12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 181 ber með sér, hefur ekki náðst samkomulag innan nefndarinnar um afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1956. Sjö nefndarmanna standa að áliti meiri hlutans, en hinir tveir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í nefndinni skila séráliti. Þess ber þó að geta, að þótt tvö nál. komi þannig fram, þá stendur nefndin öll að brtt. á þskj. 179. Hins vegar ber minni hl. n. fram á sérstöku þskj. allmargar brtt. um auknar fjárveitingar úr ríkissjóði á næsta ári, sem meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að mæla með, enda þótt þar sé um ýmis framlög að ræða, sem nefndarmenn allir mundu gjarnan vilja stuðla að. En það er nú sem áður við afgreiðslu fjárlaga, að mörgum óskum verður að hafna, því að ætíð eru fjárráðin minni en útgjaldaþörfin. Mun þó vafalaust mörgum sýnast, að ástæða hefði verið til enn meiri varfærni um útgjöld á næsta ári með hliðsjón af því, að nú er ekki lengur hægt að hækka áætlunina um gildandi tekjuliði ríkissjóðs til þess að mæta útgjaldahækkununum, heldur er augljóst, að gera verður sérstakar ráðstafanir til tekjuöflunar, ef auðið á að reynast að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Ég mun síðar víkja að tekjuhorfum ríkissjóðs á næsta ári og brtt. meiri hl. n. við 2. gr. frv., en vil aðeins geta þess hér strax, að aðalágreiningur varð í nefndinni milli meiri og minni hluta um tekjuáætlunina, svo sem samanburður á brtt. nefndarhlutanna um þetta efni ber með sér. Að öðru leyti vil ég geta þess, að samvinna hefur verið hin bezta innan nefndarinnar og nefndarmenn allir verið einhuga um að hraða eftir föngum athugun fjárlagafrv. í nefndinni.

Áður en ég vík að einstökum brtt. n., langar mig til að benda á nokkrar staðreyndir, sem menn verða að hafa í huga í sambandi við afgreiðslu fjárlaga í þetta sinn.

Þegar frv. var lagt fyrir Alþ., gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir því, að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári mundu vaxa mjög, miðað við núgildandi fjárlög. Rekstrargjöld á frv. eru rúmar 515 millj. kr., en till. n. um gjaldaauka eru samtals 29.2 millj., þannig að rekstrargjöldin verða alls 544.2 millj. kr., ef allar till. n. verða samþ., og er það tæpum 40 millj. kr. hærri útgjöld en á rekstraryfirliti núgildandi fjárlaga. Fer þó fjarri, að öll kurl séu til grafar komin, svo sem síðar mun vikið að, og má jafnvel gera ráð fyrir, að hækkun rekstrarútgjalda ríkissjóðs, miðað við gildandi fjárl., verði á næsta ári 80–90 millj. kr.

Þegar um svo geysilega hækkun útgjalda ríkissjóðs er að ræða, munu menn að vonum spyrja: Hver er orsökin? Er skiljanlegt, að svo sé spurt, því að hér er vissulega um uggvænlega þróun að ræða, þótt eðlilegt sé í vaxandi þjóðfélagi, að um nokkurn vöxt sé að ræða árlega í útgjöldum ríkissjóðs.

Undanfarin tvö ár, eða fram á öndvert yfirstandandi ár, hafa tiltölulega litlar breytingar orðið á kaupgjaldi og verðlagi í landinu, og vísitalan hafði að mestu staðið í stað. Stefndi þessi þróun tvímælalaust í þá átt að skapa meira jafnvægi og festu í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem m. a. kom glöggt fram í aukinni trú manna á gildi peninga. Þótt ekki hafi að vísu tekizt að koma útflutningsframleiðslunni á rekstrarhæfan grundvöll, var þó vaxandi trú manna á, að takast mætti að stöðva verðbólguflóðið. Afleiðingar verkfallanna í byrjun þessa árs hafa orðið þær, að verðbólguhjólið snýst nú aftur af fullum krafti, og er ósýnt, hversu auðið verður að stöðva það að nýju. Í kjölfar verkfallsins fylgdu miklar kaup- og verðhækkanir, og gætir þessara óheillavænlegu afleiðinga nú í æ ríkara mæli og ekki hvað sízt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Fjárlagafrv. er nú miðað við vísitölu 173 stig, og er þar um að ræða 12 stiga hækkun frá núgildandi fjárlögum. Sýnt þykir þó, að hækkunin verði a. m. k. 2–3 stigum meiri. Þessi mikla hækkun leiðir að sjálfsögðu af sér aukinn rekstrarkostnað í flestum eða öllum greinum ríkisbúskaparins, enda er mikill hluti af hækkun ríkisútgjaldanna á næsta ári bein afleiðing af hinni nýju dýrtíðarþróun. Er nauðsynlegt, að þjóðin öll geri sér grein fyrir þessu, þar sem málum er nú svo komið, að leggja verður í einni eða annarri mynd nýjar álögur á þjóðina til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs og hverfa þannig frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, að reyna eftir föngum að lækka skattaálögur á þjóðina.

En nú munu vafalaust margir enn fremur spyrja: Er ekki auðið að mæta hinni óhjákvæmilegu útgjaldaaukningu að einhverju eða öllu leyti með því að draga úr kostnaði ríkisins á öðrum sviðum? Það hefur að vonum bæði innan þings og utan oft verið talað um nauðsyn þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og sér í lagi að minnka ríkisbáknið, sem oft er talað um. Því miður hafa þó sjaldan komið fram raunhæfar till. í þessa átt, sem nemi nokkrum verulegum fjárhæðum, og þá sjaldan slíkar till. hafa verið lagðar fram hér á hinu háa Alþ., hafa þær ekki fengið nægilegan stuðning. Á þeim skamma tíma, sem fjvn. hefur til umráða árlega til athugunar á fjárlagafrv., er henni ekki auðið að gera nauðsynlega heildarathugun á þessum málum. En n. hefur áður beint því til ríkisstj. að láta rannsaka, hvort koma mætti við sparnaði í rekstri ríkisins. Ríkisstj. skipaði n. til þess að rannsaka, hvort og þá á hvern hátt mætti draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Starfaði n. þessi á s. l. ári. Nefnd þessi hefur skilað áliti, og eru heildarniðurstöður n. mjög í samræmi við þá skoðun, sem fjvn. hefur haft í þessum málum, að um verulegan sparnað í útgjöldum ríkisins geti ekki orðið að ræða, nema breytt verði margs konar löggjöf, sem þá hefði það í för með sér, að dregið yrði að meira eða minna leyti úr þjónustu samfélagsins við borgarana. Ekki telur sparnaðarnefndin hægt að fækka starfsmönnum ríkisins, svo að nokkru nemi, enda virðist þróunin í þessum efnum sökum aukinnar þjónustu hins opinbera við þjóðfélagsborgarana fremur stefna í öfuga átt. Hér á Alþ. hefur að vísu komið fram till. um að leggja niður ríkisstofnun, sem er þungur baggi á ríkissjóði, en sú till. hefur enn a. m. k. ekki fengið nægilegt fylgi hér á Alþ. Þá eru eftir hin ólögbundnu framlög á fjárlögum hverju sinni, sem að mestu leyti eru fjárveitingar til svokallaðra verklegra framkvæmda, þ. e. til hafnargerða, vegagerða, brúargerða, skólabygginga og ýmissa annarra byggingarframkvæmda á vegum ríkissjóðs. Allir vita, hversu framkvæmdir á flestum þessum sviðum eru brýnar víðs vegar um landið, enda jafnan harðast sótt á um fjárveitingar í þessu skyni. Þótt þær hafi undanfarin ár ekki hækkað hlutfallslega við aðra útgjaldaliði fjárlaganna, sem lögboðnir eru, þá virðist einnig vera almenn skoðun hér á Alþ. og raunar, að ég hygg, með þjóðinni í heild, að fremur beri að auka en minnka framlög ríkissjóðs til ýmiss konar þjónustu við þjóðfélagsborgarana.

Virðist að þessu öllu athuguðu ekki blása sérstaklega byrlega um niðurskurð á núverandi útgjöldum ríkissjóðs til þess þannig að vega upp á móti þeim hækkunum, sem óumflýjanlegar eru í þetta skipti. Hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. ekki heldur lagt fram neinar raunhæfar sparnaðartill., svo að nokkru nemi. Meiri hluta fjvn. er hins vegar mjög vel ljós nauðsyn þess að framkvæma eftir föngum sparnað í ríkisrekstrinum og beinir því í nál. sínu þeirri ósk til ríkisstj., að hún athugi gaumgæfilega niðurstöður þær, sem sparnaðarnefndin hefur komizt að, og undirbúi fyrir næsta Alþ. till. í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar sinnar.

Till. fjvn. varðandi gjaldabálk fjárlagafrv. leiða til 29.2 millj. kr. hækkunar, ef þær till. allar verða samþ., sem nefndin í heild stendur að. Samkvæmt till. n. er gert ráð fyrir 13.5 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til samgöngubóta, þ. e. vegna vega, hafna og brúa.

Með nýjum vegalögum, sem samþ. voru á síðasta þingi, var vegakerfi landsins lengt um næstum 900 km. Er auðskilið, að þessi mikla viðbót við þjóðvegakerfið krefst bæði aukinna framlaga til nýbyggingar og viðhalds. Væri fráleitt að auka þjóðvegakerfið svo mjög, ef ekki væri séð fyrir einhverjum auknum fjárveitingum í því sambandi, ekki sízt þar sem mjög skortir á, að lokið sé lagningu hinna eldri þjóðvega. Leggur fjvn. því til, að framlag til nýbyggingar vega verði hækkað um 3 millj. 910 þús. kr. og framlag við vegaviðhalds hækkað um 5 millj. kr. Þá er og lagt til að veita 200 þús. kr. til nýbýlavega, sem gert er ráð fyrir að veitt verði fé til samkvæmt hinum nýju vegalögum.

