12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

1. mál, fjárlög 1956

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Á þskj. 187 flytjum við hv. þm. Vestm. og ég 4 brtt. við fjárlagafrv., og eru þær alls raunverulega að upphæð einar 8 þús. kr. til hækkunar á útgjöldum ríkisins. Að vísu mundi ein till. hækka fjárl. nokkru meira, en ég kem síðar að því, að þar er ekki um raunverulega útgjaldahækkun fyrir ríkissjóð að ræða.

Fyrsta till., sem á þessu nefnda þskj. er merkt með III, er varðandi Vestmannaeyjahöfn, og leggjum við þar til, að fjárveitingu til hennar verði breytt úr 350 þús. kr., sem hv. fjvn. hefur lagt til, í 1 millj. kr. Nú mætti máske segja, að það væri ekki öldungis rétt hjá mér, að þessi till. þýddi ekki, að það væri um útgjaldahækkun að ræða úr ríkissjóði. En ég vil nú færa rök að því, að svo er ekki.

Samkv. því skjali, sem fyrir liggur frá vitamálaskrifstofunni um hafnarframkvæmdir á hinum ýmsu höfnum landsins á yfirstandandi ári, að nokkru leyti að vísu áætlað, en að langmestu leyti raunverulegt, svo og áætlun um framkvæmdir í höfnum á næsta ári, kemur í ljós, að höfnin í Vestmannaeyjum hefur algera sérstöðu. Í henni hefur þegar verið unnið svo mikið, að innstæða hafnarinnar hjá ríkissjóði nemur í lok þessa árs rúmlega 3 millj. kr., eða nánar tiltekið samkv. yfirliti vitamálaskrifstofunnar 3 millj. og 11 þús. kr. Á næsta ári gerir vitamálaskrifstofan ráð fyrir, að svo mikið verði unnið í höfninni í Vestmannaeyjum, að ríkisframlag vegna þeirra framkvæmda ætti að nema 720 þús. kr. Það er þess vegna gefið mál, að á næsta ári eða fyrir lok næsta árs er ríkissjóður í rauninni skuldugur Vestmannaeyjahöfn um 3 millj. 731 þús. Hins vegar er í þeim till., sem hér liggja fyrir til fjárl., aðeins gert ráð fyrir, að út verði greiddar 350 þús. Af þessu leiðir, að ef þannig ætti að halda áfram og þó að við gerðum ráð fyrir, að hætt yrði með öllu framkvæmdum í Vestmannaeyjahöfn eftir næsta ár, mundi það samt sem áður taka meira en 10 ár, að Vestmannaeyjahöfn fengi það framlag, sem henni ber úr ríkissjóði á móti þeim framkvæmdum, sem goldnar hafa verið með fé annars staðar frá. Þetta teljum við hv. þm. Vestm. vera allt of mikinn seinagang á greiðslum ríkissjóðs á því framlagi, sem honum ber að greiða, og höfum þess vegna lagt til í allri hógværð, að þessi greiðsla, sem á fjárl. er ætluð 350 þús., verði færð upp í 1 millj. Ef það yrði samþ. og svo héldi fram næstu árin, mundi það samt taka ríkissjóð 4 ár að gera sig sléttan við hafnarsjóð Vestmannaeyja, og þó væri miðað við það, að eftir næstkomandi ár yrði ekki ráðizt í neinar framkvæmdir.

Ég held, að þeir, sem gera sér í alvöru í hugarlund, hver hyrningarsteinn þessar hafnarframkvæmdir í Vestmannaeyjum eru undir íslenzkan þjóðarbúskap, geti vart látið sér miklast það, að til þessarar hafnargerðar væri greidd samkv. fjárl. 1 millj. kr. Ég fullyrði, að ef við höldum svipuðum árangri í fiskveiðum og á undanförnum árum hefur verið í Vestmannaeyjum, þá munu engar. framkvæmdir af þeim, sem ríkið leggur fram fé til, gefa íslenzku þjóðarbúi meiri og betri arð í aukinni framleiðslu en einmitt framkvæmdir við þessa höfn.

Ég vil svo til frekari áréttingar því, sem ég sagði í upphafi þessara orða minna, taka það fram, að hér er alls ekki um að ræða neinar till. um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það ber að sjálfsögðu að viðurkenna, að þessi brtt., ef samþ. yrði, mundi hækka fjárl. ársins í ár um 650 þús., en þar er ekki um annað að ræða en það, að ríkissjóður greiddi örar en fjárlfrv. eins og það nú er og brtt. hv. fjvn. við það gera ráð fyrir.

Ég undirstrika: Hér er ekki um að ræða aukin útgjöld úr ríkissjóði, heldur einungis það, að ríkissjóður hraðaði meira greiðslum til þessa ákveðna mannvirkis en gert er ráð fyrir til þessa.

Kem ég þá að þeim tveimur till. okkar hv. þm. Vestm., sem hafa í för með sér útgjaldahækkun.

Það er fyrst till. á þskj. 187, í XIII. tölul., en sú till. er um að hækka framlag til Leikfélags Vestmannaeyja úr 4 þús. kr. í 8 þús. kr. Ég tel, að hér sé ekki heldur ósanngjarnlega í sakirnar farið. Það er á allra vitorði, að af sambærilegum kaupstöðum við Vestmannaeyjar er þetta mjög lág fjárveiting, hafa sumir aðrir kaupstaðir nokkru hærri fjárveitingu. En sökum þess, hve Vestmanneyingar eru einangraðir og geta lítils notið af þeirri leiklist, sem annars staðar er sýnd, ber að sjálfsögðu þeim mun brýnni nauðsyn til, að leiklistarstarfsemi þar í héraði sé efld, og hygg ég, að þegar menn hugleiða þessa brtt., muni þeir geta á hana fallizt sem sanngjarna.

