17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

1. mál, fjárlög 1956

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki stillt mig um nú í upphafi máls míns að vitna í stuttan kafla úr blaðagrein eftir einn kunnasta stjórnmálamann landsins, mann, sem mikið hefur fengizt við fjármál. Mega alþm. og aðrir tilheyrendur leiða að því getur, hver höfundurinn sé, meðan ég les ummæli hans, er þannig hljóða:

„Afkomuhorfur ríkissjóðs eru nú þannig, að fjárþrot vofir yfir þegar á næsta ári. Ástæðan til þess, hvernig þessum málum er komið, er einfaldlega sú, að nær öllum hinum gífurlegu tekjum ríkissjóðs á þessum árum hefur verið eytt jafnharðan. Rekstrarkostnaður ríkisins hefur farið vaxandi ár frá ári með geysihraða, enda vitað af þeim, sem vel þekkja til, að allt aðhald hefur skort af hendi fjármálastjórnarinnar um aukningu útgjaldanna og forusta engin verið um afgreiðslu fjárlaganna á Alþingi né aðhald í opinberum rekstri. Ofan á allt þetta hefur svo bætzt aðgerða- og stefnuleysi í dýrtíðarmálum, með þeim afleiðingum, að fjármál ríkisins eru orðin óviðráðanleg, nema gerbreytt verði um stefnu í fjárhagsmálum þjóðarinnar. En allt situr í sjálfheldu, stýrið fast, og skipið stefnir beint á land upp. Það er og sönnu næst, að leitun mun á þeirri stjórn í þingræðislandi, sem ekki teldi það skyldu sína að segja af sér, þegar svo væri komið fram úrræðaleysi hennar í fjármálum landsins á mestu góðæristímum, en viðsjálir tímar fram undan.“

Í lok þessarar skörulegu greinar segir svo: „Eftir er einnig hitt, að ríkisstj. geri sér það ljóst, að hún á engan tilverurétt, ef hún gerbreytir ekki um stefnu, ekki þegar búið verður að éta upp allt, sem étið verður, heldur nú þegar. Geri hún það ekki, þá er henni skylt að fara frá strax, svo að séð verði, hvort ekki er unnt að fá landsstjórn, sem getur eitthvað annað aðhafzt en bíða þess með hendur í skauti, að fjármál þjóðarinnar og atvinnumál reki í fullkomið öngþveiti.“

Höfundur þessara ummæla er hæstv. núverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson. Hann lét engin svipuð orð falla hérna áðan, enda nokkur vorkunn, svo mjög sem honum er málið skylt, þótt hann kveinkaði sér við að gera svo hreinskilnislega játningu.

Hæstv. fjmrh. felldi þennan dóm fyrir tæpum 11 árum um aðra ríkisstj. undir forustu Ólafs Thors, nýsköpunarstjórnina sælu. Þá var hæstv. núverandi fjmrh. í stjórnarandstöðu. Ég læt ósagt, að miklu leyti dómurinn átti við rök að styðjast um nýsköpunarstjórnina, en hitt fullyrði ég, að þessi 11 ára gömlu ummæli má í einu og öllu heimfæra upp á hæstv. núverandi ríkisstj., stjórn Eysteins Jónssonar og Ólafs Thors.

Ég hygg, að það sé næsta torvelt að lýsa fjármálastefnu þessarar hæstv. ríkisstj. og afleiðingum hennar öllu betur í stuttu máli. Rifjum aðeins upp kjarnann í dómsorðunum, þeim sem ég áðan las, minnugir fjármálaástandsins í landinu í dag: Rekstrarkostnaður ríkisins vex ár frá ári með geysihraða. Allt aðhald skortir um aukningu útgjalda og hagsýni í opinberum rekstri. Ríkt hefur aðgerða- og stefnuleysi í dýrtíðarmálum, með þeim afleiðingum, að fjármál ríkisins eru að verða óviðráðanleg. — Þetta er sönn lýsing á afleiðingum þeirrar stjórnarstefnu, sem íhaldið og Framsfl. hafa fylgt á undanförnum árum. Dómurinn er þungur, en því miður réttur.

