12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

1. mál, fjárlög 1956

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar brtt., sem ég vildi leyfa mér að fara um nokkrum orðum og ég flyt ásamt nokkrum öðrum hv. þm. á þskj. 188.

Það er fyrst brtt. um að taka upp fjárveitingu til tveggja ferjubryggna, í fyrsta lagi í Ögri, 50 þús. kr., og í öðru lagi að Bæjum á Snæfjallaströnd, 25 þús. kr.

Þannig er málum varið, að fyrir einum þremur árum lánaði Ögurvegur 50 þús. kr. til þess að ljúka byggingu ferjubryggju í Ögri. Síðan þetta lán var veitt, hefur það ekki verið endurgreitt. Vegamálastjóri hefur mælt með því nú s. l. tvö ár við hv. fjvn., að fjárveiting yrði tekin upp í þessu skyni. Ef það verður ekki gert, mun verða að greiða þessa skuld af fjárveitingu til vegarins á fjárl. næsta árs. Það væri hins vegar mjög illa farið, ef til þess úrræðis þyrfti að grípa, þar sem Ögurvegur er aðalvegurinn út með vestanverðu Ísafjarðardjúpi og má engan veginn við því, að klipið sé af þeirri fjárveitingu, sem til hans er veitt. Ég vænti þess vegna, að hv. fjvn. fallist á það að mæla með samþykkt þessarar brtt., og ég væri jafnvel fús til þess að taka hana aftur til 3. umr., ef líkur væru á því, að samkomulag tækist um hana við 3. umr.

Um hina till. er það að segja, að fyrir nokkrum árum var byggð ferjubryggja að Bæjum á Snæfjallaströnd. Það er í örfámennu hreppsfélagi, og taldi hreppurinn sér ekki fært að leggja neitt fram á móti ríkissjóði, þegar bryggjan var byggð. Einstaklingur, sem bjó þá á þessum bæ, lagði þá fram allmikið fé, nokkru hærri upphæð en þetta, og hefur ekki fengið það fé endurgreitt. Hins vegar hafa ferjubryggjurnar víð Ísafjarðardjúp og víðast hvar annars staðar, flestar, ef ekki allar, verið kostaðar að öllu leyti af ríkissjóði. Þessi till. er því flutt til þess, að unnt verði að endurgreiða þessum einstaklingi, sem lagt hefur þetta fé fram, framlag hans.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. á sama þskj. ásamt hv. 3. landsk. þm. (HV) og hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) um það, að veitt verði 5 þús. kr. fjárveiting til byggðasafns Ísfirðinga á Ísafirði.

Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla ásamt Ísafjarðarkaupstað hafa nýlega bundizt samtökum um að koma upp byggðasafni á Ísafirði. Það er alkunna, að slík byggðasöfn hafa risið víða um héruð og þótt að þeim mikið gagn. Takmark þeirra er að varðveita ýmsa gamla, merka muni, sem eru að hverfa og hætt er við að fari forgörðum, ef menn leggja sig ekki fram um að varðveita þá. Hins vegar greinir menn ekki á um, að það hafi menningarlegt gildi fyrir þjóðina að varðveita ýmsa þessa gömlu hluti, sem segja sögu liðins tíma. Mér er kunnugt um það, að á undanförnum árum hefur verið veittur styrkur til slíkra byggðasafna, og síðast nú í brtt. hv. fjvn. er lagt til, að eitt slíkt verði styrkt. Ég vænti þess vegna, að þessi litla till. um styrk til byggðasafns á Ísafirði hljóti náð fyrir augum hv. Alþingis.

Læt ég svo þessi fáu orð nægja til þess að mæla með þessum þremur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja.