27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. minnt hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér mundi kannske leyfast, áður en ég vík að niðurstöðum fjvn. í sambandi við fjárlagafrv., að fara örfáum orðum um það, sem hv. frsm. meiri hl. ræddi nú síðast, en það var nál. samvinnunefndar samgöngumála um flóabátana. Það er vafalaust rétt hjá honum, að það þarf engan að undra, þó að heldur sé hækkun á rekstrarkostnaði þeirra, það er ekki nema í samræmi við allan rekstrarkostnað í landinu, og er hækkunin tæpar 300 þús. frá því í fyrra. Hinu vildi ég aðeins víkja að, sem hann sagði, að það hefði fyrir nokkru verið borin fram till. um að leggja einhverja af flóabátunum niður, en við það hefði ekki verið komandi, mótmæli hefðu komið úr héruðunum gegn því og um það væri því ekki að ræða sem möguleika. Þetta er vitanlega í fullu ósamræmi við það, að a. m. k. tveir hv. flokksmenn frsm. hafa hvað eftir annað haldið því fast að Alþ., að á því væri möguleiki að leggja niður Skipaútgerð ríkisins, sem innir af hendi sams konar þjónustu fyrir landslýðinn, en í miklu stærri stíl. Alveg er sama aðstaða hjá þeirri útgerð og flóabátaútgerðinni. Það er vitanlega í fyrsta lagi aukinn rekstrarkostnaður þar vegna aukinna rekstrarútgjalda, og svo vex halli á þeirri útgerð eins og hjá flóabátunum af því, að stöðugt minnkar magnið, sem skipin hafa til flutninga, sökum þess að það skiptist nú á þrjá aðila, en var áður á hendi eins. Það skiptist nú á flugvélar og bifreiðar að mjög miklum hluta, og eftir sitja svo skipin með vaxandi rekstrarkostnað, en mjög rýrðar rekstrartekjur. Þannig vex halli bæði flóabáta og Skipaútgerðar ríkisins af nákvæmlega sömu ástæðu. Þess vegna hlýtur auðvitað niðurstaðan að verða nákvæmlega sú sama, að þjónustuþörfin er mikil, og því er mótmælt í báðum tilfellum, að þessi þjónusta sé lögð niður, en halli af hvorum tveggja þættinum vex af þessum tveimur ástæðum, og stangast því rök hv. 2. þm. Eyf. algerlega við rök hv. þm. Barð. (GíslJ) og hv. þm. Snæf. (SÁ) fyrir möguleikum á því að leggja Skipaútgerð ríkisins niður.

Það er rétt, eins og ég benti á við 2. umr. fjárlagafrv., að ef það á eitthvað að sinna þessum málum, þá er ekki hægt að taka þar einstaka þætti út úr, heldur verður að taka flutningamálið út um landsbyggðina og milli byggða algerlega til rannsókna og athuga, með hvaða hætti er hægt að leysa það, hvort það á að gerast að meginhluta með skipum eða flugvélum eða á vissum svæðum eingöngu með bílum og hvort hægt er að finna þar leið, sem spari ríkissjóði fé, geri þessa þjónustu ríkissjóðnum a. m. k. léttari.

En svo ómögulegt sem það er að losa ríkið við útgjöld vegna vaxandi rekstrarhalla af flóabátum, því ómögulegra er að losa ríkið við milljónatöpin af Skipaútgerð ríkisins, af nákvæmlega sömu ástæðum, aðeins í stærri stíl.

Þá skal ég víkja að fjárlagaafgreiðslunni. Þegar skilizt var við afgreiðslu fjárlaga nokkru fyrir jól, stóðu sakir þannig, að tveir ráðh. mættu hér og gerðu grein fyrir því, að þá yrði að slá botn í bili við afgreiðslu fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. var þeirrar skoðunar, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að fjárlagafrv. yrði afgreitt fyrir áramót eins og á undanförnum árum, og lagði fram þau rök fyrir sínu máli, að hann teldi, að hægt væri að afgreiða þau tekjuhallalaust. Ég var honum sammála um það og enn fremur, að það væri ekki hægt að ganga út frá því, að höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar yrði stöðvaður á næsta fjárhagsári, og þess vegna væri ástæðulaust að tengja afgreiðslu fjárlagafrv. við svo óraunhæfa tilhugsun. Þetta taldi ég vera fullnægjandi rök af hendi hæstv. fjmrh. og er enn þeirrar skoðunar, að það hafi verið algerlega tilefnislaust að tengja afgreiðslu fjárlagafrv. við það, að eftir var að leysa ýmiss konar vandkvæði sjávarútvegsins í kringum þessi áramót, enda virðist sú ætla að verða raunin, að það á einhvern veginn að hafa lausn þeirra mála að langmestu leyti utan við afgreiðslu fjárlagafrv., hvort sem það er til þess, að fjárlagafrv. liti á pappírnum eitthvað skár út, eða vegna þess, að þetta þyki ekki eiga samleið, þegar til kemur.

Biðin á afgreiðslu fjárlagafrv. hefur auðvitað leitt til þess, að áfram rigndi yfir fjvn. nýjum og nýjum erindum um aukin útgjöld úr ríkissjóði, og eru allmargar af till. þeim, sem hv. meiri hl. fjvn. hefur nú lagt fram, bein afleiðing af því regni, og mátti auðvitað alltaf við því búast. Hins vegar er meiri hluti upphæðanna í hinum nýju till. hv. meiri hl. fjvn. afgreiðsla á þeim stóru útgjaldaliðum, sem vitað var í lok 2. umr. að eftir var að taka til greina við 3. umr., svo sem útgjöld vegna launalaganna og útgjöld vegna almannatrygginganna, útgjöld vegna væntanlegrar löggjafar um atvinnuleysistryggingar o. s. frv.

