27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér nokkrar till. til breytinga á fjárl. á þskj. 295. Nokkrar af þessum till. eru sama efnis og þær, sem ég hef flutt áður við 2. umr. málsins, en hef ég bara lækkað upphæðina, ef verða mætti, að það gengi frekar í gegn á þann veg. Þannig er um það, sem snertir að veita til háskólaráðs til þess að styrkja stúdenta til náms í efnafræði, og eins viðvíkjandi vísindarannsóknum í íslenzkri sögu, bókmenntum og jarðfræði, og þarf ég ekki raunverulega að vera hér fyrir hv. þm. að endurtaka mín rök um þessa hluti. Enn fremur flyt ég aftur till. viðvíkjandi Skákfélaginu og viðvíkjandi færeysku stúdentunum, en hef þar lægri upphæð. Sömuleiðis flyt ég, það er VII. brtt. á 295, aftur till. um hljómplötusafn og upptöku á eitthvert varanlegt efni á ýmsum alþýðlegum fróðleik og frásagnarhætti. Því hef ég líka fært rök fyrir áður og ætla ekki að endurtaka þau. Sama gildir um sams konar upptöku á einni skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, aðeins flyt ég þarna lægri upphæð en fyrr. Ég vil vona, að þó að þessar brtt. mínar hafi verið felldar við 2. umr., þá megi einhverjar af þeim finna náð fyrir augum meiri hl. nú, og ætla ekki að endurtaka það frekar.

Þá hef ég flutt þá brtt. við liðinn „til skálda, rithöfunda og listamanna“, að það verði reiknuð verðlagsuppbót á þau laun. Áður voru þarna reiknuð grunnlaun, og nú hefur hv. fjvn. hækkað það nokkuð, en ég legg til, að verðlagsuppbót sé bætt við. Mér finnst rétt, ekki sízt þegar nú hefur verið stórkostlega hækkað það, sem greitt er til æðstu embættismanna ríkisins, að þá séu þessir, að vísu ekki mjög háu, en samt sem áður mjög jákvæðu styrkir, sem við greiðum til okkar skálda, rithöfunda og listamanna, hækkaðir. Þegar fjárl. eru nú 600 millj. og fara líklega hátt í 700, þá munar ekki mikið um, hvort 700 þús. kr. er bætt þarna við til þeirra aðila, sem halda þó uppi heiðri Íslands út á við, og mér finnst ekki, að við getum sett þá skör lægra en við setjum okkar embættismenn hvað það snertir, að þegar við reiknum fulla verðlagsuppbót til þeirra, þá eigum við að gera það líka við okkar skáld, rithöfunda og listamenn.

