30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

1. mál, fjárlög 1956

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þann stutta tíma, sem ég hef til umráða í þessum almennu stjórnmálaumr., hef ég ákveðið að nota til þess að skýra hv. Alþ. og útvarpshlustendum frá gangi varnarmálanna, en ég gaf hv. Alþ. síðast skýrslu um þessi mál 2. nóv. 1954. Að vísu hafa verið gefnar út nokkrar fréttatilkynningar um einstök atriði. Ástæðan fyrir því, að svo hljótt hefur verið um þessi mál frá minni hálfu, er sú, að framkvæmd þeirra hefur verið í stórum dráttum samkvæmt áætlun.

Þegar ég tók við embætti utanrrh. í septembermánuði 1953, taldi ég mitt verkefni vera að framkvæma varnarsamninginn í samræmi við yfirlýsta stefnu Framsfl., þó með hliðsjón af áframhaldandi samstarfi við Alþfl. og Sjálfstfl. um þessi mál. Virkt samstarf við Alþfl. hefur að vísu ekki getað haldizt, enda þótt mér sé ekki kunnugt um djúpstæðan skoðanamun milli Alþfl. og Framsfl. um þessi mál, enda hafa jafnaðarmenn í flestum vestrænum löndum verið skeleggir talsmenn vestrænnar samvinnu í öryggismálum.

Höfuðsjónarmið mín við framkvæmd samningsins hafa verið þau, að hann trufli sem minnst íslenzkt atvinnu- og þjóðlíf.

Ég mun nú víkja að framkvæmd einstakra atriða og byrja á sambúð varnarliðsins og þjóðarinnar.

Reynt hefur verið að draga úr óþörfum samskiptum varnarliðsins við landsmenn. Samið var um reglur um ferðir varnarliðsmanna og komið á vegabréfsfyrirkomulagi. Ég hygg, að það sé sameiginleg skoðun allra sanngjarnra manna, að mikið hafi áunnizt í þessu efni. Þegar vegabréfakerfið á Keflavíkurflugvelli var tekið upp, var spáð illa fyrir því, enda andstaða gegn því. Kerfið hefur hins vegar í alla staði reynzt vei og auðveldar mjög tiltölulega öruggt eftirlit með ferðum inn og út af samningssvæðinu. Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli og starfslið hans hefur sýnt árvekni og dugnað um framkvæmd þessa eftirlits.

Á s. l. sumri var áfram unnið kappsamlega að nýrri girðingu kringum samningssvæðið og endurbótum á þeim eldri girðingum, sem ætlunin er að standi áfram. Er það mjög þýðingarmikið að hafa góða girðingu um samningssvæðið með tilliti til tollgæzlu og eftirlits. Finnst mér það furðulegt, að komið hefur fram gagnrýni bæði utanlands og innan á stefnu Framsfl. í þessu máli.

Samhliða þessu hef ég talíð nauðsyn á að efla mjög löggæzlu og tollgæzlu á samningssvæðunum. Með stofnun embættis lögreglustjóra hafa dómsog lögreglumál verið tekin föstum tökum, enda hefur starfsliði verið fjölgað og aðstaða bætt, þótt enn skorti tilfinnanlega á, að húsakostur embættisins sé viðunandi. Alþ. hefur þegar veitt fé til að bæta úr húsnæðisskortinum, og vona ég, að eigi líði á löngu, þar til framkvæmdir hefjast.

Framkvæmdir varnarliðsins hafa dregizt verulega saman, borið saman við fyrri ár. Á síðasta ári höfðu Íslendingar með höndum yfirleitt allar framkvæmdir nema malbikun og steinsteypu á flugvellinum sjálfum. Eins og áður hefur verið getið í fréttatilkynningu frá utanrrn., treystu íslenzkir verktakar sér ekki til að sjá um framkvæmd þessa verks. Sá bandaríski verktaki, sem fékkst við þessar framkvæmdir á s. l. sumri, hefur nú samkvæmt samningum flutt starfslið sitt úr landi, enda þótt verkinu sé enn ekki lokið vegna óvenjulegs votviðris s. l. sumar.

Mér þykir rétt að víkja nokkrum orðum að Metcalfe-Hamiltonfélaginu vegna blaðaskrifa um brottför félagsins og rangfærslna á því, sem ég hef látið frá mér fara um það mál.

Hinn 4. jan. 1955 sendi utanrrn. frá sér svo hljóðandi fréttatilkynningu:

„Hamiltonfélagið hættir allri útivinnu, nema hvað örfáir menn munu enn í byrjun þessa árs vinna að því að ljúka fáeinum smáverkum. Auk þess mun félagið fram eftir þessu ári halda áfram eftirliti með verkum, sem það hafði hafið fyrir febrúar 1954, en framkvæmd eru af íslenzkum verktökum. Hér er einkum um að ræða radarstöðvar á Austur- og Vesturlandi. Einnig mun það halda áfram viðgerð vinnuvéla, sem nú stendur yfir, þar til félagið hefur skilað öllum tækjum í góðu ástandi. Því mun lokið á næsta sumri. Hafnir eru þegar samningar við íslenzka verktaka um sand- og grjótnám varnarliðsins í Stapafelli og annars staðar, sem og um framkvæmd allmargra verka, sem verða tekin af Hamiltonfélaginu um áramótin.“

Samkvæmt þessu gerði ég mér vonir um, að leifar félagsins gætu farið að fullu og öllu úr landinu nú um áramótin. Allar staðhæfingar um, að leifar félagsins hafi átt að vera að fullu brott úr landinu fyrir áramótin 1954–55, eru ósannar, og stafar það sennilega af því, að útivinnu félagsins lauk um það leyti.