Á þessari stundu er ekki komið fram frv. til l. um atvinnuleysistryggingar, og í raun og veru er ákaflega lausleg afgreiðsla að taka einhverja upphæð inn í fjárlagafrv. næsta árs vegna þeirrar löggjafar, meðan enginn alþm. hefur augum lítið, hvernig það frv. verður. Ég hygg því, að fáir eða engir alþm. viti á þessari stundu um það, hvaða útgjöld komi til með að fylgja þeirri lagasetningu fyrir ríkissjóð eða aðra aðila.

Þá er það alger og óttalegur leyndardómur enn þá, hvaða útgjöld kemur til með að leiða af aðgerðum hæstv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálunum, og alger hula hvílir yfir því, að hve miklu leyti á að taka nýja tekjustofna inn í fjárlagafrv. vegna þessara aðgerða eða hvort hugsunin er sú að gera það ekki að neinu leyti og afgreiða það að öllu leyti þannig, að ný skattafrv., sem talað er um að borin verði fram, kannske lögð hér fram á Alþ. í dag, eigi að skila tekjum ekki í ríkissjóð, heldur í sérstakan sjóð, sem mynda á til þess að standa undir hallarekstri vélbátaútgerðar, togaraútgerðar og rekstri hraðfrystihúsa, að mér skilst einnig.

Ég vil þessu næst leyfa mér að renna augum yfir og fara nokkrum orðum um sumar af brtt. á þskj. 287, en það eru brtt. hv. meiri hl. nefndarinnar. Sumum þessum brtt. erum við í minni hl., hv. 11. landsk. þm. (LJós) og ég, sammála og höfum ekkert við þær að athuga, teljum, að ekki verði hjá þeim komizt og að þær eigi fullan rétt á sér. Aftur eru það aðrar till., sem við teljum tilefnislitlar og tilefnislausar jafnvel sumar og eigi ekkert erindi í fjárlagafrv. Af þeim ástæðum töldum við okkur ekki geta fylgt till. meiri hl. í heild og berum fram okkar brtt. á sérstöku þskj., þskj. 293.

Ég vil fyrst víkja að því, að hæstv. ríkisstj. og meiri hl. nefndarinnar telur nauðsynlegt að halda áfram uppi ræðismannsskrifstofu í Hamborg, þrátt fyrir það að við höfum flutt til Bonn skrifstofu sendiherra Íslands í Vestur-Þýzkalandi, og er það um 80 þús. kr. liður.

Þá eru þarna hækkanir á stórembættum hér í Reykjavík, eins og borgardómaraembættinu, borgarfógetaembættinu og sakadómaraembættinu. Þetta eru stærstu og umfangsmestu embættin á vegum ríkisbáknsins hérna í Reykjavík, og þau hafa öll þurft vegna þess dráttar, sem varð á afgreiðslu fjárlagafrv., að koma að beiðnum um hækkaðar fjárveitingar sér til handa. Ég get þó ekki séð, að neitt það hafi breytzt síðan í nóvembermánuði eða desembermánuði, sem grundvalli slíkar hækkanir.

Þá eru hér beiðnir frá sýslumönnum og bæjarfógetum um nokkrar hækkanir. Er þar smátt og smátt verið að óska eftir nýjum starfsmönnum í þessum embættum, og er á sumum stöðum nokkuð umdeilt, hvort þörf sé á viðbótarmönnum. Ég man t. d. eftir því, að það var til umræðu í nefndinni beiðni um viðbótarmann til lögreglustjórans í Neskaupstað. Hv. 11. landsk. þm., sem er vel kunnugur í þeim kaupstað, taldi litla þörf fyrir þennan viðbótarmann. En það var látið heita svo, að þetta væri vegna starfa fyrir almannatryggingarnar, það yrði að fá mann til þess, en það er nú ekki nema nokkur hluti af starfinu fyrir almannatryggingarnar á höndum embættismannsins þar, því að þar mun sú starfsemi að nokkru leyti vera á hendi starfsmanns sjúkrasamlagsins á staðnum.

Í fyrsta sinn er nú skipt því fé, sem á að verja til skólabygginga, barnaskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla, og hefur sú skipting ekki verið í fjárlagafrv. áður. Hvort það er til bóta að láta fjvn. skipta þessu fé — hingað til hefur það aðeins verið ákveðið í heild — eða láta embættismanninn, sem þetta heyrir nokkuð eðlilega undir, fræðslumálastjórann, annast slíka skiptingu í samráði við hæstv. menntmrh. á hverjum tíma, skal ég láta ósagt. Það á eftir að sýna sig. Hins vegar er því ekki að neita, að skuldasöfnun hefur átt sér stað, sökum þess að ráðizt hefur verið í skólabyggingar örar en fé hefur verið veitt til þeirra framkvæmda á fjárlögum, og nemur nú þessi skuld við skólahéruðin samtals nærri 17 millj. kr. En engin vissa er fyrir því, að ekki safnist skuldir við héruðin, þrátt fyrir það að fjvn. skipti fénu. Slík skuldasöfnun hefur átt sér stað við ýmsa hafnarsjóði að því er snertir hafnargerðirnar, og hefur þó alltaf verið venja, að fjvn. skipti fjárframlögum úr ríkissjóði til hafnarmannvirkja.