Hugsandi menn hafa fyrir löngu séð, hvert fjármálapólitík núverandi valdhafa hlyti að leiða. Menn hafa gert sér ljóst, ekki aðeins stjórnarandstæðingar, heldur einnig margir fylgismenn stjórnarflokkanna, að sá hrunadans brasks, verðbólgu og spillingar, sem stiginn hefur verið æ fastar og villtar, eftir því sem ævidagar núverandi ríkisstj. treindust lengur, hlyti að enda með ósköpum. Valdhafarnir hafa reynt í lengstu lög að dylja sannleikann fyrir þjóðinni og freista þess reyndar enn. Þeir hafa ekki allt til þessa treyst sér til að segja henni, á hve völtum stoðum reist væri fjárhagskerfi hennar, það væri sem riðandi hús, er hlyti að hrynja, ef ekki væri breytt um stefnu og leitazt við að styrkja grunn og máttarviði í stað þess að bæta sífellt á yfirbygginguna nýju hrófatildri.

Tilraunir valdhafanna til að blekkja þjóðina og fá hana til að láta hjá líða að horfast í augu við staðreyndir báru um skeið allmikinn árangur. En nú er svo komið, að það mun torvelt að leika öllu lengur slíkan blindingsleik. Hjúpur blekkinganna er orðinn svo gisinn, að hver heilskyggn maður sér veruleikann að baki. Sá veruleiki birtist næsta greinilega í fjárlagafrv. fyrir árið 1956, því frv., sem hér er nú til 1. umr. Hann birtist ekki aðeins í þeim háu tölum, sem þar standa nú, heldur engu síður í þeim gífurlegu fjárfúlgum, sem þar sjást ekki, en allir vita að þangað hljóta að koma að óbreyttri fjármálastefnu, eigi hæstv. fjmrh. að nálgast það að ná endum fjárlaganna saman.

Áður en ég vík að fjárlagafrv. sjálfu, þykir mér hlýða að rekja stuttlega megindrættina í efnahagsþróun síðustu ára, en fjárlagafrv. er skilgetið afkvæmi þeirrar þróunar.

Um langt skeið hafa núverandi stjórnarflokkar farið með stjórn landsins, oftast báðir saman. Alla þá stund hafa þeir notið þeirrar þægilegu aðstöðu, einkum vegna ríkjandi kjördæmaskipunar, að hafa yfirgnæfandi meiri hluta þm. að baki sér. Stefna þessara tveggja flokka hefur því mótað efnahagsþróunina hér á landi um mörg undanfarin ár, og þeir bera höfuðábyrgð á henni. Hversu mjög sem þeir reyna nú af skiljanlegum ástæðum að skjóta sér undan þeirri ábyrgð og velta henni yfir á herðar almennings, verkamanna og annarra launþega, mun það ekki takast. Þjóðin gerir sér nú ljósar en fyrr, hvaða öfl það eru, sem verða að svara til saka fyrir það, að fjármálakerfi hennar er að steypast á kaf í botnlaust hyldýpi verðbólgu, ef ekki verður að gert.

Stjórnarsinnar reyna, eins og hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðu sinni hér áðan, að kenna verkföllunum í vor og 12% kauphækkun verkamanna um nær allt hið illa, sem að steðjar nú í fjárhagsmálum. En þeir láta undir höfuð leggjast að nefna ákveðnar staðreyndir. Verkföllin voru afleiðing þeirrar stjórnarstefnu, sem hér hefur ríkt. Þau voru nauðvörn verkamanna til að leitast við að rétta skarðan hlut. Því miður varð raunverulegur árangur til hagsbóta fyrir hina lægst launuðu enginn, þar eð kauphækkanirnar eru þegar upp étnar af sívaxandi dýrtíð. Verðbólgubraskararnir, sem hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan, leika lausum hala og mata krókinn. Ríkisstj. átti þess kost að mæta kröfum verkamanna og annarra launþega um bætt kjör með því að beita sér fyrir verðlækkunarleiðinni, þeirri leið, sem ein var fær. En sú leið hefði komið hart niður á verðbólgubröskurunum, enda var hún ekki farin.

Verðbólguþróun sú, sem stjórnarvöld landsins höfðu hvorki dug né vilja til að stöðva, var orðin slík þegar árið 1950, að atvinnuvegir þjóðarinnar voru þá að sligast. Ríkisstj. greip þá til þess úrræðis að lækka stórlega gengi krónunnar. Hún þóttist hafa óbilandi trú á því, að gengisfelling mundi ekki aðeins bjarga útflutningsatvinnuvegunum, heldur yrði einnig hægt að afnema allt verðlagseftirlit og gefa verzlunina frjálsa, eins og það var kallað. Nú yrði hægt að koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn, sögðu menn, og látið var í veðri vaka, að hér væri fundið heillaráð til að bæta lífskjör almennings. Athyglisvert er það, að hin mjög lofsungna frjálsa verzlun átti þó ekki að ná til útflutningsins. Hann skyldi reyrður í sömu viðjar og áður, enda þannig um hnútana búið þar, að ýmsir helztu broddar Sjálfstfl. sátu við þá eldana, sem bezt brunnu.