Hamiltonfélagið hefur enn eftirlit með nokkrum verkum, sem Sameinaðir verktakar framkvæma, en framkvæmdir þeirra hafa dregizt langt fram yfir það, sem mér voru gefnar vonir um. Við þá er þó ekki um neitt að sakast, þar sem utanrrn. ákvað að fækka mjög í vinnu við varnarliðsframkvæmdir vegna hins gífurlega vinnuaflsskorts í landinu. Auk þess hefur Metcalfe-Hamilton nokkra þjónustu fyrir varnarliðið svo og rekstur mötuneytis, þvottahúsa o. fl., enn fremur efnisvörzlu og innkaup.

Mér þykir rétt að taka fram, að engin stefnubreyting varðandi brottför Metcalfe-Hamiltonfélagsins hefur verið ákveðin, og mun ég vinna að því áfram, að félagið fari alfarið af landi burt og það sem fyrst.

Það hefur að vonum vakið umtal, að Metcalfe-Hamiltonfélagið hefur gerzt aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Var það án minnar vitundar og án samþykkis utanrrn. Tel ég slíkt í hæsta máta vítavert og lítil þjóðhollusta þeirra

Íslendinga, sem fyrir því hafa barizt. Ég hef borið fram mótmæli við sendiherra Bandaríkjanna og veit ekki betur en að félagið hafi fengið fyrirmæli frá bandarískum stjórnarvöldum um að víkja úr sambandinu.

Ég hef lagt á það mikla áherzlu, að framkvæmdir á vegum varnarliðsins yrðu skipulagðar þannig, að fullt tillit væri tekið til vinnuaflsþarfar íslenzkra atvinnuvega. Hinn aukni skortur á vinnuafli á árinn 1955 stafar ekki af því, að fjölgað hafi verið fólki við varnarliðsframkvæmdir, heldur hefur því þvert á móti verið fækkað. Til þess að gefa hugmynd um samanburð þriggja ára í þessu efni, vil ég nefna, að hæst kemst tala þeirra, sem voru í varnarliðsvinnu, í septembermánuði 1953, samtals 3056. Hæsta tala ársins 1954 var í ágúst, 2635, og hæsta tala á árinu 1955 í ágúst, samtals 2027. Það skal fram tekið, að innifalið í tölum þessum er fólk, sem vinnur við byggingu radarstöðvanna úti um land. Af þessu sést, að mjög veruleg fækkun hefur orðið. Ég vil þó geta þess, að alltaf er töluvert framboð á vinnuafli í varnarliðsvinnu. Þess vegna hefur ráðuneytið oftast nær orðið að takmarka ráðningar.

Á sínum tíma var samkomulag um að reisa fjórar radarstöðvar hér á landi. Er það talið fullnægjandi. Engin beiðni um að reisa fleiri slíkar stöðvar hefur komið fram. Stöðin við Sandgerði er fyrir nokkru tekin í notkun. Enn fremur er stöðin við Hornafjörð að mestu fullgerð. Stöðvarnar á Langanesi og við Aðalvík eru enn þá í smíðum. Þannig hefur verið gengið frá samningum varðandi rekstur stöðvanna, að engin ástæða er til að ætla, að þær hafi nein skaðleg áhrif á næsta umhverfi.

Eins og kunnugt er, samþ. ríkisstj. á sínum tíma, að leyfð yrði hafnargerð í Njarðvík innan þess svæðis, sem lögin um landshöfn þar taka til, ef samkomulag yrði um staðsetningu og gerð hafnarinnar. Fé mun vera fyrir hendi til hafnargerðarinnar, og er unnið að undirbúningi málsins. Ég hef áður getið þess hér í hinu háa Alþ., að höfn þessi verði ekki herskipahöfn, heldur aðeins upp- og útskipunarhöfn svo og höfn fyrir fiskiskip. Hafnargerð þessi er að mínum dómi mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga, þar sem gengið hefur verið frá því, að aðstaða til útgerðar verði í höfninni.

Að svo stöddu mun ég ekki ræða um, hvað fram undan kann að vera í varnarmálunum. Margir líta það björtum augum á ástandið í heiminum, að varnarsamtök vestrænna þjóða þurfi ekki lengur á aðstöðu að halda hér á landi. Aðrir telja hins vegar ekki enn tímabært að slaka á sameiginlegum vörnum og viðbúnaði, þar sem enn hafi ekki náðst samkomulag um stærstu deilumálin. Það er ótvírætt, að samkvæmt gerðum samningum erum það við Íslendingar sjálfir, sem réttinn höfum til að ákveða, hvort eða hve lengi við höfum hér varnarlið á friðartímum. Það er því mál hins háa Alþ. að meta, hvenær það telur tímabært að gera breytingar í þessu efni. — Góða nótt.