Svo hef ég flutt þarna eina tvo nýja liði. Annar er, að til viðhalds Viðeyjarstofu í samráði við eiganda séu veittar 100 þús. kr., en tryggt sé, að engu sé breytt frá gömlum stíl hússins. Viðeyjarstofan er eitt elzta af þeim mannvirkjum, sem nú eru á Íslandi, og það er engum efa bundið, að við mundum allir sjá mjög eftir því, ef hús Skúla fógeta þar í Viðey skyldi smám saman verða óvistlegt og þessar gömlu minjar þar með eyðileggjast. Það er nú í einkaeign, og þó að það séu kannske efnaðir menn, sem það eiga, þá er það svo, að það er dýrt að halda þessum gömlu húsum við, sérstaklega ef engu á þar að breyta, og það er ekki beinlínis hægt að ætlast til þess af eigendum slíkra húsa, að þeir geri það á eigin kostnað, ef aðeins er verið að gera það fyrir þjóðina vegna sögulegs gildis. Ég skal ekkert segja, ég hef ekki hugmynd um það, hver kostnaður væri af slíku, en ég gæti vel haldið, að þetta yrði að vera fyrsta fjárveiting í slíku skyni og það yrðu þá að koma aðrar smærri seinna. En ég býst við, að það séu áreiðanlega einhverjir, sem séu farnir að sjá eftir því núna, að gamla biskupssetrið hér inn frá í Laugarnesi skuli hafa verið eyðilagt, að gamla Batteríið skuli vera farið, að húsum hér við Aðalstræti, sem hafa sögulegar minjar að geyma frá tímum Jóns Sigurðssonar, skuli vera umrótað þannig, að ekkert sé raunverulega eftir nema partur af skrokknum. Ég býst við, að þó að okkur, sem núna lifum, hafi fundizt það eðlilegir hlutir, að þetta hús væri til, þá mundu okkar afkomendur vilja gefa ákaflega mikið fyrir, að þetta héldist áfram. Því gamla húsi, sem við höfðum í svipuðum stíl og Viðeyjarstofu, húsinu á Bessastöðum, hefur verið stórbreytt, þannig að þó að þar haldizt ýmislegt, þá er það allt öðruvísi nú en það var. En við Viðeyjarstofuna eru alveg sérstakar sögulegar minjar tengdar. Og ekki sízt þegar var nú verið að minnast aldarafmælis frjálsrar verzlunar á Íslandi og Skúla fógeta bæði í því sambandi og að öðru leyti, þá var ég satt að segja hálfundrandi yfir, að engar ráðstafanir skyldu gerðar til þess, að Viðeyjarstofunni væri verulegur sómi sýndur. Þess vegna vildi ég mjög mælast til þess, að menn athuguðu þennan hlut.

Þá kem ég þarna með till., sem ég kom með nokkuð svipaða í fyrra. Það er til þess að kvikmynda daglegt líf á íslenzkum kotbæ, eins og það er, og skal valinn kotbær byggður í gömlum stíl, 150 þús. kr. Nú er það svo, að það er öðru hverju verið að taka kvikmyndir núna, og fyrstu íslenzku kvikmyndirnar, sem gerðar hafa verið og raunar hafa ekki heppnazt mjög vel, hafa verið meira og minna tengdar við sveitina á þennan hátt. En það hefur verið leikaraskapur, sem þar hefur farið fram, og ekki nema að mjög litlu leyti í samræmi við það líf, sem þarna er lifað. Ég efast um, að menn geri sér ljóst, hvað breytingin er að verða mikil á kynslóðunum og lifnaðarháttunum og lífsviðhorfinu, sem nú hefur farið fram. Við, sem erum nú t. d. á mínum aldri, þótt uppaldir séum í bæjum, erum raunverulega uppaldir sem sveitafólk, og okkar afstaða er sveitamannsins, ekki bara vegna þess, að okkar foreldrar hafi verið sveitafólk, heldur vegna þess, að bæirnir, sem við lifum í, eru svo litlir, þegar þeir eru að vaxa upp, að þeir skilja sig raunverulega frá sveitinni bara á þann hátt, að húsin standa nær hvort öðru. Allt okkar líf er meira eða minna með það viðhorf, sem í sveitinni er. Á þessu er að verða alveg stórkostleg breyting núna, svo stórkostleg, að sú kynslóð, sem núna er að vaxa upp, stendur meira eða minna skilningslaus frammi fyrir því, sem þarna er að gerast. Það er haldið við á Íslandi nokkrum gömlum höfðingjasetrum, og er það út af fyrir sig mjög vel farið og hefur tekizt vel með ýmis af þeim, mjög vel, þannig að það er skóli fyrir þá ungu kynslóð að koma í staði eins og Glaumbæ og aðra slíka. En við kotin hafa menn, liggur mér við að segja, hatazt. Menn hafa óskað þess, að þau hyrfu sem fyrst sem mannahíbýli, allar skelfingarnar og hörmungarnar, sem hafa verið tengdar við það í minnum manna, að fólk yrði að lifa við slík kjör, sem því þar eru skömmtuð, — menn vildu helzt, að þetta yrði sem fyrst afmáð. Þegar bóndi, sem búið hefur í kotbæ, hefur efni á að byggja sér, þá flýtir hann sér að rífa kotbæinn, og það verða ekki margir áratugir þangað til enginn kotbær verður yfirleitt eftir á Íslandi, — til allrar hamingju, munu flestir segja. Ég mundi nú vilja vona, að einhverjum þeirra yrði þó haldið við, áður en þeir yrðu allir rifnir, því að í þessum kotbæjum, þrátt fyrir alla fátæktina og eymdina, sem menn þar hafa lifað við, hafa þó verið unnir stórkostlegir hlutir, hlutir, sem okkar þjóð lifir á, og hlutir, sem við vitum ekki, hvort við eigum eftir að vinna í þeim góðu húsum, sem við erum að búa í.