Í öðru lagi eigum við sömu flm. till., sem merkt er XIV á þessu þskj. Hún er um að hækka styrk til Lúðrasveitar Vestmannaeyja úr 8 þús. kr. í 12 þús. Það hefur verið siður hér á undanförnum þingum að veita lúðrasveitum yfirleitt nokkurn styrk, og hefur hv. fjvn. sýnt á þeim hlutum lofsverðan skilning. Hún hefur sömuleiðis undanfarin ár aðeins mjakað þessum styrk upp. Ég minnist þess, að þessi styrkur var yfirleitt færður úr 5 þús. kr. í 8 þús. við afgreiðslu síðustu fjárl. En þó að margt hafi hækkað á þessu yfirstandandi ári, þá er samt ekki gert ráð fyrir hækkun á þessum lið, og er út af fyrir sig ekkert við því að segja, þó að ekki séu allir liðir fjárl. hækkaðir á einn og sama árinu. Ég vil aðeins benda á það, að sá styrkur, sem nú er ætlaður lúðrasveitum víðs vegar um land, 8 þús. kr., er alls ekki of hár á nokkurn hátt, en ég get ekki fallizt á, að nákvæmt sé metið, þegar allar lúðrasveitir eru hafðar í sama flokki, þótt sumar eigi máske algerlega eftir að sýna, hvort þær í rauninni standa undir nafni, hvort þeim í rauninni tekst að verða það, sem þær ætla að verða, hvort þær verða nokkru sinni raunverulegar lúðrasveitir eða hvort þetta máske eru fyrirbrigði, sem vara í 2–3 ár eða mjög skamman tíma. Hér er hins vegar um að ræða næstelztu lúðrasveit á þessu landi, hún er 51 árs á þessu ári. Að vísu ber að viðurkenna, að starf hennar hefur ekki verið fullkomlega samfellt öll þessi ár, en langflest árin hefur starfsemi hennar verið með blóma, og nú undanfarin 16 ár hefur sveitin stöðugt verið í mikilli framför, og henni stjórnar mikill hæfileikamaður, sem hefur lagt mjög mikla vinnu í það starf og hlotið fyrir það kaupgreiðslu, sem nemur 2 þús. kr. á ári. Það er sem sagt engin greiðsla, heldur aðeins lítill viðurkenningarvottur, og teldi ég, að það væri fullkomlega sanngjarnt, að Lúðrasveit Vestmannaeyja væri færð í sama flokk og Lúðrasveit Akureyrar, sem gert er ráð fyrir að fái 20 þús. kr. árlegan styrk, sem má sanngjarnt teljast. En til þess að auðvelda þeim, sem síður vildu taka stór stökk, að koma til móts við okkar óskir, höfum við hv. þm. Vestm. lagt til, að Lúðrasveit Vestmannaeyja verði færð úr 8 þús. kr. framlagi í 12 þús. kr.

Þá er síðasta till. okkar á þessu þskj. Hún er merkt með XIX. Það er till., sem ekki hefur nein útgjöld í för með sér og enga hækkun á fjárl. Það er brtt. við 22. gr. fjárl., heimildagr., að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að ef rekstur flugmála verður hagkvæmari en gert er ráð fyrir á 13. gr. D, sé heimilt að nota þann mismun til flugvallagerðar á þeim stöðum, sem þjóðvegakerfi landsins nær ekki til.

Þetta er umorðun á gr., eins og hún stendur þegar í fjárlagafrv., með þeirri efnisbreyt., að það er ekki heimilt að verja þessum væntanlega rekstrarágóða flugvallanna hvert sem er til flugvallagerðar, heldur er það okkar skoðun, að það eigi fyrst og fremst að nota þann tilfallandi ágóða þeim til hagsbóta, sem búa við örðugastar samgöngur, og þá einkum, eins og segir í okkar till., til þeirra staða, sem ekki eru í neinu vegasambandi við hið almenna akvegakerfi landsins. Þar koma þá að sjálfsögðu til greina staðir eins og t. d. eyjar, sem í byggð eru við landið, eins og t. d. Vestmannaeyjar, Grímsey, sömuleiðis staður eins og Öræfin, sem þegar eru allmiklar flugsamgöngur við, eins og raunar báða hina staðina, sem ég hef nefnt, — Grímsey að vísu á byrjunarstigi. Og ég vil taka það fram, að nú mætti segja, að á öllum þessum stöðum, sem ég hef nefnt, eru flugvellir þegar, en á öllum þessum stöðum eru flugvellirnir meira og minna ófullkomnir og enn í byggingu og þurfa mikilla lagfæringa við. Auk þess koma að sjálfsögðu til fjölmargir fleiri staðir á landinu, sem ættu forgangskröfu til flugvallagerðar umfram þá staði, sem hafa akvegi og geta notað samgöngur með bifreiðum við hið almenna vegakerfi landsins.

Ég hef sýnt fram á það, að í rauninni fela okkar fjórar till. eingöngu í sér 8 þús. kr. útgjaldaaukningu fyrir ríkið. Spurningin er þá ekki fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis, hvort samþ. beri þessar till., heldur er spurningin um hitt, hvort menn vilja líta á sanngirni málsins, og að öllum aðstæðum athuguðum leyfi ég mér að láta í ljós þá bjartsýni, að till. okkar muni ná hér samþykki.