30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

1. mál, fjárlög 1956

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það hefur verið mikið að gera á stjórnarheimilinu síðustu dagana. Þar hafa ráðh. og fylgilið þeirra unnið að því að semja till. til bjargar ríkissjóði og útflutningsatvinnuvegum landsins. Nú hafa bjargráðatill. stjórnarinnar verið lagðar fram á Alþ. Bjargráðin birtast í tveimur frv. Annað á að bjarga hinum illa stæða ríkissjóði, og hitt á að bjarga útgerð og landbúnaði. Þessi tvö bjargráðafrv. fela í sér stókostlegri skattheimtu af almenningi í landinu en dæmi eru til um áður í formi neyzluskatta. Skattheimta samkv. þessum frv. mun nema, eftir því sem næst verður komizt, um 230–240 millj. kr., en það jafngildir um 7 þús. kr. viðbótarskatti á meðalheimili í landinu.

Athugum nú nokkru nánar bjargráðafrumvörp þessi.

Frv. það, sem bjarga á ríkissjóði og er með öllu óviðkomandi ráðstöfunum til stuðnings útgerðinni, gerði, þegar það fyrst var lagt fram, ráð fyrir sex nýjum tollheimtuaðferðum. Það frv. hefur nú verið gert að lögum, og féll ein innheimtuleiðin niður, enda var hún sú, sem minnstu máli skipti. Eftir standa þau ákvæði, að hækka skal vörumagnstoll, hækka skal verðtoll, benzínskatt, bifreiðaskatt og hækka skal skatt af bílagúmmíi. Sé miðað við reynslu s. l. árs af þessum gjöldum, nemur skattahækkunin a. m. k. 68 millj. kr. Auk þessarar tekjuhækkunar ríkissjóðs hefur stjórnin svo lagt til að hækka póst- og símagjöld um 5 millj. og að taka í ríkissjóð þann aukaskatt, sem lagður var á síðasta ári á tóbak og átti að verja til stuðnings síldarsöltun við Faxaflóa.

Á þennan hátt hefur ríkisstj. ákveðið að hækka tekjur ríkissjóðs um a. m. k. 80 millj. kr. Ekki þykir mér undarlegt, þó að margur maðurinn spyrji: Hvað kemur eiginlega til, að ríkissjóður skuli þurfa á öllum þessum nýju tekjum að halda? Já, hvað kemur til?

Árið, sem var að líða, fóru tekjur ríkissjóðs 120 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Árið áður fóru þær 108 millj. kr. fram úr áætlun. Fyrir fáum dögum lagði ríkisstj. fyrir Alþ. till. um að ráðstafa til nokkurra aðila 55 millj. kr. af því, sem eftir er í ríkiskassanum af hagnaði síðasta árs. Afkoma ríkissjóðs hefur verið mjög góð í mörg ár og tekjuafgangur alltaf mikill, en samt er nú lagt til að innheimta 80 millj. af landsmönnum, aðallega í tollum, til viðbótar því, sem verið hefur.

Það þarf kjarkmikla menn og meir en lítið óskammfeilna til þess að standa að slíkum till. sem þessum. Hverju mannsbarni í landinu er ljóst, að ríkissjóður þarf ekki á þessari skattheimtu að halda, þvert á móti hefði ríkisstj. átt að leggja til lækkun á hinum drepþungu neyzlusköttum, sem hún hefur innheimt og átt hafa sinn drjúga þátt í verðbólgunni í landinu.

Tekjur ríkissjóðs s. l. ár munu nema um 650 millj. kr. Á þessu ári verða þær aldrei undir 750 millj. Allur útflutningurinn nemur um 860 millj. Tekjur ríkissjóðs nema því orðið um 85% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar. Árið 1939 voru tekjur ríkissjóðs aðeins 28% af útflutningstekjunum. Þannig hefur ríkissjóður sífellt tekið meira og meira í hlutfalli við útflutninginn. Gegndarlaus vöxtur ríkisbáknsins er því ein meginorsök að erfiðleikum atvinnuveganna nú í dag. Þetta verða menn að gera sér ljóst.

Ríkisstj. virðist vera þeirrar skoðunar, að góð afkoma ríkissjóðs skipti öllu máli og beri vott um heilbrigða fjármálastjórn. Slíkt er vitanlega hin mesta fjarstæða. Gegndarlaus eyðsla ríkisins, sem jöfnuð er með síhækkandi tollum og söluskatti, er einmitt dæmi um ranga fjármálastjórn, hvort sem ríkissjóður skilar einhverjum tekjuafgangi eða ekki.

