27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

1. mál, fjárlög 1956

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Sem betur fer, er nú komið svo, að bátar almennt eru komnir í gang og farnir að stunda vertíðarveiðarnar, þó að illa horfði um tíma. Ég hafði að gefnu tilefni skrifað bæði hæstv. ríkisstj. og eins hv. fjvn. út af sérstöku áfalli, sem útgerðarmenn í Vestmannaeyjum hafa orðið fyrir í sambandi við skiptingu arðsins af bátagjaldeyrishlunnindunum. Þeir hafa orðið einir fyrir óhappi á því sviði, sem ég vil ekki viðurkenna að sé eingöngu þeirra sök, þó að ef til vill megi segja, að þeir séu þar ekki algerlega skuldfríir.

Þegar bátagjaldeyrisfyrirkomulagið var tekið upp, var fyllilega gefið í skyn, að mér er hermt af fulltrúum L.Í.Ú. og jafnvel af fulltrúum stjórnarráðsins, að innflutningsréttindi bátaútvegsins eða tekjur af þeim réttindum ættu að renna óskertar til útvegsmanna. Þetta mun þó hvergi hafa verið tekið ljóst fram, ekki skriflega og jafnvel ekki munnlega, en sem sagt látið í veðri vaka í öllu umtali um þessi mál, að þetta væru réttindi, þetta væru fríðindi, sem útvegsmenn ættu að hafa sér til stuðnings og sínum kostnaði og á grundvelli hans náttúrlega að geta veitt sjómönnum betri kjör en ella. Nú var það þannig, að í ráðningarsamningum Vestmanneyinga í mörg ár undanfarið hafa verið ákvæði, sem maður veit núna að ekki voru sams konar og í öðrum veiðistöðvum, ákvæði, sem settu þá reglu, að sjómenn ættu þriðja hluta af afla og það, sem endanlega fyrir hann fengist. Ég var hvergi þar nálægt, þegar samið var um þessi réttindi, bátagjaldeyrisréttindi, og get því ekki af eigin raun borið vitni um, hvað þar fór fram, en hef fyrir mér samt sem áður sögusögn greindra útvegsmanna, sem þar voru viðstaddir.

En svo kemur til þess, að á grundvelli þessara ráðningarsamninga, sem voru í Vestmannaeyjum, kröfðust sjómenn þar að fá sinn hluta af bátagjaldeyrinum eins og öðru andvirði, sem fyrir fiskinn fengist, og ég held, að það sé óhætt að segja það, að útvegsmenn yfirleitt mundu hafa hnigið að því ráði, ef ekki hefði komið svo að segja forboð eða bann frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna um að sinna þessum kröfum. Afleiðingin varð svo sú, að sjómenn í Vestmannaeyjum lögsóttu útgerðarmennina og kröfðust síns hluta af tekjunum af innflutningsréttindum bátaútvegsins. Í því máli hafa svo dómar gengið, jafnvel í hæstarétti, varðandi árið 1951, og einnig hafa dómar gengið í sams konar málum varðandi árin 1952 og 1953 í undirrétti, og það er skemmst frá því að segja og er raunar ekkert undarlegt, að þessir dómar hafa gengið sjómönnum í vil, svo að þeir eiga bakkröfu á grundvelli þessara dóma á útvegsmenn alla í Eyjum. Mér er sagt, að samtals muni þessar kröfur nema 3½ millj. kr. rúmlega, eða 3.6. Þegar þess er gætt, að á þessum sömu árum sem dómarnir hafa gengið um og sérstaklega síðari árin greiddu útgerðarmenn í Vestmannaeyjum 6 aurum bærra að meðaltali sjómönnum sínum fyrir fiskinn, þegar vinnufríðindi voru með talin, heldur en gerðist annars staðar í verstöðvum, þá gefur það auga leið, að fyrir útvegsmenn á þessum stað var enn verra að verða fyrir þessum kröfum frá sjómönnum eftir á heldur en ella mundi.