Nú er því svo háttað um gengisfellingu, sem aðrar aðgerðir hins opinbera, að hana má framkvæma með ýmsu móti eftir því, að hverju er stefnt af hálfu Alþingis og ríkisvalds. Með róttækum og réttlátum ráðstöfunum, sem að því beindust að koma nýrri skipan á rekstur útflutningsatvinnuveganna og innflutningsverzlunarinnar, mátti koma í veg fyrir brask og óheilbrigða gróðamyndun. Þá var það og brýn nauðsyn, ætti að hindra það, að gengisfellingin hefði í för með sér stóraukna verðbólguþróun, að dregið væri úr hinni hóflausu skattheimtu ríkisins, t. d. með því að stórlækka eða afnema söluskattinn. Ríkisstj., sem bar almannahag fyrir brjósti, hlaut að láta slíkar aðgerðir koma í kjölfar gengisfellingar eða verða henni samhliða. En því var ekki að heilsa. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. hagnýtti gengisfellinguna eftir því, sem fyrir segir í öllum afturhaldskokkabókum, til að velta byrðunum yfir á almenning. Auðmenn og auðfélög fengu bætta aðstöðu til að hrifsa til sín skjótfenginn gróða. Hákörlum þjóðfélagsins gafst betra svigrúm en nokkru sinni fyrr til að stunda iðju sína, enda jukust nú um allan helming sporðaköst þeirra í kjölfarinn.

Það leið ekki heldur á löngu, unz í ljós kom, hverjar urðu þjóðfélagslegar afleiðingar þess, á hvern hátt gengisfellingin 1950 var framkvæmd. Gífurleg kjaraskerðing skall með óbærilegum þunga á herðum almennings, braskarar komu ár sinni betur fyrir borð en áður, og vaxandi dýrtíð át upp á örskömmum tíma þann ávinning, sem látið var í veðri vaka að gengisfellingin ætti að færa sjávarútveginum.

Vorið 1951, ári eftir gengisfellinguna, var bátaútvegurinn að stöðvast. Þá greip ríkisstj. til þess ráðs að taka upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið og koma þar með á tvöföldu gengi krónunnar. Þetta var að sjálfsögðu ný gengisfelling, þótt óbein væri, og tók hún til um það bil fjórðungs af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Um sömu mundir og bátagjaldeyrinum var skellt á, steig ríkisstj. sitt stærsta ógæfuskref, þegar hún með herstöðvasamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku skerti stórlega sjálfstæði landsins og leiddi yfir þjóðina þau vandkvæði, sem Íslendingar munu lengi súpa seyðið af. Virðast stjórnarherrarnir hafa litið svo á, að hvað sem liði þjóðarsóma mætti hafa not af amerísku gulli til að halda áfram þeirri fjármálastefnu, sem fært gæti gæðingunum aukinn auð og tryggt stjórnarflokkunum áframhaldandi valdaaðstöðu í skjóli hins máttuga dollars. Þetta hefur og tekizt. En dýrkeypt hefur sú ákvörðun orðið íslenzku þjóðinni — einnig í fjárhagsmálum. Hermangararnir hafa matað krókinn, satt er það, og nú er svo komið, að sterk öfl innan stjórnarflokkanna telja það stórfelldan fjárhagslegan ávinning, að hersetunni haldi áfram, og berjast fyrir því, að hún vari sem lengst. Þessi öfl hafa með stuðningi stjórnarvalda haldið þeirri kenningu að landsmönnum, að hér mundi óhjákvæmilega verða ríkjandi atvinnuleysi og jafnvel eymd, ef herinn hyrfi brott og lokað yrði fyrir straum þeirra fjármuna, sem þaðan renna.

