12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil fyrst þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðsluna á fjárlagafrv. Hún hefur ekki dregizt lengur en gera mátti ráð fyrir. Það er ekki n. að kenna, ef svo tækist til, að ekki væri hægt að afgreiða fjárlagafrv. fyrir jól. Nefndin hefur gert það, sem af henni er frekast hægt að krefjast í sambandi við hraða á afgreiðslunni.

Ég vil rifja upp, að á fjárlagafrv. eru allar greiðslur ráðgerðar 577 millj. Hækkanir meiri hl. fjvn. eru ráðgerðar 29½ millj. Þá má gera ráð fyrir, að við 3. umr. hækki fjárlagafrv. aldrei minna en um 50 millj. Það er óhugsandi, eins og allt er í pottinn búið, að það verði minna, það gera nýju launalögin, framlög til almannatrygginga, sem vantar inn í frv., og atvinnuleysistryggingarnar nýju, sem á að lögleiða. Þá þarf að auka eitthvað framlög til skólamála, skólabygginga, frá því, sem er á frv., og fleira kemur til. Ég geri því ekki skóna, að hækkun við 3. umr. verði minni en 50 millj. Þá mundu fjárlögin vera komin upp í rúmar 650 millj. Gert er ráð fyrir því á fjárlagafrv., að tekjur alls verði 579 millj. Nú hefur hv. meiri hl. athugað tekjurnar, eins og þær voru 1. nóv., í samráði við fjmrn. og áætlað hækkun um 15 millj., en áskilur sér rétt til að breyta því, ef niðurstaðan í nóvembermánuði gæfi tilefni til þess. Samkv. till. n. yrðu þá tekjurnar metnar 594 millj. Þá mundi vanta samkvæmt þessu milli 50 og 60 millj. kr. til að brúa það bil, sem á fjárlögunum væri orðið við 3. umr. Nú má vera, að það sýni sig, að það megi lyfta tekjuáætluninni eitthvað. Ég vil ekki fortaka, að það mætti lyfta henni eitthvað, en það verður aldrei stórvægilegt. Þess vegna er augljóst, eins og ég benti á við framsögu þessa máls, að hv. Alþ. stendur frammi fyrir því í fyrsta skipti nú um mörg ár, að það verður ekki hægt að koma saman greiðsluhallalausum fjárlögum nema með því að gera nýjar ráðstafanir til tekjuöflunar. Þetta eru mikil tímamót að því leyti til, að nú undanfarin 4 ár hefur verið hægt að lækka skatta og tolla eitthvað á hverju ári. Nú ætla ég ekki að fara að rekja ástæðurnar fyrir þessu, vegna þess að ég þóttist gera það í framsöguræðunni um fjárlagafrv. og vísa til þess, enda er vafalaust eftir að ræða mikið um þær almennt. Ég vil aðeins benda á það enn á ný, að nú stöndum við frammi fyrir þessu. Þetta er það verkefni, sem verður að finna lausn á fyrir 3. umr. fjárlaga.

Menn greinir nú enn nokkuð á um það, hvað áætla eigi ríkistekjurnar á næsta ári, hv. meiri hl. og hv. minni hl., hv. stuðningsmenn stjórnarinnar annars vegar og hv. stjórnarandstæðinga hins vegar. Ég er sammála meiri hl. um, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að tolltekjur verði eins miklar á næsta ári og þær verða í ár. Það eru tvær ástæður aðallega, sem koma þar til greina. Annað er, að nú í ár verður eitthvað meira flutt inn en hægt verður að borga með gjaldeyristekjum ársins, hversu miklu meira, skal ég ekki segja, en eitthvað meira verður flutt inn. Gjaldeyristekjur þessa árs hafa þó verið óvenjulega miklar. Það er þess vegna ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það verði mögulegt á næsta ári að flytja eins mikið inn. Hitt er, að inn hafa verið fluttir á þessu ári óvenjulega margir bílar og af þeim eru óvenjulega háir tollar. Það eru milljónatugir, sem ríkissjóður hefur haft í tolltekjur af bílainnflutningnum. Ef bílarnir hefðu ekki verið fluttir inn, hefði náttúrlega verið flutt inn eitthvað meira af öðrum vörum að sjálfsögðu. Það hefði ekki allt verið lagt fyrir, sem farið hefur í bílakaup, það er fjarri því. En það hefðu ekki orðið jafntollháar vörur og bílarnir eru og ekki gefið ríkissjóði eins miklar tekjur. Það er augljóst, að á næsta ári verður ekki svona mikill bílainnflutningur. Gjaldeyrisástæður leyfa það ekki með neinu móti eða ástæður yfirleitt, og þess vegna má gera ráð fyrir, að þetta segi til sín á næsta ári. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir, að beinu skattarnir verði hærri næsta ár, vegna þess að tekjur manna hafa í krónutali verið hærri á þessu ári en á árinu 1955.

