30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

1. mál, fjárlög 1956

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Er íslenzkt þjóðfélag að liðast í sundur? Svo spurði Bjarni Benediktsson, hæstv. dómsmrh., í ræðu, sem hann hélt nýlega á Varðarfundi.

Það var von, að hann spyrði. S. l. 9 ár hefur Sjálfstfl. starfað ötullega að því að liða íslenzkt þjóðfélag í sundur og hefur því miður notið til þess aðstoðar þeirra manna, sem illu heilli hafa farið með forustu Framsfl. og Alþfl. Þetta er stefna kalda stríðsins, sem stjórnað er frá Bandaríkjunum og íslenzkt þjóðfélag hefur þjáðst undir í nálega áratug.

Þessi stefna hefur valdið íslenzkum almenningi þungum búsifjum. Hins vegar hefur lítill hópur manna rakað saman ofsalegum gróða í skjóli hennar. Samkvæmt hagfræðilegum athugunum, sem enginn hefur vefengt, lækkaði kaupmáttur launa almennra verkamanna um 17% á árunum 1947–55, aðeins að því er tekur til þess neyzluvarnings, sem vísitalan er miðuð við. Húsaleiga hefur hins vegar hækkað svo úr öllu hófi, að ekki er sambærilegt við neitt annað. Ef aðeins er tekið tillit til neyzluvarnings, þurftu almenn verkalaun að hækka um 20% árið 1955 til þess að halda í horfinu frá 1947. Ef einnig er tekið tillit til hækkaðrar húsaleigu, þurfti kaupið að hækka um a. m. k. 30%, til þess að verkamenn hefðu sömu laun fyrir 3 stunda vinnudag og í lok nýsköpunartímabilsins.

Öll stefna þeirra ríkisstj., sem með völd hafa farið s. l. 9 ár, hefur stefnt markvisst að þessari kjararýrnun hins vinnandi fólks. Hverjar hafa aðferðirnar verið? Fyrst hefur útgerðin verið skilin frá öðrum þáttum atvinnulífsins, frá vinnslu fisksins og frá verzluninni með afurðirnar. Á öðrum sviðum hefur stefnan verið sú að gefa gróðamynduninni algerlega frjálsar hendur og lausan tauminn. Verðlagseftirlitið hefur verið afnumið, húsaleigulögin afnumin. Með skipulagðri lánsfjárkreppu bankanna hafa okurauðmagninu verið sköpuð hin ákjósanlegustu skilyrði. Komið hefur verið í veg fyrir, að byggð væru íbúðarhús, nema til þess að fullnægja örlitlu broti af þörfinni. Þannig hefur íbúðarhúsaskorturinn sífellt verið að aukast og valdið hinni skefjalausu hækkun húsaleigunnar. Ef miðað er við verðlag á olíu í Vestur-Þýzkalandi, þá er verðmismunurinn á olíunni hér og þar 50 millj. kr. á ári, og má af því nokkuð marka, hver muni vera gróði olíufélaganna hér. Við þetta bætist svo gróði af benzíni, sem mun vera tiltölulega meiri. Gróði bankanna er allt að 60 millj. kr. á ári. Vátryggingafélögin og margir aðrir aðilar, sem láta útgerðinni þjónustu í té, safna óhemjugróða. Öllu þessu hefur Lúðvík Jósefsson gert rækileg skil í ræðu sinni. Síðan kemur gróðinn af fisksölunni, sem vandlega er gætt að halda leyndum fyrir þjóðinni. Allt þetta hvílir á undirstöðuatvinnuvegunum og raunar öll önnur gróðamyndun í þjóðfélaginn, verzlunargróðinn, gróði á okurstarfsemi, fasteignasölu, allur sá gróði, sem safnast á einstakar hendur í sambandi við ástandið í húsnæðismálunum, o. s. frv. Þannig sogast arðurinn af undirstöðuatvinnuvegum landsmanna í hendur milliliða á leið sinni um hringferil viðskiptalífsins.