Víða um landið eru óbrúaðar ár enn mikill samgöngutálmi, og skortir mikið fé til að leysa þann vanda. Leggur fjvn. til, að framlag til brúargerða verði hækkað um 3 millj. og 20 þús. kr. og gangi ½ millj. kr. af þeirri hækkun til smábrúa, en samkvæmt reynslu undanfarandi ára hefur jafnan verið mikil umframgreiðsla á þeim lið.

Enn sem fyrr skortir mikið á, að ríkissjóður leggi fram, jafnóðum og framkvæmdum miðar áfram, þann kostnaðarhluta við hafnargerðir, sem ríkissjóði er ætlað að greiða. Á mörgum stöðum á landinu hefur þó verið svo knýjandi nauðsyn á hafnarbótum og er enn, að viðkomandi staðir hafa talið sig til neydda að ráðast í framkvæmdir, þótt ríkisframlagið væri ekki fyrir hendi. Nema því vangoldin framlög ríkissjóðs til hafnargerða háum fjárhæðum, og mörg sveitarfélög eiga erfitt með að afla nauðsynlegs fjár til hafnarframkvæmda af þessum sökum. Nefndin hefur þó ekki talið sér fært að hækka framlög til hafnargerða sem þörf væri á, en leggur þó til, að framlag til hafnargerða verði hækkað um tæpar 1.2 millj. kr. Vegna hins mikla fjölda hafnargerða, sem nefndin telur óumflýjanlegt að veita einhverja fjárveitingu til, hefur hún ekki talið sér fært að leggja til, að nokkur höfn fái hærri fjárveitingu en 350 þús. kr., þótt henni sé ljóst, að það sé lítið upp í þær dýru framkvæmdir, sem unnið er nú að á þeim stöðum.

Í sambandi við samgöngumálin er rétt að minnast á fyrirhleðslur þær, sem unnið er að á nokkrum stöðum sunnanlands til þess í senn að forðast landbrot, vernda ræktarlönd og tryggja samgöngur. Annast vegamálastjórnin framkvæmdir á þessu sviði í flestum tilfellum. Er hér um mikla nauðsyn að ræða til þess að forðast alvarlegt tjón. Er talið nauðsynlegt að hækka nokkuð fjárveitingar í þessu skyni, og leggur fjvn. til, að framlag til fyrirhleðslnanna verði samtals hækkað um 260 þús. kr.

Í fjárlagafrv. er framlag til flugvallagerðar hækkað um 700 þús. kr. frá fjárlögum þessa árs. Væri auðvitað mikil þörf aukinna fjárveitinga á þessu sviði, þar sem þáttur flugsins í samgöngunum fer stöðugt vaxandi. En ekki hefur þótt fært að hækka beint framlag til flugvallagerðar meira í þetta sinn. Í 22. gr. fjárlagafrv. er heimilað að nota tekjuafgang flugmálanna umfram fjárlagaáætlun til framkvæmda í þágu flugsins, en þar sem heimildin er bundin við notkun fjárins á árinu 1957, er hætt við verulegum samdrætti í flugvallagerð á næsta ári, enda þótt hin beina fjárveiting sé aukin.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var það eitt af aðalstefnumálum hennar að rafvæða landið að verulegu leyti á næstu 10 árum. Var um þetta gerð áætlun, sem gerði ráð fyrir, að til þessara framkvæmda þyrfti 250 millj. kr. En nú þegar er ljóst, að sú upphæð verður ófullnægjandi. Tvö ár eru nú liðin af þessu 10 ára tímabili. Hefur framkvæmdum miðað vel áleiðis, einkum héraðsveitum, en vegna mjög aukins tilkostnaðar á flestum sviðum, sem einnig varða þessar framkvæmdir, er óumflýjanlegt að hækka fjárveitinguna til nýrra raforkuframkvæmda allverulega, ef auðið á að vera að fylgja áætluninni. Leggur fjvn. því til, að framlag til nýrra raforkuframkvæmda hækki um 4 millj. kr., því að n. telur brýna nauðsyn, að hægt sé að halda rafvæðingunni áfram af fullum krafti.

Bygging viðbótarhúsnæðis fyrir sjálfvirku símstöðina í Reykjavík er nú komin á lokastigið. Mikið fé hefur verið fest í þessum framkvæmdum og því nauðsynlegt, að hægt sé að taka þessa viðbót sem allra fyrst í notkun, því að hún mun færa símanum mjög auknar tekjur. Bíða nú þúsundir manna eftir að fá síma í umdæmi því, sem sjálfvirka stöðin í Reykjavík nær til. Fjárveiting sú, sem nú er í fjárlagafrv., er talin alveg ófullnægjandi, og leggur n. því til að hækka vegna byggingarframkvæmda þessara framlag til bæjarsímans í Reykjavík og Hafnarfirði um 800 þús. kr. og enn fremur að hækka um 2 millj. kr. heimild á 22. gr. fyrir ríkisstjórnina til að verja fé eða taka lán handa símanum til þessara framkvæmda.

Í núgildandi fjárlögum er 1 millj. kr. framlag til byggingar iðnskóla í Reykjavík. Veitt hefur verið úr ríkissjóði til byggingar iðnskóla samtals um 6 millj. kr. En kostnaður við skólabygginguna er nú orðinn um 12 millj. Enn vantar mjög mikið fé til þess að fullgera bygginguna, því að heildarkostnaðaráætlunin mun vera um 30 millj. kr. Er því lagt til, að einnig á næsta ári verði varið 1 millj. kr. til byggingar iðnskólans.

Svo sem kunnugt er, hefur sú mikla ógæfa hent bændur í Dalasýslu, að mæðiveiki hefur komið þar upp á nýjan leik, og er því óumflýjanlegt að framkvæma þar aftur niðurskurð sauðfjár. Af þessum sökum verður að hækka fjárveitingu til sauðfjárveikivarna um 2 millj. 710 þús. krónur.

Svo sem brtt. fjvn. bera með sér, eru gerðar allmargar till. um nokkrar hækkanir á fjárveitingu til vissra embætta og ríkisstofnana. Er sums staðar um að ræða fjölgun starfsmanna, en annars staðar fjárveitingu til greiðslu á ýmsum öðrum kostnaði. Eru allar þessar fjárveitingar teknar upp samkv. ósk viðkomandi ráðuneyta í samráði við fjmrn., enda í ýmsum tilfellum aðeins um leiðréttingu að ræða. Hefur nefndin að sjálfsögðu ekki aðstöðu til að meta þörf einstakra ríkisstofnana fyrir aukið starfslið og verður því að byggja á skoðun þeirra ráðuneyta, sem eiga að hafa eftirlit með viðkomandi stofnun. Hirði ég ekki að rekja nánar þessar einstöku brtt., enda nema fæstar þeirra háum fjárhæðum.

Í fjárlögum þessa árs eru veittar 450 þús. kr. til iðnlánasjóðs. Lögbundið framlag til sjóðsins er 300 þús. kr. á ári. Hefur það framlag verið óbreytt um margra ára skeið og er orðið algerlega ófullnægjandi. Féllst Alþ. á þá till. fjvn. við afgreiðslu núgildandi fjárlaga að hækka framlagið um 150 þús. kr. umfram hið lögboðna framlag. Telur nefndin aðstæður síður en svo hafa breytzt á þann veg, að fært sé að lækka þessa fjárveitingu nú, og leggur því til, að jafnhá fjárveiting verði tekin í fjárlög ársins 1956 og er í núgildandi fjárlögum.

Nefndin leggur til nokkra hækkun á ýmsum liðum styrkveitinga í 15. gr. og 17. gr. og að nokkrir nýir liðir verði teknir upp. Vísa ég um þetta efni til grg. með brtt. varðandi þessar greinar fjárlaganna.

Vegna aukins námskostnaðar telur nefndin ekki annað fært en að hækka framlög til lánasjóðs stúdenta um 150 þús. kr.

Stjórn vélasjóðs hefur leitað eftir sérstakri fjárveitingu til kaupa á tveimur skurðhreinsunarvélum. Hefur á undanförnum árum verið unnið víða um land að landþurrkun með skurðgröfum, og hafa þessar framkvæmdir gefið mjög góðan árangur. Brýn nauðsyn er nú að grafa upp ýmsa elztu skurðina, en til þess skortir heppileg tæki. Hefur n. því talið nauðsynlegt að verða við ósk um fjárveitingu til kaupa á tveimur skurðhreinsunarvélum handa vélasjóði í þessu skyni og leggur til, að veittar séu 255 þús. kr. á næsta ári til kaupa á þessum vélum.

Svo sem ég áður tók fram, er fjárlagafrv. miðað við vísitölu 173 stig. Vísitalan er nú 171 stig, og þykir sýnt, að gera verði ráð fyrir hærri vísitölu á næsta ári. Er því lagt til, að veittar verði á 19. gr. 4 millj. kr. til þess að mæta hækkun vísitölunnar umfram 173 stig, og samsvarar þetta um það bil 3 vísitölustigum.

Nefndin leggur til að taka upp tvo nýja heimildarliði í 22. gr. Eru báðir þessir liðir í samræmi við það, sem áður hefur verið gert, og sé ég því ekki ástæðu til að útskýra þá nánar en gert er í nál.

Ég hef þá gert grein fyrir helztu brtt. fjvn. á þskj. 179. Hef ég ekki hirt um að ræða hverja einstaka till., en mun að sjálfsögðu leitast við að gefa nánari upplýsingar um einstaka liði brtt., ef þess verður óskað.

Fjvn. hefur enn ekki afgreitt ýmis erindi, sem til hennar hafa borizt, og bíða till. n. um þau atriði 3. umr. Samkvæmt venju mun n. við 3. umr. gera till. um fjárveitingar á 18. gr., og samvinnunefnd samgöngumála mun fyrir 3. umr. skila till. sínum um fjárveitingar til flóabáta og vöruflutninga. Hér er þó um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða.