Þegar þetta dæmi er gert upp í heild, sýnist mér augljóst, að það sé ekki með nokkru móti hægt að gera ráð fyrir meiri heildartekjum á næsta ári en ríkissjóður hefur í ár, fremur minni, og þá verður niðurstaðan, að þó að hægt kunni að vera að teygja eitthvað örlítið meira tekjuáætlunina við 3. umr., þá verður það ekki svo, að neitt verulega dragi, og augljóst af þessu öllu saman, að ekki verður hægt að komast hjá því að afla nýrra tekna, sem nema verulegum fjárhæðum.

Þá vil ég minna á, að í þessu fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinum uppbótargreiðslum til atvinnuveganna, enda þótt því sé yfir lýst af ríkisstj., hún hafi heitið að beita sér fyrir útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir, og einnig vitað, að ekki verður hægt að komast hjá því að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Það er ekki gert ráð fyrir neinu slíku í fjárlagafrv. og yfirleitt ekki fyrirhugað að blanda þeim málum inn í fjárlagaafgreiðsluna, heldur verði málefni framleiðslunnar tekin út af fyrir sig.

Hv. frsm. minni hl. gerði nokkra grein fyrir till. þeirra i minni hl., og skal ég ekki fara um þær mörgum orðum. Ég vil þó aðeins benda á, til hvaða niðurstöðu þeirra afstaða mundi leiða, því að mér fannst það ekki vera nægilega glöggt, sem hv. frsm. sagði um það atriði. Mér fannst vanta örlítið í þá mynd, sem hann dró upp, eða réttara sagt ályktanirnar, sem hann dró af því, sem hann sagði. Hv. minni hl. leggur til, að útgjöldin á rekstrarreikningi verði hækkuð um 36.9 millj. og á 20. gr. um 9.8 millj. Þá eru þeir meðmæltir till. meiri hl., sem nema 29.5 millj., m. ö. o.: þeir vilja við 2. umr. hækka fjárlagafrv. um 76 millj. Þá er, eins og hv. frsm. minni hl. raunar sagði, ekki líklegt, að þeir né aðrir komist hjá því við 3. umr.samþ. hækkun upp á 50–55 millj. Ég held, að hann hafi gert ráð fyrir 55 millj. Og ef við tökum hans áætlun í þessu efni, sem vel má vera nærri lagi, mundi fjárlagafrv. hækka um rúmar 130 millj., ef þeirra afstaða fengi að ráða, eða um 46 millj. meira en meiri hl. hefur lagt til og hefur áætlanir um að leggja til við 3. umr. Nú eru útgjöldin á fjárlagafrv., eins og það lá fyrir, áætluð 577 millj., þannig að þá mundu útgjöldin samkv. afstöðu minni hl. verða um 708 millj. Það er því þeirra afstaða, að þau ættu að verða sem næst því. Þeir gera ekki ráð fyrir því, að nein tekjuöflun þurfi að koma til, og er þá víst, að samkv. þeirra till. væri greiðsluhalli alveg gefinn, því að það er alveg óhugsandi, að fært sé að gera ráð fyrir því, að á næsta ári geti óbreyttir tekjustofnar staðið undir 708 millj. Tekjur ársins í ár nálgast ekki þá fjárhæð, og það hafa hér verið færð rök fyrir því, að það er mjög hæpið að gera ráð fyrir, að næsta ár geti orðið jafngott tekjuár og þetta, og varlegra að gera ráð fyrir því, að það verði lélegra tekjuár. Þá mundu bætast við þessar 708 millj. alveg óhjákvæmilegar umframgreiðslur, því að það er alveg sama, hvernig farið er að, það er aldrei hægt að komast hjá þeim, það koma fyrir alls konar áföll, sem ómögulegt er annað en að mæta með stuðningi af hendi ríkissjóðs. Mér þætti því ekki ólíklegt, að með þessari afstöðu minni hl. mundi stefnt að því, að landsreikningur fyrir árið 1956 kæmist upp í 750–760 millj. a. m. k. og greiðsluhalli stórfelldur. Þetta vildi ég benda á. Þó að þetta sé ekki mikið önnur mynd en sú, sem hv. frsm. minni hl. gaf, tölulega séð, þá dreg ég aðrar ályktanir en hann um horfurnar, ef þeirra afstaða réði afgreiðslunni.

Ég vil svo segja það að lokum út af einni brtt. frá hv. minni hl., að verja 20 millj. af tekjuafgangi 1955 til fiskveiðasjóðs Íslands, að ríkisstj. mun á sínum tíma leggja fyrir hv. Alþ. till. um ýmis framlög af greiðsluafgangi þessa árs, sem er að líða, og þá verður fiskveiðasjóði áreiðanlega ekki gleymt. Hann verður ein sú stofnun, sem ríkisstj. mun leggja til að njóti góðs af greiðsluafganginum. Auðvitað ráða hv. tillögumenn, hvað þeir gera við till. nú við 2. umr., en ég vildi gefa þessar upplýsingar.