32. till. meiri hl. er um smávægilegan styrk til Íþróttasambands Íslands. Við í minni hl. teljum, að þetta hefði átt að hækka heldur meira. Það er lagt til, að þetta verði 75 þús. kr. til Íþróttasambandsins. Við teljum, að það hefði verið ástæða til þess að hækka þetta heldur betur, einkum með hliðsjón af þeirri hækkun, sem hefur orðið til Ungmennasambands Íslands í sambandi við þann lið íþróttamálanna, sem er á hendi þess félagsskapar. Við vitum ósköp vel, að það verður mikil óánægja af hendi Íþróttasambands Íslands yfir því að vera þarna að nokkru leyti, hlutfallslega að minnsta kosti, sett hjá.

Ég sé, að 38. till. hv. meiri hl. lýtur að því að hækka 50 þús. kr. lið, sem var í frv. til byggingar bókasafna og lesstofa, í 100 þús. kr. Það var ekki nema eðlilegt, að menn sæju, hversu kátlegt var að hafa 50 þús. kr. lið til byggingar bókasafna og lesstofa, og er það nálega jafnhlægilegt, að það sé 100 þús. kr. Við höfum við 2. umr. lagt til, að þessi liður yrði ekki lægri en 200 þús. kr.

Þá er 40. till. um það að taka okkar fremstu rithöfunda, Gunnar Gunnarsson og Halldór Kiljan Laxness, hvorn um sig með 33220 kr. heiðurslaunum, út úr skiptingu á fé til rithöfunda og listamanna. Þessa till. höfðum við borið fram í fjvn. fyrir 2. umr., og varð þar samkomulag um, að við tækjum hana þá aftur. Það gerðum við, þar sem líkur voru til, að nefndin öll mundi telja skynsamlegt að hafa þennan hátt á, og er þessi till. alveg í samræmi við það. — Einnig hefur verið gerð, eins og við vorum þá með till. um á prjónunum, lagfæring til hækkunar á launum rithöfunda og listamanna að öðru leyti, hlutfallslega við hækkanir á launalögum, eitthvað um 10%.

Einn af þeim útgjaldaliðum, sem eru í þessum till. hv. meiri hl., er fjárframlag til Kvíabryggju. Það er einhvers konar innheimtuhæll á barnsmeðlögum, sem Reykjavíkurbær hefur stofnað og lagt fram stofnfé til, en síðan hefur það verið talin sjálfsögð aðferð að taka mörg undanfarin ár inn á fjárlög fé til rekstrar þessa hælis Reykjavíkurbæjar. Enginn lagastafur er til um þessa stofnun, og það eina, sem hefur minnt á tilveru þessa hælis, hefur verið þessi liður á fjárlögum. Það var fyrstu árin 125 þús. kr. til rekstrar hælis á Kvíabryggju, og þá var hælið ekki til. Nú er verið að reka þetta hæli í fyrsta sinn. Þá voru á frv. í haust 275 þús. kr. ætlaðar til rekstrar þessa hælis, en nú lágu fyrir skilríki fyrir því, að þetta yrði allt of lítið, og er nú tekin upp till. um, að þetta verði 630 þús. kr. Alveg er vitað, að þetta verður innan stundar um 1 millj. kr. rekstur, og virðist vera talið sjálfsagt, að ríkið taki þetta á sig til þess að aðstoða eitt sveitarfélag í landinu, Reykjavíkurbæ, um innheimtu á barnsmeðlögum. Það var upplýst í nefndinni, að önnur sveitarfélög hefðu viljað hafa þann möguleika að geta komið vistmönnum á þetta hæli, ef þeir greiddu ekki barnsmeðlög, en upplýsingar lágu fyrir úr fleiri en einum stað um það, að ekkert sveitarfélag annað en Reykjavík hefði aðgang að hælinu, þó að það sé algerlega rekið á kostnað ríkissjóðs. Það var sýnilega mikil óánægja meðal fjvn.-manna um þetta og mjög dregið í efa, að nokkur heimild sé til að taka inn á fjárlög hundruð þús. kr. til stofnunar, sem enginn stafur er til um í lögum. Þessi sameiginlegi krói ríkissjóðs og Reykjavíkurbæjar ætti nú að njóta þeirrar virðingar, að hæstv. ríkisstj. bæri fram frv. til laga um vinnuhæli Reykjavíkurbæjar og ríkissjóðs á Kvíabryggju, minna má það ekki vera, og síðan sé samkvæmt þeim lögum ætlað fjárframlag á ári hverju til. rekstrar þessarar stofnunar. Við í minni hl. erum því alveg andvígir því, að þessi till. hv. meiri hl. sé samþykkt, og teljum, að hún eigi enga stoð í lögum og þetta fé sé tekið heimildarlítið, ef ekki heimildarlaust úr ríkissjóði, eins og verið hefur á undanförnum árum, þó að um minni upphæðir hafi verið að ræða.