Þetta frv. ríkisstj., sem gerir ráð fyrir ásamt með fylgitill. 80 millj. kr. nýjum sköttum, er hið minna af tveimur skattafrumvörpum stjórnarinnar. Þetta er nokkurs konar litli skattur og bara handa Eysteini, til þess að hann geti borið sig dálítið mannalega með rekstrarhagnað í árslokin.

En víkjum þá að hinu frv., að stóra skatti. Samkvæmt því skal stofnaður svonefndur framleiðslusjóður, og eru honum ætlaðar 152 millj. kr. í tekjur alls. Alla þá fjárhæð þarf þó ekki að leggja á á árinu, því að nú eru til í bílasjóði togaranna 15 millj. Verða þær lagðar í sjóðinn, en 137 millj. þarf í sjóðinn og verður að afla með sköttum á þessu ári. Ríkisstj. leggur til, að þessara tekna verði aflað þannig: 1) Með nýjum söluskatti, sem jafngildir tvöföldun á söluskattinum. Það áætlar stjórnin að gefi 115 millj. kr. 2) Aukatollur verði lagður á búsáhöld, ávexti og verkfæri. Það áætlar stjórnin 10 millj. kr. 3) Aukatollur á innlendar tollvörutegundir. Áætlað 4 millj. 4) Bílatollurinn vegna togaranna verði áfram, og er áætlað, að hann gefi 8 millj. kr. Samtals 137 millj.

Ríkisstj. áætlar, að greiddar verði úr sjóðnum 152 millj. kr. Þessi fjárhæð er allmiklu hærri en þörf er að greiða úr sjóðnum, og leynir sér ekki, að ríkisstj. vill telja greiðslurnar sem allra hæstar til þess að skapa sér tilefni til hærri skattheimtu. Skal það nú sýnt með dæmum:

Í fyrsta lagi: Stjórnin ætlast til, að varið verði úr sjóðnum 26 millj. til þess að kaupa upp bátagjaldeyrisskírteini. Þetta er algerlega ástæðulaus ráðstöfun. En réttmætt væri að verða við óskum útgerðarmanna um það, að bankarnir lánuðu sölunefnd innflutningsréttinda bátaútvegsins þessa fjárhæð, t. d. af þeirri miklu fjárfúlgu, sem bankarnir liggja með sem fyrirframgreiðslu vegna vörukaupa og greiða innflytjendum enga vexti af. Væri þessi leið farin, þyrfti ekki að leggja á nýja skatta fyrir þessari upphæð, en bátaútvegsmenn hefðu fengið það, sem þeir báðu um. Sjálfsagt er því að lækka álögurnar, sem þessu nemur. Í öðru lagi leggur stjórnin til, að nú verði aftur lagður á nýr skattur til þess að greiða 10 millj. til stuðnings söltun á síld í Faxaflóa. Sérstakur tóbaksskattur var lagður á í þessu skyni, og sá skattur stendur enn. Vitanlega kemur ekki til mála að gefa Eysteini eftir þennan tóbaksskatt, þó að hann hafi komið auga á hann og áliti, eins og vant er, að allir skattar eigi að renna í ríkissjóð.

Þannig eru útgjöld framleiðslusjóðs augsýnilega áætluð of há um 36 millj. kr. Útgjöld sjóðsins vegna útgerðar og landbúnaðar mætti þá telja 152 millj. mínus 36, eða 116 millj. Upp í þá fjárhæð eru til í bílasjóði togaranna 15 millj., og fullvíst má telja, að í bílasjóðinn komi á öllu þessu ári 16 millj. kr. eða helmingi meira en ríkisstj. vill vera láta.

Þegar tillit hefur verið tekið til þessa, þarf að afla sjóðnum tekna, sem nema 85 millj., eða 70 vegna útgerðar og 15 vegna landbúnaðar. Þetta er hið sanna í málinu, en áætlanir ríkisstj. eru miðaðar við að gera álögurnar sem mestar. Er það auðvitað í fullu samræmi við þá höfuðstefnu stjórnarinnar að hækka skatta og tolla sem mest til þess að draga úr of miklum kaupmætti almennings.

En 70 millj. til útgerðar og 15 til landbúnaðar eru gífurlega miklar uppbætur þrátt fyrir allt, munu ýmsir segja, og vissulega er það rétt. Hér er um miklar fjárhæðir að ræða, þegar þess er jafnframt gætt, að auk þessa hefur svo bátaútvegurinn bátagjaldeyriskerfið, sem gefa mun um 130 millj. kr. á ári.

