27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

1. mál, fjárlög 1956

Ingólfur Flygenring:

Herra forseti. Brtt. á þskj. 298 um lýsingu á þjóðveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur er flutt af mér ásamt fjórum öðrum hv. þingmönnum, öllum þeim sömu er áður fluttu hana við 2. umr. fjárlaganna. En upphæð sú breytist á þskj. 298 frá því, sem áður var, úr 850 þús. kr. niður í 400 þús. kr., því þó að það sé lækkað svona mikið, mundi það gera mjög mikið gagn og kæmi að fullum notum, hverjir 100 metrar sem lagðir eru.

Ég þarf ekki að lýsa till. rækilega, það gerði ég við 2. umr. fjárlaganna, en vil í stuttu máli taka þetta fram: Yfir 1 millj. farmiðar hafa verið seldir s. l. ár með áætlunarbílum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Mesti fjöldi bæði leigu og einkabifreiða, vörubifreiða og varnarliðsbíla fer um þennan veg, og sú umferð er alls ekki sambærileg við aðra vegi í þessu landi, því að hún er svo margfalt meiri en nokkurs staðar annars staðar.

Hættuna af ljósleysinu þarf ekki að skýra fyrir hv. þm. Það er öllum ljóst, enda gerði ég það rækilega síðast.