12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

1. mál, fjárlög 1956

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. (HV) hefur nú þegar gert allýtarlega grein hér fyrir afstöðu okkar, sem erum í minni hl. fjvn., og rakið þær till., sem við flytjum hér til breytinga á frv., svo að ég get stytt mál mitt verulega, en vildi þó víkja að nokkrum atriðum í sambandi við afgreiðslu málsins og með nokkrum orðum að örfáum af till. okkar.

Það er hverjum manni ljóst, að það, sem er aðaleinkenni við afgreiðslu þessara fjárl., er hið sama nú og jafnan áður, að fjárl. fara verulega hækkandi, og þó fyrst og fremst það, að útgjöld öll við embættiskerfi ríkisins vaxa meira en allt annað, vaxa mest. Ég hef bent á þetta áður hér við afgreiðslu fjárlaga. Ég vil aðeins í þessu efni minna á það, að samkvæmt frv., eins og það liggur fyrir, vaxa útgjöldin í sambandi við útgjöld ríkisstj. sjálfrar um rúmlega 20%, embættiskostnaður sýslumanna og bæjarfógeta hækkar rétt um 30% og lögreglukostnaður t. d. í landinu hækkar um rúmlega 40%, innheimta skatta og tolla hækkar um 25%. Svona er þetta á þessu frv., og svona hefur þetta verið á undanförnum árum. Hækkunin í sambandi við embættisgerðir hefur alltaf verið mest, og þar er ekki því til að dreifa nema að litlu leyti, að um beinar kauphækkanir sé að ræða. Að nokkru leyti er auðvitað um kauphækkanir að ræða í þessu efni, en hitt veldur þó meiru um, að það er bein útþensla í embættiskerfinu. Það er sí og æ í öllum stofnunum verið að fjölga starfsmönnum, verið að bæta við þann kostnað, sem leggst á embættisreksturinn.

Í sambandi við þetta hefur stundum verið að því vikið, að við, sem minni hlutann skipum, höfum ekki flutt till. um lækkun á þessum útgjöldum, og svo er enn í þetta sinn. Ástæður til þess eru nú hinar sömu og áður, sem við höfum áður greint frá, að það er mjög erfitt fyrir einstaka alþm. eða minni hluta í fjvn. að koma fram með till., sem eiga að fara í þá átt að lækka eða draga úr þeirri útþenslu, sem orðið hefur á undanförnum árum í embættiskerfi ríkisins, koma fram með till. um að fækka í þessari stofnun um þrjá menn, í hinni um fimm menn og enn annarri um einn mann o. s. frv.

Samdráttur að nýju í embættisbákninu verður varla gerður beint af Alþ. Það verður að vera verk ríkisstj. eða sérstaklega til þess kjörinnar n., en vilji Alþ. getur hins vegar greinilega komið fram í umsögnum manna hér á Alþ. um þetta efni.

Það er svo vitanlega allsendis ófullnægjandi í þessum efnum, þegar staðreyndirnar sýna, að embættisbáknið stækkar sí og æ, að vísa þá í sífellu til þess, að starfandi sé sparnaðarnefnd, sem eigi að athuga þetta mál, eða að sparnaðarnefnd hafi lagt fram ýmsar till. um þessi efni, en enn sé ekki búið að taka þar um neinar ákvarðanir. Vitanlega er það á valdi ríkisstj. að koma í veg fyrir þetta, en sú stefna kemur ekki enn fram í þessu frv.

Þá er það enn annað atriði, sem einkennir afgreiðslu þessara fjárl. eins og annarra á undanförnum árum, en það er hin áberandi ranga tekjuáætlun fjárlagafrv. Reynslan hefur nú sýnt það, að á undanförnum árum hefur það verið svo, að áætlanir um tekjur ríkissjóðs hafa verið of lágar um hartnær 100 milljónir kr. á hverju ári í nokkur undanfarin ár. Við, sem höfum verið í minni hl., höfum allajafna lagt til, að tekjurnar yrðu áætlaðar nokkru hærri, en það hefur ekki fengizt samþ. Hið sama gerist enn að þessu sinni. Nú er lagt til að áætla tekjurnar nokkru lægri en þær reynast á þessu ári, en vitanlega eru engin rök fyrir því að leggja slíkt til. Það bendir þvert á móti allt til þess, að tekjur ríkissjóðs muni enn fara vaxandi. Framleiðsla þjóðarinnar vex. Aflaskýrslur sýna, að aflinn hefur farið verulega vaxandi á undanförnum árum, og full ástæða er einmitt til þess að búast við því enn, að aflinn muni fara vaxandi með aukinni friðun við strendur landsins og einnig með verulegri aukningu á skipastól landsmanna, sem einmitt er að fara fram um þessar mundir. Það má því telja alveg víst, að gjaldeyristekjurnar fara vaxandi og innflutningur mun einnig fara vaxandi sem afleiðing af því.

