01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

1. mál, fjárlög 1956

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Hæstv. landbrh. Steingrímur Steinþórsson byrjaði ræðu sína á því að hreyta nokkrum fúkyrðum í stjórnarandstæðinga fyrir afstöðu þeirra til nýjustu afreka ríkisstj., en sást yfir þá staðreynd, að þessi afstaða okkar er nákvæmlega sama afstaða og mikils meiri hluta kjósenda Framsfl. Þá rakti þessi ráðh. eins og Ólafur Thors afrekaskrá sína í ríkisstj. og lofsöng sjálfan sig fyrir það, að einhvers staðar skyldi mega sjá, að eitthvað hefði verið gert fyrir þær 1500 millj. kr., sem þessi ríkisstj. hefði innheimt af landsmönnum í stjórnartíð sinni. Vakti það nokkra athygli, að mikið af því, sem hann nefndi, stóð enn á loforðaskránni. Hygg ég, að honum hefði verið sæmra að gera þjóðinni grein fyrir því mikla baráttumáli sínu að afnema grænmetisverzlun ríkisins, enda þótt allflestir kaupfélagsstjórar landsins hafi lagzt mjög eindregið gegn þeirri ráðstöfun. Hefðu þó ýmsir haldið, að framsóknarmenn tækju eitthvert mark á því, sem kaupfélagsstjórarnir segja um verzlunarmál almennings. Í umr. um þetta mál hér á þingi hefur ráðh. sýnt slíkt offors, að honum hefur tekizt að skapa sér algera sérstöðu á Alþ. Hafa menn um það illan grun, að hið mikla kapp, sem Steingrímur Steinþórsson leggur á það að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður, geti stafað af því, að þar muni haldið á almannafé af meiri ráðdeild en nú þykir tíðkanlegt í opinberum rekstri, enda hefur ráðh. ekki enn tekizt að bera fram nein rök þessu ofurkappsmáli sínu til stuðnings.

Í umr. á mánudagskvöldið bárum við þm. Þjóðvfl. fram till. um vantraust á núverandi ríkisstj. Við vorum sammála öllum þeim, sem sögðu, að nú væri runnin upp sú stund, að stjórnarandstöðunni bæri skylda til að gera allt, sem í hennar valdi stæði, til að hindra það, að íhaldsöflunum tækist að koma þeirri ætlun sinni í framkvæmd að skilja við efnahagslíf þjóðarinnar eins og sviðna jörð, ef svo skyldi takast, að vinstri stjórn yrði mynduð og íhaldinu ýtt til hliðar. Þess vegna hafði Þjóðvfl. sent vinstri flokkunum till. sínar um varanlega lausn efnahagsmálanna, áður en þing kom saman í haust.

Okkur var ljóst, að á þessari stundu átti Framsfl. um tvær leiðir að velja, í fyrsta lagi að semja við íhaldið um að sviða jörðina með þeim ráðstöfunum, sem Eysteinn Jónsson hefur í þessum umr. lýst með orðunum „alger neyðarúrræði til bráðabirgða“, en í öðru lagi að semja við vinstri flokka um varanlega frambúðarlausn efnahagsmálanna á grundvelli þess, sem við þjóðvarnarmenn höfðum lagt til. Við litum svo á, að valið ætti að vera framsóknarmönnum auðvelt, ef skrif þeirra um vinstri samvinnu og yfirlýsingar um nauðsyn nýrra leiða væru eitthvað annað og meira en önnur sýning á kosningaleikriti þeirra frá 1949, sem fram yrði haldið með trúðum og galdramönnum á fundum úti um land.

Ef framsóknarmenn meintu það af heilum hug, sem þeir sögðu, að nú yrði að snúast gegn vandanum og því öngþveiti, sem hér hefur skapazt í tíð núverandi ríkisstj., þá hlytu þeir að sjálfsögðu að vera fúsir til að koma í veg fyrir það, að sá vandi yrði aukinn og gerður nær óleysanlegur, rétt áður en tilvonandi vinstri stjórn réðist í þá þrekraun að reyna að leysa hann.

Við treystum því, að Framsfl. væri svo heils hugar um myndun vinstri stjórnar og svo skyni borinn, að hann sæi það, að vinstra samstarf og viðreisn yrði ekki byrjað með því að margfalda öngþveitið og magna þann draug til höfuðs sér, sem ætlunin var að kveða niður. Þess vegna bárum við vantraustið á ríkisstj. fram á síðustu stundu, en höfðum áður gert allt, sem í okkar valdi stóð, til þess að þetta vinstra samstarf gæti tekizt, m. a. með mjög nánu samstarfi við vinstri sinnað fólk í Alþfl. og Framsfl. Ríkisstj. sá sig tilneydda að verða við þeirri kröfu, sem ég bar fram, er ég lýsti vantrauststill., að taka hana til afgreiðslu, áður en skattaálögurnar yrðu endanlega afgreiddar á Alþ. Setti hún þó það skilyrði, að afgreiðslu skattamálanna yrði ekki frestað með útvarpsumræðum um vantraustið. Gátum við þm. Þjóðvfl. fallizt á þetta með tilliti til þess, að þessar eldhúsumræður hafa af okkar hálfu verið vantraustsumræður á ríkisstj.

