttbylgjusambands við Hornafjörð. Er þar um að ræða skref í þá átt að koma á bættu símasambandi við Austurland.

Þá er liðurinn til flugvallagerðar hækkaður um 700 þús. Þótti það óhjákvæmilegt, miðað við verkefni þau, sem fyrir liggja. Til bygginga á prestssetrum er fjárveiting hækkuð um 600 þús. kr. Loks er tekinn inn nýr liður, framlag til tollgæzluhúss í Reykjavík, 850 þús. kr. Er óhjákvæmilegt að byrja að leggja fé til hliðar til þessarar byggingar, þar sem telja má ókleift að halda uppi fullnægjandi tollgæzlu við þau skilyrði, sem nú eru.

Ég hef þá rakið gjaldahlið fjárlagafrv. í höfuðdráttum og getið um helztu nýja liði í frv. Gjaldabálkurinn á rekstrarreikningi frv. er um 59 millj. og 300 þús. kr. hærri en í gildandi fjárlögum. Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, eru höfuðorsakir þessarar hækkunar sem hér segir.

1) Launagreiðslur hækka um 29 millj. kr.

2) Hækkanir vegna löggjafar frá síðasta Alþingi nema um 12 millj. kr.

3) Hið lögákveðna framlag til almannatrygginganna hækkar um 4 millj. kr. vegna hækkandi vísitölu.

4) Framlag til þess að greiða niður vöruverð hækkar um 7 millj. og 900 þús. kr.

5) Veitt til kaupa og rekstrar á jarðbor 2 millj. og 200 þús. kr.

Þessar eru sem sé höfuðástæður fyrir hækkun fjárlagafrv.

Ég kem þá að tekjubálki frv.

Eins og ég gat um áðan, eru tekjur í frv. áætlaðar 579 millj., eða 63½ millj. kr. hærri en á gildandi fjárlögum. Þessi mikla hækkun tekjuáætlunarinnar er að nokkru leyti byggð á reynslunni á þessu ári. Mest er hækkunin á tekju- og eignarskatti. Er ráðgert, að hann hækki um 30 millj. Er augljóst, að skattskyldar tekjur verða að krónutölu hærri í ár en undanfarið vegna kauphækkana, sem orðið hafa, og vegna þeirrar miklu yfir- og næturvinnu, sem nú á sér stað. Þá er nokkuð hækkuð áætlun verðtolls og söluskatts. Tekjuáætlun þessa er sjálfsagt að endurskoða í samráði við fjvn. síðar í haust, ef betur skyldi þá sjást en þegar er orðið, hvernig stefnir, en stórfelldar breytingar hygg ég tæpast að á henni verði gerðar.

Eins og fjárlagafrv. liggur fyrir, eru greiðslur samanlagðar svo að segja jafnar tekjunum. Mættu teljast sæmilegar horfur um afgreiðslu fjárlaganna, ef þessi niðurstaða væri alveg rétt mynd af horfunum. En því miður er ekki því til að dreifa, eins og ég gat um áðan, og tel ég nauðsyn að gera því atriði nokkru nánari skil.

Í frv. eru samkvæmt venju ekki sett önnur lögboðin útgjöld en þau,sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Á hinn bóginn gaf ríkisstj. og stjórnarflokkarnir fyrirheit um, til þess með því að reyna að leysa verkfallshnútinn s. l. vor, að sett yrði ný löggjöf um atvinnuleysistryggingar. Hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls, en frv. um það efni liggur þó ekki fyrir enn þá. Við þetta heit verður að sjálfsögðu staðið, og er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram í atvinnuleysistryggingasjóð 2% af kaupgjaldi. Var s. l. vor ráðgert, að hluti ríkissjóðs til tryggingasjóðsins yrði ekki langt frá 14 millj. kr. á ári.

S. l. vetur gaf ríkisstj. fyrirheit um það, að hún mundi beita sér fyrir setningu nýrra launalaga á því þingi, sem nú er að byrja. Verður frv. til nýrra launalaga lagt fyrir Alþingi nú á næstunni. Öllum er ljóst, að ný launalög hljóta að auka útgjöld ríkisins, þar sem óhjákvæmilegt er að færa laun opinberra starfsmanna til meira samræmis við önnur laun í landinu en nú eru þau. Leiðir þetta blátt áfram af þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á launum almennt nú upp á síðkastið. Verður kostnaður við þessa nýju lagasetningu áreiðanlega eitthvað yfir 20 millj. kr.

