12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

1. mál, fjárlög 1956

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 187 á ég fáeinar brtt. við fjárlögin, allar varðandi menningarmál. Ég vil leyfa mér, enda þótt þunnskipaðir séu nú orðnir bekkirnir, að fara um þessar till. örfáum orðum.

Það eru í fyrsta lagi tillögur um nokkra hækkun á styrkjum og lánum til íslenzkra námsmanna. Það er vitanlegt, að dýrtíð fer vaxandi, ekki aðeins hér á landi, heldur einnig í sumum þeim löndum, þar sem íslenzkir námsmenn verða að stunda nám utan landssteinanna. Vitanlega er full þörf á því, að þeir fái hliðstæða fyrirgreiðslu frá hinu opinbera á næsta ári og þeir hafa notið að undanförnu, ekki verði úr henni dregið, heldur fremur eitthvað við aukið, þar sem verið hefur af hvað skornustum skammti. Ég held, að það sé ástæðulaust að rökstyðja það í löngu máli, hvílík nauðsyn okkur er á því, að íslenzkir námsmenn geti haldið áfram á menntabrautinni og tekið fyrir þær margvíslegu fræðigreinar, sem okkur er bráðnauðsynlegt að stund sé lögð á, ef samfelld þróun á að verða í efnahags- og menningarlífi okkar.

Þá flyt ég hér till. um nokkra hækkun á þeirri fjárveitingu, sem veitt er til skálda og listamanna. Sú fjárveiting hefur verið af nokkuð skornum skammti lengst af og þyrfti vissulega að hækka. Ég tel mig fara fremur varlega í sakirnar í þeirri till., sem ég legg hér fram, því að það er að sjálfsögðu veruleg nauðsyn á því, að betur sé búið að ýmsum þeim góðu listamönnum, sem við eigum. Við Íslendingar erum gjarnan mjög hreyknir af fornum bókmenntum okkar og fornri menningu og megum vera það. Fornbókmenntir okkar lofa allir að verðleikum, bæði íslenzkir menn og erlendir. Og við minnumst þess bæði við hátíðleg tækifæri og endranær, að þessar bókmenntir voru þjóðinni ómetanlegur styrkur á eymdaröldunum, þær voru, eins og skáldið sagði:

„Hennar ljós í lágu hreysi,

langra kvelda jólaeldur.“

Það má komast svo að orði, að tungan og bókmenntirnar hafi einnig verið hinn mesti aflvaki, þegar fór að birta af nýjum degi í sögu þjóðarinnar, og þær og fornmenningin voru öflugasta röksemdin fyrir tilverurétti þjóðarinnar, og urðu hornsteinn sjálfstæðis þjóðarinnar. Hin forna menning og bókmenntir voru hin siðferðislega röksemd fyrir því, að við værum og gætum verið sjálfstæð þjóð. En við megum ekki láta lofið um fornöldina og hina fornu menningu verða til þess að vanmeta nútímann. Það er vitað og viðurkennt af mörgum a. m. k., og þó ekki svo sem skyldi, að nú er runnið upp nýtt blómaskeið bókmennta og lista hér á landi. Eftir allt baslið og erfiðleikana á hinum myrku öldum hafa nú með vaxandi sjálfstæði þjóðarinnar endurvaknað kraftar, sem með þjóðinni bjuggu. Það er gróandi á öllum sviðum bókmennta og lista, og vitanlega verður á því að byggja í framtíðinni, að sá vöxtur og sá gróandi geti haldið áfram og orðið sem mestur.

Því er ekki að neita, að skilningur á gildi menningarstarfs og listastarfs hefur heldur vaxið með þjóðinni, og þó hefur sá vöxtur farið nokkuð hægt. Ég hygg, að það sé rétt, að styrkur til menningarmála hafi verið hlutfallslega meiri á fjárlögum fyrir 25–30 árum en hann er nú. Það er vitað, að listamönnum hjá svo fámennri þjóð sem Íslendingar eru er yfirleitt ókleift að lifa á listaverkum sínum einvörðungu. En þar sem viðurkenning er nú að fást fyrir því, að starfsemi góðra listamanna er einhver mikilvægasta starfsemin, sem unnin er í þjóðfélaginu, fer ekki vel á því að launa einmitt þessum mönnum einna lægst allra þjóðfélagsþegna. Við verðum að minnast þess, einmitt þegar ákveðin eru laun slíkra manna, að framlag þeirra til menningar þjóðarinnar og þjóðarheildarinnar er eitthvert hið allra mikilvægasta alls þess, sem unnið er í þjóðarþarfir.

Ég hef ekki lagt það nákvæmlega saman, hvað ætlað er nú á fjárlögum til bókmennta og lista, en við mjög lauslega athugun virðist mér, að það séu ekki nema um það bil 2 millj. kr., þ. e. a. s., það er langt innan við ½% af ríkistekjunum, þeim tekjum, sem fyrirhugað er að ríkið hafi á næsta ári. Og þó að með væri talið nokkurt framlag, sem fengið er með öðrum hætti en á fjárlögum, framlag, sem fengið er með sérstökum lögum og rennur til þjóðleikhúss og menningarsjóðs, þá mun það, sem fram er lagt til bókmennta og lista, vera töluvert innan við 1% af ríkistekjunum.

