12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

1. mál, fjárlög 1956

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa hér um langt mál. Þær till., sem hv. 9. landsk. minntist á, höfum við flutt saman, af því að við erum á sama máli um þörf þess, að þær nái fram að ganga, og hann hefur nú rökstutt okkar mál vel.

Meinið með hafnarframlögin er náttúrlega í eðli sínu það, að það er svo við neglur skorið það fé, sem ætlað er til hafnarframkvæmda, að fjvn. er náttúrlega mikil vorkunn, þó að hún eigi bágt með að verða við réttmætum óskum á þeim grundvelli, sem henni er skapaður til að vinna á. Hafnirnar eru þó, þar sem þær eru mikið notaðar, ákaflega mikil undirstaða að gjaldeyrisöflun ríkissjóðs, og á það ekki sízt við um Vestmannaeyjahöfn, eins og raun ber vitni um. Og ég efast um, að hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn., yfir höfuð Alþingi, hafi gert sér ljóst, hvaða risaátak hefur verið gert í Vestmannaeyjum núna á síðustu árum til þess að koma höfninni í það lag, að hún samsvari þeim kröfum, sem fiskiflotinn, stór og þó sívaxandi, hlýtur til hennar að gera.

Það var náttúrlega stórkostleg framför að svokallaðri Friðarhafnarbyggingu m. a., en þó var það þannig, að bátarnir urðu um háannatímann að liggja tímunum — mér liggur við að segja dægrunum saman hver utan á öðrum til að bíða eftir afgreiðslu, og allir geta séð, hvað það þýðir í aflatjóni um vertíðina og í erfiðis- og vökuálagi fyrir fólkið að þurfa að bæta því ofan á sín daglegu störf á sjónum. Fyrir því var ráðizt í þá miklu bátakvíabyggingu, sem nú hefur verið lokið og kemur að ég ætla að því nær fullu gagni á næstu vertíð. Það var byrjað á henni í fyrra, og hefur verið mikið á sig lagt til þess að koma henni í framkvæmd.

Bæjarstjórnin og ég áttum um þá fyrirætlun miklar viðræður við ríkisstj., við Framkvæmdabankann, við Landsbankann og ég held við Útvegsbankann líka, a. m. k. heima, og það var ekki hægt að fá þá fyrirgreiðslu, sem að gagni kæmi, á neinum þessum stöðum þá í bili. En okkur var beinlínis bent á það af hæstv. ríkisstj., hvort við gætum ekki haft þann gang á þessu máli að reyna að útvega okkur lán í útlöndum til þess að afla okkur efnis í járnþilin o. s. frv., og sumpart af því var í það ráðizt að fá lán í útlöndum í þessu skyni. Það hefur, að því er virðist, blessazt vel, því að frá þeim tíma, sem lánið var tekið og efnisins aflað, hefur orðið stórkostleg hækkun á þessu efni, svo að það er vel farið, að það er nú komið á réttan stað hvað þessa höfn snertir og mannvirkið komið í það horf, að það verður að gagni. En við eigum eftir að borga stóran hluta af þessu láni, sem við, eins og ég sagði, mikið eftir áeggjan hæstv. ríkisstjórnar réðumst í að taka til þess að flýta fyrir verkinu. Þegar málið er skoðað í þessu ljósi, verður sanngirniskrafa sú, sem hv. 9. landsk. rökstuddi hér, enn þá berari, þar sem nú er þannig háttað, að ríkið á eftir að borga 3 millj. af sínu framlagi til hafnarinnar fyrir verk, sem búið er að vinna, fyrir utan það, sem áætla má að það þurfi að borga fyrir verk, sem verður að vinna á næsta ári. Þetta vildi ég biðja hv. þm. að hafa í huga.

Það eru ekki Vestmannaeyjar einar, sem þyrftu að fá miklu stærri fjárframlög til sinna hafnargerða en þeim er ætlað í fjárlögum, þó að Vestmannaeyjar á þessu stigi málsins hafi langstærsta siðferðislega eða ég vil segja lagalega kröfu á sérstöku tilliti af hálfu ríkisvaldsins í þessu efni.

Öll sagan er þó ekki sögð hér með, heldur hafa Vestmanneyingar á sama tíma lagt á sig fjarskaþung gjöld í tvöföldum vörugjöldum á vörum til hafnarinnar, gjöld, sem leggjast sem aukinn skattur á íbúa Eyjanna. Það er ekki sem þeir hafi verið hér að hlaupast undan merkjum að neinu leyti. Einmitt á sama tíma og af þessu tilefni hafa þeir lagt á sig tvöföld vörugjöld, fyrir utan það, að skipagjöldum verður að halda mjög hátt, meðan á smíði hafnarinnar stendur, og það kemur vitaskuld líka fram við neytendur og notendur og íbúa Vestmannaeyja, að því leyti sem farmgjöldin eru sett hærri, þegar menn vita, að þeir eiga að borga há gjöld fyrir skipin.