Það er af þessum ástæðum, að þau firn gerast, á sama tíma sem framleiðsla Íslendinga eykst stórkostlega og þjóðarauðurinn vex, að útgerðarmenn koma nú næstum á hverju ári og bera sig upp undan því, að atvinnurekstur þeirra sé rekinn með tapi. Og í hvert skipti hafa valdhafarnir brugðið við og lýst yfir, hver skelfing vofði yfir þjóðinni og að nú yrðu allir að fórna. En allar ráðstafanir hafa jafnan verið á kostnað hins vinnandi fólks. Fyrst kom hin mikla skattahækkun í tíð þeirrar stjórnar, sem Stefán Jóh. Stefánsson hafði forsæti fyrir, síðan gengislækkunin mikla, þegar erlendur gjaldeyrir var hækkaður í verði um 74%, þar á eftir bátagjaldeyriskerfið og loks hin mikla tolla- og skattahækkun, sem nú er verið að samþykkja og nemur yfir 200 millj. kr. samtals samkvæmt áætlun ríkisstj., sem þó er allt of lág, þar af, þegar allt er talið, 60–70 millj., sem renna beint í ríkissjóðinn gersamlega að þarflausu, eins og af eins konar áráttu Eysteins Jónssonar til þess að skattpína landsmenn. Þetta er mesta skattahækkun í þingsögunni. Er nú svo komið, að þeir skattar einir, sem lenda á almenningi, nema ekki minna en 27 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, og eru þar ekki meðtaldir stighækkandi skattar. Þannig hefur tekizt að gera meira en tvöfalda verðlag á almennum neyzluvörum og margfalda húsaleiguna, og enn skal verðlagið skrúfað upp.

Þessi styrjöld valdhafanna gegn fólkinu hefur leitt til sífelldra árekstra í þjóðfélaginu. Ef laun íslenzkra verkamanna lækka um 20–30%, þá er svo komið, að fjölskyldumenn geta ekki lifað á þeim lengur, og þá er þeim ekkert annað ráð eftir skilið en að leggja til baráttu fyrir hækkun kaupsins. En í hvert skipti, sem til kaupdeilu hefur komið, hafa valdhafarnir tekið forustuna fyrir atvinnurekendum og stundum beinlínis bannað þeim að semja um kauphækkun. Í hvert skipti hefur verið látið sverfa til stáls, hvert verkfall gert að aflraun milli stétta. Þess vegna hafa verkföllin orðið löng og hörð, hvert stórverkfallið rekið annað og staðið vikum saman og stundum mánuðum saman. Kröfur útgerðarmanna hafa ekki heldur verið teknar til greina, fyrr en þeir hafa stöðvað atvinnutækin, og þannig hefur landið verið í eins konar styrjaldarástandi langtímum saman og hin dýrmætu framleiðslutæki legið ónotuð um hábjargræðistímann.

Þannig hefur hundruðum milljóna króna verið kastað á glæ. Stundum hefur herkostnaðurinn orðið engu minni eða jafnvel meiri en kauphækkunin eða stuðningurinn við útgerðina hefur numið á heilu ári.

Í þetta skipti var bátaflotinn stöðvaður í þrjár vikur. Tugum milljóna króna var sóað til einskis. Í þetta skipti mun ástæðan aðallega hafa verið refskák milli stjórnarflokkanna. Þjóðinni verður að blæða, og miklum verðmætum er sóað, eins og í hverju öðru stríði. Þetta er ágæt spegilmynd af þeirri vitfirringu, sem auðvaldsskipulagið er orðið hér á landi undir forustu þeirra afturhaldsstjórna, sem farið hafa með völd í nærri áratug.

Þannig er farið að því að liða íslenzkt þjóðfélag í sundur. Þetta er stefna kalda stríðsins, sem er amerísk stefna í efnahagsmálum og öll miðuð við hernaðar- og yfirdrottnunarþarfir bandaríska auðvaldsins. Ísland hefur verið gert að tilraunasvæði þessarar stefnu með þeim árangri, að það er að glata efnahagslegu sjálfstæði sínu og mun glata því með öllu, ef svo heldur fram. Þjóðin hefur ekki aflað fyrir því, sem hún hefur eytt, með eigin framleiðslutækjum, þrátt fyrir það að framleiðslan hefur stóraukizt og kaupmáttur launanna samtímis rýrnað um 20–30%. Svo óskapleg hefur sóunin verið, sem leitt hefur af þessari helstefnu og atferli hinnar forríku yfirstéttar. Og þetta hefur verið notað til þess að reyna að telja kjark úr íslenzku þjóðinni, til þess að telja henni trú um, að hún geti ekki staðið á eigin fótum og því ekki komizt af án hernámsframkvæmda og amerískrar aðstoðar og afskipta. Og tilgangurinn á bak við allt þetta er að tryggja sér Ísland sem árásarstöð í því kjarnorkustríði, sem er yfirlýst stefna Bandaríkjanna að heyja gegn Sovétríkjunum.