Þá er unnið að endurskoðun almannatryggingalaganna, svo sem ég vék að áðan. Þeirri endurskoðun er að vísu ekki lokið, en nokkuð langt komið. Að vísu geri ég tæpast ráð fyrir, að það verði talið fært að setja ný almannatryggingalög, sem hafi í för með sér útgjaldaaukningu frá því, sem nú er, umfram þá stórfelldu útgjaldaaukningu, sem leiðir af kauphækkunum og verðhækkunum, sem eru að verða. En eins og ég gat um áðan, þá er ekki í frv. gert ráð fyrir því aukaframlagi til Tryggingastofnunarinnar, sem er í gildandi fjárlögum og á yfirstandandi ári nemur 6 millj. kr. Þætti mér því ekki ólíklegt, eins og ég sagði áðan, að óhjákvæmilegt yrði, hvað sem líður setningu nýrra laga um almannatryggingar, að ríkissjóður yrði að leggja fram hærri fjárhæð til trygginganna en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Þá vil ég loks benda á það, að þótt fjárveiting til vegaviðhalds sé látin standa eins og hún er í gildandi fjárlögum, 25 millj. kr., þá er augljóst, að með þeirri hækkun á kaupgjaldi, sem orðin verður á næsta ári vegna hækkandi vísitölu, verður óhugsandi að halda vegakerfinu í viðunandi ástandi fyrir þessa fjárhæð á næsta ári. Það er því augljóst, að gjaldahlið þessa fjárlagafrv. á eftir að hækka um marga milljónatugi.

Hv. Alþingi verður hér að horfast í augu við afleiðingar þess, sem gerzt hefur í efnahagsmálunum, og þarf það engum á óvart að koma, svo rækilega sem það var allt brýnt fyrir mönnum s. l. vetur og s. l. vor. Með kauphækkunum þeim, sem áttu sér stað s. l. vor, var brotið blað í efnahagsmálum. Fram að þeim tíma höfðum við um nær þriggja ára skeið búið við stöðugt verðlag, greiðsluafgang ríkisins, lækkandi skatta og tolla og stóraukinn almennan sparnað, sem gat orðið upphaf þess, að úr rættist þeirri „krónísku“ lánsfjárkreppu, sem við höfðum búið við svo lengi. En nú verða menn að horfast í augu við síhækkandi verðlag, minnkandi sparnað, stóraukin ríkisútgjöld og standa nú frammi fyrir því, að það verður ekki hægt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án þess að auka tekjurnar með hækkuðum tollum eða sköttum eða nýjum álögum í einhverri mynd í fyrsta skipti um langan tíma.

Þegar menn sjá hina miklu hækkun, sem nú verður á fjárlögunum, er eðlilegt, að mönnum detti í hug, hvort ekki væri unnt að lækka eða fella niður einhverja meiri háttar kostnaðarliði ríkisins. Þetta atriði hefur mjög oft og ýtarlega verið rætt hér á hv. Alþingi á undanförnum árum. Vitaskuld þarf að viðhafa stöðuga sparnaðarviðleitni í rekstri ríkisins, koma honum eins skipulega og hagkvæmt fyrir og frekast er auðið. Er sönnu næst, að ætið er lagt mikið starf í þetta, ekki sízt fyrir atbeina fjmrn.

Á árinu 1954 gekkst ég fyrir því, að sett var á fót nefnd til þess að rannsaka gaumgæfilega gjaldahlið fjárlaganna og ríkisreikningsins með það fyrir augum að benda á leiðir til sparnaðar. Var einn fulltrúi í nefndinni af hendi hvers ráðh. í ríkisstj. Þessi nefnd hefur nú fyrir nokkrum dögum skilað áliti, sem sent hefur verið til ráðuneytanna. Eru þar allýtarlega rædd ýmis atriði, sem nefndin hefur athugað í þessu sambandi, og ýmsar ábendingar gefnar um starfrækslu ríkisins. Nál. þetta mun fjvn. að sjálfsögðu fá til afnota við sitt starf. Á hinn bóginn þykir mér ástæða til að taka það fram strax, að niðurstaða þessarar athugunar, sem fram hefur farið á útgjöldum ríkissjóðs, staðfestir þá skoðun, sem áður hefur þráfaldlega verið rökstudd hér á Alþingi, að enginn kostur er þess að lækka eldri útgjaldaliði í starfrækslu ríkisins, svo að verulega muni um til lækkunar á heildarútgjöldum þess, nema með því að færa niður þær greiðslur, sem inntar eru af höndum til verklegra framkvæmda, til styrktarstarfsemi og til þess að halda uppi margs konar þjónustu í þágu almennings, eða þá með því að hætta að greiða niður verðlag á vörum innanlands, sem vitaskuld mundi hafa í för með sér tilsvarandi verðhækkanir. Fram hjá þessu verður ekki með nokkru móti komizt.

Í þessu sambandi er einnig rétt að geta þess, að það er síður en svo, að stefna Alþingis undanfarið hafi miðað í þá átt að draga úr lögboðnum útgjöldum ríkisins til þess að koma slíkri lækkun á ríkisútgjöldunum í framkvæmd, og þarf ekki langt að seilast eftir dæmum um það, þar sem síðasta Alþingi samþykkti nýja útgjaldalöggjöf, sem samtals hækkaði útgjöld ríkisins um 12 millj. á þessu ári og þó mun meira þegar frá líður.