Ríkisstj. hefur hagað afgreiðslu þessara útgerðarmála þannig á undanförnum árum, að Alþ. hefur næstum ekkert haft með þau að gera. Bátagjaldeyrisreglurnar eru ákveðnar án samþykkis Alþ., og vegna þess hafa stjórnarandstæðingar ekki haft aðstöðu til að koma fram með neinar brtt., þegar gengið hefur verið frá þeim samningum. Enn heldur stjórnin þessum hætti með helming þeirra ráðstafana, sem gerðar eru nú fyrir útgerðina. Stjórnarandstaðan hefur ekki heldur fengið tækifæri til þess að fylgjast með athugunum og útreikningum, sem fram hafa farið á rekstri bátaflotans og frystihúsanna. Reglur um skiptingu þessa fjár úr framleiðslusjóði á milli einstakra útgerðaraðila verða því algerlega að skrifast á reikning stjórnarflokkanna.

En hvernig stendur á því, að þörf getur verið á öllum þessum fjárframlögum til útgerðarinnar? Ríkisstj. heldur því fram, að orsökina sé að finna í of háu kaupgjaldi, að fólkið, sem vinnur í frystihúsunum og við fiskverkunina, og sjómennirnir beri of mikið úr býtum. Í krafti þessarar skýringar segir hún, að rétt sé að hækka tolla og söluskatt á öllum almennum vörum, að hækka verðlag þess varnings, sem hið vinnandi fólk kaupir. Þetta er ofur einfalt, þannig liggur málið við frá hálfu ríkisstj., eða eins og forsrh. segir og blöð hans: Það, sem fólkið hefur tekið um of af atvinnuvegunum, verður að taka af því aftur í hækkuðu verðlagi.

Við sósíalistar höfum hins vegar haldið því fram, að öðru væri um að kenna en of háu kaupgjaldi þeirra, sem að framleiðslunni vinna. Kaup verkafólks og sjómanna hefur að vísu hækkað, en fyrst og fremst sem afleiðing af dýrtíðarstefnu stjórnarinnar. Við höfum aftur á móti bent á, að það er annað, sem veldur erfiðleikum framleiðslunnar, það er skefjalaus gróði milliliða á viðskiptum við atvinnuvegina, og því hefur stefna okkar verið sú og er enn í dag, að það, sem útgerðina sannanlega vantar sér til stuðnings, beri fyrst og fremst að taka af okurgróða milliliða þeirra, sem mest féfletta útgerðina.

Deilan nú í dag um frv. ríkisstj. til stuðnings útgerðinni snýst því um það, hver á að bera byrðarnar, hver eða hverjir eiga að greiða þær 85 millj., sem samkvæmt grg. ríkisstj. þarf að leggja framleiðslunni á þessu ári umfram bátagjaldeyriskerfið og bílaskatt togaranna.

Athugum lítillega viðskipti nokkurra þeirra fyrirtækja og stofnana, sem skipti eiga við útgerðina. Tökum fyrst bankana. Samkvæmt opinberri skýrslu frá Framkvæmdabankanum nam gróði bankanna og sparisjóða 57 millj. árið 1953 og 55 millj. 1954. Þessi gífurlegi gróði er nær allur hjá bönkunum, því að rekstur sparisjóðanna sýndi lítinn hagnað. Er nokkurt vit í því, að bankar landsins græði þannig ár eftir ár, á sama tíma sem aðalatvinnuvegirnir eru reknir með styrkjum?

Mikinn hluta þessa gróða taka bankarnir beint af framleiðslunni, og allur skellur þessi gróði þeirra af fullum þunga á útflutningsframleiðslunni. Þegar bankarnir taka háa vexti af verzluninni, leggur hún þá strax á vörur sínar, en hækkandi vöruverð framkallar hækkandi kaup og skellur þannig á útflutningsframleiðslunni. Háir vextir bankanna á húslánum hækka auðvitað húsverð og húsaleigu, sem aftur kemur fram í hækkandi kaupi, sem bitnar á útflutningsframleiðslunni. Þannig hvílir allur gróði bankanna sem baggi á framleiðslunni.

Við sósíalistar leggjum til, að á þessu ári verði bankarnir látnir greiða 25 millj. eða sem nemur hálfs árs gróða sínum í sjóð til stuðnings framleiðslunni.

