27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

1. mál, fjárlög 1956

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við fjárl. á þskj. 298,III, við 13. gr. A. III. 4. lið, þ. e. um brú á Mjósund. Ég hef leyft mér að bera fram, að þessi fjárveiting verði hækkuð úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. Væntanleg brú á Mjósundi á að tengja Eyrarsveit við vegakerfið, þannig að þessi byggð komist á næstu árum í varanlegt samband við aðra hreppa sýslunnar og landið í heild.

Eyrarsveit býr nú við mikil vandkvæði. Sveitin er algerlega lokuð frá sambandi við Fróðárhrepp, sem er sveitin næst fyrir utan Eyrarsveit, vegna hins stóra farartálma, sem Búlandshöfði veldur. Vegarsambandið við Helgafellssveit er þó nokkru betra, með því að sveitin hefur þó vegarsamband yfir sumarmánuðina um Helgafellssveit, bæði til Stykkishólms og eins suður yfir Kerlingarskarð. Hér er þó aðeins um sumarveg að ræða. Frá seinni hluta október og fram á vor er ekkert vegarsamband við Eyrarsveit, og er það ákaflega bagalegt, þar sem kauptún er þar með 300 íbúa og töluvert mikinn atvinnurekstur. Á þessari vertíð, sem nú er nýbyrjuð, eru gerðir þaðan út 9 fiskibátar af stærðinni frá 40 til 70 smálestir, og það er mjög örðugt fyrir þennan atvinnurekstur, að ekkert vegarsamband skuli vera við Stykkishólm eða Reykjavík. Raunar hefur þetta kauptún samband á sjó, en þó er það af svo skornum skammti, að Ríkisskip, sem annast ferðir á Breiðafjörð, hefur aðeins eitt af sínum skipum, aðra Breiðina, í förum þangað, og kemur hún aðeins á Breiðafjörð á 2–3 vikna fresti. Ég tel því ákaflega aðkallandi, að málum þessa góða byggðarlags sé sinnt meir en verið hefur, og fyrsta leiðin til þess, að vegarsamband komist á, er, að byggð verði brú yfir Mjósund.

Ég vænti þess, að hv. alþm. sýni máli þessu velvild og veiti því atkv. sín, þegar gengið verður til atkv. um það.