Aldrei hefur land vort og þjóð verið smánað eftirminnilegar en með þessum boðskap, boðskap uppgjafar og eymdar, a. m. k. ekki síðan á mestu niðurlægingartímum hennar, þegar Danir héldu því fram, eftir að þeir höfðu mergsogið okkur um aldir, að hér væri ólíft með öllu, og vildu flytja forfeður okkar suður á Jótlandsheiðar. Þessi kenning er yfirlýsing um það, að Íslendingar geti ekki lifað af afrakstri eigin atvinnuvega, þeirra biði það hlutskipti að reisa framtíð sína á þjónustu við erlendan her eða sveita ella. Sem betur fer, er auðvelt að sanna, að þetta er villukenning. Við eigum þess kost, Íslendingar, að afla daglegs brauðs með öðrum og sæmdarmeiri hætti. Sæti hér að völdum stjórn og þingmeirihluti, sem legði allt kapp á að efla þá atvinnuvegi, sem þjóðin hefur lifað á fram að þessu, og léti opinberar aðgerðir miða að því að gera framleiðsluna verðmeiri og fjölbreyttari en hún er nú, myndu þeir 2000–3000 Íslendingar. sem í dag vinna ófrjó og niðurlægjandi störf á vegum Bandaríkjahers, færa þjóðinni sýnu meiri og blessunarríkari björg í bú en þeir gera. Jafnframt yrði numin á brott ein meginorsök þeirrar verðþenslu, sem nú sýkir þjóðlífið og hefur nálega sligað allan heilbrigðan atvinnurekstur.

Það er kunnugt, enda viðurkennt af fræðimönnum á sviði efnahagsmála, að hersetan og herstöðvaframkvæmdirnar eiga sinn mikla þátt í þeirri verðbólguþróun, sem hér hefur orðið síðustu árin og bitnar með sívaxandi þunga á atvinnuvegum landsmanna og allri alþýðu. Í skýrslu Landsbankans um árið 1953 segir á þessa leið:

„Er það ljóst, að ný verðbólguskrúfa, sem á einkum rót sína að rekja til varnarliðsframkvæmdanna og mikillar fjárfestingar samhliða ónógum sparnaði, mun ná æ fastari tökum á efnahagskerfinu, áður en langt um líður, ef ekki er spyrnt við fæti.“

Þessi sannindi hafa síðan verið ítrekuð hvað eftir annað, m. a. í riti Landsbankans, Fjármálatíðindum, enda svo víðs fjarri, að stjórnarflokkarnir hafi, síðan fyrrgreindur dómur var felldur, spyrnt fæti við verðbólguþróuninni, að ýmsar aðgerðir ríkisvaldsins hafa þvert á móti orðið til að auka hana og magna. Afleiðing þeirrar þróunar hefur m. a. orðið sú, að grípa varð til þess ráðs að fá hingað fjölmennan hóp Færeyinga, svo að hægt væri að gera út togarana, stórvirkustu framleiðslutæki landsins. Og ekki reyndist það einhlítt. Á síðasta ári var málum svo komið, að togaraútgerðin varð að leita á náðir ríkisvaldsins, þar eð dýrtíðin var að sliga þessa atvinnugrein. Enn var gripið til næsta vafasams úrræðis. Að þessu sinni var bjargráð ríkisstj. í því fólgið að leggja stórfelldan skatt á innflutta bíla, svo að hægt yrði að koma togurunum á veiðar. Hér var ekki um smáskilding að ræða, 2000 kr. á úthaldsdag hvers togara, og voru þó leidd nokkur rök að því, að það skattgjald mundi naumast nægja. Og nú þurfti að láta hendur standa fram úr ermum til að fá milljónatugi upp í togaraskattinn. Af takmörkuðum gjaldeyri þjóðarinnar var stórfé varið til bílakaupa.

Og enn heldur hæstv. ríkisstj. áfram að spila sína lönguvitleysu. Snemma á þessu hausti, þegar sýnt var, að dýrtíðin hlyti að koma í veg fyrir alla síldveiði í Faxaflóa, nema opinber afskipti kæmu til, var gripið til þess ráðs að hækka verð á tóbaki. Litlu fyrr var áfengi hækkað í verði, að sögn hæstv. fjmrh. í því skyni, að hann gæti greitt starfsmönnum ríkisins launauppbót.