En það virðist vera beinlínis stefnuatriði hjá hæstv. ríkisstj. að áætla tekjurnar alltaf sem kallað er varlega eða miklu lægra en allir vita að tekjurnar muni verða, til þess að ríkisstj. sjálf geti á þann hátt tekið í sínar hendur verulegan hluta af fjárveitingavaldinu, sem annars tilheyrir sjálfu Alþingi.

Ég tel, að þessi tvö atriði, hin greinilega og glögga þensla í embættisbákni ríkisins, þar sem útgjöldin hækka mest, og hin áberandi ranga tekjuáætlun á frv., séu höfuðatriði eins og fyrri daginn í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv.

Við sósíalistar höfum margsinnis lýst því yfir, að við erum andvígir þessu. Við teljum, að í þessum efnum sé ranglega á þessu haldið og það beri að hafa þetta fremur á þá lund, sem við höfum lagt til á undanförnum árum.

Ég vil svo víkja með örfáum orðum að nokkrum till. okkar í minni hl., aðeins örfáum, því að annars hefur frsm. frá okkar hálfu, hv. 3. landsk., gert till. full skil.

Ein till. okkar gerir ráð fyrir því, að framlag til leitar að nýjum fiskimiðum verði hækkað úr 250 þús. kr. í 1½ millj. Ég tel, að það sé full ástæða að undirstrika nauðsyn þess, að þessi till. okkar verði samþ. Það viðurkenna nú allir, að leit að nýjum fiskimiðum er mjög þýðingarmikil fyrir framleiðsluna í landinu, og að því litla leyti sem leitað hefur verið að fiskimiðum, hefur það ævinlega skilað miklum ágóða. Fyrir rúmu ári var togari tekinn á leigu í eina veiðiför til þess að leita að nýjum karfamiðum, og honum var heitið nokkrum styrk. Þessi togari þurfti ekki á þessum styrk að halda í það skiptið, því að hann var tiltölulega heppinn í sinni leit, hann fann ný karfamið, og á þeim karfamiðum veiddi íslenzki togaraflotinn karfa þá um haustið, sem nam að útflutningsverðmætum yfir 30 millj. kr. Það var því ekkert um að villast, að þessi fiskimiðaleit bar sannarlega góðan árangur í þessu tilfelli. En hvað gilda í rauninni 250 þús. kr. til þess að leita að nýjum fiskimiðum, t. d. á djúpmiðum eða fyrir togaraflotann? 250 þús. kr. jafngilda rekstri venjulegs nýsköpunartogara í 11–12 daga. Hér er því aðeins um að ræða að taka á leigu nýsköpunartogara í um það bil hálfan mánuð eða tæplega það til rekstrar í þessu skyni. Þetta er vitanlega allt of lítið, og það mundi margborga sig fyrir þjóðarheildina að samþykkja í þessu efni okkar till. eða hækka þetta upp í 1½ millj., auk þess sem það er svo vitað, að það þarf einnig að verja nokkru fé til fiskimiðaleitar fyrir aðra en togarana. Þar kemur til greina ýmis önnur veiði, þar sem tilfinnanleg nauðsyn er á að leita eftir fiskimiðum einnig.