Afleiðingar þess, sem skeði á s. l. vetri, eru ekki aðeins augljósar á því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, heldur speglast þær alls staðar í efnahagslífinu.

Þegar sýnt var í vor, að efnahagskerfið var að ganga úr skorðum á nýjan leik, reis fjárfestingaralda sú, sem byrjuð var að rísa, áður en sjálf þáttaskilin urðu eftir verkföllin, enn þá hærra en áður. Segja má, að við höfum búið í sumar við eins konar „fjárfestingarpanik“, ef nota mætti það orð, þar sem menn láta vinna við ljós á kvöldum og um nætur til þess að koma lausu í fast, eins og það er orðað, eða til þess að komast sem lengst í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, áður en afleiðingar kauphækkananna í vor næðu að koma fram að fullu í byggingarkostnaðinum. Þessi „panik“ hefur svo vitaskuld átt sinn þátt í því að gera ástandið mun erfiðara en ella, aukið þensluna og verðbólguhættuna um allan helming og stórhækkað byggingarkostnaðinn. Sparifjárinnlög hafa einnig vaxið mun minna en í fyrra og hittiðfyrra. Þannig hefur spariféð aukizt á þessu ári frá 1. jan. til ágústloka um 95 millj., en á sama tíma árið 1954 um 148 millj. og í hittiðfyrra, árið 1953, um 121 millj. á sama tíma. Útlán bankanna hafa á hinn bóginn stóraukizt á árinu.

Það hefur lítið stoðað til þess að vega upp á móti þessum ósköpum, þótt áhrif ríkissjóðs á fjárhagskerfið hafi verið hagstæð á árinu vegna góðrar afkomu hans og sömuleiðis þótt ríkisstj. hafi látið ónotaðar ýmsar fjárveitingar til byggingarframkvæmda í Reykjavík og staðið á móti því, að lagt verði í ýmsar stórbyggingar í höfuðstaðnum, þar sem mest hefur verið um að vera.

Þetta nýja upplausnarástand í efnahagsmálum hófst fyrir alvöru, þegar kommúnistar voru leiddir til valda í verkalýðssamtökunum haustið 1954, því að þá þóttust margir sjá, hversu fara mundi um verðlagsmálin, og sá hugsunarháttur festist að ekki mætti láta fjárfestingar né innkaup bíða stundinni lengur. Magnaðist þetta þó um allan helming við kauphækkanirnar s. l. vor. Verkuðu þær að sjálfsögðu sem olía á eld, þar sem verðhækkanir og nýjar kauphækkanir aftur vegna þeirra voru þá auðreiknaðar hverjum manni.

Það er víst alls ekkert ofsagt, að almenningur í landinu hagnist síður en svo á þessu ástandi, allra sízt launþegarnir yfirleitt, eins og raunar var alltaf fyrir séð, enda ekki refirnir til þess skornir. Það eru allt aðrir, sem græða á því ástandi, sem við nú búum við. Það eru verðbólgubraskarar, sem reyna að nota upplausnarástandið á margvíslegan hátt til þess að skara eld að sinni köku, og tækifærið hefur enn einn sinni verið lagt þeim upp í hendurnar. Enn sem komið er gengur framleiðslan þrátt fyrir það, sem skeð hefur, en þar brennur þó eldurinn heitast. Framleiðslukostnaður fer mjög vaxandi á öllum sviðum, enda verður kaupgjald nú í byrjun næsta árs orðið um 20% hærra en fyrir verkfallið.

Þær greinar framleiðslunnar, sem áður höfðu gengið án styrks eða uppbóta, eru nú sem óðast að komast á slíkar uppbætur eða tilkynna stöðvun sína fram undan, ef ekki verði ráðstafanir gerðar til þess að jafna metin. Faxasíldin fær uppbætur stórum meira en áður. Landbúnaðinum hefur verið heitið útflutningsuppbótum til jafns við bátaútveginn. Það er vitað mál, að frystihús þau, sem aðallega taka á móti smáfiski, eru að stöðvast og geta ekki keypt fisk við því verði, sem hann hefur verið seldur innanlands, en lækkun á fiskverði til sjómanna og útgerðarmanna kemur ekki til mála. Togaraútgerðinni er fleytt áfram með álagi á innflutta bíla, en gjaldeyrir til þeirra kaupa sagður mjög á þrotum og uppbótarfé ekki fyrirliggjandi nema fram í marzlok, að því er manni skilst, að óbreyttum stuðningi við útgerðina.