50. till. hv. meiri hl. er um að hækka lið til sjómælinga úr 80 þús. kr. í 140 þús. kr. Við í minni hl. erum alveg samþykkir þessari till. Teljum við það mjög gleðilegan atburð, að Íslendingar eru nú að taka algerlega í sínar hendur gerð allra sjókorta og allar sjómælingar, sem eru undirstöðuvinna við þá framkvæmd, og höfum nýlega fengið vitneskju um það, að Danir hafa sýnt þann myndarskap í þessu máli, að þeir afhenda nú Íslandi, kvaðalaust og án þess að nokkur reikningur fylgi, allar sínar mælingar frá fyrstu tíð í kringum Ísland, öll myndamót af sjókortum, sem þeir hafa látið gera af Íslandsmiðum, en það eru öll þau kort, sem hingað til hafa verið fáanleg til notkunar fyrir Íslendinga, og sjókortagerð Íslands tekur við þessu öllu saman án endurgjalds af hendi Dana. Þarna hafa Danir óneitanlega orðið myndarlega við að skila handritum, sem þeir hafa algerlega sjálfir kostað og búið til. Þetta er þeim til verðugs lofs, og vona ég, að við reynumst menn til að framkvæma þessa hluti einnig með myndarskap. Byrjunin er góð. Það eru komin nú nokkur íslenzk sjókort, sem algerlega eru unnin á grundvelli íslenzkra mælinga í viðbót við þær dönsku, sem fyrir hendi voru áður, og er ekki hægt að sjá annað, enda ber sérfræðingum saman um, að þetta séu hin ágætustu sjókort.

Þarna eru smáhækkanir til Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands. Við því er ekkert að segja. Það hefur verið gerð grein fyrir því, að aukinn kostnaður sé af mannahaldi þessara félaga atvinnuveganna, og er ég því samþykkur því, að þetta sé hækkað. — Hins vegar vil ég í sambandi við þetta minna á, að það var við 2. umr. borin fram till. um, að framlag til starfsemi Alþýðusamb. Íslands yrði hækkað úr 75 þús. kr. í 150 þús. kr., auðvitað vegna aukins kostnaðar við starfrækslu þessara landssamtaka verkamannanna. Þetta fékk engan hljómgrunn í hv. fjvn., 75 þús. kr. hækkun á þeim lið, þó að verið væri jafnframt að hækka áður veitt framlög til búnaðarsamtakanna og samtaka sjávarútvegsins. Af þessu getur maður séð, hver vinsemdin er frá ríkisvaldinu til samtaka verkalýðsins, þó að það sé haft í orði stundum, að það sé nauðsynlegt, að góð samvinna sé milli þessara samtaka og ríkisvaldsins. Kvenfélagasamband Íslands hefur hins vegar ekki 75 þús. kr. styrk úr ríkissjóði, heldur 175 þús. kr., og var þarna farið fram á 150 þús. kr., svo að við værum þó samt sem áður 25 þús. kr. lægri en þau samtök, en það fékk engan byr, þrátt fyrir það að hent væri á það til samanburðar, og er þó vitað, að Alþýðusamband Íslands á 40 ára afmæli á þessum vetri, og hefði ekki verið annað en viðurkenning í sambandi við afmælið, að ríkissjóður hefði þarna látið það njóta sannmælis við önnur félagasamtök. En því er ekki að heilsa, og af því dreg ég mínar ályktanir um vinsemdina.

Hins vegar er til stofnun, sem heitir veiðimálaskrifstofa. Hún fór fram á hækkun vegna síns rekstrar og það stóð ekki á því. Það var fyrir nokkrum árum búið að fallast á að leggja þessa stofnun niður og fela hennar starfsemi Búnaðarfélagi Íslands. Þá stóð þannig á, að forstöðumaðurinn var svo ríkur, að hann ætlaði að komast undan íslenzkum skattayfirvöldum og flutti sig til Danmerkur með allt sitt, en er svo kominn aftur, og síðan hefur verið mikill gróandi í kostnaði við stofnun hans og heldur áfram. Á þessum vikum, sem liðnar eru síðan frv. var til 2. umr., hefur enn orðið að hækka kostnaðinn við stofnun hans, og stendur slíkt ekki í meiri hl. hv. fjvn. eða ríkisstjórninni.

Við 2. umr. fjárlaganna bárum við hv. 11. landsk. þm. fram till. um, að hækkað yrði fjárframlag til leitar fiskimiða úr 250 þús. kr., sem voru á frv., í 1 millj. og 500 þús. kr. Nú hefur hæstv. ríkisstj. og meiri hl. fjvn. fallizt á, að það væri þörf á að hækka þennan lið, en hækkunin er aðeins upp í 500 þús. kr. eða 1/3 hluta af því, sem við töldum að þörf væri á að liðurinn yrði. Það er þó 100% hækkun frá því, sem var í frv., og er kannske hægt að aðstoða skip til slíkrar leitar í hálfan mánuð, ja, kannske mánuð, með þessu fjárframlagi, sem nú er þarna lagt til að verði greitt.

Þá höfðum við einnig við 2. umr. fjárlaganna lagt til, að fjárveiting til gamalmennahæla utan Reykjavíkur yrði hækkuð svolítið, en hverju elliheimili utan Reykjavíkur eru ætlaðar í styrk 20 þús. kr. Allir sjá, að það er nú orðið lítill peningur við stofnanir, sem kosta mörg hundruð þús. kr. í rekstri hjá sveitarfélögunum. Auðvitað hefur ekki verið samþykkt að hækka þetta í námunda við það, sem við lögðum til við 2. umr., en þó er þarna sýndur litur og heildarfjárveitingin hækkuð úr 180 þús. kr. í 270 þús. kr., þannig að fjárveitingin til hvers elliheimilis um sig verður ekki 20 þús. kr. á næsta ári, heldur 30 þús. kr. Það er aðeins hreyfing, en þó vitanlega alveg ófullnægjandi í sambandi við svona dýrar stofnanir og nauðsynlegar.