Tökum næst viðskipti olíufélaganna við útgerðina. Í desembermánuði s. l. var verð á hráolíu, olíu þeirri, sem bátaflotinn notar, 376 kr. hærra hér á landi en í fiskibæ í Þýzkalandi, og svipaður er verðmismunurinn í sambandi við önnur nálæg lönd. Verð þessarar olíu er um 70% hærra hér en þar. Togaraolían var 66 kr. hærri tonnið hér, eða um 20% dýrari. Samkvæmt þessum verðmun er ársnotkunin af olíu seld hér um 50 millj. kr. dýrar en í Þýzkalandi. Flutningsgjald á olíu er þó ekki hærra hingað en til Þýzkalands frá aðalolíuafgreiðslulöndunum. Engin frambærileg skýring er til á þessum mikla mismun. En það, sem almenningur sér, er, að olíufélögin hafa staðið í gífurlegum fjárfestingum og byggt upp þrefalt dýrara dreifingarkerfi og stærri tankstöðvar en hóflegt hefði verið. En olíufélögin eru óskabörn stjórnarflokkanna. Stjórnendur þeirra og eigendur eru máttarstólpar beggja stjórnarflokkanna. Nýlega hafa olíufélögin stórhækkað togaraolíu, þannig að þau munu taka um 1/3 allrar þeirrar hækkunar, sem nú á að veita togurunum samkvæmt frv. stjórnarinnar. Næstu daga verður bátaolían stórhækkuð. Olíufélögin munu því sækja sinn hluta af styrkjunum, sem nú á að veita útgerðinni, eins og þau hafa gert að undanförnu.

Við sósíalistar leggjum til, að olíufélögin verði skattlögð á þessu ári um 20 millj. kr. í aukaskatt, sem renni í sjóð útvegsins, og að jafnframt verði þess gætt, að þau fái ekki að hækka verðið vegna þessa sérstaka skatts. Það er alveg óhjákvæmilegt fyrir alla þá, sem í fullri alvöru vilja hugsa um þá lausn á útgerðarmálunum, sem nú er rædd, og sjá, hvert ætlunin er að sækja þær milljónir, sem framleiðsluna vantar, að gera það undanbragðalaust upp við sig, hvar í flokki sem þeir annars standa, hvort þeir telja eðlilegra og réttlátara, að almenningur greiði þær milljónir, sem hér er rætt um, í formi hækkaðs vöruverðs eða að olíufélögin verði látin skila aftur hluta af sínum gróða.

Tökum næst flutningaskipafélögin, sem rakað hafa saman fé á undanförnum árum á því að flytja framleiðslu útgerðarinnar á erlendan markað og koma aftur til baka með ýmiss konar varning fyrir andvirði þeirrar sömu framleiðslu.

Á nokkrum árum hefur S. Í. S. eignazt sex góð flutningaskip eingöngu fyrir gróða af þessari þjónustu, Eimskip hefur eignazt sína stóru og dýru Fossa fyrir gróða af sömu þjónustu, og fleiri skipafélög hafa grætt vel, enda hafa þessi skipafélög notið sérstakra skattfríðinda á undanförnum árum.

Við sósíalistar leggjum til, að skipafélög þessi verði látin greiða aukaskatt, sem nemur 15 millj., til stuðnings útgerðinni.

Tökum vátryggingafélögin. Samkvæmt nýútkominni skýrslu frá Landsbankanum er upplýst, að vátryggingafélög, önnur en Brunabótafélag Íslands og Tryggingastofnun ríkisins, eiga í skráðum skuldabréfalánum rúmlega 60 millj. kr. í árslok 1954. Í sömu skýrslu er sagt frá því, að þessi félög hafi veitt slík skuldabréfalán á árinu 1954 sem nam rúmum 17 millj. kr., aðeins á því ári. Þessar tölur og reyndar margar aðrar sanna gróðarekstur þessara félaga. Við sósíalistar leggjum til, að þau verði skattlögð á þessu ári með sérstökum aukaskatti að upphæð 10 millj. kr. til stuðnings framleiðslunni.