Auk þessara liða er vitað um nokkra háa útgjaldaliði, sem óhjákvæmilegt verður að taka upp í frv. við 3. umr., og er sumra þeirra liða getið í grg. með fjárlagafrv. eins og það upphaflega var lagt fram. Er þar um að ræða viðbótarframlag til Tryggingastofnunar ríkisins samkv. frv. því til tryggingalaga, sem nú liggur fyrir Alþingi, hækkun á launum starfsmanna ríkisins vegna væntanlegra nýrra launalaga, framlag til atvinnuleysistrygginga í samræmi við samkomulag um lausn vinnudeilunnar á öndverðu þessu ári. Lög hafa ekki enn verið sett um þessi efni, en gert er ráð fyrir, að þau verði afgreidd, áður en þessu þingi lýkur, og verður því að gera ráð fyrir útgjöldum vegna laganna í fjárlögum næsta árs. Hefur n. þó talið rétt að bíða til 3. umr. með að taka fjárveitingar vegna þessarar löggjafar í fjárlagafrv., ef þá kynni að liggja ljósar fyrir, hversu háar fjárupphæðir hér verður um að ræða.

Þá hefur nefndinni ekki fyrir þessa umr. unnizt tóm til að ganga endanlega frá skiptingu fjárveitinga til skólabygginga, en samkv. lögum frá síðasta Alþ. um fjármál skóla skal nú taka upp í fjárl. framlög til hvers einstaks skóla, í stað þess að áður hefur verið veitt ein heildarupphæð í þessu skyni, sem síðar hefur verið skipt af viðkomandi ráðuneyti. Samkv. upplýsingum þeim, sem fyrir n. liggja, er víða brýn þörf á skólabyggingum, og mikið fé þarf til að ljúka skólum, sem nú eru í smíðum. Virðist ljóst, að ekki verði hjá því komizt að hækka verulega fjárhæð þá, sem ætluð er í fjárlagafrv. til skólabygginga.

Samkv. tillögum n., ef samþykktar verða, verður rúml. 11.5 millj. kr. greiðsluhalli á sjóðsyfirliti fjárlagafrv. eftir 2. umr. Ekki er enn hægt að segja nákvæmlega um upphæð þeirra fjárveitinga, sem óumflýjanlegt verður að taka inn í frv. við 3. umr., en ekki er ósennilegt, að frv. verði þá með 50–60 millj. kr. greiðsluhalla að óbreyttri tekjuáætlun. Verður því að sjálfsögðu að gera fyrir 3. umr. frv. ráðstafanir til þess að afla nægilegra tekna til þess að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög, en það er skoðun nefndarinnar, að það sé hin mesta nauðsyn.

Ég mun þá víkja að tillögum n. um hækkun á tekjubálki frv. og hversu horfir með tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Þar sem tekjuáætlunin mun verða tekin til nánari endurskoðunar fyrir 3. umr., mun ég aðeins ræða þessa hlið málsins í stórum dráttum, enda er athugun nefndarinnar byggð á niðurstöðu 10 mánaða ársins, sem er að líða, en við lokaafgreiðslu fjárlaganna munu væntanlega liggja fyrir gleggri upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á þessu ári og önnur þau atriði, sem máli skipta, þegar gerð er áætlun um afkomuna á næsta ári.

Tekjum ríkissjóðs má í stórum dráttum skipta 1 þrjá flokka: skatta, tolla og tekjur af ríkisstofnunum, og skal ég fara nokkrum orðum um hvern þessara liða.

Álagður tekju- og eignarskattur og hluti ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti nema á þessu ári rúmum 98 millj. kr. Vegna hækkandi tekna skattgreiðenda að krónutölu má gera ráð fyrir, að álagðir skattar árið 1956 verði allmiklu hærri. Leggur n. til að hækka þennan tekjulið um 6.2 millj. kr.

Tolltekjur ríkissjóðs ákvarðast af innflutningi til landsins, en innflutningurinn takmarkast hins vegar af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, ef ekki á að vera um skuldasöfnun að ræða. Ljóst er, að tolltekjur ríkissjóðs verða á þessu ári mun meiri en gert var ráð fyrir, þegar fjárlög ársins 1955 voru endanlega samþykkt. Innflutningurinn árið 1954 nam 1130 millj. kr., en í október þessa árs var innflutningurinn orðinn 969 millj., eða 82 millj. kr. hærri en um sama leyti í fyrra. Má því gera ráð fyrir, að heildarinnflutningur ársins 1955 verði töluvert hærri en í fyrra. Hefur eftirspurn eftir gjaldeyri aukizt mjög vegna aukinnar peningaveltu í landinu, og ber jafnframt að gæta þess, að á þessu ári hafa engin erlend lán verið tekin og hin geysilega fjárfesting í landinu því verið kostuð af hinum venjulegu gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þetta hefur hins vegar leitt til þess, að gjaldeyrisstaðan hefur versnað allmikið, sem sjá má af því, að í lok októbermánaðar 1954 áttu bankarnir 88.8 milljónir í erlendum gjaldeyri, en 31. okt. s. l. nam gjaldeyrisskuld bankanna erlendis 35 millj. kr. Hafði því hagur bankanna versnað um 124 millj. á þessu 12 mánaða tímabili. Í þessu sambandi ber þá þess að gæta, að birgðir af útflutningsvörum voru áætlaðar 313 millj. kr. 1. nóv. 1955 á móti 208 millj. kr. um sama leyti í fyrra. Eru því vörubirgðirnar um 105 millj. kr. hærri nú en þá.

Heildarútflutningurinn árið 1954 nam 846 millj. kr., en í októberlok þessa árs var útflutningurinn orðinn 658.5 millj., eða um 32.5 millj. kr. minni en á sama tíma í fyrra. Horfur eru taldar á, að allmiklu meira verði flutt út síðustu tvo mánuði ársins en sömu mánuði í fyrra. Má því gera ráð fyrir, að útflutningurinn geti orðið nokkru meiri en í fyrra, en þó ekki svo að neinu nemi verulegu, og þá yfirfærast til næsta árs 50–60 millj. kr. meiri vörubirgðir en í fyrra. Er hér þó eingöngu um ágizkun að ræða.

Þar sem útflutningurinn byggist á jafnóvissum atriðum og aflabrögðum, er auðvitað mjög erfitt að gera fyrir fram áætlun um útflutningsverðmæti næsta árs. Miðað við verðmæti útflutningsins í ár, sem er mjög gott aflaár, ef síldin er undanskilin, virðist ekki varlegt að gera ráð fyrir, að verðmæti útflutningsins næsta ár verði nokkuð að ráði meira en í ár, þótt að vísu sé gert ráð fyrir, að allmörg skip bætist við bátaflota landsmanna á næsta ári. Gjaldeyrisstaðan sýnir einnig ljóslega, að við erum teknir að eyða hraðar en við öflum gjaldeyrisins, og getur slík þróun að sjálfsögðu ekki orðið varanleg, þegar um það er að ræða, að gjaldeyrisskuld er orðin. Er það því skoðun innflutnings- og gjaldeyrisyfirvalda, að töluverður samdráttur hljóti að verða á innflutningnum á næsta ári, nema einhverjar óvæntar gjaldeyristekjur komi til.

Í ár hafa tolltekjur ríkissjóðs af innflutningi bifreiða numið um 40 millj. kr., og er talið, að innflutningur bifreiða hljóti að verða miklum mun minni á næsta ári af gjaldeyrisástæðum, en hér er hins vegar um tekjulið að ræða, sem ekki var sérstaklega reiknað með við samningu núgildandi fjárlaga.

Með hliðsjón að þessum aðstæðum telur meiri hl. n. naumast varlegt að gera ráð fyrir því, að tolltekjur ríkissjóðs á næsta ári verði jafnmiklar og í ár, hvað þá hærri. Skal þó játað, að einhver ófyrirséð atvik kunna að raska þessu mati, en tekjuáætlunin verður naumast með neinni skynsemi byggð á öðru en staðreyndum, sem fyrir liggja, þegar fjárlögin eru afgreidd.

Af þessum sökum hefur nefndin ekki séð sér fært á þessu stigi málsins að minnsta kosti að gera till. um hækkun verðtollsins, en leggur til, að ýmsir aðrir liðir tolla og óbeinna skatta hækki nokkuð.

Í þriðja lagi er um að ræða tekjur af ríkisstofnunum, sem eru fyrst og fremst tóbaksverzlun og áfengiseinkasala. Rekstrarhagnaður áfengisverzlunarinnar er í fjárlögum þessa árs áætlaður 63 millj. kr., en var 1. des. s. l. orðinn 61.6 millj., eða 2.5 millj. kr. hærri en um sama leyti í fyrra. Rekstrarhagnaður áfengisverzlunarinnar er í fjárlagafrv. áætlaður 76 millj. kr. Rekstrarhagnaður tóbakseinkasölunnar er í fjárlögum þessa árs áætlaður 41 millj. kr., en var 1. des. orðinn 45.8 millj. kr., eða 3.6 millj. kr. hærri en um sama leyti í fyrra. Í fjárlagafrv. er rekstrarhagnaður tóbakseinkasölunnar áætlaður 42.7 millj. kr. Ekki virðist því vera auðið að hækka áætlaðar tekjur áfengisverzlunarinnar, en ef til vill getur komið til greina einhver hækkun hjá tóbakseinkasölunni, og verður það athugað nánar.

Heildartekjur ríkissjóðs 1. nóv. s. l. voru orðnar 463 millj. kr. á móti 396 millj. kr. um sama leyti í fyrra. Með hlutfallslega sömu aukningu síðustu tvo mánuði ársins má gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs í ár geti orðið um 633 millj. kr. Má því gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs í ár verði um 40 millj. kr. hærri en tekjuáætlun samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1956, ef með er talin hækkun meiri hluta nefndarinnar á tekjuáætlun frv.

Vafalaust munu ýmsir segja, að of varlega sé í sakirnar farið með tekjuáætlunina, enda benda till. minni hluta nefndarinnar ótvírætt í þá átt. Annars mun ég ekki ræða sérstaklega till. hv. minni hl. n., fyrr en gerð hefur verið grein fyrir þeim hér, en mun þá víkja að þeim síðar, eftir því sem tilefni gefst til.

Augljóst er þó, að þótt miðað sé við tekjuáætlun meiri hl. n., verða tekjur ríkissjóðs á næsta ári að reynast hærri en þær virðast ætla að verða í ár, til þess að ekki verði greiðsluhalli hjá ríkissjóði.