Ég held, að það ætti að stefna að því, að fast hlutfall væri á milli ríkisteknanna annars vegar og þess, sem lagt er fram til þessarar mikilvægu menningarstarfsemi, hins vegar, og mér þætti það ekki mikið í lagt, þótt það væri árlega sem svaraði 2–3 af hundraði. En það er langur vegur frá því, að ég fari fram á svo mikið í þeim tiltölulega litlu tillögum, sem ég legg hér fram. Það er því enn meiri ástæða til þess að fallast á svo hógværar tillögur í þessu efni, þar sem ekki er lengra farið.

Mér virðist, að ef engin breyting verður gerð á þeirri fjárveitingu, sem ætluð er skáldum og listamönnum, þá sé um allverulega rýrnun að ræða, þeir muni fá hlutfallslega minni laun á næsta ári en þeir hafa þó haft að undanförnu, þegar tillit er tekið til hinnar vaxandi dýrtíðar.

Þá flyt ég hér till. um nokkra hækkun á framlagi til hinnar íslenzku orðabókar, sem nú er verið að semja. Það er vitað mál, að þetta verk er mjög mikið, og mun taka alllangan tíma að ljúka því, jafnvel þótt sæmilega sé að því búið að því er fjárframlög snertir. Þetta verk, samning stórrar og fullkominnar vísindalegrar orðabókar yfir íslenzkt mál, er eitthvert allra mesta nauðsynjaverkið, sem verið er að vinna nú fyrir íslenzka menningu. Mér virðist því, að það megi ekki láta við það sitja að hafa til slíkrar framkvæmdar sömu tiltölulega lágu fjárveitinguna og er í fjárl. þessa árs, þegar tillit er tekið til þess, að nú hækka öll laun, og það mundi þá að sjálfsögðu þýða það, að minna yrði hægt að gera fyrir sömu fjárveitingu á næsta ári en þó er hægt á þessu ári.

Þá flyt ég hér till. undir liðnum XV, þess efnis að ríkið kaupi listaverk eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara, og hef tiltekið upphæðina 180 þús. kr. Ég minntist nokkuð á það áðan, að íslenzkir listamenn ættu eðlilega erfitt uppdráttar hjá svo fámennri þjóð sem við Íslendingar erum, en engir munu þó eiga erfiðara með að lifa á listastarfi sínu en myndhöggvarar. Þetta mun vera svo um allar jarðir, en þó alveg sérstaklega í jafnfámennu landi og Ísland er, þar sem ekki er um það að ræða, að einstakir auðmenn kaupi slík dýr listaverk, sem mikla vinnu þarf að leggja í. Það er hvort tveggja, að auðmenn eru eðlilega færri hér en hjá stórum og fjölmennum þjóðum, og við það bætist, að þeir, sem vel eru efnum búnir hér, hafa yfirleitt ekki sýnt mjög mikinn menningaráhuga. Hann hefur a. m. k. ekki komið fram í því, að þeir hafi lagt fram verulegar fjárfúlgur til þess að styrkja álitlega listamenn.

Hér verður því hið opinbera að hlaupa undir bagga, enda eru höggmyndaverk þess eðlis, að það er í sjálfu sér ríkisvaldinu og bæjarfélögunum skyldast að eiga þar hlut að máli til þess að koma listaverkunum fyrir á þeim stöðum, þar sem þau geta frekast verið almenningseign.

Íslenzka þjóðin hefur búið tiltölulega vel eftir getu sinni og fjármunum að hinum elzta íslenzka myndhöggvara, sem verulega kvað að, Einari heitnum Jónssyni. Þó að hann yrði að vísu að berjast allharðri baráttu fram eftir árum, þá er ekki hægt að neita því, að Íslendingar gerðu vel við hann eftir sinni getu, og ríkið var og er tiltölulega rausnarlegt varðandi hans verk.

Sá maður annar, sem hefur gert höggmyndastarf að lífsstarfi sínu, er Ásmundur Sveinsson. Ásmundur er frábær hagleiksmaður, og ég hygg, að allir, sem bera nokkurt skynbragð á listir, ljúki upp einum munni um það, að hann hafi framúrskarandi formskyn. Maðurinn er fjölhæfur, og í listferli hans er mjög mikil margbreytni. Hann hefur ekki verið þar við eina fjölina felldur eða einni stefnu háður, heldur er þar um mikla fjölbreytni að ræða. Ásmundur Sveinsson hefur hlotið margvíslega viðurkenningu, einkum erlendis. Í öll þau skipti, sem honum hefur gefizt færi á að fá listaverk sín metin á alþjóðlegan mælikvarða, hafa þau staðizt matið frábærlega vel og hlotið mjög lofsamlega dóma. Þetta hefur helzt gerzt á samsýningum íslenzkra listaverka erlendis, og hafa þá yfirleitt ekki verið tök á að sýna nein hinna stærstu og tilkomumestu verka Ásmundar. Að öðrum íslenzkum myndlistarmönnum ólöstuðum hygg ég, að óhætt sé að segja, að enginn hafi hlotið öllu meiri viðurkenningu listfróðra manna erlendra. Vil ég þessu til sönnunar lesa örfáar setningar, sem erlendir listfræðingar hafa sagt um verk Ásmundar.