Nú er því svo komið, að menn verða að kaupa margvíslegt erlent glingur og þarflítið dót til þess að halda bátaflotanum úti, bíla og aftur bíla vegna togaranna, drekka kynstur af áfengi, svo að starfsmenn ríkisins fái launin sín, og reykja baki brotnu, til þess að síldveiðar stöðvist ekki. Munu þeir þjóðfélagsþegnar naumast taldir á marga fiska á hærri stöðum, sem gera ekkert af þessu. Og nú leitar hæstv. ríkisstj. að nýjum skattheimtuleiðum til að verðbæta útflutt dilkakjöt, gærur og karfa. Trúlega verður ekki óbjörgulegt í landinu, eftir að stjórnin hefur fundið hin nýju bjargráð atvinnuvegunum til handa. Mun sú tegund stjórnvizku næsta fágæt, sem til þess þarf að snúa snældu fjárhagsmála á þann veg, að svo liti út sem sjávarútvegur og landbúnaður, þessir undirstöðuatvinnuvegir, sem brauðfæða þjóðina, séu orðnir ómagi á ríkissjóði, en sorphreinsun á Keflavíkurflugvelli, erlendur glysvarningur, lúxusbílar, tóbak og brennivín þær máttarstoðir, sem þjóðfélagsbyggingin hvílir á.

Við þjóðvarnarmenn höfum jafnan gagnrýnt margvíslegt siðleysi, sem gætt hefur í opinberu lífi og stöðugt virðist færast í aukana. Fjármál og viðskiptamál eru þar engin undantekning, nema síður sé.

Hér er nú rekin gagngerðari fjárplógsstarfsemi en dæmi eru til áður, og er vægilega til orða tekið, þó að fullyrt sé, að ríkisvaldið taki þau mál helzt til oft vettlingatökum. Afskiptaleysi hins opinbera og skortur á röggsamlegu eftirliti á tvímælalaust sinn þátt í því, hve títt er orðið, að einstaklingar og stofnanir skara helzt til freklega eld að sinni köku, oft án þess beinlínis að brjóta landslög, en stundum, og án efa oftar en upplýst verður, handan við lög og rétt. Ein af ástæðum þessa er sú alvarlega staðreynd, að stjórnmálamenn og stjórnmálablöð víla ekki fyrir sér að verja jafnvel fjárglæfra og ótvíræð lögbrot, ef þau eru framin af áhrifamiklum flokksbræðrum.

Hundruð milljóna króna hafa á undanförnum árum verið greidd úr sameiginlegum sjóði þegnanna, án þess að við væri borið að hafa með þeim fjármunum skaplegt eftirlit. Eitt dæmi þess eru hin gífurlegu framlög til skólamála, þ. á m. skólabygginga, sem ávísað hefur verið nær aðgæzlulaust, að því er virðist.

Og hvert er eftirlit hins opinbera með bátagjaldeyrinum? Hvert er eftirlit þess með þeim aðilum, sem hafa einkarétt á að selja fisk úr landi? Vita opinberir aðilar með öruggri vissu, hvað greitt er á erlendum markaði fyrir fiskinn hverju sinni? Í þessum spurningum felast engar dylgjur, aðeins fyrirspurn um það, hvort verið geti, að ríki og bankar sofi hér á verðinum. Ekkert ríki annað en þá hið íslenzka teldi sér stætt á því að veita eftirlitslítið eða eftirlitslaust þau forréttindi, sem einstakir aðilar njóta hér varðandi útflutning framleiðslunnar. Hvaða stjórnarvöld í nálægum löndum mundu ekki leitast við að tryggja það, eftir því sem hægt er, að bankarnir fái allan þann gjaldeyri, sem þeim ber, og sjómenn og smáútvegsmenn rétt verð fyrir fiskinn, sem þeir afla? En hvernig er þetta tryggt hér?

Á sviði innflutningsverzlunarinnar er eftirlit hins opinbera ekki beysið, enda hafa núverandi stjórnarflokkar hælt sér af því, þegar þeir afnámu að mestu það ófullkomna verðlagseftirlit, sem áður gilti. Þeir gáfu tiltektum sínum hið fagra nafn: frjáls verzlun, en almenningur, sem fundið hefur, hvernig verð á vörum og þjónustu hækkar látlaust, kallar fyrirbærið frjálst okur.

Hin mörgu óreiðu- og fjárdráttarmál, sem verið hafa á döfinni nú um hríð og enn fer fjölgandi, eru því miður ekki einangrað fyrirbæri, heldur áþreifanleg sjúkdómseinkenni í íslenzku efnahags- og viðskiptalífi. Þau vekja meiri athygli og umtal en mörg sjúkdómseinkenni viðskiptalífsins önnur, sem þó bera ljósan vott um hið sama. Vissulega ættu öll þessi einkenni hins sjúka ástands, ef skoðuð eru í heild, að vera nægilega skýr til þess, að hverju mannsbarni sé ljóst, hvað við blasir. Við erum komin á yztu nöf, og það er ekki seinna vænna að stinga við fótum.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1956 sýnir flestu öðru betur, hvar við erum á vegi staddir, Íslendingar. Það er, eins og ég áður sagði, skilgetið afkvæmi þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, og ber vott um tvennt, að sú stefna er nú komin í þrot og að hæstv. núverandi ríkisstj. hefur, að því er virðist, hvorki getu né vilja til að bjarga þjóðarskútunni út úr voðanum.