Það lá við og var mjög haft við orð í vetur, að forsvarsmenn sjómanna mundu ekki leyfa félagsmönnum sinum að ráða sig á báta austur þar, nema þessum skuldum væri lokið. En um það er það að segja, að það er talið, að um 10 af hundraði af útvegsmönnum mundu geta staðið undir því að ljúka þessum skuldum, sem nema vitaskuld mörgum tugum þúsunda króna á hvern bát, en hinir 90 af hundraði mundu ekki geta við þetta ráðið og ekki hafa tryggingar til þess að ljúka skuldunum. Vestmanneyingar leituðu út af þessu til Landssambandsins sem milligöngumanns við hæstv. ríkisstj. og náttúrlega til þingmanns síns til þess að reyna að hafa milligöngu um einhverja aðstoð í þessu efni. Það má geta þess líka hér, að það vitaskuld veikir mikið aðstöðu útvegsmanna í Vestmannaeyjum, að þeir stóðu í verkfalli á s. l. vertíð eitthvað um 7 vikur og misstu þar af leiðandi mikið af sínum venjulega vertíðartíma.

Það er, eins og nú er ástatt og sérstaklega undir þeim þröngu lánsskilyrðum, sem eru fyrir hendi frá bönkum, ekki útlit fyrir, að útvegsmenn yfirleitt austur þar geti lokið þessum skuldum sínum við sjómennina án aðstoðar, og virðist þá vera helzta ráðið að leita aðstoðar ríkisvaldsins í þessu efni. Ríkið hefur stórfelldar tekjur af útveginum í Vestmannaeyjum, og þó að aðstoð væri veitt af ríkisins hálfu í þessu efni, eins og ég hef leyft mér að fara fram á í brtt. við 22. gr. fjárlaganna, þá ætla ég, að það mundi í fyrsta lagi ekki geta álitizt ósanngjarnt eftir atvikum, að ríkið hlypi hér undir bagga með ábyrgð á láni eða beinu láni. Ég hef ekki farið fram á neina beina styrkveitingu til manna í þessu efni, ég ætla þeim að standa undir því sjálfum, en fer aðeins fram á það, að ríkið greiði fyrir því, að þeir geti fengið lán til þess að ljúka þessum skuldum, og setji þau skilyrði, sem hæstv. fjmrh. kynni að vilja setja, og enn fremur heimtaði þær tryggingar, sem réttmætar væru í þessu skyni. Það er það, sem ég hef leyft mér að leggja hér til að verði sett inn á heimildagrein fjárlaga í þetta sinn.

Ég álít líka, að þó að einhver héldi sem svo, að einhverjir útgerðarmanna væru ekki þessa styrks maklegir, þá muni tæpast mega um það deila, eftir að dómar hafa gengið, eins og ég lýsti áður, að sjómennirnir eiga ekki að gjalda þess, þó að ríkisvaldið vildi ekki styðja útvegsmennina út af fyrir sig. Sjómennirnir eiga rétt á þessu fé, og það verður að gjaldast eftir einhverjum leiðum. Þess vegna hef ég borið fram þessa till., af því að í bili fæ ég ekki komið auga á, að þetta mál leysist á annan hátt en að hið opinbera stuðli þar að. Dálítil hliðstæða er, þó að hún sé ekki alger hliðstæða, í till. hv. fjvn., í aðstoðartill. hennar til bænda á Suðurlandi vegna votviðranna. Hér hafa í báðum tilfellum komið óhöpp fyrir stéttir, ýmist bænda eða útvegsmanna, sem ekki var hægt að sjá fyrir, og ríkisvaldið hefur í öðru tilfellinu hlaupið, að því er virðist, drengilega undir bagga, og ég vil treysta hv. þingheimi til þess að sýna Vestmanneyingum í þessu máli nokkra sanngirni.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þessa mína till. Það er sú eina, sem ég flyt einsamall, hér í þetta sinn. En ásamt hv. 9. landsk. flyt ég smátill. varðandi lúðrasveit Vestmannaeyja, sem við fluttum við 2. umr. og tókum þá aftur, og þarf ég ekki um hana að fjölyrða. Hún er svo hógvær og sanngjörn, að því er ekki þörf að lýsa í annað sinn við þessa umræðu, var gert á sínum tíma við 2. umr. þessa máls.