Hv. frsm. meiri hl., 2. þm. Eyf. (MJ), minntist á, að það væru hér ýmsar brtt. viðvíkjandi 18. gr., tillögur um að fella niður ýmsa liði af góðum og gildum ástæðum og tillögur um að taka nýja inn. Við þessu er ekkert að segja. Meðan 18. gr. helzt, verður þetta að vera svona. En ég hef margsinnis á það bent áður, að þó að tillit sé tekið til alls, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á að þyrfti að gera til þess að komast að niðurstöðu um hæfileg hlutföll milli fjárveitinganna, þá er samt ómögulegt að neita því, að það er hróplegt misræmi milli þessara fjárveitinga, miðað við einstaklingana, — ég segi: þó að tekið sé tillit til alls og þetta skoðað ofan í kjölinn af fullum kunnugleika. 18. gr. ætti því að hverfa, og það hefði verið tilvalið tækifæri nú að láta hana hverfa einmitt í sambandi við endurskoðun á tryggingalöggjöfinni. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það er ekki hægt að gera þetta nema einmitt í sambandi við tryggingalöggjöfina. Nú er hún til gagngerðrar endurskoðunar. Nú er hún hér til afgreiðslu á Alþ., og nú átti auðvitað að slátra 18. gr. alveg og gera viðeigandi nauðsynlegar breytingar á tryggingalöggjöfinni í sambandi við það. Ég hygg því, að úr því að það hefur ekki verið gert nú og verður sennilega ekki gert í sambandi við þá endurskoðun, þá megum við búast við því, að þessi vandræðagrein fjárlaganna haldi áfram að vaxa eins og að undanförnu sem vandræðafyrirbæri í afgreiðslu fjárlaganna.

75. till. hv. meiri hl. er um flugvallagerðir, þess efnis, að fyrir 2 millj. og 500 þús. kr. skuli koma 3 millj. og 500 þús. kr. Við hv. 11. landsk. þm. höfum lagt til, að fjárveiting til þessara framkvæmda verði 4 millj. kr., og erum við þó neðan við það, sem forráðamenn flugmálanna telja nauðsynlegt, til þess að ekki dragi úr framkvæmdum á þessu sviði.

81. till. hv. meiri hl. er um að greiða smáupphæðir til húsmæðraskólans á Hallormsstað og kvennaskólans á Blönduósi, til annars þeirra vegna kennslu í tóvinnu og hins vegna kennslu í vefnaði. Það er sjálfsagt þörf á því að veita þessar smáupphæðir til þessara tveggja skóla. En samræmis vegna efa ég, að það sé rétt að veita einum skóla fjárupphæð sérstaklega á fjárlögum vegna vefnaðarkennslu, því að allir húsmæðraskólarnir annast vefnaðarkennslu sem eina námsgrein, og það ætti þá því aðeins rétt á sér, ef það væri verulega meiri vefnaðarkennsla í Hallormsstaðaskóla en í nokkrum öðrum húsmæðraskólanna. Verið getur, að svo sé, en ekkert hefur þó verið upplýst um það. Hætt er því við, að þetta leiði af sér, að við afgreiðslu næstu fjárlaga komi beiðnir frá öllum húsmæðraskólunum um sérstök fjárframlög til þeirra námsgreina, sem þeir ræki betur en aðrir skólar, leggi í meiri vinnu og veiti meiri fræðslu í.

Hæsti liðurinn, sem er að finna í till. hv. meiri hl., er að upphæð 23½ millj. kr. Það er vegna hækkunar á launalögunum. Við í minni hl. teljum, að hjá þessu verði ekki komizt. Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa fallizt á, að þessa hækkun yrði að gera á launum opinberra starfsmanna, og þar með hefur verið viðurkennt, að allir í landinu hafi vegna dýrtíðarástandsins orðið að fá réttingu á sínum launakjörum og ekki getað búið við óbreytt launakjör áfram. Þá er aðeins eftir ein stétt í landinu, sem hefur ekki fengið neina réttingu á sínum launakjörum, og það er sjómannastéttin. Nú stendur í hörkusamningum um það, hvort sjómennirnir eigi að fá nokkra lagfæringu á kjörum sínum í gegnum hækkun á fiskverði. Þar er staðið mjög hart á móti, og ég sé í aðalmálgagni ríkisstj. í dag, í Morgunblaðinu, að það er talin ósvífni mikil af Alþýðusambandi Íslands að halda nokkuð fast á samningum fyrir hönd sjómannastéttarinnar að því er snertir fiskverðið, því að það sé ekkert annað en óbilgirni. Þessir sömu menn eru þó að standa upp frá margra vikna hörkubaráttu við ríkisvaldið um að fá fjárveitingar svo að skiptir tugum millj. kr. til hraðfrystihúsarekstrarins, til vélbátaútgerðarinnar og til togaraútgerðarinnar, en hlutarsjómenn á vélbátum eiga samt að sitja við óbreytt fiskverð, sem þýðir ekki sömu laun og áður, heldur lækkuð laun, vegna þess að þeir taka samkvæmt hlutarskiptakjörunum þátt í útgerðarkostnaði, og það er útgerðarkostnaðurinn, sem útgerðarmennirnir halda fram að hafi hækkað um 10%, en hlutarmennirnir bera þennan kostnað nærri því að hálfu á máti þeim. Þeir hafa því fengið ekki óbreytt fiskverð, heldur raunverulega lækkað fiskverð, vegna þess að þeir taka þátt í útgerðarkostnaðinum, sem hefur vaxið. Við það eiga þeir að sitja, upp á það eiga þeir að hleypa bátaflotanum nú í gang, eftir að búið er að stöðva hann af öðrum aðilum núna allan janúarmánuð. Þetta er sanngirnin í garð sjómannastéttarinnar, aðalframleiðslustéttar þjóðarinnar, eftir að ríkisvaldið er búið að viðurkenna, að það þurfi að hækka nú í viðbót við hækkunina, sem var gerð fyrir jólin í fyrra, um 23 millj. laun til opinberra starfsmanna í þjónustu ríkisins. Það er svona réttlæti í þjóðfélaginu, sem gerir það að verkum, að það er ekki alltaf allt með kyrrum kjörum, og það er svona ástand, sem skapar það, að það er í raun og veru allt í grænum sjó í þessu þjóðfélagi. Það er ranglæti, sem ríður ekki við einteyming.