Ég hef tekið eftir því, að til dæmis fyrir fólkið í Reykjavík, það unga fólk í Reykjavík, er að verða illmögulegt að skilja manninn í kotbænum og hvernig hann hefur lifað. Ég sé núna í svo að segja öllum blöðunum í Reykjavík, þau virðast sérstaklega sammála um það, að t. d. sú sýning, sem fram fari á Manni og konu, sé raunverulega skrípamynd af sveitalífinu, leikurinn sé tákn um það, að raunverulega séu mennirnir, sem þarna eru að leika, og jafnvel þeir, sem eru að horfa á, hættir að skilja, hvað þarna gerðist. Þráðurinn er að slitna. Bóndinn hefur verið í augum okkar, sem höfum vaxið upp sem hálfgert sveitafólk, alveg sérstaklega mikill virðingamaður, maður, sem hefur verið sjálfstæður aðili, sem gat ráðið sér sjálfur og borið uppi landið. Nú er helmingurinn af Íslendingum svo að segja að verða borgaralegt fólk, fólk, sem vaxið er upp í borg, og fólk, sem meira og minna er að fá þá afstöðu til sveitanna og sveitafólksins, að raunverulega sé það eitthvað afkáralegt og undarlegt þetta: bóndi. Og hjá leikurunum sumum hérna í Reykjavík, þegar þeir sýna bændur í okkar gömlu sögum, eins og í Manni og konu eða slíku, er tilhneiging til þess að gera þetta hlægilegt, draga fram það hlægilega, af því að fólkinu þykir gaman að því„ sem hlægilegt er, og fólkið skilur ekki lengur alvöruna í þessu, skilur ekki lengur þetta líf, sem við miðaldra menn höfum sjálfir lifað. Þráðurinn þarna er að slitna. Og þetta er ægilegur hlutur.

Það sem okkur ber að gera, er að sjá til þess, að okkar börn hafi sömu möguleikana, ef á nokkurn hátt er hægt að skapa þá möguleika, eins og við til þess að skilja mennina, sem börðust því daglega lífi, unnu með sínum frumstæðu verkfærum, klæddust í sinn tötralega búning, bjuggu í sínum óupphituðu kofum eða kotum, eða hvað sem við viljum kalla það. Við verðum að reyna að sjá til þess, að uppvaxandi kynslóð skilji þetta, hún viti þetta og hún líti ekki á þetta sem eitthvað afkáralegt, hún vilji ekki fyrst og fremst fá eitthvað út úr því, sem hún hlær að, en það er að verða tilhneigingin.

Það væri gott út af fyrir sig að geta haldið við koti, og ég vona að það verði, en það mundi þá verða á einhverjum afskekktum stað, því að á öðrum stöðum eru varla nú eftir kot á Íslandi, kot í þeim raunverulega gamla stíl, þannig að menn mundu ekki sjá það oft nema gera sér sérstakar ferðir þangað. Ef við hugsum dálítið alvarlega í þessum efnum, þá mundum við hér á góðum stað í Reykjavík, t. d. rétt hjá þjóðminjasafninu, byggja kotbæ. Við mundum byggja kotbæ, sem við steyptum síðan stóran steinhelli utan um, meðan enn þá eru menn á Íslandi, sem kunna að byggja úr torfi. Og ég vil minna í því sambandi á, að það verður ekki heldur langt þangað til menn kunna ekki að hlaða vegi eins og gert hefur verið á okkar tíma, nema við gerum sérstakar ráðstafanir til þess að halda því við sem svo að segja sérstakri kunnáttugrein, þannig að það geti geymzt þangað til seinna, og slíkt mætti gera með ýmislegt af hannyrðunum líka, sem ég er hræddur um að fari að verða í hættu bráðum.