Þá flytjum við till. um breytingu á 20. gr. varðandi atvinnubótafé. Þar leggjum við til, að nokkru meira fé verði varið í þessu skyni, í staðinn fyrir 5 millj. komi 8 millj. En hitt skiptir þó ekki minna máli, að við leggjum til, að orðalagi í sambandi við þessa fjárveitingu verði breytt, að það verði ekki, eins og segir nú í fjárlagafrv., „samkvæmt úthlutun ríkisstj.“ og jafnóbundið og segir í frv., heldur verði þessu úthlutað af sérstakri þingkjörinni fimm manna n., og enn fremur, að úthlutun á þessu fé verði bundin við bæjar- og sveitarfélög. Ég hef áður minnzt á það hér, að úthlutun á þessu atvinnubótafé er í rauninni hreinasta hneyksli, eins og hún hefur farið fram á undanförnum árum. Ríkisstj. hefur þarna tekið á ári hverju 5 og upp í 8 millj. kr. og hagar þessari úthlutun þannig, að um algera misnotkun á opinberu fé er að ræða. Það hefur sem sé komið í ljós, að þessu atvinnubótafé hefur ekki verið úthlutað til bæjar- og sveitarfélaga eða þeirra aðila í landinu, sem almennt hefur verið talið sjálfsagt að veita féð, eða þeirra, sem eiga að ráða fram úr atvinnuvandræðum á hverjum stað, heldur hefur ríkisstj. tekið upp þann háttinn að verja þessu fé til einstakra manna í ýmsum tilfellum, og það er ekki annað hægt að sjá í mörgum tilfellum en að ríkisstj. hugsi sér þetta fé á þá lund, að hún geti látið óánægða flokksmenn sína hafa þetta, eftir því sem þau mál annars liggja fyrir hjá stjórninni. Sumir þeir, sem fá þetta fé, fá það sem óafturkræfan styrk, aðrir fá það í lánsformi. Í sumum tilfellum fá sveitarfélögin féð, í öðrum tilfellum eru það einstaklingar eða hlutafélög. Sumir fá þetta einvörðungu til þess að kaupa sér ný atvinnutæki, en aðrir fá þetta sem beinan styrk eða lán til þess að standa undir almennum og venjulegum rekstri. Sumir fá þetta til þess að kaupa sér nýja fiskibáta, aðrir til þess að lappa upp á gamla báta eða skipta um vél í bát. Sumir fá þetta til kartöfluræktar eða í styrk með kartöflurækt, og annað er eftir þessu. Það er greinilegt, að við úthlutun á þessu fé er ekkert samræmi á neinn hátt. Ég skal rétt til fróðleiks nefna það, að í þau 5 ár, sem úthlutun hefur verið á atvinnubótafé, hygg ég, að allir staðir á landinu utan Faxaflóans, sem nokkrir staðir eða þorp geta talizt, hafi orðið aðnjótandi að þessu fé flest árin nema Neskaupstaður. Það var lengi þannig, að hann gat alls ekki fengið neitt fé í sambandi við þessa fjárveitingu. En svo vildi það til, að eitt árið var úthlutað nokkru af þessu fé í sambandi við byggingu á fiskhjöllum, og þá var þó brotin aðalreglan, sem var sú, að þetta ætti að fara til atvinnuaukningar utan hins yfirspennta atvinnusvæðis, sem hér var við Faxaflóa, t. d. utan Reykjavíkur, en þá hafði bæjarútgerðin í Reykjavík fengið nokkurn styrk til þess að byggja fiskhjalla. Og þegar við í Neskaupstað sóttum þá um styrk árið eftir og bárum það fyrir okkur, að meira að segja þeir í Reykjavík hefðu fengið styrk, þá fengum við í eitt skipti 100 þús. kr. Öll hin árin hafði okkur verið neitað um styrk í þessu efni.

Þegar við höfðum orðið fyrir allmiklu óhappi með því að missa eitt okkar mesta atvinnutæki, sóttum við um atvinnubótafé og reiknuðum með því að fá þar nokkurn styrk. En þó að væri búið að úthluta Neskaupstað það álitlegri upphæð, að heimastaðurinn væri vel ánægður með, var ekki aldeilis laust féð. Það var sem sagt alveg ákveðið, að Neskaupstaður sem slíkur, bæjarstjórnin í Neskaupstað, skyldi ekki fá eina krónu, og það mátti ekki fara eftir neinum till. hennar í þessum efnum, heldur er þá tekið það ráð, að um greinilega pólitíska úthlutun á fénu var að ræða, einstakir menn fá þetta fé, þvert ofan í till. viðkomandi bæjarstjórnar og gegn beinum mótmælum hennar, og það efast enginn um, sem þar þekkir til, að þar var hver króna notuð dyggilega til pólitísks ávinnings. Svona framkoma með opinbert fé er vitanlega stórvítaverð, og það nær engri átt, að ríkisstj. eða tveir stjórnmálaflokkar, sem að henni standa, geti tekið ákveðna fjárupphæð á ári hverju, 5–8 millj., og mylgrað henni út sem styrkjum eða lánum eftir pólitísku sjónarmiði þeirra, sem að stjórninni standa, á þann hátt, sem nú hefur verið gert. Lágmarksskilyrði í þessum efnum er, að þetta atvinnubótafé gangi til bæjar- og sveitarfélaga og að viðkomandi sveitarfélög fái svo að ráðstafa þessu fé, annaðhvort í samráði við ríkisstj. eða eftir þar til settum reglum.

Það er vitanlega harla einkennilegt, þegar tveim stöðum hlið við hlið úti á landi er gert svo mishátt undir höfði, að á öðrum staðnum fær einstaklingur 100 þús. kr. lán til byggingar fiskibáta af ákveðinni stærð, en á næsta stað við fái einstaklingarnir annaðhvort ekki neitt eða þá að þeir fá helmingi lægri styrk en á hinum.