Eins og vita mátti, er þetta fjárlagafrv. hið langhæsta að krónutölu, sem nokkru sinni hefur verið lagt fram á Alþ. Niðurstöðutölur þess eru 577 millj. kr. Er það 82 millj. kr. hækkun frá fjárlagafrv. í fyrra, en 62 millj. kr. hækkun frá gildandi fjárlögum.

Athyglisvert er það og táknrænt um ástandið, að þeir liðir í útgjaldabálki fjárlaga hækka langmest, sem snerta beinan rekstur. Framlög til verklegra framkvæmda verða undir í verðbólgukapphlaupinu. Til þeirra fer minni hundraðshluti ríkisteknanna, eftir því sem kostnaðurinn við ríkisbáknið gleypir meira. Ég skal nefna örfá dæmi og miða þá við gildandi fjárlög annars vegar og fjárlagafrv. fyrir árið 1956 hins vegar.

Kostnaður við ríkisstjórn og stjórnarráð hækkar um 20%, dómgæzla og lögreglustjórn hækka um 20%, kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta hækkar um 26%, læknaskipun og heilbrigðismál, hækkun um 29%, kirkjumál, hækkun um 16%, kennslumál, hækkun um 19%.

Líti maður hins vegar á atvinnuvegina og verklegar framkvæmdir, horfir málið öðruvísi við. Örfá dæmi skal ég nefna: Framlög til vegamála hækka aðeins um 1.7%, framlög til vitamála um 0.4% og framlög til iðnaðarmála lækka um 44%.

En þó að maður hafi fyrir sér þær tölur, sem í fjárlagafrv. standa, eins og hæstv. fjmrh. leggur það fram nú í þingbyrjun, þá skortir mjög á, að það gefi rétta hugmynd um þær álögur, sem lagðar verða á landslýðinn nú í ár. Í grg. fyrir frv. lætur hæstv. fjmrh. þess getið svo og í fjárlagaræðu sinni hér áðan, að þar sé hvorki gert ráð fyrir útgjöldum ríkissjóðs vegna atvinnuleysistrygginga né nýrra launalaga, en áætlað er, að hvort tveggja muni það kosta ríkið 34 millj. kr. Þá hefur ríkisstj. heitið verðuppbótum á útflutt dilkakjöt. Loks er vitað, að bátagjaldeyriskerfið er komið í strand, og allar líkur benda til þess, að útgerðarmenn togara telji sig ekki geta komizt af öllu lengur með þær 2000 kr. í styrk á úthaldsdag, sem þeir hafa fengið að undanförnu.

Allt bendir því til þess, að ríkisstjórnin telji sig eiga um tvo kosti að velja: Annars vegar þann að leggja miskunnarlaust á þjóðina nýja skatta og tolla til viðbótar öllum þeim, sem fyrir eru. Hinn kosturinn er ný, stórfelld gengisfelling, sem mundi tákna það í meðferð núverandi stjórnar, að rýrð yrðu stórlega lífskjör alls almennings, drápsklyfjum velt yfir á hann.

En eru nokkrar leiðir til út úr ógöngunum? mun margur spyrja. Hefur ekki verðbólgustefnan, sem núverandi ríkisstjórn ber höfuðábyrgð á, teymt þjóðina svo langt út í kviksyndið, að allt hljóti að sökkva? Er ekki fram undan algert fjárhagshrun á Íslandi?

Þessum spurningum svara ég hiklaust á þá leið, að þrátt fyrir allt, sem misgert hefur verið, megi miklu bjarga, en til þess þarf gagngera stefnubreytingu í fjárhags- og atvinnumálum. Með samstilltu átaki ríkisstjórnar og þegna má takast að forða fjárhagshruni og byggja upp heilbrigt atvinnulíf í landinu, en núverandi ríkisstjórn gerir það ekki. Sú stefnubreyting, sem koma þarf, verður ekki framkvæmd, meðan stjórn landsins er að verulegu leyti í höndum þjóðfélagsafla, sem láta gróðasjónarmið hinna ríku ráða gerðum sínum. Sú ríkisstjórn ein, sem styddist við hinar vinnandi stéttir og ynni í þeirra þágu gegn gróðabralli, en að uppbyggingu atvinnulífs og stórfelldri aukningu framleiðslunnar, mundi fá því áorkað að verja þjóðarfleyið fyrir þeim holskeflum fjármálaöngþveitis, sem nú rísa fram undan. Mér dettur ekki í hug að segja, að það verði létt verk og auðunnið. En sú er trú okkar þjóðvarnarmanna á landið og möguleika þess, að Íslendingar geti, ef þeir vilja, lifað farsælu lífi á auðlindum hafs og moldar, en það tekst því aðeins að stjórnarstefnan sé mörkuð með tilliti til hinna mörgu og smáu, en ekki hinna fáu og ríku.

Með það í huga, sem að framan var sagt, hefur miðstjórn Þjóðvarnarflokks Íslands á fundi hinn 4. þ. m. samþykkt heildartill. um lausn aðsteðjandi efnahagsvandamála, tillögur, sem eru við það miðaðar að bjarga gengi íslenzku krónunnar, losa þjóðina við marga, dýra milliliði, fá almenningi í hendur atvinnutæki, koma atvinnulífinu á heilbrigðan og samkeppnisfæran grundvöll, efla atvinnuvegina og auka framleiðsluna, en hætta að sóa dýrmætu vinnuafli í hervirkjagerð. Slíkar aðgerðir telur flokkurinn nauðsynlegar og óhjákvæmilegar, eigi að takast að forða fjárhagslegu hruni. Í ályktun flokksins segir á þessa leið:

„Miðstjórn Þjóðvarnarflokks Íslands er ljóst, að sú verðbólga, sem hömlulaust hefur aukizt síðan verzlunarálagning var gefin frjáls og varnarliðsframkvæmdir fóru að hafa áhrif á íslenzkt efnahagslíf, hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér allsherjar gengisfall á næstu missirum, ef sömu stefnu í stjórnmálum og efnahagsmálum er fylgt sem nú ríkir og að undanförnu hefur ríkt.

Miðstjórnin gerir sér grein fyrir því, að til alvarlegra ráðstafana verður að grípa, ef takast á að stöðva verðbólguna og hindra gengisfall, ráðstafana, sem sumar hverjar að minnsta kosti hljóta óhjákvæmilega að koma hart niður á ýmsum hagsmunahópum, sérstaklega milliliðum í framleiðslu, innflutnings- og útflutningsverzlun, en munu auk þess hafa í för með sér, að almenningur verður að neita sér um margt og taka á herðar sér ýmsa erfiðleika í bili.

Miðstjórnin lítur þó svo á, að flokknum beri að beita sér fyrir slíkum ráðstöfunum, og samþykkir því eftirfarandi ályktun:

1) Hernámssamningnum frá 1951 sé sagt upp og öllum hernaðarframkvæmdum hætt og þar með m. a. komið í veg fyrir bein og óbein verðbólguáhrif hernámsframkvæmda og samkeppni herliðsins við íslenzka atvinnuvegi um vinnuafl, er veldur röskun á eðlilegum framleiðsluháttum þjóðfélagsins.

2) Söluskattur sé afnuminn, a. m. k. af innlendri framleiðslu og þjónustu, og einnig af vörum í smásölu. Fullkomnu verðlagseftirliti verði komið á, meðan verið er að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, og hafi samtök alþýðustéttanna framkvæmd þess eftirlits með höndum. Með slíkri niðurfærslu sé kröfum alþýðunnar um óskert og batnandi lífskjör mætt fyrst um sinn, en ekki með grunnkaupshækkunum, sem reynslan hefur sýnt að gerðar hafa verið að engu með hækkuðu verðlagi.

3) Bátagjaldeyrir, togaragjaldeyrir og aðrar slíkar styrkveitingar, sem að undanförnu hafa komið í stað gengisfellingar, verði afnumdar. Sett verði löggjöf um samvinnurekstur fiskvinnslustöðva og fiskútflutnings, sem geri sjómönnum, útvegsmönnum og öðrum þeim, er við fiskframleiðslu starfa, kleift að taka þá starfsemi í eigin hendur. Fiskvinnslustöðvar og útflutningsfyrirtæki verði tekin eignar- og leigunámi og afhent slíkum samvinnufélögum, er þau hafa verið stofnuð, til þess að tryggja þeim, sem við þessa framleiðslu starfa, sannvirði vinnu sinnar.