Hins vegar vitum við, að æskulýðurinn sér gjarnan kvikmyndir, og ef við látum kvikmynda daglegt líf á afskekktum kotbæ, ekki leika það, ekki fá einhverja góða leikara héðan úr Reykjavík til þess að klæða sig í slíkt gervi, heldur kvikmynda kotbóndann eins og hann er við sína vinnu, eins og hann er í sínu daglega starfi, eins og hann er við sínar gegningar, eins og hann er við öll þau störf, sem hann þarf að vinna, þá fengjum við þó a. m. k. þarna það, sem útlendingarnir mundu kalla „documental film“, fengjum við eins konar skjalfestingu á kvikmynd af því, hvernig þetta líf væri. Það þyrfti helzt að gerast bæði að sumri og vetri, þannig að menn hefðu ofur litla hugmynd um, hvernig þessi aðstaða hefði verið, og það ætti ekki neitt undan að draga í því og ekki heldur að ýkja neitt, til þess að það geymist eins og það hefur verið.

Ég veit, að við höfum í okkar sögum ágætar lýsingar á þessu, lýsingar, sem oft hefur að vísu verið deilt um, en lýsingar, sem við vitum samt sem áður að fara engar fram úr veruleikanum, sem þarna hefur átt sér stað, hvorki hvað eymdina né hetjuskapinn snertir. Ég býst við, að margir mundu í dag vilja eiga myndir frá heiðarbýlunum eins og Jón Trausti lýsti þeim, en enn sem komið er hefðum við þó a. m. k. möguleika á að fá máske úr einhverjum kotbænum daglega lífið fest á kvikmynd, og það ættum við að gera. Ég held, að það mætti vera einn þáttur af mörgum í kennslumyndum fyrir skólana um, hvernig lífið hefði verið þarna, hvernig afar og ömmur barnanna, sem nú ganga í skólana og koma til með að ganga í þá, hefðu þurft að lifa, og þeim væri hollt að vita það. Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess, að þessi till. yrði samþykkt. Ég hef sagt þarna, að til skyldi vera kotbær í gömlum stíl. Ég veit ekki, hvað þeir eru margir eftir á Íslandi enn þá. Þeir eru ekki mjög margir, sem við höfum alveg óbreytta eins og þeir hafa verið lengst af, en einhverjir eru áreiðanlega til.

Þá er ég enn fremur með till. um hækkun til sumardvalarheimilanna. Ég flutti till. um meiri hækkun við 2. umr. og hef nú lækkað þá till., eftir að sú till. var felld. Sömuleiðis er hér till. um fjárveitingu til orlofs og sumardvalar fyrir húsmæður, aðeins 75 þús. kr. Enn fremur hef ég endurtekið mínar tillögur um slysavarnir, að það sé hækkað, en allt með lægri upphæðum en áður var.

Ég hef nú rætt nokkuð ýtarlega þessar tvær nýju till., sem þarna eru í, og minnt á þær gömlu. Ég vil vona, ef hv. þm. hafa fellt mínar gömlu till. sökum þess, að upphæðirnar væru of háar, þá finnist þeim þessar, sem ég nú legg til að inn séu settar, hóflegar og að þessar nýju till., sem ég flyt fram, megi eiga skilningi að fagna hjá þeim. Ég ætla ekki að öðru leyti að gera fjárlögin eða þeirra afgreiðslu að umtalsefni við þessa umr.