Það væri synd að segja, að kommúnistar hefðu ekki náð þeim tilgangi sínum frá í vor að skapa ný vandamál, sem erfitt mundi að leysa. Að því leyti hafa þeir ástæðu til þess að vera ánægðir. Það sýnir ástandið, eins og það er nú, og verkefni þau, sem fram undan eru og ég hef lauslega drepið á. Aftur á móti er ég ekki viss um, að kommúnistar hafi af þessu eins mikinn ávinning og þeir fyrir fram töldu líklegt. Ég held sem sé, að fleirum og fleirum sé að verða ljóst samhengi þessara mála og hverri lukku það muni stýra, eða hitt þó heldur, að láta þá hafa áfram stjórn alþýðusamtakanna í landinu og halda verkalýðnum þannig frá allri þátttöku í ábyrgu þjóðmálastarfi.

Ég held, að fleiri og fleiri sjái æ betur og betur, hver hamingja af því muni stafa, eða hitt þó heldur, ef kommúnistum verður látið haldast uppi að beita hinum miklu áhrifum verkalýðssamtakanna einhliða þannig, að verði vatn á myllu upplausnar og fjármálabrasks, í stað þess að áhrif verkalýðsins komi að notum við uppbyggingarstarf, sem efli framfarir og bæti lífskjör.

Það sýnir m. a., hvernig augu margra eru að opnast gagnvart þessum verðbólgu- og vísitöluleik, sem leikinn er, að starfsfólk í fyrirtæki einu í Danmörku neitaði nú fyrir skemmstu að taka á móti nýrri vísitöluuppbót, sem það átti rétt á að fá vegna almennrar verðhækkunar. Með þessu vildi fólkið á kröftugan og eftirminnilegan hátt gefa til kynna þann skilning sinn, að hinar sífelldu kauphækkanir og verðlagshækkanir á víxl væru ekki til hagsbóta fyrir launþegana almennt, það yrði að finna aðrar leiðir. Það verður skýrara og skýrara fyrir mönnum, að kauphækkanir einar tryggja mönnum ekki betri lífskjör. Þar þarf fleira að koma til. Þar þurfa m. a. að koma til áhrif og samstarf alþýðusamtakanna í jákvæðu þjóðmálastarfi.

Ég vil þá þessu næst minnast á framkvæmdir ýmsar, sem ríkisvaldið er riðið við, og útvegun fjár til þeirra. Er þar efst á blaði sementsverksmiðjan. Málefnasamningur flokkanna við stjórnarmyndunina ákveður, að útvegun lánsfjár til rafmagnsframkvæmdanna í dreifbýlinu skuli sitja fyrir öllu öðru en lánsútvegunum til sementsverksmiðjunnar. Sementsverksmiðjan er því önnur af tveimur forgangsframkvæmdum ríkisstjórnarinnar.

Unnið hefur verið langa hríð að útvegun erlends láns fyrir erlendu efni og vélum til sementsverksmiðjunnar og væntum við fastlega, að það takist nú næstu daga að ganga endanlega frá láni fyrir hinum erlenda hluta stofnkostnaðarins. Lánsútvegun þessi hefur mjög dregizt á langinn, og teljum við þó á engan hátt hægt að ásaka ríkisstj. né starfsmenn hennar, sem að þessum málum vinna, fyrir þann mikla drátt, sem orðið hefur. Verður nánar frá þessari fjárútvegun skýrt, þegar alveg sér fyrir endann á málinu.

Við þurfum áreiðanlega á nokkru erlendu lánsfé að halda til þess að framkvæma raforkuáætlun dreifbýlisins með þeim hraða, sem nú er fyrirhugaður. Hefur ekki enn verið gengið frá þeim málum, en ætlunin var að athuga um erlendar lántökur til þeirra í sambandi við véla- og efniskaup til stærstu veitnanna. Eru tilboð nú nýkomin, og verður því vonandi hægt að ganga frá þessari hlið málanna nú alveg á næstunni. Annars er um raforkumálin það að segja, að séð verður um, að þær framkvæmdir komist á samkvæmt áætlun þeirri, er gerð var við stjórnarmyndunina.

Þá vil ég minnast á ræktunarsjóð og fiskveiðasjóð. Alþingi hefur nýlega sett löggjöf varðandi þessa sjóði báða, breytti ræktunarsjóðslöggjöfinni, gerði ráð fyrir nokkuð auknum útlánum til útihúsabygginga og setti nýja löggjöf um fiskveiðasjóð, þar sem gert er ráð fyrir auknum lánum út á nýja báta og skip. Ríkisstj. hefur í samráði við Alþingi haft uppi ráðagerðir um öflun fjár til þessara sjóða og heitið þeim fé.