Þá skal ég víkja að brtt. okkar í minni hl. við fjárlagafrv. síðan við 2. umr. Þær eru, eins og ég áðan sagði, á þskj. 293.

Við 2. umr. bárum við hv. 11. landsk. fram brtt. um að hækka tekjuhlið frv. um 60.7 millj. kr. og leiddum rök að því. Eftir að við höfðum athugað niðurstöður ríkisbúskaparins árið 1954 og eftir að við höfðum fengið upplýsingar úr ríkisbókhaldinn um, hvað mikið væri komið inn af tekjum hjá ríkissjóði í októberlok í haust, og bárum þetta hvort tveggja saman við fjárlagafrv., þá komumst við að þeirri niðurstöðu, að það væri óhætt að áætla tekjuskattinn 112.8 millj., vörumagnstollinn 30 millj., verðtollinn 170 millj., innflutningsgjald af benzíni 13 millj., gjald af innlendum tollvörutegundum 12 millj., lestagjald af skipum 300 þús., bifreiðaskattinn 6 millj., aukatekjur 10½ millj., stimpilgjöld 14½ millj., vitagjöld 1.7 millj., leyfisbréfagjöld 0.8 millj., útflutningsleyfagjöld 0.8 millj., söluskattinn 130 millj. og leyfisgjöld 9 millj.

Nú liggja fyrir upplýsingar um það frá ríkisbókhaldinu, hvað þessir tekjuliðir, sem hér er um að ræða, hafi verið orðnir í desemberlok. Það er þó vitað, eins og hv. frsm. meiri hl. játaði áðan, að þann 31. des. eru aldrei komnar inn allar tekjur ríkissjóðs. Margir tekjuliðirnir eiga þá eftir að skila sér að talsvert miklum hluta og eru að skila sér nokkuð fram á næsta fjárhagsár. Það er því alveg vitað, að þessar upplýsingar samkvæmt bráðabirgðauppgjöri ríkisbókhaldsins eru ekki endanlegar tölur.

Nú kemur í ljós í fyrsta lagi, að tekju- og eignarskatturinn, sem var á síðasta árs fjárlögum 62.8 millj., er nú orðinn 84 millj. Við höfðum lagt til, að hann yrði áætlaður á næsta ári 112.8 millj. Eru nú nokkrar líkur til, að sú breyting verði á tekjuskattinum á árinu 1956, að það valdi nokkurri verulegri hækkun? Eru ekki líkur til þess, að hækkun á launum allra opinberra starfsmanna, sem samkvæmt þessari till., sem ég gerði grein fyrir áðan, nemur 23½ millj. og er þó meiri, hækkun, sem hefur orðið á vinnulaunum allra vinnustétta landsins, og vonandi verður hækkun líka á fiskverði og þar af leiðandi vonandi hækkun á tekjum sjómanna, — mun þetta, ekki allt leiða til þess, að allar tekjur manna á árinu 1956 verði að krónutölu verulega hærri en á árinu 1955? Jú, það er vitanlegt. Þess vegna er það nokkurn veginn gefinn hlutur, að tekju- og eignarskatturinn kemur til með að hækka stórkostlega á næsta ári. Við lögðum til, að hann yrði áætlaður 112 millj., erum nú með till. um, að hann verði áætlaður 106 millj. kr. Hv. meiri hl. n., sem sár fyrir, að það væri nokkur möguleiki á því að hækka nokkurn tekjulið fjárlaganna við 2. umr., leyfir sér nú að koma með till. um að hækka þennan tekjulið um 8 millj. kr., upp í 101 millj. Það er nú til góðs, að menn hafa uppgötvað, að þarna var óhætt að áætla einn tekjulið fjárlaganna 8 millj. hærri en haldið var fram við 2. umr. málsins. Þar með er það viðurkennt að því er þann lið snertir, að hann hefur ekki verið áætlaður í októberlokin eftir því, hvað var útlit fyrir að hann yrði, heldur er hann nú hækkaður út af því, að það er aukinn þrýstingur að því er snertir þörfina, og þá er seilzt ofan í pokann og teknar 8 millj. í viðbót, af því að þær voru þar auðvitað fyrir. En þannig er nákvæmlega um marga aðra tekjuliði frv., eins og ég nú mun sýna fram á.

Vörumagnstollinn áætluðum við í okkar till. við 2. umr. 30 millj. kr. Hvað er hann orðinn nú í desemberlokin? 29.4 millj. Það er enginn vafi á því, að hann mun reynast, þegar hann er endanlega gerður upp, yfir 30 millj. á s. l. ári. Nú leggjum við til, að hann verði áætlaður 29 millj., og erum þá orðnir fyrir neðan það, sem hann hefur reynzt núna í desemberlokin. — Ég vil taka það fram í eitt skipti fyrir öll, að till. okkar núna um lægri tölur en við 2. umr. byggjast ekki á því, að við höfum sannfærzt um, að okkar till. hafi verið of háar í haust, heldur er þetta eingöngu með tilliti til þingskapaákvæða. Það er ekki hægt að bera fram aftur sömu tölu og þingið er búið að fella. Við höfum líka breytt okkar tölum með tilliti til þess, að þær væru líka lægri en þær till. frá hv. Þjóðvfl., sem voru felldar við 2. umr., svo að okkar nýju till. rækjust ekki heldur vegna þingskapanna á þær tölur. Eru okkar tölur því nú lækkaðar vegna þingskapa, en ekki af öðrum ástæðum, niður fyrir bæði till. okkar í minni hl. við 2. umr. og till. þjóðvarnarmannanna við sömu umr.