Allt frá árinu 1924 hafa umframgreiðslur ekki nema aðeins einu sinni orðið innan við 7.6% af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og auk þess jafnan orðið miklar umframgreiðslur og eignahreyfing. Árið 1953 urðu umframgreiðslur 86 millj. kr. og 1954 93 millj. kr. Er því ólíklegt, að 40 millj. kr. mundu nægja til að standa straum af óumflýjanlegum umframgreiðslum. Að sjálfsögðu er skylt að forðast umframgreiðslur, svo sem verða má, því að með umframgreiðslum er raunverulega verið að taka fjárveitingavaldið af Alþingi. Hins vegar koma jafnan til ýmis óumflýjanleg útgjöld, sem ekki var hægt að sjá fyrir við samningu fjárlaga. — Þess ber að gæta í sambandi við þær tölur, sem ég hef nefnt um umframgreiðslur árin 1954 og 1955, að þar með eru einnig taldar greiðslur samkvæmt sérstökum lögum og heimildarlögum.

Stjórnarandstæðingar munu vafalaust segja, að þar sem tekjur ríkissjóðs hafa á undanförnum árum jafnan farið langt fram úr áætlun, hljóti svo einnig að verða á næsta ári. Því er naumast hæg að svara á annan hátt en þann, að á slíkum hlutfallareikningi verða fjárlög ekki byggð með nokkurri skynsemi, þar sem að því hlýtur að koma, að mælirinn verði fullur og ekki hægt að treysta á einhverja óvænta heppni, ef menn vilja af ábyrgðartilfinningu afgreiða fjárlög ríkisins. Það er rétt, að á undanförnum árum hefur stundum verið um að ræða allverulegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði. En ég hygg, að reynslan hafi ótvírætt sýnt, að þar hefur fremur verið um happ að ræða en slíkt beri að lasta. Hitt er auðvitað rétt, að þegar að því kemur, að þurfi að heimta nýja skatta af þjóðinni til þess að standa undir útgjöldum ríkisins, verður að áætla núverandi tekjustofna ríkissjóðs svo hátt sem framast er unnt og þá ekki hægt að gera ráð fyrir því, að um neinn teljandi greiðsluafgang geti orðið að ræða.

Nú um áramótin verður vafalaust að gera ýmsar ráðstafanir til þess að tryggja áframhaldandi rekstur bátaflotans og einnig togaraflotans. Ekki verður á þessu stigi málsins neitt um það sagt, hvort og þá að hve miklu leyti þær ráðstafanir bitni á ríkissjóði á einn eða annan hátt. Kann því að virðast vafasamt að afgreiða fjárlög endanlega, fyrr en nánari upplýsingar liggja fyrir um það efni, en á það vill þó fjvn. engan dóm leggja. Hins vegar er það sameiginleg skoðun okkar, sem skipum meiri hluta nefndarinnar, að nú sem fyrr beri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, en innan þess ramma, sem gjaldgeta ríkissjóðs leyfi, beri að stuðla sem mest að andlegum og efnalegum framförum í landinu. En umfram allt er nauðsynlegt að hafa þá staðreynd í huga, að framleiðslustarfsemin í landinu er sú undirstaða, sem bæði fjárhagur ríkissjóðs og efnahagsafkoma þjóðarinnar byggist á. Efling atvinnuveganna og aukning framleiðsluverðmæta er því eina úrræðið til þess að bæta raunverulega lífskjör þjóðarinnar og skapa skilyrði fyrir því, að ríkissjóður verði þess umkominn að leggja enn meira af mörkum til margvíslegra framfara í þjóðfélaginu.

Meiri hluti fjvn. væntir þess, að hv. þm. geti fallizt á till. nefndarinnar í sambandi við afgreiðslu frv., og mælir meiri hl. n. með því, að fjárlagafrv. verði samþykkt við þessa umr. með þeim brtt., sem fjvn. sameiginlega ber fram á þskj. 179 og 184, og till. meiri hl. n. um tekjubálk frv. á þskj. 180. linja hæstv. ríkisstj. í því að sporna gegn vaxandi dýrtíð fram að verulegu leyti í fjárlagafrv. næsta árs.

Hv. frsm. meiri hl. n. sló því föstu, að það hefði komið í ljós, einkanlega í nál. frá sparnaðarnefnd, sem hefði starfað að undanförnu og væri nú búin að skila áliti, það álit væri í fórum fjvn., og niðurstaðan væri sú, að það væri ekki hægt að spara á fjárlagafrv. sem neinu næmi nema með breytingum á löggjöf. Þetta nál. sparnaðarnefndar mun liggja hjá fjvn., en því plaggi hefur ekki verið meiri gaumur gefinn en það, að ég minnist þess ekki, að þetta nál. hafi verið dregið fram eða dustað af því rykið neitt í sambandi við starfsemi fjvn., a. m. k. hef ég ekki séð þetta merka nál. enn þá og á það til góða að draga lærdómana af því. En þetta getur vel verið rétt, að það sé ekki hægt að gera stórkostlegan niðurskurð á gjaldabálki fjárlagafrv. nema með því að breyta löggjöf.

Mér fyndist nú, að ef hæstv. ríkisstj. hefði verið gagntekin af sparnaðaranda og búin að fá þessa bendingu frá sinni sparnaðarnefnd, hefði ekki verið óeðlilegt, að hæstv. ráðherrar hefðu annaðhvort setzt við með sveittan skallann sjálfir eða valið til þess færa menn að gera athugun á því, hvaða löggjöf væri hægt að breyta og yrði að breyta, ef nokkrum verulegum sparnaði ætti að ná. En ekki hef ég frétt neitt af því, að slík vinnubrögð hafi verið viðhöfð.

Hitt er enn fremur ljóst um það litla, sem bæði þessi sparnaðarnefnd og sennilega fjvn. gætu fallizt á að mætti gjarnan spara með því að sýna einhverja viðleitni til þess, að það hefur ekki heldur orðið neitt vart við það, því að það eru engar sparnaðar- eða niðurskurðartill. hjá meiri hl. hv. fjvn. Ég held, að það séu eitthvað á annað hundrað þús. kr. alls lækkunartill. í till. meiri hl., sem sé sama og ekki neitt.

Þá er það í þriðja lagi víst, að ekki hefur verið farið fram á það við stjórnarandstöðuna á nokkurn hátt að stuðla að sparnaði við afgreiðslu fjárlagafrv., hvorki á þann hátt að reyna að færa niður gjaldaliði í frv. né á hinn veginn, sem meira munaði um, að eiga hlut að lagabreytingum til þess að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn. Engar slíkar beiðnir hafa verið bornar fram við stjórnarandstöðuna, svo að mér sé kunnugt um, og þar af leiðandi höfum við ekki hafnað slíkum úrræðum.

Frsm. meiri hl. upplýsti, að sparnaðartill. hefði að undanförnu ekki verið vel tekið hér á Alþ. Það er alveg rétt. Minni hluti og minni hlutar í fjvn. hafa iðulega á undanförnum árum borið fram nokkrar till. til sparnaðar, en þær hafa allar alveg undantekningalaust á hverju einasta ári verið strádrepnar. Þar að auki er nú sagt, að sparnaðarnefndin hafi vísað til þess, að lagt hafi verið til á þingi nokkur undanfarin ár að leggja niður umfangsmikla ríkisstarfsemi, líklegast Skipaútgerð ríkisins, sem þeir hv. þm. Snæf. (SÁ) og hv. þm. Barð. (GíslJ) hafa þráfaldlega flutt till. um að yrði lögð niður, og að þær till. hafi ekki náð fram að ganga, og er þarna vísað til þeirra sem mikilla sparnaðartillagna.

Hins vegar er því ekki að leyna, að ef væri farið í það að breyta lögum með það fyrir augum að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn, þá gæti í sambandi við það að mínu áliti fyllilega komið til greina að athuga hlutverk og stöðu Skipaútgerðar ríkisins í þjónustu samgangna. Það er vitanlegt, að vaxandi halli þessa fyrirtækis er bein afleiðing af því, að samgöngurnar skiptast nú á samgöngur á landi, á bílaflutninga, á samgöngurnar á sjónum og samgöngurnar í loftinu, og þetta er gerbreytt viðhorf frá því, sem var, þegar skipaútgerðin var sett á fót og skipulögð. Þegar þetta mál væri ekki tekið eitt út af fyrir sig, heldur sem liður í sparnaðaraðgerðum og til þess að endurskoða löggjöf vegna breyttra viðhorfa, þá stæði sízt á mér og okkur í stjórnarandstöðunni að taka slíkt mál til meðferðar. En eitt út af fyrir sig á málið ekki rétt á sér að mínu áliti.

Hv. meiri hluti n. hefur ekki komizt hjá því að bæta við rekstrarútgjöldin á fjárlagafrv. þrátt fyrir þær verulegu hækkanir, sem í frv. sjálfu felast, því að hækkunartill. á gjöldunum nema um 28–29 millj. kr. Það eru smáhækkanir til Péturs og Páls og hinna og þessara fyrirtækja og stofnana, sem þarna er um að ræða, en mestu munar hækkunin til nýbyggingar vega, til viðhalds vega, til brúabygginga og nokkur hækkun líka til hafnargerða og lendingarbóta og hækkun vegna þess áfalls, sem bændur í Dalasýslu hafa orðið fyrir, mæðiveiki á ný. Þetta nemur samanlagt milljónum, sem allar eru til hækkunar. Þá er nokkur hækkun vegna flugvallagerðar, hún er þó ósköp smávægileg, 700000 kr. og til raforkumála dálítil hækkun, en að áliti okkar í minni hlutanum ófullnægjandi, eins og þessar hækkunartill. meiri hl. yfirleitt til verklegra framkvæmda, sérstaklega til hafnarmálanna, flugvallagerðar og raforkumála, enda bera till. okkar vott um, að við viljum, að þar sé tekið myndarlegar á, til þess að hægt sé að standa við þau loforð, sem hæstv. ríkisstj. hefur áður hátíðlega gefið. Það er og viðurkennt bæði í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. og í nál. meiri hl., að ef eigi að vera hægt að standa við þessi loforð, þá verði að hækka fjárveitingar til þessara málefnaflokka verulega, en till. þeirra um hækkanir á þessum liðum eru ekki till. um verulegar hækkanir.