Á listsýningunni íslenzku í Osló 1951 var það einróma álit allra gagnrýnenda, að listaverk Ásmundar bæru af öðru, sem þar var sýnt. Í blaðinu Verdens Gang var m. a. þannig að orði kveðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er eitthvað karlmannlegt, ungt og frumlegt hjá formsnillingnum Ásmundi Sveinssyni. „Helreið“ hans er sönn Ultíma Thule, myrk og heiðin dulrún og myndar samheild í undarlegri hrynjandi, sem hin sterka formtúlkun listamannsins er greypt í. Óvíða mun að finna annan eins frumkraft og í þöndum bogaformum „Malarans“. Höggmyndir Ásmundar Sveinssonar eru sannkölluð ævintýri óblandinnar formgleði.“

Blaðið Aftenposten fór þessum orðum um sömu sýningu:

„Þegar komið er að verkum eins og „Helreiðinni“ og „Tónum hafsins“, hrífur hin stórbrotna túlkun listamannsins okkur með sér inn í heim kynja og ævintýra.“

Í sambandi við hina miklu, íslenzku sýningu í Kaupmannahöfn í fyrra komst listdómari blaðsins „Politiken“ svo að orði:

„Myndir Ásmundar Sveinssonar eru langmerkilegastar og bera vott um mikið hugmyndaflug og formgáfu myndhöggvarans.“

Svipuð voru ummæli fleiri danskra blaða. Dómar um íslenzku sýninguna í Briissel 1952 voru að því er Ásmund Sveinsson varðaði afar lofsamlegir. Listablað þar í landi, viðurkennt og þekkt víða um Evrópu, kemst þannig að orði um nokkra unga íslenzka listamenn, sem sýndu á þessari sýningu, að þeir séu efnilegir og lofi góðu. Síðan heldur blaðið áfram:

„Hæfileikar Ásmundar Sveinssonar lofa ekki einungis góðu, heldur er í verkum hans fólgið mikið frjómagn, kraftur til að endurnýja höggmyndalist landsins og gefa henni nýja tjáningarmöguleika.“

Þannig gæti ég haldið áfram langa hríð, en ég læt þetta nægja. Ég vil aðeins endurtaka það og leggja á það áherzlu, að hvarvetna þar, sem íslenzk list hefur verið sýnd erlendis, hafa listaverk Ásmundar Sveinssonar hlotið hvað mest og eindregnast lof.

Þessi ágæti listamaður, sem nú er kominn á sjötugsaldur, stendur nú í því stórræði að reisa yfir verk sín dálítinn sýningar- og geymslusal, þar sem þau geta varðveitzt óskemmd og þar sem tök eru á að koma þeim sómasamlega fyrir. Í þeim húsakynnum, sem hann býr nú við, er svo þröngt orðið, að honum er ókleift að vinna lengur, þar sem vinnustofa hans er orðin yfirfull af listaverkum, og eru þau þó mjög mörg enn í litlu og forgengilegu formi, og þyrfti að sjálfsögðu að koma þeim í varanlegt form og í eðlilega eða fulla stærð. Mér þætti því mjög vel við eiga, ef Alþ. rétti þessum snjalla listamanni örvandi hönd með því að kaupa á næsta ári þótt ekki væri nema eitt listaverk hans, sem yrði eign ríkisins, og styðja hann þannig nokkuð til þess að koma upp þessu safni sinu eða geymslustað fyrir listaverkin.

Að lokum flyt ég hér undir XVIII. tölul. till. við 19. gr., og er það lækkunartill. Þar legg ég til, að liðurinn „óviss útgjöld“ lækki um 500 þús. kr. Er það gert m. a. vegna þess, að mér virðist, þegar litið er á ríkisreikninga undanfarinna ára, þá sem fram eru komnir, að á þennan lið sé hrúgað ýmsu, sem fremur verður að teljast þarflítið og engin ástæða til að hæstv. ríkisstj. taki sér vald til að úthluta eftir geðþótta. Þarna virðist mér um að ræða ýmsa bitlinga, sem ætti þá a. m. k. að koma til kasta Alþ. að taka ákvarðanir um, en ekki að vera verkefni ríkisstj. að úthluta utan við bein fjárlagafyrirmæli. Verði þessari sparnaðartill. vel tekið, mundi ég fús til þess að flytja fleiri slíkar sparnaðartill. við fjárl. fyrir 3. umr.