Um það verður nú ekki lengur deilt, hvað yfir Íslandi vofir, ef til styrjaldar kemur. Ein vetnissprengja megnar að gereyða allri byggðinni við Faxaflóa. Um það verður ekki heldur deilt, að Bandaríkin ætla sér að hefja árásir með kjarnorku- og vetnissprengjum, ef í odda skerst. Það er yfirlýst stefna Bandaríkjastjórnar sjálfrar. Um hvað er þá deilt? Það er blátt áfram deilt um það, hvort við eigum að fórna íslenzku þjóðinni fyrir auðvald Bandaríkjanna. Maður kinokar sér við að trúa því, að um slíka hluti skuli þurfa að deila á Íslandi. Þó virðist ekki vera hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd.

Og nú beini ég orðum mínum til hvers einstaks Íslendings, hvar í flokki sem hann stendur, og spyr: Er ekki kominn tími til fyrir þjóðina að grípa í taumana?

Stjórnarflokkarnir viðurkenna, að skattahækkanirnar miklu séu ekki nema bráðabirgðalausn, og er það hverju orði sannara. Hitt er þó allur sannleikurinn, að þetta er engin lausn, heldur reyrir þann hnút enn fastar, sem verið er að herða að hálsi íslenzks atvinnulífs. Í hvert skipti, sem gripið hefur verið til slíkra ráðstafana, hefur það haft í för með sér verðhækkanir, sem hafa gert miklu meira en að éta upp þann stuðning, sem útgerðin hefur fengið. Í þetta skipti munu stórfelldar verðhækkanir dynja yfir, varla minna en um 20% almenn verðhækkun á aðfluttum vörum auk mikillar verðhækkunar á innlendum vörum, einungis af völdum þessara skatta. Allar slíkar verðhækkanir auka gróðamyndunina. Með þessu er verið að gera tilraun til þess að ræna öllum kjarabótunum, sem verkamenn náðu í vor. Verkalýðssamtökin hljóta því að risa til varnar að nýju.

Sú staðhæfing, að kauphækkanirnar í vor eigi sök á þessum ráðstöfunum, er svo mikil firra, að furðulegt er, að slíkt skuli kinnroðalaust borið á borð fyrir vitiborna menn. Þegar kaup lækkar um 20–30% og aðeins lítill hluti þessarar kauphækkunar vinnst aftur, hvernig er þá hægt að halda því fram, að kauphækkun eigi sök á vandkvæðunum? Hvernig getur lækkandi kaupgjald átt sök á verðþenslu í þjóðfélaginu? Öll kauphækkunin í vor, verkamönnunum til handa, mun ekki hafa numið hærri upphæð, miðað við eitt ár, en sem svarar 30–40% þeirra skatta, sem nú er verið að leggja á. Olíuhringarnir einir saman mundu leikandi geta greitt þessa kauphækkun alla af tveggja ára gróða. Greiðsluafgangur ríkissjóðs nálgast það að nema sömu upphæð og öll kauphækkunin í vor. Ég miða hér við dagkaup. Og aðeins lítill hluti kauphækkunarinnar lendir á útgerðinni. Jafnvel formaður Framsfl. lýsir því yfir í áramótagrein sinni, að kenningin um, að kauphækkanirnar eigi sök á verðþenslunni, sé firra ein og fjarstæða. Hver heilvita maður veit, að hin skefjalausa verðhækkun er orsök kauphækkunarinnar, en ekki öfugt.

Hin mikla rýrnun á kaupmætti launanna er bein afleiðing þeirrar stefnu, sem styðst við erlenda hagsmuni og hagsmuni þess hluta íslenzka auðvaldsins, sem er í beinustum tengslum við hið erlenda vald. Bezta dæmið um það, til hvers ófarnaðar þessi stefna hefur leitt, er ástandið í húsnæðismálunum. Það gerðist samtímis, að húsaleigulögin voru afnumin og húsbyggingar takmarkaðar mjög. Þetta hefur leitt til einhvers hömlulausasta okurs á húsnæði og lánsfé til húsabygginga, sem þekkist á byggðu bóli. Þegar mörg heimili þurfa að greiða helming launa sinna fyrir húsnæði, þá er þar komin ein augljósasta skýringin á því, að það skuli gerast samtímis, að menn skuli verða að leggja hart að sér 11 stundir á dag til þess að geta séð heimili sínu farborða og undirstöðuatvinnuvegurinn samt sem áður rekinn með tapi, þrátt fyrir það að framleiðsluafköst íslenzka fiskiflotans eru einhver hin mestu í heimi.