Hv. meiri hl. leggur til, að tekjuáætlunin, eins og hún er borin fram af hæstv. ráðh., verði hækkuð um 15 millj. kr. Það fylgdi þó með, að enn yrði hún endurskoðuð fyrir 3. umr., og fannst mér, að það skini í það hjá frsm., að komið gæti til mála, að það yrði að gerast, sennilega sem neyðarráðstöfun, að færa áætlunina enn þá nær því rétta, því að vist er um það, að meiri hlutinn lætur það ekki henda sig að fara að gera áætlun, sem ekki sé líkleg til að standast, að því er snertir tekjur ríkissjóðs. Ég er alveg sannfærður um, að það er vel ómaksins vert fyrir meiri hl. fjvn. að athuga tekjubálk frv. dálítið betur og vita, hvort þeir geta ekki, einkanlega ef neyðin rekur á eftir þeim, komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé forsvaranlegt að hækka tekjuáætlunina mun meira en þeir hafa gert í þetta sinn. Við í minni hl. höfum þegar framkvæmt nokkuð ýtarlega athugun á tekjubálkinum og komizt að þeirri niðurstöðu, sem till. okkar bera vott um, sem sé að þeirri niðurstöðu, að það sé mjög varlegt að hækka tekjuáætlunina ekki um aðeins 15 millj., heldur 4 sinnum 15 millj., þ. e. rúmlega 60 millj. kr. Skal ég víkja nánar að því, þegar ég geri brtt. okkar að umræðuefni.

Það fór fjarri því, að ræða hv. frsm. meiri hl. væri á nokkurn hátt slík þrumuræða sem ræða þjóðbankastjórans fyrir nokkru, að því leyti að hún útmálaði ekki í nærri eins svörtum litum og þjóðbankastjórinn gerði, hvernig komið væri, en hans niðurstaða var sú, að í raun og veru væri komið að því, að þjóðarskútan væri að sökkva. Þá gerðist það, eins og kunnugt er, að fyrsti stuðningsmaður hæstv. forsrh., vil ég segja, — ég vil aftur kalla þjóðbankastjórann kannske fyrsta stuðningsmann hæstv. fjmrh., — kom að þeirri þrumuræðu haldinni í útvarpinu og flutti snarpa ræðu, og mér skildist niðurstaða hennar vera sú, að það væri að vísu alveg satt, sem þjóðbankastjórinn hefði sagt, útlitið væri ömurlegt, það væri í raun og veru kominn upp eldur í skipinu, en það mætti bara ekki segja skipshöfninni frá því, því að þá mundi verða tryllingur innan borðs og það yrði verra en hið fyrra. Þetta dró ég af þeirri líkingu, sem hv. þm. Barð. þá viðhafði. Hann sagði frá leikhússtjóra, sem hefði orðið þess var, að það var kominn upp eldur í húsinu, bak við tjöldin, og hann fór fram á sviðið og sagði áhorfendum frá því, að nú væri kviknað í og allt væri að brenna, og þá varð tryllingur meðal leikhúsgestanna og kostaði mörg mannslíf, menn tróðust undir. Hv. þm. Barð. sagði, að þennan verknað hefði þjóðbankastjórinn framið og það væri í raun og veru glæpsamlegt athæfi, því að af þessu gæti leitt það, að þjóðin missti stjórn á sér, og henni hefði alls ekki verið hollt að vita um, að svona væri komið. Ég sagði, að hv. frsm. hefði ekki málað þetta svona svart, því að hann hélt því fram, að það væri óneitanlegt, að heildarinnflutningur hefði verið miklu meiri í ár en í fyrra, og hann játaði einnig, að heildartekjur ríkissjóðsins á þessu ári yrðu líka miklu meiri en í fyrra, og hvort tveggja eru þetta staðreyndir. Ríkistekjurnar í ár verða, eftir því sem hægt er að álykta frá yfirliti úr ríkisbókhaldinu núna í októberlokin, aldrei undir 635–640 millj. kr., kannske ná þær í ár 650 millj. Í fyrra voru þær aftur 550 millj. Um það leyti, sem þessu ári lýkur, koma ríkistekjurnar til með að verða svona 80–100 millj. kr. hærri en á árinu 1954. Þetta er auðvitað af því, að tekjustofnarnir hafa ekki brugðizt. Það hefur verið mokað inn sköttum af skattþegnunum, það hefur náðst með beinum sköttum og tollum. Svo framarlega sem þeir spádómar, jafnvel úr stjórnarliðinu, rætast ekki, að þjóðarskútan sökkvi og allt fari í kaldakol, þá sé ég ekki annað en stefni allt í sömu áttina og s. l. ár, að verðþensla og veltuþensla haldi áfram og allt velti hér á fleiri krónum, og sérstaklega eru líkur til þess, að inn í ríkiskassann velti ekki færri milljónir á árinu 1956 en á árinu 1955. Útflutningsvörurnar eru sívaxandi, tekjur af þeim eru miklar. Það er bent á, að á þessu ári hafi ríkisstjórnin haft tekjur með óvenjulegum hætti, þar sem séu bílarnir. Það er rétt. Þó að það væri ekki játað hér um þetta leyti í fyrra, að ríkissjóður mundi fá verulegar tekjur af bílaskattinum svonefnda, sem átti að vera bjargráð fyrir togaraútgerðina, þá hefur það nú orðið svo, að samtímis því sem útgerðin fékk 53 millj. í tekjur af þessu tiltæki, nældi ríkissjóður sér í 40 millj. kr. tekjur af því. Og nú er á það bent, að þessi tekjustofn muni ekki vera til frambúðar fyrir ríkissjóðinn, og má það vel vera.

Ræða hv. frsm. snerist þó öll í þá áttina að mála útlitið í næstu framtíð frekar dökkum litum. Það var talið, að það væru litlar líkur til þess, að aflabrögð á næsta ári yrðu slík sem þau hefðu verið á þessu ári, heldur talin ástæða til að ætla, að afli yrði minni. Ég sé nú sízt ástæðu til þess. Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að það væri von á mikilli aukningu fiskiskipaflotans á næsta ári, og það leiðir til þess, að það mætti frekar í samræmi við það búast við auknum aflabrögðum, meiri útflutningsverðmætum og þar með meiri tekjum í ríkissjóð af þeim.

Það er að vísu alveg rétt, að gjaldeyrisaðstaða núna er mun verri en í fyrra, — þá var byrjað með gjaldeyrisinnstæðu erlendis, nú verður byrjað á næsta ári með gjaldeyrisskuld, — ef birgðirnar í landinu núna eru ekki því meiri, en um það deila stjórnarflokkarnir innbyrðis sín á milli, hvernig eigi að gera þetta dæmi endanlega upp. Sjálfstæðismenn hafa í þessum umræðum, frá því að þjóðbankastjórinn hélt sína þrumuræðu, haldið því fram, að hans upplýsingar hafi ekki gefið rétta hugmynd um ástandið, vegna þess að hann hafi ekki skýrt frá, hversu miklu meiri birgðir væru í landinu nú en í fyrra.

Ég vík aftur að því, að ég tel ekki ástæðu til að ætla, að tekjur ríkissjóðs að ári verði lægri en þær hafa reynzt í ár, þegar þær mörg undanfarin ár hafa verið síhækkandi, svo að skipt hefur á ári hverju mörgum milljónatugum. Við munum það, að ríkissjóðstekjurnar árið 1950, fyrir 5 árum, voru ekki nema 306 millj. kr., en í ár reynast þær 633 millj., segir meiri hl. Ég gæti hugsað, að þær yrðu 650 millj. Á þessu 5 ára tímabili hafa þær meira en tvöfaldazt, og það hafa ekki verið stór stökk eitt og eitt ár, heldur eru þær hækkandi frá ári til árs. Það þýðir, að við teljum ekki óvarlegt að áætla, að þær verði a. m. k. svipaðar að ári og nú, líklegast væri, að þær hækkuðu um 50–30 millj. á næsta ári, eins og þær hafa gert á árinu 1955, samanborið við 1954. Ég get ekki kallað það einskær höpp, að slík þróun á sér stað; það er bara fyrir þróun. Það er fyrir það, að við höfum aukið okkar skipastól, nýtt betur okkar framleiðslutæki í landi, og sérstaklega vegur það mikið, hvað ríkistekjur og þjóðartekjur hafa vaxið, að einmitt löndunarbannið í Bretlandi hefur neytt okkur til þess, góðu heilli, að vinna okkar útflutningsvörur meira innanlands en við gerðum áður. En það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. sé kunnugt um það, að á því sé nú búið að ráða bót á þann veg, að þessir búskaparhættir breytist nú á þann hátt, að þjóðartekjur og ríkissjóðstekjur verði aftur minni af framleiðslunni á næstunni. Þó hefur það ekki verið upplýst enn þá.

Ég skal nú leyfa mér þessu næst að ræða um brtt. minni hl. með nokkru tilliti til brtt. meiri hl.

Brtt. minni hl. liggja fyrir á þskj. 182. Okkar fyrsta og stóra brtt. er sú, að við teljum óhætt að áætla tekjubálkinn, þ. e. á 2. gr. frv., 60.7 millj. hærra en hann er áætlaður á fjárlagafrv.

Ég skal nú víkja að hverri einstakri brtt. Tekjuskatturinn er áætlaður 65.7 millj. á gildandi fjárl. Hann reyndist vera árið 1954 71.9 millj. kr., nærri 72 millj. Núna í frv. er hann áætlaður 95.8 millj. Meiri hl. telur óhætt að áætla hann nokkru hærri, og er hann áætlaður hjá þeim, ef ég man rétt, 108 millj. kr. Nú er það víst, að í krónutölu hafa tekjur yfirleitt hækkað verulega á þessu ári, og af því leiðir, að það er rétt að áætla tekjuskattinn á næsta ári til muna hærra en á árinu 1955, sem byggðist á árinu 1954, tekjum fólks þá. Við teljum ekki óvarlegt að ætla, að þegar skattheimtumenn ríkisins fara að fjalla um þetta mál, muni þeir hækka tekjuskattinn um 12–15% vegna þeirrar auknu krónutölu, sem menn hafa í tekjur nú á árinu 1955. Þess vegna áætlum við, að tekjuskatturinn ásamt stríðsgróðaskattinum muni aldrei verða undir 112.8 millj. kr., en af því kæmu beint í ríkissjóðsins hlut 107 millj. kr.