Þá er það verðtollurinn. Við höfum áætlað, að hann yrði 170 millj., leggjum nú til, að hann verði áætlaður 164 millj. Hvað er hann orðinn í desemberlokin? Er hann orðinn 164 millj., eða kannske orðinn það, sem við lögðum til í haust að hann yrði, 170 millj.? Hann er orðinn 178.2 millj. kr. núna í desemberlokin, og við það á áreiðanlega eftir að bætast eitthvað. Þennan tekjumöguleika, sem er þarna fyrir hendi, vill hæstv. ríkisstjórn ekki nota. Hún vill áætla of lágt eins og fyrri daginn, eins og hún er staðin að að hafa gert núna s. l. 8 ár, vísvitandi, og leggja svo nýja skatta á þjóðina í staðinn. Það eru hennar ær og kýr.

Þá er innflutningsgjald af benzíni. Við áætluðum það 13 millj. kr. í haust, og nú segjum við, að það skuli prófað, hvort þingið vilji fallast á að áætla það 12½ millj. kr. Þetta var á fjárlögunum áætlað 9½ millj., en er komið í 11½ millj. núna í desemberlok, m. ö. o. rétt við þá upphæð, sem við erum með. Þetta er þó liður, sem hefur farið síhækkandi og er ástæða til sérstaklega að búast við að taki nú stórt stökk vegna þess geysilega bílainnflutnings, sem átti sér stað á s. l. ári og skilar auðvitað stórkostlega aukinni benzíneyðslu á næsta ári og þar með hækkun á innflutningsgjaldi af benzíni. Þessi liður okkar er því nú greinilega mjög varlega áætlaður eins og allir okkar liðir aðrir.

Þá áætlum við gjald af innlendum tollvörutegundum 11 millj. kr., lögðum í haust til, að það yrði áætlað 12 millj. kr. Hvað er það orðið núna? Það er orðið 11.4 millj. kr., þ. e. a. s. hærra en við leggjum nú til og aðeins ½ millj. kr. lægra en við lögðum til í haust.

Þá er það bifreiðaskatturinn. Við leggjum nú til, að hann verði áætlaður 5.8 millj., lögðum til í haust, að hann yrði áætlaður 6. Hann er orðinn núna 5.2 millj. kr.

Þá leggjum við nú til, að aukatekjur verði áætlaðar 10 millj., í haust vorum við með till. um 10½. Hann er nú orðinn 10.4 millj., nokkurn veginn eins og við áætluðum hann í haust, og er orðinn hærri en við leggjum til, að hann sé áætlaður fyrir næsta ár.

Þá leggjum við nú til, að liðurinn stimpilgjald verði áætlaður 14 millj., vorum með till. um 14½ millj. í haust. Hann er nú orðinn 15 millj. kr. í desemberlokin, ½ millj. kr. hærri en till. okkar í haust og 1 millj. kr. hærri en við leggjum nú til að hann verði áætlaður næsta ár.

Þá eru hér tveir smáliðir, leyfisbréfagjald og útflutningsleyfagjöld. Það er hvort tveggja áætlað, annað á 500 þús. og hitt á 700 þús. Við lögðum til í haust, að þetta yrði áætlað 800 þús. hvor liðurinn, leggjum nú til, að hvor um sig verði áætlaður 750 þús. Leyfisbréfagjaldið er nú orðið 677 þús., nærri 700 þús., og hinn liðurinn 842 þús., eða yfir það, setn við áætluðum.

Þá kemur að söluskattinum, þessum næsthæsta tekjulið fjárlaganna. Við áætluðum hann í haust 130 millj., erum nú með till. um, að hann verði áætlaður 128 millj. Hvað var hann orðinn í desemberlokin? Hann var orðinn 129.9 millj., eða nær 130 millj., eins og við áætluðum í haust, að hann yrði. Hann var sem sé orðinn í desemberlok s. l. nærri 2 millj. hærri en við leggjum til að hann verði áætlaður næsta ár.

Þá eru það leyfisgjöldin. Við áætluðum þau í haust 9 millj., leggjum nú til, að þessi liður sé lækkaður niður í 7.4 millj. Samkvæmt yfirliti ríkisbókhaldsins, sem mér barst í morgun, er hann í desemberlok orðinn 10.9 millj., nærri 11 millj. kr. sem við áætlum nú að verði á næsta ári 7.4 millj.

Þá skal ég geta þess, að vegna ónógra upplýsinga bárum við, við 2. umr. enga till. fram til breytinga á tekjum af ríkisstofnunum, þ. e. a. s. tóbakseinkasölu og víneinkasölu, og gerum það ekki heldur nú. Það kemur í ljós samkvæmt upplýsingum ríkisbókhaldsins, að nettótekjur af þessum stofnunum báðum hafa verið orðnar í desemberlok 119.8 millj. kr., rétt um 120 millj. kr. En með því að áætlunin á fjárlagafrv. nú eftir 2. umr. er mjög nálægt þessari upphæð, sjáum við ekki ástæðu til að leggja nú fram brtt. við þennan lið. Hann er sem sé nú í fyrsta sinn eftir mörg ár að nálgast það að vera áætlaður rétt. Þó er því ekki að neita, að á hverju einasta ári fram að þessu hafa tekjur þessara tveggja ríkisstofnana hækkað árlega, svo að það er e. t. v. hægt að hugsa sér, að sá óheillavöxtur haldi áfram og að það verði tekjuafgangur af þessum lið, en við sem sé ætlum þá að láta hann eiga sig.