Í trausti þess hafa menn lagt í framkvæmdir í sveitum og gert samninga um smíði og kaup á nýjum fiskibátum. Menn vita, að ríkisstj. hefur haft í huga þá aðferð við fjáröflun til þessara sjóða, að Framkvæmdabankinn leitaði til Alþjóðabankans um lán, sem gætu orðið endurlánuð sjóðunum. Á hinn bóginn hefur verið þannig ástatt undanfarið og er þannig enn, að Alþjóðabankinn hefur viljað vita, hvernig lántökum til sementsverkmiðjunnar yrði fyrir komið, áður en hann léði máls á frekari lánveitingum til Íslendinga, en sementsverksmiðjan hefur verið önnur sú framkvæmd, sem ríkisstjórnin og flokkar þeir, sem hana styðja, hafa viljað láta sitja fyrir öllu öðru, eins og ég sagði áðan. Af þessum ástæðum hefur blátt áfram ekki verið mögulegt fram að þessu að vinna að lántökumálum ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, enda þótt þau hafi verið lögð fyrir Alþjóðabankann og skýrð fyrir honum.

Þegar sementsmálið er leyst, verður farið á stúfana á nýjan leik með mál ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs og ef til vill fleiri mál og reynt að fá þeim hraðað eftir föngum. En Alþjóðabankinn hefur þann hátt á að kynna sér sem bezt fjárhagsástæður í þeim löndum, sem óska eftir lánum, áður en til úrslitaumræðunnar kemur um lánbeiðnir, og tekur það sinn tíma. Nú þyrftum við að fá erlent lánsfé handa ræktunarsmíði og fiskveiðasjóði einmitt til þess að mæta útlánaþörf þeirra á þessu hausti og framan af vetri, vegna þess að það væri mjög slæmt að þurfa að leysa fjárþörf þeirra öðruvísi, eins og nú er ástatt í fjárhagsmálum landsins. Ég vil engu spá um, hvort þetta tekst, og er raunar orðinn svartsýnn á, að svo verði, vegna þess, hve þessi mál hafa dregizt. Fari svo, að við fáum ekki erlend lán í tæka tíð, verður að efna heitin við þessa sjóði með innlendu fé. Verður þá sennilega sem fyrr þrautalendingin að taka af greiðsluafgangi ríkissjóðs. Er það þó neyðarúrræði að setja greiðsluafganginn í umferð, svo sem nú standa sakir, sem allir munu sjá. Að mínum dómi verður þó svo að gera, ef þetta mál leysist ekki á annan hátt.

Þegar við sjáum, hvernig ástatt er og á hve tæpt vað er hér teflt, t. d. í lánamálum ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, þá mætti okkur einnig verða hugsað til þess, hvernig ástatt væri, ef ríkisbúskapurinn væri rekinn með halla ofan á allt annað eða væri í engu aflögufær, og gefur það einnig hugmynd um, hvernig ástatt yrði, ef svo yrði um hnútana búið, að ekki reyndist lengur kleift að afgreiða sæmilega sterk fjárlög.

Sumir velta því fyrir sér, hvort við þurfum á erlendu lánsfé að halda eða ekki. Frá mínu sjónarmiði er auðvelt að svara því. Við þurfum mjög á erlendu lánsfé að halda á næstu árum, ef við eigum að geta haldið áfram þeirri stórfelldu uppbyggingu, sem hér á sér stað og verður að eiga sér stað á næstunni. Nægir í því sambandi að minna enn á ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð og þau verkefni, sem þessir sjóðir eiga að leysa, þá raforkumálin, bæði dreifbýlisáætlunina og hina nýju virkjun Sogsins, sem nú stendur alveg fyrir dyrum, ef vel á að fara. Þá eru skipakaup, hitaveitur, jarðhitaorkuver, vatnsorkuver til stærri átaka og iðjuver, sem ókleift er upp að telja, o. s. frv.

Framkvæmdir hafa verið hér gífurlega miklar á undanförnum árum. Þær hafa að mjög verulegu leyti byggzt á þjóðartekjunum sjálfum, en einnig mjög á erlendu fé, bæði lánsfé og gjafafé, sumar stærstu framkvæmdirnar. Það eru til um þetta mjög merkilegar upplýsingar, sem hafa komið út á vegum Framkvæmdabankans. Samkv. þeim upplýsingum hefur erlent ráðstöfunarfé til fjárfestingarmálanna numið 31% af fjármunamyndun ársins 1950, 31% árið 1950, 25% árið 1951, 18% árið 1952, 13% árið 1953, en árið 1954 6.7%. Þetta sýnir, að við höfum notað mjög mikið erlent fé á undanförnum árum, en þó hefur það farið hraðminnkandi, enda herðir nú mjög að um fjárútvegun til ýmissa framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru. Þetta gefur auga leið um það, að ef við ætlum ekki að láta undan síga í þessum efnum, þá þurfum við á verulegu erlendu fjármagni að halda. Þótt við getum aldrei byggt fjárfestingu okkar nándar nærri einvörðungu á erlendu lánsfé, þá verðum við samt að reyna að haga málum þannig, að við getum átt kost á lánsfé erlendis á næstu árum.