Þá er verðtollurinn, sem er í fjárlögum þessa árs 147 millj. kr., reyndist á árinu 1954 152.3 millj. og er nú, þegar 10 mánuðir ársins eru liðnir, kominn verulega fram úr áætlun. Teljum við óhætt að áætla þennan tekjustofn 170 millj. kr.

Innflutningsgjald af benzíni er á fjárl. 9.5 millj. Það var 1954 komið upp í 11.2 millj. samkv. ríkisreikningnum þá, er núna áætlað 10 millj., eða mikið fyrir neðan það, sem reyndist árið 1954. Þeir í meiri hl. vilja áætla þennan tekjustofn nálega alveg eins og 1954. Það teljum við alveg ástæðulaust, einkanlega með því að styðjast líka við upplýsingar ríkisbókhaldsins núna í októberlok, og teljum óhætt að áætla þennan tekjustofn 13 millj. kr.

Gjald af innlendum tollvörutegundum er á fjárl. núna 8 millj. kr. Þessi tekjustofn var kominn upp í 11.3 millj. á árinu 1954 samkv. ríkisreikningnum. Frv. er með hann niðri í 9.5 millj., og hv. meiri hl. vill áætla þetta bara 10 millj. kr., eða 1.3 millj. lægra en niðurstaða ríkisreikningsins 1954 bendir til. Við teljum, að það sé alls ekki óvarlegt að áætla þennan tekjustofn 700 þús. kr. hærra en ríkisreikningurinn 1954 sýnir, að hann varð þá, og áætlum hann 12 millj. kr.

Bifreiðaskatturinn er á gildandi fjárlögum 4 millj. Hann var orðinn 4.3 millj. á ríkisreikningnum 1954 og er áætlaður nú 5.5 millj. á fjárlagafrv. Hv. meiri hl. hefur ekki talið fært að hækka hann í sínum tillögum. Við teljum, að það sé ekkert óvarlegt að hækka hann um ½ millj. kr. frá frv., og leggjum það til.

Aukatekjur eru 7.6 millj. á gildandi fjárlögum. Þær voru orðnar 8.2 millj. samkv. reikningnum 1954. Í frv. núna eru þær áætlaðar 8.4 millj. Við teljum forsvaranlegt og varlegt að áætla þær 10.5 millj. kr.

Stimpilgjöldin eru í fjárlögunum núna 13 millj. kr. Þau voru 13.5 millj. kr. samkv. ríkisreikningnum 1954, eru nú í frv. áætluð 13 millj. óbreytt, þrátt fyrir að þau voru hærri árið áður. Meiri hl. fjvn. vill áætla stimpilgjöldin 13.5 millj., eins og þau reyndust 1954, og við teljum samkv. sífelldri hækkun þeirra frá ári til árs, að óhætt sé að ætla, að þau verði 14.5 millj. kr.

Vitagjöldin eru á gildandi fjárlögum 1 millj. kr., voru orðin 1.7 millj. samkv. ríkisreikningnum 1954, og við áætlum, að þau verði að minnsta kosti 1.7 millj. á næsta ári, og er tillaga okkar um það.

Leyfisbréfagjöldin eru 0.4 millj. á fjárlögunum. Þau voru 100% hærri árið 1954, 0.8 millj., og við leggjum til, að þau verði áætluð eins og þau reyndust 1954, 0.8 millj.

Þá eru útflutningsleyfagjöld. Þau eru á fjárl. núna ½ millj., voru 1954 orðin 0.8 millj., og við leggjum til, að þau verði áætluð 0.8 millj., eins og þau reyndust 1954.

Söluskatturinn er 112 millj. á gildandi fjárlögum, reyndist 117.5 millj. árið 1954 og er sýnilega nú í áframhaldandi vexti eftir upplýsingunum frá ríkisbókhaldinu núna í októberlokin. Teljum við því óhætt að áætla hann 130 millj. kr.

Þá eru að lokum leyfisgjöld, sem eru í gildandi fjárl. 2½ millj., voru orðin 5.3 millj. kr. í árslok 1954 samkvæmt ríkisreikningnum og eru núna í októberlok orðin 10.3 millj. kr. Við teljum því varlegt að áætla þennan lið 9 millj. kr.

Niðurstaðan af þessum brtt. okkar er, eins og ég áðan sagði, sú, að við teljum fært að hækka áætluð gjöld á 2. gr. fjárlagafrv. um 60.7 millj. kr.

Við höfum ekki fengið upplýsingar um, hvernig stæðu tekjurnar hjá áfengisverzlun og tóbakseinkasölu, miðað við októberlok, og höfum því ekki gert núna neina brtt. um tekjur þessara ríkisstofnana og áskiljum okkur rétt til að athuga það nánar fyrir 3. umr. og berum þá fram brtt. viðvíkjandi þessum stofnunum, tekjum þeirra, ef við sjáum ástæðu til að athuguðu máli.

Þá kem ég að brtt. okkar í minni hl. við gjaldabálk frv.

Í 10. gr. eru þrír, ef ekki fjórir töluliðir, sem eru um kostnað vegna ferðalaga, samninga við erlend ríki og þátttöku í alþjóðaráðstefnum, og samtals nema útgjöldin í þessum töluliðum 1 millj. 550 þús. kr. Við teljum réttara að færa þessi útgjöld vegna ferðalaga, kostnaðar við samninga við erlend ríki og þátttöku í alþjóðaráðstefnum undir einn lið og teljum, að það ætti að vera hægt að bjargast með 1 millj. kr. í þennan erindisrekstur, og leggjum til, að 1 millj. kr. sé varið til þessa.

Í fjárlagafrv. er lagt til, að 2 millj. kr. sé varið til læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa, annarra en ríkissjúkrahúsa og fjórðungssjúkrahúsa. Við vitum, að það er mjög mikil þörf fyrir, að veitt sé ríflegar fé til þessa hlutverks en gert er í frv., og leggjum til, að þarna verði hækkun um eina milljón og að liðurinn sé færður út með 3 millj. kr. upphæð.

Í mörg undanfarin ár hefur á 13. gr. verið liður um fjárveitingu til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum og kauptúnum — og hvað halda menn, að hafi verið ætlað til þessa? Það eru 100 þús. kr. Þessari upphæð hefur víst átt að skipta á milli margra kaupstaða og kauptúna, sem fyndu ástæðu til að afla sér dýrra verkfæra til malbikunar á götum hjá sér og að framkvæma slíka umbót hjá sér. Við teljum, að þetta sé algerlega óskiljanleg upphæð, og að engu gagni getur hún komið, og leggjum til, að í staðinn fyrir 100 þús. komi 2 millj. kr. Er okkur ljóst, að þessi upphæð er þó, eins og við leggjum til, of lág, til þess að hún geti komið að gagni á mörgum stöðum, en þörfin kallar núna að í flestum kaupstöðum landsins um þessa framkvæmd.

Þá leggjum við til, að til hafnarmannvirkja og lendingarbóta verði veittar 10 millj. kr. í stað 6.7 millj., sem eru í frv. Þessa þörf viðurkennir hv. meiri hl. n. fúslega, því að meiri hl. er með hækkunartill. En við teljum, að sú hækkun nái of skammt, og teljum, að með tilliti til þeirra stórkostlegu hafnarmannvirkja, sem nú eru víða í smíðum, sé ekki hægt að komast af með minna en 10 millj. kr. til hafnarmannvirkja og lendingarbóta.

17. brtt. okkar er við 14. gr. B. H og er um að hækka fjárveitingu til íslenzkra námsmanna erlendis úr 875 þús. kr., en sú upphæð hefur staðið óbreytt í mörg undanfarin ár og þannig í raun og veru farið minnkandi að kaupmætti. Við leggjum til, að hún hækki í 1 millj. kr.

Við 14. gr. B. XIV leggjum við til, að smáupphæð, þar sem fræðslumálastjóra er ætlað að skipta 60 þús. kr. til fyrrverandi barnakennara, verði 100 þús. kr. Við sjáum ekki fram á, að það sé fært að ætla fræðslumálastjóra að skipta 60 þús. kr. til margra fyrrverandi barnakennara. Okkar upphæð er að sjálfsögðu allt of lág líka og alls ekki til skipta.

Við sömu grein leggjum við til, að liðurinn um útgáfu námsbóka fyrir gagnfræðaskóla, sem er í frv. 10 þús. kr., verði 100 þús. kr. Við teljum, að það liggi í augum uppi, að það verði ekki einu sinni gefin út ein kennslubók fyrir gagnfræðaskólana með 10 þús. kr. framlagi, hvað þá heldur fleiri, en þarna er mjög mikil þörf fyrir hendi að sjá betur fyrir kennslubókum fyrir gagnfræðaskólana, og viljum við, eins og ég áðan sagði, að til þessa séu ætlaðar 100 þús. kr.

20. brtt. okkar er einnig við 14 gr. Það er í fyrsta lagi breyting á XXVIII. lið, fjárframlagi til Alþýðusambands Íslands. Í frv. er rekstrarstyrkur til Alþýðusambandsins 75 þús. kr. Við leggjum til, að þessi styrkur verði hækkaður í 150 þús. kr. Ef vikið er að hliðstæðum í frv., þá mætti kannske nefna einhver viðurkennd og gagnleg félagasambönd önnur, sem fjárveiting er til í fjárlagafrv. Dettur mér þá helzt í hug Kvenfélagasamband Íslands. Það hefur 150 þús. kr. rekstrarstyrk í frv. og hefur haft í mörg ár, en Alþýðusambandið hefur undanfarin tvö ár haft helming þeirrar upphæðar, eða 75 þús. kr. Það er þó ekki eingöngu vegna þess, að ég vilji gera samanburð á þessum félagasamtökum, heldur af því, að Alþýðusambandið er í nokkrum vanda statt með sinn rekstur. Það hefur sem fastar tekjur skatta frá öllum meðlimafélögum sínum, og þessir skattar eru ákveðnir á alþýðusambandsþingum, en s. l. ár sýna reikningar sambandsins, að tekjurnar hrukku ekki fyrir gjöldum, var 109 þús. kr. rekstrarhalli hjá sambandinu. Það er því ærin þörf fyrir það hjá Alþýðusambandinu að fá auknar tekjur, og þykir mér ekki ósanngjarnt, að ríkissjóður rétti þar hjálparhönd, því að engan veginn verður sagt, að alþýðusamtökin séu þýðingarlaus aðili í þjóðfélaginu.