Í sambandi við hernámið hafa skapazt náin tengsl milli amerísks og íslenzks auðvalds, og þar er ein helzta rótin að hinu sjúklega ástandi íslenzks atvinnulífs. Hernámsframkvæmdirnar hvíla eins og martröð á íslenzku atvinnulífi, svo að stefnt er að eyðingu byggðarinnar á mörgum stöðum á landinu. Sníkjulíf auðugasta hluta íslenzku burgeisastéttarinnar gegnsýrir allt þjóðlífið með þeirri spillingu, sem blasir við hverjum manni og orðið er eitt mest áberandi einkenni daglegs lífs á Íslandi.

Stjórnarflokkarnir segja, að þessi skattahækkun, sem nú er verið að samþykkja, sé aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Hver á þá að verða frambúðarlausn stjórnarflokkanna? Ekki er vitað, að þeir hafi komið auga á nema eina leið, og það er ný gengislækkun, sem þeir munn telja gagnslausa án kaupbindingar, og til þess þarf að efla ríkisvaldið. Slíkt verður ekki framkvæmt nema með ofbeldisráðstöfunum. Þetta er það, sem vakir fyrir hæstv. dómsmrh. í ræðum hans um nauðsynina á styrkingu ríkisvaldsins.

Ég veit, að það má heita einróma álit verkamanna, að nú sé kominn tími til að rísa til varnar, og nú þarf að gera meira en að leggja til verkfalls fyrir hækkuðu kaupi, til þess að dugi. Nú ætti það að vera ljóst hverjum manni, að það dugir ekkert minna en að hið vinnandi fólk taki höndum saman til þess að taka stjórnartaumana í sínar hendur. Þetta er nú að verða almenningi ljóst, og það hefur risið sterk alda í öllum andstöðuflokkum íhaldsins, sem krefst slíkrar samfylkingar. Frumkvæði Alþýðusambandsins um að koma af stað viðræðum milli andstöðuflokka íhaldsins um samstarf og stjórnarmyndun hefur fengið einróma undirtektir meðal fólksins um land allt.

Í stefnuyfirlýsingu Alþýðusambandsins, sem lögð hefur verið fram sem umræðugrundvöllur, eru öll þau meginatriði, sem Sósfl. hefur barizt fyrir á undanförnum árum: Uppsögn hernámssamningsins og brottför hersins, kaup á allt að 20 togurum til landsins og undirbúningur að smíði margra vélbáta, fiskvinnsluaðstaða vélbátaflotans verði stórbætt og fiskiðjuver reist, breytt verði um stefnu bankanna og vextir lækkaðir, ríkið taki útflutning sjávarafurða í sínar hendur og gróðinn á innflutningnum takmarkaður með róttækum ráðstöfunum, hafið verði mikið átak í húsnæðismálunum og stefnt að því, að húsaleiga þurfi ekki að vera hærri en 10% af launum. Í stuttu máli: Ráðstafanir til þess að koma íslenzku atvinnulífi á réttan kjöl, sporna við verðþenslu og ofsagróða milliliða, tryggja öllum Íslendingum atvinnu við íslenzk framleiðslustörf, tryggja verðgildi launanna og bætt kjör hins vinnandi fólks, tryggja það, að framleiðslan geti haldið áfram óslitið og ótrufluð.

Verkalýðsfélögin um allt land hafa fagnað þessu frumkvæði Alþýðusambandsins af heilum hug og lýst samþykki sínu við stefnuyfirlýsingu þess. Meðal annars vinnandi fólks til sjávar og sveita hefur það einnig vakið fögnuð. Eitt bezta dæmið um undirtektir almennings er hinn fjölmenni fundur, sem fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hélt fyrir viku, þar sem fulltrúar frá öllum andstöðuflokkum íhaldsins töluðu og voru á einu máli um nauðsyn vinstri fylkingar í landinu, er hefði nána samvinnu við verkalýðssamtökin.

