12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

1. mál, fjárlög 1956

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja allmargar brtt., sem prentaðar eru á þskj. 188, og langar til þess að fara nokkrum orðum um nokkrar þeirra, sérstaklega fjórar af þeim.

Ég hef leyft mér að leggja til, að varið verði 1 millj. kr. sem stofnfjárframlagi til vísindasjóðs, sem hafa skuli það hlutverk að styrkja íslenzka vísindamenn til sjálfstæðra rannsókna, til sjálfstæðra vísindastarfa hérlendis eða erlendis, eða þá til þess að búa sig undir slík störf, og geri ég ráð fyrir, að sjóðnum sé stjórnað af 5 mönnum, séu tveir þeirra tilnefndir af háskólaráði og tveir af menntamálaráði og einn af menntamálaráðherra.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárveitingavaldið ver nokkru fé til þess að efla bókmenntir, til styrktar skáldum og rithöfundum. En fjárveitingavaldið ver mjög litlu fé til beinnar styrktar vísindalegum rannsóknum. Er þó augljóst mál, að íslenzka þjóðfélaginu er hin mesta þörf á því, að þeir, sem leggja vilja fyrir sig vísindastörf, fái til þess bætta aðstöðu frá því, sem nú er.

Þegar um er að ræða að fá menn til þeirra starfa hér á Íslandi, þar sem um vísindalega sérþekkingu þarf að vera að ræða og þar sem menn eiga að starfa að vísindalegum rannsóknum, hefur komið mjög í ljós og verið til mikils baga, hversu fáir menn hafa haft til þess efni að búa sig sómasamlega undir þau störf. Þess vegna vill oft fara svo, að ekki sækjast eftir þessum störfum jafnmargir og æskilegt væri, bæði af því, að menn hafa ekki haft efni á því að búa sig undir störfin svo sem þörf væri, og svo einnig vegna hins, að menn vita, að þegar í störfin kemur, eru starfsskilyrði ófullnægjandi að ýmsu leyti.

Sjóði slíkum sem þessum væri ætlað að ráða hér bót á og auðvelda mönnum að ráðast í að helga sig vísindastörfum, jafnvel þó að ekki væri vissa fyrir, að embætti biðu. Einnig ætti að vera hlutverk sjóðsins að gera þeim, sem vilja og eiga samkvæmt gildandi lögum um viss störf að helga sig vísindastörfum, það kleifara en ella. Á ég hér sérstaklega við ýmis vísindastörf á tæknisviðinu, en um það ætti ekki að þurfa að deila, að framtíð íslenzks þjóðfélags er að verulegu leyti og í vaxandi mæli komin undir því, að Íslendingar eigi á að skipa fjölmennum og vaxandi hópi vísindamanna á tæknisviðinu.

En þetta ætti ekki einvörðungu að geta eflt vísindarannsóknir á tæknisviði, heldur einnig á öðrum sviðum, í þjóðfélagsmálum og þjóðlegum fræðum.

Ef fjárveitingavaldið veitti um nokkur ár slíkt framlag til vísindasjóðs, mundi sjóður þessi geta orðið öflugur og verða fær um að sinna þessu hlutverki, sem ég tel vera mjög mikilvægt.

Þá hef ég og leyft mér að flytja till. um, að varið verði 125 þús. kr. til þess að efna til veitingar fimm heiðurslauna fyrir afrek í listum og vísindum, þ. e. a. s. til þess að veita heiðurslaun til vísindamanns, rithöfundar eða skálds, myndlistarmanns, tónlistarmanns og leikara fyrir unnið afrek á næsta ári, og geri ráð fyrir, að slík tilhögun verði einnig höfð framvegis.

Eins og ég gat um áðan, veitir fjárveitingavaldið nú þegar allmyndarlega fjárhæð til styrktar skáldum og listamönnum og litla fjárhæð til styrktar fræðimönnum. Um það er ekki nema gott eitt að segja. Þó hygg ég, að heppilegt væri að taka einnig upp það fyrirkomulag að verðlauna sérstök afrek í listum og vísindum með því móti að efna til veitingar sérstakra heiðurslauna. Það mundi verða hlutaðeigandi listamönnum og vísindamönnum hvatning til sérstakra átaka, ef þeir gætu átt von á því, að afrek þeirra yrðu sérstakrar viðurkenningar aðnjótandi, og jafnvel þótt ekki sé litið á þetta sem hvatningu til sérstakra afreka, þá er það sanngirnismál, réttlætismál, að þeim afrekum, sem unnin hafa verið og mundu raunar hafa verið unnin án sérstakrar hvatningar, sé sýnd verðskulduð viðurkenning. Ég hygg, að þetta fyrirkomulag sé heppileg endurbót á því fyrirkomulagi, sem nú þegar ríkir varðandi styrkveitingar til skálda og listamanna, og ætti að takast upp.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um þá till. mína, sem ég raunar hef flutt áður, að komið verði á fót mannfræðideild við þjóðskjalasafnið, er m. a. hefji samningu spjaldskrár yfir Íslendinga, þar sem getið væri æviatriða þeirra, varðveittar væru mannamyndir, sem fáanlegar eru, og tekið upp á hljómplötur eða segulband talmál og ýmiss konar þjóðlegur fróðleikur.