4) Lögð sé höfuðáherzla á eflingu atvinnuveganna, bæði þeirra, sem nú eru starfræktir, og nýrra, arðbærra iðngreina. Lagt sé kapp á að auka verðmæti sjávarafurða með auknum fiskiðnaði. Á þennan hátt sé m. a. þeim, sem nú vinna í þágu herliðsins, tryggð atvinna og möguleikar nýttir til að auka framleiðslu og gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Jafnframt því er það haft í huga, að slíkar ráðstafanir verður að miða við það að skapa ört vaxandi þjóðfélagi atvinnuskilyrði og lífsbjargarmöguleika.

5) Meðan verið er að byggja atvinnuvegi þjóðarinnar upp á þann hátt, að menningarþjóðfélag geti af þeim lifað án erlendra gjafa og herstöðvavinnu, er óhjákvæmilegt að draga úr nýrri, óarðbærri opinberri fjárfestingu og annarri fjárfestingu, sem tök eru á að fresta.

6) Komið sé upp ríkisverzlun með olíu og benzín og eignir núverandi olíufélaga teknar eignar- eða leigunámi í því skyni. Ríkisverzluninni sé enn fremur gert kleift og skylt að annast alla olíuflutninga landsmanna með eigin skipum.

7) Innflutningur annarrar nauðsynjavöru almennings og framleiðslutækja sé takmarkaður við hagsmuni og gjaldeyrisgetu þjóðarinnar, meðan verið er að endurskipuleggja atvinnuvegina og ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Tekin verði upp ný skipan á innflutningsverzluninni og fækkað stórlega þeim aðilum, er innflutning annast. Innflutningur á almennum vörum verði að mestu í höndum samtaka neytenda, smásöluverzlana og samvinnufélaga. Innflutningur á útgerðarvörum og hráefnum til iðnaðar sé í höndum samtaka þeirra aðila, sem þar hafa mestra hagsmuna að gæta.

8) Stefnu ríkis og banka í fjármálum og peningamálum þjóðarinnar verður að samræma framangreindum ráðstöfunum, draga úr óhófseyðslu og útþenslu, sem hefur í för með sér verðbólguþróun, og koma þannig á jafnvægi í efnahagslífinu og efla traust á gjaldmiðlinum, svo að sparnaðarvilji vaxi og sparifjársöfnun aukist.

9) Gerðir séu nákvæmir þjóðhags- og þjóðartekjureikningar og rannsökuð afkoma og gjaldþol hinna einstöku atvinnugreina, þannig að almenningur eigi jafnan greiðan aðgang að öruggum upplýsingum um þau mál.

Miðstjórn Þjóðvarnarflokks Íslands lítur svo á, að verði þessar ráðstafanir framkvæmdar af aðilum, sem eingöngu hafa hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, muni unnt að stöðva verðbólguna, koma í veg fyrir beina og óbeina gengisfellingu og koma efnahagslífi þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll. Þess vegna lýsir miðstjórnin yfir því, að flokkurinn sé reiðubúinn til að taka þátt í að mynda þingmeirihluta til að hrinda þessum ráðstöfunum í framkvæmd.“

Þessi ályktun hefur verið send formönnum Alþfl., Framsfl. og Sósfl.

Ég vil að síðustu taka það fram, bæði til skýringar á því, sem ég hef áður sagt, og að gefnu tilefni vegna bollalegginga, sem nú eru uppi um svonefnda vinstri stjórn, að Þjóðvarnarflokkur Íslands mun líta á málefnin og láta þau ráða afstöðu sinni. Honum er ljóst, að þjóðin þarfnast breyttrar stjórnarstefnu til hagsbóta fyrir almenning og til verndar efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði. En þjóðvarnarmenn eru ekki ginnkeyptir fyrir því að styðja eða hlaupa inn í ríkisstjórn, sem héldi áfram hermangi, styddi að verðþenslu, verzlunarokri, gengisfellingu og hvers konar sukki, aðeins ef hún væri kölluð vinstri stjórn. En vilji andstöðuflokkar íhaldsins af heilindum og festu hefja viðnám og uppbyggingu á svipuðum grundvelli og Þjóðvfl. hefur þegar bent á, þá mun hann ekki láta gamlar væringar né ólík viðhorf á öðrum sviðum standa í vegi þess af sinni hálfu, að samstarf geti tekizt.