Þá leggjum við til, að til orlofsferða verkafólks verði varið 10 þús. kr. Það er nýr liður. Hliðstæður við þetta eru t. d. hjá Búnaðarfélagi Íslands. Þar er ætluð til fræðsluferða bænda sams konar upphæð, 10 þús. kr. Hin góða löggjöf, orlofslöggjöfin, hefur komið að miklu gagni, en hún kæmi þó að mestu og ánægjulegustu gagni, ef hægt væri að rétta fátækasta fólkinu örlitla hjálparhönd til þess að notfæra sér réttindi orlofslaganna. En einmitt þeir, sem snauðastir eru, eiga erfiðast með að fara í orlof, taka sér sumarfrí, þó að þeir jafnvel undir sumum kringumstæðum, eins og t. d. barnafjölskyldur, hefðu þess meiri þörf en nokkrir aðrir. Og fórnin væri ekki mikil frá ríkissjóði, einar 10 þús. kr.

Í þriðja lagi er hér till. frá okkur í minni hl. um, að til ráðningarskrifstofu í þjónustu framleiðsluatvinnuveganna undir forustu Alþýðusambandsins yrði varið 100 þús. kr. Mér hefur ekki fundizt það vera í því horfi, sem vera ætti, þegar fólk hefur verið að koma á útmánuðum norðan af landi og austan af landi og vestan af landi sökum atvinnuskorts þar til þess að leita sér atvinnu hér á Suðvesturlandi. Þá hefur það komið fyrir, og þess höfum við orðið varir í Alþýðusambandinu, að hópar af slíku fólki hafa staðið hér vegalausir í Reykjavík og ekki vitað, að þeir gætu snúið sér til neins ákveðins aðila til þess að komast í samband við þá aðila í atvinnulífinu, sem hefðu þörf fyrir vinnukraft þeirra. Hins vegar er til ráðningarskrifstofa á vegum ríkisstj. til þess að ráða fólk á Keflavíkurflugvöll, og þar er þess vegna til ákveðinn aðili til þess að snúa sér að. Mér fyndist, að það þyrfti sérstaklega að vera til ráðningarskrifstofa, sem beindi vinnuaflinu frá þessum svæðum, sem verða að leita hingað á veturna eftir atvinnu, að þjónustu og sambandi við framleiðsluatvinnuvegina. Út frá þessum sjónarmiðum er þessi 3. liður í till. fluttur.

Við 15. gr. A. VIII leggjum við til, að til byggingar bókasafna og lesstofa verði varið 200 þús. kr., en á frv. eru ætlaðar 50 þús. kr., og sjá allir, að það verða ekki byggðar neinar bókasafnsbyggingar eða lesstofur fyrir 50 þús. kr. Ef það ætti að vera aðstoð, þá nær sú aðstoð skammt, því að vitanlega yrði þarna um að ræða fleiri byggingar bókasafna og lesstofa.

Við sömu gr. A. XXVII leggjum við til um fjárveitingu til vísindamanna og fræðimanna, að í staðinn fyrir 135391 kr. komi 150 þús. kr. Það er nokkur prósenthækkun og mjög miðuð við það, sem mér virtist eiginlega vera samkomulag um í n. að bæri að hækka fé til skálda og listamanna. En þessum lið hafði ekki verið hreyft, og hygg ég, að það hafi fremur verið af vangá en af því, að n. öll væri ekki sammála um, að þessir liðir ættu að hækka báðir nokkurn veginn hlutfallslega.

Þá er á 16. gr. frv. fjárveiting, sem nemur 250 þús. kr., til leitar nýrra fiskimiða. Fróðir menn telja, að 250 þús. kr. í þessu skyni dugi til þess að halda togara úti í einn túr, svona 10 daga túr. Sú hefur samt orðið reyndin, að þegar togari hefur verið sendur til að leita nýrra fiskimiða, hefur það venjulega borið árangur og í einstöku tilfellum borið undraverðan árangur. Við teljum, að þessu verkefni í þjónustu sjávarútvegsins þurfi að gera betri skil, og leggjum til, að til þessa sé varið 1.5 millj. kr.

24. brtt. okkar er um það, að varið verði 10 millj. kr. til stuðnings bæjar- og sveitarfélögum til kaupa á fiskiskipum samkvæmt skilyrðum, er ríkisstj. kann að setja. Til þessa hlutverks er enginn eyrir ætlaður í fjárlagafrv., en við teljum, að þarna sé um mikið þarfamál að ræða til þess einmitt að undirbyggja atvinnulífið, þar sem það stendur höllum fæti, og til þess að stuðla að aukinni framleiðslu. Verðum við aldrei nógu vel undir það búnir, að við þurfum kannske innan stundar að byggja eingöngu á okkar framleiðsluatvinnuvegum og ekki á milljón krónum á dag frá Keflavíkurflugvelli. Og þá veitir ekkert af því að fara að rétta einstaklingum og sveitarfélögum hjálparhönd til þess að efla framleiðsluatvinnuvegina, og það verður þá fyrst og fremst að byrja á að afla nýrra skipa.

Á 16. gr. er fjárveiting til iðnlánasjóðsins upp á 300 þús. kr. Meiri hl. n. leggur til, að þessi liður sé lítils háttar hækkaður, og viðurkennir þar með, að þess sé full þörf, að iðnlánasjóður sé efldur. Við leggjum til, að í staðinn fyrir 300 þús. kr. til hans komi 1 millj. kr. Við teljum enn ríkari ástæðu til þess að sinna þessum gagnlega sjóði, þar sem ríkisvaldið hefur endanlega ekki getað efnt það loforð sitt að greiða fyrir Iðnaðarbankanum með stórri lánveitingu, sem honum var fyrir nokkuð löngu gefið vilyrði fyrir og mig minnir að hafi átt að nema 15 millj. kr., en er víst ófengin enn þá.

Þá er komið að hinu þýðingarmikla máli fyrir landsbyggðina, dreifbýlið, það eru raforkuframkvæmdir. Á frv. er till. um 5860000 kr. framlag til nýrra raforkuframkvæmda. Hv. frsm. meiri hl. vék að því, að upphæðin, sem í frv. væri, væri ófullnægjandi og það væri sýnt, að ef hún væri ekki hækkuð, yrði ekki hægt að standa við þau fyrirheit, sem ríkisstj. hefði gefið í 10 ára áætluninni um rafvæðingu landsins. Meiri hl. er því með till. um lítils háttar hækkun á þessum lið. En við teljum þá till. ófullnægjandi, ganga of skammt, og leggjum til, að fyrir 5860000 komi 15 millj. kr., og væri þá nokkru líklegra, að hægt væri að standa við gefin loforð í raforkuframkvæmdunum.

Þá er 27. till. okkar um það, að inn komi nýr liður, er heiti „til félagsheimilasjóðs“, og verði fjárveitingin til hans 2 millj. kr. Okkur er kunnugt um, að félagsheimilasjóður er í fjárþroti, að félagsheimilabyggingar kalla að mjög víða um landið og þeim, sem fyrir þessum málum standa, eru nú gefin þau svör, að þeir geti ekki gert sér vonir á næstu 4–5 árum um að fá neina verulega aðstoð úr félagsheimilasjóði. Þegar svo er komið, sjáum við ekki annað fært en að tekin sé inn á fjárl. upphæð til þess að bæta úr þessu kyrrstöðuástandi.

Í fjárlagafrv. er á 17. gr. framlag samkv. lögum til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna. Við teljum, að það sé óviðunandi, eins og húsnæðismálum þjóðarinnar er komið, að ekki sé gerð tilraun til þess að gera byggingarsjóði kaupstaða og kauptúna mögulegt að hefja framkvæmdir á ný, en framkvæmdir á vegum sjóðsins mega nú heita stöðvaðar um allt land sökum fjárskorts. Leggjum við til, að tekið sé inn á fjárlagafrv. aukaframlag í viðbót við hið lögboðna framlag, og nemur þetta aukaframlag 4 millj. kr. Í beinu framhaldi af þessu teljum við, að í viðbót við lögboðið framlag til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum eigi að koma inn á frv. aukaframlag til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, að upphæð 2 millj. kr., og gerum okkur þó ljóst, að báðar þessar tölur eru of lágar, stórkostlega mikið of lágar, miðað við þörfina. En þessar tölur okkar eins og allar aðrar tölur í okkar brtt. eru miklu fremur miðaðar við getuna en þörfina.

30. till. okkar er um að fella niður útgjaldalið, sem er í fjárlagafrv. Það er liður, sem heitir „ráðstafanir vegna ófriðarhættu“. Þessi liður hefur verið á fjárlagafrv. nokkuð mörg undanfarin ár, að upphæð 1 millj kr., og okkur er tjáð, að það hafi verið keypt talsvert mikið inu í landið af hjúkrunargögnum alls konar og þau séu geymd hér í pakkhúsum. En þetta hlýtur að vera orðinn nokkuð mikill „lager“ og ekki alveg víst, ef við, sem við vonum, njótum friðar um mörg ár, að þessar birgðir verði allar í fullu gildi mörg ár. Við teljum því forsvaranlegt með tilliti til alls að fella liðinn um ráðstafanir vegna ófriðarhættu niður og spara þá milljón. Við teljum, að það sé tilvalið sem prófsteinn á það, hvort hv. meiri hl. er fáanlegur til að samþykkja nokkra sparnaðartill., að bera þessa till. fram, því að hún virðist vera sjálfsögð. Áður hafði ég gert grein fyrir sparnaðartill. um að láta sér nægja 1 millj. kr. til ferðalaga og samninga við erlend ríki og til þess að fara á alþjóðaráðstefnur.