Þær hækkanir frá fjárlagafrv., sem við nú höldum fast við og leggjum til og erum þá með hvern einasta lið svo að segja, nema tekju- og eignarskattinn, lægra en ríkisbókhaldið upplýsir, að þessir liðir séu orðnir núna í desemberlokin, nema samt 32½ millj. kr. hækkun á tekjuhlið fjárlagafrv. Það væri þó nokkuð upp í þann 45 millj. kr. halla, sem hv. meiri hl. fjvn. vill halda fram að sé nú á fjárlagafrv. og vill fá nýja skattstofna fyrir. Með því að halda sér hins vegar við tekjuáætlun okkar frá í haust, ætti þetta að hækka um nálega 20 millj. í viðbót, og það ætti fyllilega að standast eftir upplýsingunum frá ríkisbókhaldinu, og með öllu útliti til næsta árs ætti að mega afgreiða fjárlagafrv. nú hallalaust án þess að þurfa að grípa til nokkurra nýrra tekjustofna eða nýrra skatta á þjóðina. Það væri þó strax eitthvað til að hugga sig við og bæri vott um, að allt væri ekki eins mikið í grænum sjó og það nú virðist að öllu leyti vera.

Ég gladdist sannarlega af því að sjá í þessum nýjustu upplýsingum frá ríkisbókhaldinu, að allar tillögur okkar hv. 11. landsk., sem voru taldar fjarstæðukenndar öfgar núna í nóvemberlokin og byrjun desember, sýna sig nú að hafa allar saman verið, eins og við reyndar vissum, varlegar áætlanir, en enn þá varlegri eru þá áætlanir okkar nú, þar sem við berum fram till., sem samtals eru um 20 millj. kr. lægri. Ég mun því hafa gaman af því við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrv. núna við 3. umr., þegar hv. meiri hl. þingsins, handjárnaður af hæstv. ríkisstj., fellir þessar till., sem eru langt fyrir neðan það, sem ríkisbókhaldið upplýsir að þessir tekjustofnar nemi nú, og biður svo í staðinn, þegar þingliðið er búið að fella þessar varlegu till. okkar, um nýja tekjustofna, nýja skatta á þjóðina í staðinn, til þess að standast ríkisútgjöldin, um 46–50 millj. kr., að því er virðist. Við það á svo að bætast á Skjónu, þ. e. a. s. skattþegnana, að því er Morgunblaðið upplýsir í dag, að mér skilst, a. m. k. 150 millj. kr. í nýja skatta í sérsjóð, fylgisjóð ríkissjóðsins, til þess að standa undir útgerð og fiskiðnaði.

Það er nú upplýst, að ríkistekjurnar, miðað við bráðabirgðauppgjörið í desemberlok á s. l. ári, nema 626 millj. kr. Það er vitað, að það á eftir að hækka verulega, svo að ég get vel ímyndað mér, að tekjur ársins 1955 reynist, þegar um lýkur, ekki undir 640–645 millj. kr. Ef till. okkar í minni hl. til hækkunar á tekjuhliðinni hefðu verið samþykktar í haust, hefði tekjubálkur frv. verið um 630 millj. og þannig innan þess ramma, sem tekjur síðasta árs ná yfir. Hins vegar er vitað, að á næsta ári, með þeirri auknu krónutölu, sem nú segir til sín á hverju einasta heimili, í hverri einustu stofnun og þá náttúrlega á stórkostlegan hátt í ríkisbúskapnum, verða milljónatuga hækkanir á tekjuhlið fjárlagafrv., ef ekki verður algert hrun í þjóðarbúskapnum. Það er t. d. vitað, að tekju- og eignarskatturinn, og það er nú þegar viðurkennt að nokkru af meiri hlutanum, hækkar um margar millj., ef ekki á annan tug millj. kr. Á sama hátt er vitað, að söluskatturinn kemur til með, án þess að lögum um hann sé breytt, að verða á næsta ári mjög miklu hærri en hann er á árinu 1955. Líkt verður um niðurstöður margra annarra tekjuliðanna. Ég tel því, að það stefni allt að því, sem betur fer, að það sé hægt að afgreiða fjárlagafrv., eins og hæstv. fjmrh. lagði til fyrir jólin, án þess að bendla það á nokkurn hátt við ráðstafanirnar við sjávarútveginn, og nú mun það vera að verða ofan á. Og þar að auki, að fengnum þessum nýju upplýsingum frá ríkisbókhaldinu, virðist vera hægt að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög í þetta sinn eins og undanfarin ár án þess að lögleiða nýja tekjustofna, aðeins með því að áætla tekjuhliðina núna einu sinni rétt, og það væri ráð að gera það, meðan svona mikið þrýstir á um útgjöldin, að það er þörf á því að hækka ekki aðeins tekju- og eignarskattinn um 8 millj. kr. vegna þessa þrýstings, heldur að láta aðra tekjuliði fjárlagafrv., sem eins augljóslega eru of lágt áætlaðir, einnig hækka vegna þessarar þarfar.