Allt þetta styður að því, sem hv. 9. landsk. hélt fram, að það væri sanngirnismál að auka þetta framlag mjög verulega. Við höfum nefnt þessa upphæð, sem í till. stendur, þrefaldað till. hv. n. og það veitir sannarlega ekki af því, eins og ástatt er, ef Vestmannaeyjar eiga ekki að lenda í vanskilum með þau lán útlend, sem ríkisstj. sjálf hefur hvatt þær til að taka til þess að koma þessu verki í gott horf. Ég veit ekki, við eigum eftir að ráða það við okkur og það getur farið náttúrlega eftir því, eins og vant er, hvernig hv. n. og hæstv. ríkisstj. tekur í það að gera hér einhverja bragarbót á, hvort við látum þessa till. í þetta sinn koma hér undir atkvæði. En mér þótti sjálfsagt eins og hv. 9. landsk. að fá tækifæri hér á hinu háa Alþ. við umræðurnar til að rökstyðja enn betur þá þörf, sem hér liggur fyrir, og þá verðskuldun, sem fyrir hendi er af hálfu Vestmanneyinga, hvað höfnina snertir, framar en ég gerði á sínum tíma í því erindi, sem ég sendi hv. n. um þetta efni. Þar taldi ég þó fram nokkur rök í málinu.

Um aðrar till. okkar sameiginlegar, að því er snertir lúðrasveitina og leikfélagið, sendi ég fyrir mitt leyti erindi á sínum tíma til hv. n., að ég held fyrir hvort tveggja, a. m. k. fyrir lúðrasveitina, og þarf engu við að bæta þau orð, sem hér voru töluð til þess að undirbyggja það mál.

Ég skal svo aðeins stuttlega minnast á flugvallarmálið. Það er heimildartill., eins og hún ber með sér, og ég held, að það sé ómótmælanlegt, að það mæla mikil rök með því, að það fé, sem kann að verða brúkað til að endurbæta flugvelli, sé einkum og sér í lagi brúkað til þess að endurbæta flugvellina á þeim stöðum, sem litla úrkosti hafa á annan veg til samgangna, og það hljóta allir að viðurkenna, að aðstöðumunurinn er stórkostlegur á móti þeim stöðum á landinn, sem hafa flugvelli og líka góða bílvegi. Annars er rétt að geta þess í þessu sambandi, að við hv. 9. landsk. fluttum í byrjun þings till., sem sama hv. n. og stendur að þessu fjárlagaatriði fékk til meðferðar, þar sem við fórum fram á, að gerðar væru bragarbætur á flugvellinum. Það hefur að vonum ekki komið fram enn þá neitt nál. í því efni, en ég vil geta þess, að það hefur verið gerð tilraun til af hálfu flugstjórnarinnar, að ég hygg, eða að undirlagi hennar að hnekkja því, sem við þar héldum fram, með vottorði frá manni í Vestmannaeyjum, sem sennilega hefur átt lítið í því orðalagi, er á hinni svokölluðu leiðréttingu var. Ég skal ekki ræða það mál ýtarlega við þetta tækifæri, en vil bara segja það, að þó að við höfum ekki farið í það að fara í blaðaskrif eða skrifa á móti því vottorði, sem kom í blöðunum í því efni, þá höfum við í höndum gögn frá þeim, sem bezta þekkingu hafa á þessu máli, flugmönnunum sjálfum, sem lenda í Vestmannaeyjum, er sanna, að við fórum þar ekki með neitt rangt mál, heldur með rétt mál, þegar við hvöttum til þess, að slitlag vallarins væri aukið og hann yfir höfuð endurbættur. En sú till. liggur ekki fyrir hér og ég skal ekki fara um hana fleiri orðum. Ég vonast til, að þessi heimild, sem við hér leggjum til, verði samþykkt. Þar eiga náttúrlega Vestmannaeyjar stóran hlut að máli og eins aðrir staðir á landinu, þar sem líkt stendur á. Hv. 9. landsk. minntist á þá, og ég þarf ekki að fara að endurtaka það. En samanborið við það, sem Vestmannaeyjar leggja til þjóðarbúsins og þeir, sem þar stunda atvinnu og sjósókn, leggja til þjóðarbúsins, held ég, að það megi halda því fram, að hér séu ekki gerðar óvægilegar kröfur til hins opinbera af okkar hálfu fyrir hönd þeirra, sem Eyjarnar byggja, og þeirra, sem leita þangað árlega og hafa þar atvinnu sína að miklu leyti.