Þá flytjum við hv. 9. landsk. og ég saman till. um að greiða fyrir því, að flugskilyrði verði bætt í Vestmannaeyjum, með því að leggja til, að heimilað verði á 22, gr., að ríkisstj. ákveði, að ef rekstur flugmála verður hagkvæmari en gert er ráð fyrir á 13. gr. D., sé heimilt að nota þann mismun til flugvallagerðar á þeim stöðum, sem þjóðvegakerfi landsins nær ekki til.

Ég ætla, að það verði tæpast um það deilt, að sé tekjuafgangur af rekstri flugmálanna, sem verja þarf og varið verður til fullkomnunar flugvalla, þá sé sanngjarnast að gera það á þeim stöðum, sem hafa til lítilla annarra samgangna að hverfa, og á það sérstaklega við í Vestmannaeyjum, eins og hv. þm. er nægilega kunnugt. Auk þess má segja það hér, að flugmálastjórnin er nokkuð í óbættum sökum við Vestmanneyinga hvað flugvöllinn snertir, þar sem því var heitið, að á s. l. ári skyldu verða miklar umbætur gerðar á flugvellinum, sem ekkert varð úr og bíða enn þá úrlausnar.

Þá höfum við á sínum tíma, hv. 9. landsk. og ég, við 2. umr. þessa máls flutt brtt., er snertir hafnarframlagið til Vestmannaeyja. Nú er hún flutt af hv. 9. landsk. einum, og skal ég um það segja, að síðan 2. umr. fjárl. fór fram, hef ég haft miklar viðræður við hæstv. ríkisstj. um þetta mál og vonast nú eftir úrlausn. En till. út af fyrir sig er alveg jafnréttmæt fyrir því frá hálfu hv. 9. landsk. séð, sem hefur ekki fylgzt vel með þeim tilraunum, sem ég hef verið að gera til að fá réttingu mála Vestmannaeyjahafnar á öðrum vettvangi. Höfnin á eða átti um nýár hjá ríkissjóði nær 3 millj., því að hafnarframkvæmdir hafa verið með þeim hætti síðastliðin ár, enda stór þörf fyrir þær, að óvenjulega miklu fé hefur verið varið af Vestmannaeyja hálfu til þess að bæta höfnina, og er sumt af því fengið að láni án aðstoðar ríkisstjórnar eða banka, sem sagt erlent lán, sem Vestmannaeyjar fengu án þess að hafa þess háttar venjulega bankaábyrgð fyrir og eru þess vegna í óbættum sökum við erlenda aðila fyrir þessar framkvæmdir, en ríkið á eftir að greiða nú hátt á þriðju milljón af sínum hluta af framlagi til hafnarinnar, eins og það á að vera lögum samkvæmt. Það gefur auga leið, að á þessu þarf að fá réttingu, og er gert oftast nær með einhverjum hætti á hverju ári að láta þær hafnir njóta þess, sem sjálfar hafa lagt óvenjulega ríflega fram til eigin framkvæmda, og vil ég treysta því, að sú verði raunin á á þessu hv. Alþingi, sem nú situr, að þetta verði líka gert gagnvart Vestmannaeyjum á einn eður annan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessar till. mínar eða okkar hv. 9. landsk. við þetta tækifæri og mun ekki láta mig að sinni skipta þær umræður, sem farið hafa fram um aðrar till., til þess að tefja ekki tímann.