Það, sem nú hefur verið gert að umræðuefni, er till. okkar viðvíkjandi hinum beina gjaldabálki, viðvíkjandi rekstrarútgjöldum á fjárlagafrv.

Þá erum við með einar fjórar eða fimm till. til breytinga á fjárfestingargreininni, 20. gr., og er þar fyrsta till. okkar sú, að til sementsverksmiðju verði ætlaðar 5 millj. kr. í staðinn fyrir 1 millj. kr. Okkur er tjáð, að hæstv. ríkisstj. sé búin að reyna mikið til þess að afla lánsfjár víða úti um lönd til sementsverksmiðjunnar, en þessar lánbeiðnir hafi gengið heldur erfiðlega. Víst er um það,að það dregst á langinn, að þetta þýðingarmikla stóriðnaðarfyrirtæki komist á fót, og teljum við því rétt, að á fjárlögum séu ætlaðar ekki minna en 5 millj. kr. til þess að flýta fyrir byggingu sementsverksmiðjunnar.

Næsta till. okkar við 20. gr. er um það, að til flugvallagerðar verði ætlaðar 5 millj. kr. í staðinn fyrir 2½ millj., sem lagt er til í frv. Það er kunnugt, að flugsamgöngurnar eru sívaxandi þáttur í okkar samgöngukerfi og staðir úti um land eru þannig settir sumir hverjir, að þeir eru svo til afskornir frá flugsamgöngum, njóta a. m. k. á engan hátt þess öryggis að því er snertir flugsamgöngur, sem þeir mundu njóta, ef komnir væru flugvellir í nágrenni þeirra. Verkefnin eru þarna mörg og stór og aðkallandi, og það vinnst seint, nema því aðeins að hægt sé að veita meira fé til flugvallagerðar en hægt hefur verið til þessa eða gert hefur verið til þessa. Þetta er sem sé tvöföldun á þeirri upphæð, sem er í frv.

Í þriðja lagi leggjum við til, að til kaupa á dieselrafstöðvum verði varið 1 millj. kr. í staðinn fyrir 650 þús. kr., sem frv. leggur til. Það er ómögulegt að mæla því í gegn, að þeir, sem hafa ekki möguleika til þess að fá raforku frá stóru vatnsaflsstöðvunum eða möguleika til að koma upp hjá sér einkavatnsaflsstöðvum og verða að búa við raforku frá dieselrafstöðvum, verða að sæta lakari aðstöðu um að fá raforku og fórna meiru fyrir það, og ber því að rétta þeim mönnum hjálparhönd með fjárveitingu á fjárlögum. Teljum við því nauðsynlegt, að þessi smáliður verði hækkaður lítils háttar.

Við leggjum svo enn fremur til, að breytt verði orðalagi á XXIV. lið 20. gr. á þann hátt, að liðurinn orðist svo: Til bæjar- og sveitarfélaga til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum. Fénu sé skipt af 5 manna nefnd, kjörinni hlutfallskosningu á Alþingi. — Verði ætlað til þessa í stað 5 milljóna 8 millj. kr. Það er ómögulegt að neita því, að fjárveitingin, eins og hún er orðuð og hefur verið orðuð að undanförnu í fjárlagafrv., verður nokkuð handahófskennd í framkvæmdinni. Það er hægt að vitna til margra dæma um það, að þessi fjárveiting hefur farið til einstakra manna til þeirra atvinnurekstrar, þó að viðkomandi sveitarfélag hafi í raun og veru ekki fengið til frjálsra umráða neitt atvinnubótafé. Stundum hefur þetta komið að gagni og stundum ekki, stundum verið ástæðulaust að veita einstaklingum slíkar fjárhæðir og að öllu leyti ótryggt um, hvernig þessu fé sé varið, ef ekki er betur um það búið. Við teljum langeðlilegast, að 5 manna nefnd, kjörin hlutfallskosningu á Alþ., fjalli um skiptingu á svona fé, úr því að því er ekki skipt hér af fjvn. eins og öðrum stórupphæðum í fjárlögum.

Síðasta brtt. okkar er allt annars eðlis en það, sem ég nú hef gert grein fyrir. Hún er um að verja 20 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1955 til fiskveiðasjóðs Íslands vegna bátasmíða innanlands. Við höfum ekki fengið nákvæmar upplýsingar um það, hver tekjuafgangur ríkissjóðs sé á árinu 1955, en þykjumst þó hafa nokkuð góðar heimildir fyrir því, að hann sé allverulegur, og til þess að minna á, að það sé gott, að Alþ. fái vitneskju um þetta mál, teljum við, að það sé tímabært að láta í ljós, að við gætum vel varið 20 millj. kr. af þessum tekjuafgangi til þess að greiða fyrir fiskibátasmiði innanlands. Við höfum keypt fiskibáta frá öðrum löndum á undanförnum árum í tugatali fyrir milljónatugi, sum árin meira að segja fyrir milljónatugi, og teljum slíkt óviðunandi og erum þeirrar skoðunar, að það sé rétt og sjálfsagt, að ríkissjóður greiði fyrir því, að við smíðum alla okkar fiskibáta innanlands sem allra fyrst, og þá ber auðvitað að rétta þeim mönnum, sem að því stæðu, hjálparhönd. Til þessa viljum við sem sé verja allt að 20 millj. kr. af tekjuafgangi yfirstandandi árs. Getur vel verið, að við tökum till. þessa aftur, ef við fengjum vitneskju um, að hæstv. ríkisstj. hefði hug á að sinna þessu verkefni.

Það er rétt, að ég geti þess, að tillögur okkar um hækkun á fjárfestingargreininni út af fyrir sig nema tæpum 10 millj. kr., 9.8, ef ég man rétt.

Nú er rétt, að ég að lokum gefi yfirlit yfir, hvernig fjárlagafrv. mundi líta út að lokinni 2. umr., ef allar brtt. okkar í minni hl. yrðu samþykktar. Þetta er gert upp í nál. okkar á þskj. 183, og er gerð grein fyrir því þar á þessa leið: Tekjurnar samkvæmt frv. eru 577285988 kr., hækkun samkv. till. okkar í minni hlutanum 60700000 kr. Yrðu þá samkvæmt því tekjurnar 637985988 kr. eða mjög í námunda við það, sem hv. meiri hl. hefur upplýst að tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári verði. Gjöldin samkv. frv. eru 515014140 kr., lækkun samkvæmt till. okkar 1 millj. 550 þús. Yrðu þá gjöldin samtals 513464140 kr. En við leggjum til, að gjöldin hækki um 36 millj. 922 þús., og yrðu þá rekstrargjöldin alls 550386140 kr. Samkvæmt því yrði rekstrarafgangur á frv. 37599848 kr.

Nú er rétt að geta þess, sem frsm. meiri hl. gat einnig um, að ákveðið hefur verið að geyma til 3. umr. till. á gjaldabálkinum vegna nokkurra liða, sem taka til sín verulegt fé. Þar er þá fyrst að nefna atvinnuleysistryggingarnar, sem talið er að muni kosta ríkissjóðinn um 14 millj. kr., almannatryggingarnar, sem talið er að muni þurfa að ætla 8–10 millj. kr., vegna launalaga 20–22 millj. kr. og svo vegna skólabygginga, ég veit ekki, hversu háa upphæð, en ég leyfi mér að nefna hér 5 millj. kr. Samtals er þá vitað um útgjöld, sem biða 3. umr., nálægt 50 millj. kr. Þetta er einnig upplýst í nál. meiri hl. Auk þess teljum við, að gera þurfi ráð fyrir einhverri hækkun á 18. gr., ef að líkum lætur, og ýmsu smávegis, sem til kynni að falla og við áætlum 4–5 millj kr. En þó að tekið sé tillit til alls þessa, væri samt eftir rekstrarhagnaður, sem næmi 32–33. millj. kr. að samþykktum öllum okkar till. En þá er eftir að gera ráð fyrir því, sem við vitum nokkurn veginn að verður. Það er það, að till. meiri hl. og hinar sameiginlegu till. nefndarinnar allrar upp á nærri 29 millj. verða auðvitað samþykktar. En þegar búið væri að framkvæma þá sjálfsögðu athöfn, væri samt eftir 3–4 millj. kr. hagstæður jöfnuður á rekstraryfirliti fjárlagafrv.

Við teljum því, að það sé einsætt, að það beri að veita atvinnulífinu og öðrum nytjamálum, sem till. okkar fjalla um, þá aðstoð, sem við höfum hér lagt til, og að samþykkja hinar sameiginlegu till. nefndarinnar, af því að við erum sannfærðir um, að þetta er hægt með því að áætla tekjuhlið fjárlagafrv. nærri réttu lagi. Við viljum því treysta því, að hv. Alþ. sjái sér fært nú í fyrsta sinn á mörgum árum að afgreiða fjárlagafrv. með öðrum hætti en gert hefur verið, á þann veg, að tekjurnar séu áætlaðar nær hinu rétta, því að reynslan hefur staðfest mörg undanfarin ár allar þær till., sem minni hl. hefur gert til breytinga á tekjuáætluninni. Till. okkar núna eru byggðar á nákvæmlega sama grundvelli, og við vitum fyrir víst, að þær eru varlegar, eins og þær hafa verið varlegar undanfarin ár og reynzt vera það.

Ég skal að síðustu taka fram, að við áskiljum okkur í minni hlutanum rétt til að bera fram till., þegar við höfum nánar athugað, hvernig standa tekjur og gjöld áfengisverzlunar ríkisins og tóbakseinkasölunnar. Allar okkar till. viðvíkjandi skólamálum, viðvíkjandi almannatryggingum, viðvíkjandi atvinnuleysistryggingum og vegna launalaga höfum við að sjálfsögðu látið bíða eins og meiri hlutinn og munum flytja brtt., ef við sjáum ástæðu til, eða skila sameiginlegum till. með meiri hluta n. um þá málefnaflokka.