Það er á hinn bóginn óhætt að fullyrða, að takist okkur ekki að koma hér á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum,takist okkur ekki með skynsamlegum ráðstöfunum að byggja upp aftur í stað þess, sem brotið hefur verið niður undanfarið, þá munum við mæta miklum erfiðleikum í sambandi við öflun erlends lánsfjár á næstu árum.

Það verður að segja það svo skýrt, að allir skilji, að atburðir eins og þeir, sem gerzt hafa í efnahagslífi okkar undanfarið, eru sízt til þess fallnir að greiða fyrir lántökum erlendis.

Aldrei verða hér þó tryggðar öruggar og öflugar framfarir, ef þjóðin eyðir öllum tekjum sínum og fjármagnsmyndun í landinu verður svo lítil, að framkvæmdir dragast saman. Höfuðhættan við verðbólguþróunina er einmitt sú, að hún ýtir undir gegndarlausa eyðslu og lamar sparnaðinn og fjármagnsmyndunina innanlands. Ömurlegasta dæmið, sem ég þekki um þetta, er frá árinu 1946. Þá var svo komið, að innlend fjármagnsmyndun í bönkum og sparisjóðum var engin, minni en ekki neitt, raunar meira fé tekið út en inn var lagt. Á þessu ári er sýnilega mikil breyting til hins verra í þessu tilliti frá því, sem orðið var í fyrra og hittiðfyrra, svo sem ég gat um áðan, þótt því fari fjarri, að eins illa sé enn ástatt og verst hefur verið.

Hvernig á að koma í veg fyrir, að þessi mál komist aftur á það stig, sem þau komust 1946, með þeim afleiðingum, að þjóðin verði algerlega háð erlendu fjármagni til meiri háttar framkvæmda, vegna þess að enginn þorir að eiga innstæður af ótta við stórfellda verðrýrnun þeirra? Hvernig á að forðast þetta, ef það á að verða hlutskipti okkar á næstu árum að taka með örstuttu millibili aðrar eins verðbólguveltur og við höfum tekið undanfarið og erum að taka núna?

Allir ættu að sjá, hvernig fer, ef fjármagnsmyndun verður sama sem engin. Hvar ætla menn þá að fá öll lánin, sem menn vilja eiga kost á til alls konar framkvæmda? Í þessu sambandi kemur ýmislegt til greina, verðtryggður sparnaður og þá jafnframt skuldir, sem ekki lækka í raun og veru, þótt verðbólguöldur skelli yfir. Á þessu er ætlunin að byrja til reynslu nú samkvæmt lögum frá síðasta Alþingi, þar sem heimilað var að bjóða út 20 millj. kr. í vísitölutryggðum skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Þá kemur til greina, að þeir, sem spara, leggi meira fé sitt en verið hefur í hlutabréf, sem gera mætti ráð fyrir að væru seljanleg og hækkuðu í verði, þegar verðlag almennt hækkar. Þá hefur sparifé verið gert skatt- og útsvarsfrjálst. Allar hugsanlegar leiðir þarf að athuga gaumgæfilega, sem orðið gætu til þess að efla heilbrigða fjármagnsmyndun í landinu og forða því, að verðmæti þeirra, sem vilja spara, verði verðbólgu alveg að bráð. En það vitum við vel, að heilbrigðasta leiðin í þessum málum er sú, að þau öfl, sem hér um ráða mestu, gerist samtaka um að koma á og viðhalda stöðugu verðlagi og peningagengi.

Það er auðvitað æskilegast, að veðrið sé gott og hagstætt. Þó gefast menn ekki upp, þótt misjafnlega viðri, heldur reyna að finna leiðir til þess að bjarga sér samt.

Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að koma þessum málum í gott og stöðugt horf, en jafnframt finna leiðir til að mæta vandanum, ef þau öfl í landinu, sem hér um ráða miklu, dæma okkur til þess að taka hverja veltuna af annarri næstu árin. Á þessu stigi málanna hef ég ekki aðstöðu til þess að gera uppástungur um, hvað gera skuli til þess að koma aftur á meira jafnvægi í efnahags- og atvinnumálum landsins. Eitt er þó víst: aldrei má gefast upp. Hversu oft sem fellt er taflið, verður að raða upp á nýjan leik og halda áfram. En höfuðatriðið er, að almenningur í landinu nái að skilja efnahags- og framleiðslumálin og veiti öruggan stuðning skynsamlegum ráðstöfunum, jafnvel þótt þær í bili kunni að snerta menn óþægilega. Sé ekki hægt að treysta því, að almenningur átti sig á þessum efnum, þá er fen undir fæti, og leiðir það til hinna verstu tíðinda.

Ég vil að lokum minna á nokkur atriði, sem ég tel þýðingarmikil grundvallaratriði í þessum málum.