Auðvelt væri að benda á ýmsa fleiri aðila, sem drjúgan hagnað hafa af viðskiptum sínum við framleiðsluna, en til þess vinnst ekki tími hér. Það eru líka fleiri aðilar en þeir, sem bein skipti eiga við framleiðsluna, sem græða vel og auðveldlega gætu greitt skatt til stuðnings framleiðslunni. Ég nefni sem dæmi þá, sem mest græða á hernámsvinnunni. Eins og kunnugt er, hafa verið stofnuð nokkur félög, sem sérréttindi hafa fengið til þess að taka að sér tugmilljóna verk á vegum hernámsliðsins. Gróði slíkra verktaka er ábyggilega mikill. Það fer ekki á milli mála, að verktakafélögin, sem vinna fyrir herinn og fram undan eiga verk eins og Njarðvíkurhafnargerðina, sem talið er að muni kosta 150 millj. kr., raka að sér gróða, sem allur sleppur undan skatti.

Við sósíalistar leggjum því til, að lagður verði sérstakur skattur, samtals 15 millj. kr., á alla verksamninga slíkra aðila.

Samkvæmt þessum till. okkar væri hægt að afla stuðningssjóði framleiðslunnar 85 millj. kr. á þessu ári, og greiddu þá aðeins þeir þessa fjárhæð, sem sannanlega stórgræða á skiptum sínum við framleiðsluatvinnuvegina, og þeir, sem græða á hermangi. Þessar skattatillögur okkar gera þó aðeins ráð fyrir því, að lítill hluti gróða þessara aðila verði tekinn.

Þessi tekjuöflun mundi ekki leiða af sér aukna dýrtíð og nýja erfiðleika eins og till. ríkisstj. en hins vegar miða að því að endurheimta nokkuð af því, sem þessir aðilar krefja ranglega til sín af þjóðarframleiðslunni.

Auðvelt væri að benda á ýmsa aðra viðbótartekjustofna, án þess að ráðizt væri að hinu almenna verðlagi í landinn og þá um leið á lífskjör vinnandi fólks. Ég nefni t. d. heildsölugróðann. Blandast nokkrum manni hugur um, að mikill gróði er af heildverzlun á Íslandi? Innflytjendur eru orðnir mikils til allsráðandi um álagningu sína. Verðlagseftirlitið er ekkert nema nafnið. Skyldi vera erfitt að leggja aukaskatt á heildsölugróðann, eða væri ekki réttlátara að leita þangað með nýjar skattaálögur fremur en að íþyngja almenningi frekar en orðið er?

Ég nefni enn fremur, að lagður væri á sérstakur verðbólguskattur, þar sem hluti af verðbólgugróðanum yrði tekinn í almenningsþágu. Hví skyldi t. d. ekki mega skattleggja þann mikla gróða, sem fram kemur, þegar einstakar lóðir hér í Reykjavík eru seldar fyrir 1½ millj. eða 2 millj., eins og nýleg dæmi eru til um? Slík fasteignasala er nú skattfrjáls með öllu, því að viðkomandi aðilar segjast hafa átt eignirnar í meira en þrjú ár, og þá er sölugróðinn skattfrjáls samkvæmt okkar skattalögum. Hér er um stórfelldan verðbólgugróða að ræða, sem á að skattleggjast og það miklu fremur en þurftartekjur, eins og nú er ætlunin að gera.

Það geta engar deilur verið um það, að hægt er að afla þeirra tekna, sem hér er talað um að flytja yfir til framleiðslunnar. Deilan er um það, hver á að greiða það, sem á vantar. Deilan stendur einfaldlega um það, hverja á að skattleggja. Ríkisstj. heldur sér við sitt gamla heygarðshorn og vill hækka tolla á matvörum, hækka tolla á fatnaði og yfirleitt öllum nauðsynjavörum. Hún vill, að almenningur borgi það, sem framleiðsluna vantar. En við sósíalistar bendum á, að þeir, sem sannanlega hafa mergsogið útgerðina og komið hafa henni á styrkjastigið, eigi að borga. Leið ríkisstj. stefnir út í algert öngþveiti. Hennar leið þýðir 20% hækkun á öllu vöruverði í landinu, sem vitanlega þýðir hækkaða vísitölu og hækkað kaup. Það, sem leið ríkisstj. færir framleiðslunni í svipinn, verður allt aftur tekið af framleiðslunni og ríflega það, þegar líða tekur á árið. Leið okkar er sú leið, sem almenningur í landinu óskar að farin verði. Hún þýðir ekki aukna dýrtíð og kemur því að fullum notum. Því fyrr sem leið okkar sósíalista verður farin, að svipta milliliðina aðstöðu til þess að arðræna framleiðsluna, því fyrr losnar þjóðin við þá tilgangslausu og hörmulegu innanlandsstyrjöld, sem stjórnarvöldin hafa haldið uppi gegn vinnandi fólki í landinu.