Sósfl. hefur lýst samþykki sínu við stefnuyfirlýsingu Alþýðusambandsins. Framsfl. og Alþfl. hafa hins vegar ekki svarað, en á sama tíma hafa hægri menn Alþfl. og Framsóknar setið að samningum um að skipta á milli sín kjördæmunum og styðja hvor annan á víxl í kosningum, sem efnt yrði til í sumar. Um þessa ráðstöfun á kjósendum flokkanna mun þegar hafa náðst samkomulag, án þess að enn væri minnzt á stefnumál. Það kemur fyrst í annarri röð hjá þeim herrum. Þetta er tilraun til þess að sundra fylkingum vinstri kjósenda á Íslandi og getur því í reynd ekki orðið annað en þjónusta við íhaldið. Allir vita, hversu vonlaust verk það væri fyrir slíka fylkingu að fá nokkra aðstöðu til stjórnarmyndunar á eigin spýtur að kosningum loknum. Þetta vita þeir líka bezt sjálfir, því að bæði Framsókn og hægri menn Alþfl. búast við tapi. Samt hafa þeir hugsað sér að lýsa því yfir, að samstarf við Sósfl. komi ekki til mála. Af þessu mega allir sjá, í hverju bragðið á að vera fólgið. Eftir slíkar kosningar væri bersýnilegt, að ekki kæmi nema tvennt til mála: stjórnarmyndun með Sósfl. eða íhaldinu. Samstarf við Sósfl. ætla þeir að útiloka fyrir fram. Þá er aðeins eitt eftir skilið, ný samstjórn með íhaldinu. Og þá yrði sagt við fólkið: Sjáið þið nú til, einhver stjórn verður að vera í landinu. Við verðum að halda áfram að gera út. Ekki verður unnið með Sósfl., þess vegna verðum við að vinna með íhaldinu. Þess vegna verðum við að lækka gengið, hefta frelsi verkalýðsfélaganna, með öllu því, sem því fylgir, o. s. frv. Um aðra stefnu er ekki hægt að fá samkomulag. — Og nú mundu vera 4 ár til stefnu. Það er hægt að gera ýmsa hluti að afloknum kosningum, sem ekki er hægt að gera fyrir kosningar. Þetta er sama bragðið sem leikið hefur verið hverjar kosningar eftir aðrar, svo að almenningur ætti að vera farinn að átta sig, enda held ég, að nú séu flestir Íslendingar sammála þeim orðum Einars Olgeirssonar, að sá, sem ekki vill myndun vinstri stjórnar fyrir kosningar, ætlar sér að vera með í íhaldsstjórn eftir kosningar. Fyrir kjósendur hægri manna í Alþfl. ætti það að vera augljóst, að stuðningur við Framsókn undir slíkum kringumstæðum gæti ekki orðið annað en beinn stuðningur við íhaldið.

Alþingi er nú þannig skipað, að þeir, sem þangað hafa komizt á atkvæðum vinnandi manna til sjávar og sveita, eru þar í meiri hluta. Það er því ekki eftir neinu að bíða fyrir þá, sem raunverulega vilja undanbragðalaust samstarf alþýðunnar í landinu og vinstri ríkisstj. á þeim grundvelli. Það er hægt að gera strax. Afstaða manna til stjórnarmyndunar nú er því prófsteinninn á það, hvort þeir vilja raunverulega vinstri stjórn eða ekki, hvort þeim er alvara, þegar þeir segjast vera andstæðingar íhaldsins, eða hvort þeir fara með fals eitt. Í öllu falli má það ekki koma fyrir, að þegar til kosninga kemur, hvenær sem það verður, gangi fulltrúar alþýðunnar sundraðir til þeirra. Það er lífsnauðsyn fyrir íslenzka alþýðu og raunar fyrir íslenzku þjóðina alla að breyta skipan Alþingis, svo að þar verði raunverulegir vinstri menn í meiri hluta, sem gangi heils hugar til samstarfs við alþýðusamtökin. Það verður að lýsa hvern þann varg í véum, sem reynir að koma í veg fyrir það samstarf eða skerast úr leik. Og hvenær sem íslenzk alþýða verður kvödd að kjörborðinu, þá verður hún að sýna það, svo að ekki verði um villzt, að hún þolir engum það, að hann setji pólitíska braskhagsmuni sína ofar heildarhagsmunum alþýðunnar og þeirri einingu hennar, sem er nauðsynleg til þess að sigra afturhaldsöflin.

Barátta Sósfl. í áratug hefur borið ávöxt í þeirri sterku samstarfs- og samfylkingaröldu, sem nú er að risa. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, hvaða afstöðu sem menn annars hafa til Sósfl., að framtíð þessarar hreyfingar, sem heill Íslands er undir komin, fer fyrst og fremst eftir styrkleika hans. Alþýðan hefur reist þessa öldu með því að fylkja sér um þá stefnu, sem Sósfl. hefur alla stund barizt fyrir. Nú vantar aðeins herzlumuninn, til þess að dugi til þess að bjarga þjóðinni úr niðurlægingu 10 ára óstjórnar. Hvenær sem kosningar verða, verður fólkið því að fylkja sér um Sósfl. og aðra þá, sem verða í bandalagi við hann um stefnu Alþýðusambands Íslands. Það mun verða sá herzlumunur, sem dugir.