Ég held, að það skorti mjög mikið á, að menn geri sér almennt grein fyrir því og það margir af þeim, sem mikið tala um frelsi og jafnvægi í atvinnurekstri, viðskiptum og framkvæmdum, hvað gera þarf, til þess að slíkt frelsi og jafnvægi geti staðið stundinni lengur. Ég held, að það skorti mjög skilning á því hér á landi enn þá, að jafnvægi í efnahagslífinu, frelsi í viðskiptum og framkvæmdum verður ekki viðhaldið stundinni lengur með því að hafa allar flóðgáttir opnar, alla enda lausa, ef svo mætti að orði komast. Frelsi í viðskiptum og framkvæmdum verður t. d. ekki til lengdar við haldið, nema tekið sé öruggum tökum á peningamálunum og þau tök notuð til þess að styðja þetta frelsi, jafnvel þótt gera þurfi ýmsar ráðstafanir í því skyni, sem verða hlytu til þess að allir fengju ekki öllu fram komið, sem þeir vildu helzt.

Það er vafalaust vonlítið að viðhalda jafnvægi, stöðugu verðlagi og frjálsum viðskiptum, ef rekstur ríkissjóðs er með greiðsluhalla eða bankarnir auka útlán sín umfram sparifjárinnlög og umfram það, sem framleiðslan eykst á móti. Og þegar efnahags- og atvinnulífið einkennist af miklum athöfnum, fullri atvinnu fyrir alla og jafnvel skorti á vinnuafli, þá er víst vonlítið, að jafnvægi eða frelsi haldist eða mögulegt sé að komast hjá stórfelldum höftum í mörgum greinum, ef ekki eru beinlínis gerðar ráðstafanir til þess að vega á móti ofþenslunni með því að draga úr útlánum að tiltölu við innlán eða með öðrum hliðstæðum ráðstöfunum af hendi bankanna eða með því að hafa stórfelldan greiðsluafgang hjá ríkinu, með nýjum álögum, ef þyrfti, sbr. ný dæmi frá Danmörku einmitt um þessi mál, — greiðsluafgang, sem lagður væri til hliðar sem aukinn sparnaður, en ekki notaður fyrr en aftur vottaði fyrir samdrætti í efnahags- og atvinnulífinu.

Það er grundvallarskilyrði frelsis í viðskiptum og framkvæmdum, að ríkisvaldið telji sér jafnskylt að koma í veg fyrir ofþenslu í efnahagskerfinu og hitt að fyrirbyggja kyrrstöðu og atvinnuleysi.

Það er tómt mál að tala um frelsi í viðskiptum og framkvæmdum, ef ekkert er gert til þess að þjóðin fái skilið, hvað gera þarf, hvað verður t. d. á sig að leggja eða neita sér um, til þess að frelsið geti staðizt. Það kemur sem sé ævinlega upp úr kafinu, að það er allsendis óhugsandi, að hvergi sé neitt aðhald í efnahags- og atvinnulífinu. Það verður einhvers staðar að vera miðlandi afl, ef svo mætti segja. Ef ekki er gengið beint framan að með höftum og notað leyfakerfi, eins og stundum hefur verið gert, en mönnum líkar ekki vel og velflestir telja neyðarúrræði, þá verður þetta miðlandi afl að njóta sín í gegnum bankapólitíkina og fjármálapólitík ríkisins til þess að vinna gegn jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum.

Hér ber nefnilega allt að sama brunni. Það er ekki meira til ráðstöfunar en aflast. Það er ekki hægt að gera allt í senn, ekki hægt að nota sama féð nema einn sinni. Þetta verða menn að þora að segja og þora að skilja, þora að viðurkenna í orði og verki, bæði þeir, sem stiga fram og bjóðast til þess að sjá fyrir málefnum landsins, ef menn vilja þá til þess kjósa, og ekkert síður allur almenningur í landinu.

En hér þarf einnig fleira til, eins og ég hef reynt þráfaldlega undanfarið að benda á og ég bendi á enn, vegna þess að það er aldrei of oft sagt. Ríkisvaldið og bankavaldið er ekki einhlítt í þessu tilliti, eins og þjóðfélag okkar er uppbyggt. Hin voldugu almannasamtök hafa sitt að segja, einkum samtök launafólksins. Jafnvægi í þessum málum næst tæpast og stendur varla stundinni lengur, þótt náist í bili, nema stjórnarvöldin og forráðamenn lánsstofnana á einu leitinu og almannasamtökin, einkum launafólksins, á hinu leitinu miði að sama marki, miði að því að halda stöðugu verðlagi og stöðugu gengi og frelsi í viðskiptum, miði að þessu af því, að allir þessir láti sér skiljast, að stöðugt verðlag og gengi er undirstaða þess, að framleiðsluskilyrðin nýtist svo sem ástæður frekast leyfa, og grundvöllur batnandi lífskjara. Þetta mundi ekki þýða, að aldrei ætti að hækka kaupið. Kaupið ætti þvert á móti ævinlega að vera eins hátt og framleiðslan getur borið. Þetta mundi á hinn bóginn þýða, að launapólitík verkalýðsfélaganna væri við það miðuð að hækka launin eins mikið og mögulegt væri, án þess að skapa verðbólgu, enda gerði þá ríkisvaldið allt það, sem með skynsamlegu móti væri af því hægt að krefjast til þess að halda stöðugu verðlagi í landinu og efla framfarir.

Hér hefur undanfarið áreiðanlega ýmislegt á skort, til þess að fullum árangri yrði náð í efnahagsmálunum. Eitt er þó allra augljósast. Samstarf hefur ekkert verið milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins í þessum þýðingarmiklu málum. Um það hafa kommúnistarnir séð. Verkefni þau, sem úrlausnar bíða nú, eru ekki öll sérlega aðlaðandi né skemmtileg fremur en stundum áður. Það verður á hinn bóginn að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru.

Ég tel það hollt og réttmætt, að umr. þær, sem hljóta og eiga að fara fram hér á hv. Alþingi, áður en til afgreiðslu þessara mála kemur og til undirbúnings afgreiðslu þeirra, beinist nokkuð að þeirri merku tilraun, sem hér var gerð á árunum 1950–55 til þess að koma á varanlegu jafnvægi í efnahagsmálum landsins, og ástæðunum til þess, að við búum nú við upplausnarástand í þessum málum þrátt fyrir stórfelldan árangur til góðs fyrir alla, sem orðinn var á tímabili. Við þetta hef ég leitazt við að miða mitt mál, og þess vegna hef ég drepið á, hvaða skilyrði mér sýnist þurfa að vera fyrir hendi, til þess að vel megi farnast í þessum málum. Vænti ég, að það geti orðið inngangur að því, að málefni þessi verði rædd til nokkurs gagns með rökum, m. a. á þann hátt, að menn geri rökstudda grein fyrir áliti sínu á því, sem gert hefur verið eða látið ógert, allt til leiðbeiningar, áður en ákvarðanir verða um það teknar, hvað nú skuli til bragðs taka.

Þótt ég hafi nú bent á margan vanda, sem úrlausnar bíður, og svartar blikur, sem á lofti sjást, þá ber ekki að draga af því þá ályktun, að ég sé svartsýnn á framtíðina. Við höfum aldrei átt betri framleiðslutæki en nú, aldrei haft betri skilyrði til þess að bjarga okkur en einmitt nú. Dugnaður er mikill, þótt stundum sé annað á orði haft. Unga fólkið er yfirleitt tápmikið og dugmikið, og atvinna er mikil og afkoma almennings góð. Þetta er ánægjulegt, og þessa er gott að minnast, ef mönnum fer að vaxa vandinn mjög í augum. Þetta er þó allt í hættu, ef framleiðslan dregst saman og framkvæmdir stöðvast vegna skorts á fjármagni. Við höfum á marga lund góð skilyrði til þess, að öllum vegni vel. Hér vinna flestir mikið, þegar atvinna er nóg í boði, og hér eru jafnbetri lífskjör en víðast annars staðar og vafalítið jafnari en á nokkru öðru byggðu bóli.

Við verðum að bera gæfu til þess að koma svo málum, að þessi velmegun geti haldið áfram og að við þurfum ekki að horfast í augu við kyrrstöðu og atvinnuleysi. Ég er sannfærður um, að þetta tekst, þótt það kunni að kosta ýmsar ráðstafanir, sem verða umdeildar og sumum sýnast í fljótu bragði ekki vera gróðabragð fyrir sig persónulega. Þær geta verið það samt, þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn. Það er bjargföst sannfæring mín, að Íslendingar muni ekkert síður en aðrar þjóðir læra að skilja samhengið í efnahagsmálum og gera sér grein fyrir meginreglum þeirra, en á því byggist auðvitað allt, þegar til kemur, í þjóðfélagi hinna frjálsu félagasamtaka, sem vill ekki láta beita valdi, heldur byggja á ákvörðunum fjöldans. En einmitt af því að við viljum byggja á frjálsum félagssamtökum ákvarðanir um ýmsa af þýðingarmestu þáttum efnahagsmálanna, þá á þjóðin allt í því tilliti undir þekkingu og þroska þeirra manna, sem þar fjalla um. Umr. um efnahagsmál á Íslandi og margar ákvarðanir bera þess glöggan vott, að mikil þörf er stóraukinnar almennrar fræðslu um þessi mál. Við þurfum ekkert að fyrirverða okkur fyrir þetta, því að það er skemmra síðan við fórum við þau að fást á nútímavísu en margir aðrir, og fleira kemur þar til. En það vil ég láta verða mitt síðasta orð að þessu sinni, að úr þessu verður að bæta á næstunni með stóraukinni almennri fræðslu um efnahagsmálin, ef vel á að fara.