Við Íslendingar höfum hvað þetta snertir algera sérstöðu meðal þjóðanna. Við erum ein fámennasta menningarþjóð veraldar, þeirra sem sjálfstæðar eru. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafa ekki lifað á þessu landi og talizt til þessarar þjóðar fleiri menn en svo, að vel væri vinnandi að koma upp spjaldskrá yfir alla þá, sem vitað er um, og það er vitað um nokkur meginatriði í æviferli tiltölulega fleiri Íslendinga en nokkurrar annarrar þjóðar á byggðu bóli. Slík spjaldskrá yfir Íslendinga yrði því án efa einstætt verk í heimsmenningunni. Ég tel, að Íslendingar ættu ekki að láta undir höfuð leggjast að vinna þetta verk. Það er ekki mikil fjárhæð, sem ég sting upp á að veitt verði til þessa, aðeins 150 þús. kr., en hún mundi nægja til þess að ráða tvo starfsmenn til þess að sinna þessu verki og til greiðslu nauðsynlegs aukakostnaðar í því sambandi. En á því er enginn vafi, að fengju tveir hæfir menn aðstöðu til þess að sinna þessu verki, þá gætu þeir á fáum árum unnið stórvirki, sem ekki aðeins mundi verða okkur sjálfum til þjóðlegrar hvatningar, heldur einnig hlyti að vekja athygli um víða veröld.

Þá vildi ég og fara örfáum orðum um till., sem ég hef raunar einnig flutt áður, en það er um 500 þús. kr. fjárveitingu til þess að skreyta opinberar byggingar með listaverkum.

Þó að gott eitt sé um það að segja, að myndlistarmenn séu styrktir með listamannalaunum, eins og nú er gert, hygg ég samt sem áður heppilegra form á viðurkenningu af hálfu þjóðfélagsins þeim til handa að veita þeim starfsskilyrði, þ. e. a. s. að veita þeim skilyrði til þess að skreyta opinberar byggingar með listaverkum. Það er án efa þakklátari viðurkenning til myndlistarmannanna en að veita þeim listamannalaun, ekki hvað sízt af því, að þá yrði almenningi einnig gert kleifara en ella að njóta listar þeirra, auk þess sem þeim yrði þá gert kleift að starfa að list sinni fyrir þau viðurkenningarlaun, sem hið opinbera veitti þeim.

Um aðrar brtt. mínar get ég verið mjög fáorður. Ég hef flutt till. um aukningu á námsstyrkjum til námsmanna hér og erlendis, um nokkra aukningu á því fé, sem veitt er til vísindastarfsemi í háskólanum, og um aukningu á því fé, sem veitt er til samningar íslenzkrar orðabókar. Enn fremur hef ég borið fram till. um nokkra hækkun á fé því, sem veitt er til skálda, rithöfunda og listamanna, og hækkun á fjárveitingu til tónlistarskólans í Reykjavík. Einnig hef ég leyft mér að flytja till. um 1 millj. kr. framlag til byggingar heimavistarhúss við menntaskólann í Reykjavík, en á þeirri framkvæmd er brýn nauðsyn, vegna þess að margir utanbæjarnemendur stunda nám í menntaskólanum í Reykjavík og hafa til þess að ýmsu leyti óhæga aðstöðu vegna þess, hve framfærslukostnaður er hár hér í Reykjavík, en hann ætti að geta lækkað mjög verulega fyrir utanbæjar menntaskólanemendur, ef komið yrði upp heimavistarhúsi við skólann.

Að síðustu vil ég svo minnast á till., sem ég hef leyft mér að flytja um 50 þús. kr. fjárveitingu til KFUM til styrktar starfrækslu sumardvalarheimilis félagsins fyrir unglinga í Vatnaskógi. Þeir, sem þekkja til þess starfs, sem KFUM hefur unnið í Vatnaskógi fyrir unglinga, munu allir ljúka upp um það einum munni, að þar sé unnið hið mesta þjóðþrifastarf. sem mörgum, ekki hvað sízt efnalitlum unglingum í Reykjavík, hafi orðið til mikils góðs. Ég held, að þessi starfsemi, sem nú þegar er orðin nokkurra áratuga gömul og aldrei hefur notið nokkurs styrks frá því opinbera, eigi skilið, að henni sé sýnd nokkur viðurkenning. Svo sem kunnugt er, er það hinn þjóðkunni æskulýðsleiðtogi séra Friðrik Friðriksson, sem hafði forgöngu um þetta starf í Vatnaskógi og hefur enn brennandi áhuga á, að það megi eflast og verða sem flestum að notum. Einnig hans vegna held ég, að það væri æskilegt, að starf þetta hlyti nokkra viðurkenningu af hálfu fjárveitingavaldsins.