Þá verð ég að segja það, eins og ég hef vikið hér að áður, gerði á s. l. ári, að ég kann heldur illa við, að það sé hægt að fara þann veg með þetta fé, að t. d. einstakir þm., eins og dæmi eru til um, geti fengið 200–300 þús. kr. að láni af atvinnubótafé og komi svo með það heim í sitt kjördæmi og ráðski með það í sambandi við eigin rekstur eða annarra, vitanlega sér til hagnaðar. Þetta er alger misnotkun á almannafé, að halda svona á málunum, en það er þetta, sem hefur verið gert, og þannig er skipulagið nú í dag í þessum efnum.

Í sambandi við dæmið frá Neskaupstað, sem ég minntist hér á, skal ég geta þess, að þeir aðilar, sem áttu að hafa með höndum skiptingu á þessu atvinnubótafé, sögðu við mig, að það hefði ekki verið gert allajafna að úthluta þessu fé til einstaklinga þvert ofan í till. viðkomandi sveitarstjórnar, en í sambandi við Neskaupstað hikaði ríkisstj. ekki við að gera það eða sá ráðh., sem tók sér það vald.

Það er því full ástæða til þess, að hv. alþm. athugi það, hvernig er háttað úthlutuninni á atvinnubótafé og hvort ekki er rétt að hafa þá tilhögun á þessu, sem við í minni hl. leggjum til, þar sem við förum fram á, að það verði þingkjörin n., sem úthluti þessu fé og bindi það þá væntanlega við einhverjar fastar reglur, veiti það fyrst og fremst til sveitarfélaga, en ekki til einstaklinga.

Ég vil t. d. benda á, að það er vitanlega höfuðskilyrði, þegar um fjárframlög til bátabyggingar er að ræða, að það sé tryggt, að viðkomandi bátur, sem byggður er fyrir atvinnubótafé á einum stað, verði gerður út frá þeim stað, sem féð átti að veitast til, en ekki að nafn staðarins sé notað að yfirvarpi og báturinn svo gerður út á allt öðrum stað. En eins og fjárveitingunum nú er háttað, er engin trygging fyrir þessu.

Ég tók eftir því, að í þeim fáu orðum, sem hæstv. fjmrh. lét hér falla í sambandi við afgreiðslu þessa máls nú við þessa umr., lagði hann á það talsverða áherzlu, að afgreiðsla fjárl. færi fram út af fyrir sig eða óbundin af afgreiðslu Alþ. á málefnum atvinnuveganna. Ég fyrir mitt leyti tel, að þetta sé algerlega röng málsmeðferð. Ég álít hins vegar, að fjárlög séu þess eðlis, að það sé fyllsta ástæða til þess að taka þar fullt tillit til lausnar á því mikla vandamáli að tryggja öruggan gang framleiðslunnar, og að það sé í rauninni ekki sæmandi að afgreiða svo fjárl. fyrir árið, að það sé ekki búið að tryggja um leið, að framleiðslan gangi nokkurn veginn hindrunarlaust. Mér þykir það t. d. harla einkennilegt, ef Alþ. velur þá leið að gera hér samþykkt um tekjuöflun upp á 40–50 eða jafnvel 60 millj. kr. til þess að ná vel saman endum hér á fjárl., en láti hins vegar afskiptalaust, að enn er ekki búið að leysa þann mikla vanda, sem er í sambandi við að tryggja útgerð bátaflotans í landinu og útgerð togaranna á næsta ári. Fjárl. hljóta vitanlega að vera svo nátengd gangi atvinnulífsins í landinu, að það er í sjálfu sér ómögulegt að slíta þetta í sundur. Það er ekki hægt að hugsa sem svo: Ja, fyrst er nú að bjarga fjárl., ef þau komast einhvern veginn heil í gegn, þá verða guð og lukkan að ráða hinu, hvort nokkuð verður rekið af atvinnulífi landsmanna. — Þannig er vitanlega ekki hægt að hugsa, og fjárl. eiga ekki að hafa neinn forgang í þessum efnum, nema síður sé. Ég tel því fyrir mitt leyti, að það sé einmitt full ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. lýsi við afgreiðslu fjárl. einhverju yfir í sambandi við lausn útgerðarmálanna á komandi árum. Það er og alveg vitanlegt mál, að samtök útvegsmanna eru búin að tilkynna stöðvun, bæði bátaflotans og togaranna, frá næstu áramótum, hafi ekki tekizt samningar, sem útvegsmenn telji viðunandi til þess að tryggja reksturinn. Og ég vildi fyrir mitt leyti við þessa umr. inna eftir því við hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi ekki í undirbúningi till. til þess einmitt að tryggja lausn þessa vanda engu síður en till. um að tryggja ríkissjóði 50–60 millj. í auknar tekjur frá því, sem verið hefur.