Við atkvgr. um vantraustið kom sú athyglisverða staðreynd í ljós, að þegar slík örlög sem þessi ráðast í lífi íslenzkrar þjóðar, þá treysta forustumenn Framsfl. engum öðrum en íhaldinu og vilja engra ráðum hlíta nema Ólafs Thors og hans gamalkunna Grimsby-lýðs, því að allir með tölu vottuðu þm. Framsfl. Ólafi Thors traust sitt sem stjórnarformanni að viðhöfðu nafnakalli um vantrauststillöguna.

Læt ég svo vinstri mönnum í Framsfl. eftir það hlutverk, sem auðveldast er, að sýna forustuliði Framsfl. fram á, að til svona fullkominnar þjónustu við íhaldsöflin var ekki ætlazt af þeim.

Menn hafa rætt sín á milli í gær og í dag hina aumkunarverðu frammistöðu ráðh. hér í umr. á mánudagskvöldið. Eru menn á einu máli um það, að aumastur allra hafi þó strandkapteinninn Ólafur Thors verið, sem lék hér upphafið að lokaþætti í þeim skoffínsleik, sem hann hefur leikið um langt árabil í íslenzkum stjórnmálaumræðum. Hlóð hann slíku lofi á sjálfan sig og stjórn sína, að mönnum komu í hug orð Snorra um það, að þegar það væri lofað, sem ekki væri lofs vert, þá væri það háð, en ekki lof. En það mun Ólafur Thors ekki vilja skilja fremur en annað, sem skynsamlegt er. Ólafur Thors sagði meðal annars, að Sjálfstfl. hefði tekið á sig vanda valdanna til að bæta kjör alþýðunnar í landinu og hefði staðið við það. Skömmu síðar sagði hann svo: Sú synd að hækka kaup verkamanna fær nú sína refsingu. — Og Ingólfur Jónsson endurtók það margsinnis, að kjarabarátta verkamanna hefði verið glæpur. Þannig óð Morgunblaðsrökhyggjan eins og háhyrningur í síldartorfu aftur og fram um ræður ráðh. Ólafur Thors sagði einnig: Ríkisstj. verður ekki sökuð um brigðmælgi og ekki um úrræðaleysi. — Síðan lýsti hann úrræðunum með eftirfarandi orðum: Við vissar aðstæður er gengisfelling skásta úrræðið, en við aðrar aðstæður eru skatta- og tollaálögur skásta úrræðið. — Þannig geta menn fagnað því að eiga þó alltaf tveggja kosta völ, ef íhaldið fer með völd áfram. Að vísu viðurkenndi þó Ólafur Thors, að það væri ein varanleg lausn til: sú, að þjóðin sætti sig við það kaup, sem auðkýfingarnir vildu borga.

Þá spurði hann með miklum gorgeir, hvers vegna stjórnarandstæðingar vildu fá verðlagseftirlit, þegar þeir segðu, að hér væri okrað á olíu, sem þó væri háð verðlagseftirliti. Þennan pistil endurtók svo Ingólfur Jónsson ásamt algerum blekkingum um afstöðu Norðurlanda til verðlagseftirlits. Svarið er þó allt of auðvelt. Hér er okrað á olíu þrátt fyrir verðlagseftirlit, einfaldlega vegna þess, að það eftirlit er í höndum íhaldsins, sem er eftirlitinu andvígt og kemur í veg fyrir, að það sé framkvæmt, enda höfum við þjóðvarnarmenn aldrei pantað neitt verðlagseftirlit á olíu og benzíni, heldur hreinlega ríkisverzlun með þær vörur. Að öðru leyti var ræða forsrh. ekki svaraverð.

Ræða hæstv. utanrrh. Kristins Guðmundssonar hrærði menn að vonum til meðaumkunar með honum. Hann las hér upp gömul loforð um að koma hinu illræmda Hamiltonfélagi úr landi ásamt greinargerð um, að það hefði ekki enn tekizt. Kvaðst hann þó mundu halda þessari skeleggu baráttu áfram, enda þótt henni sé bezt lýst með þeirri viðurkenningu hans sjálfs, að Hamilton hefði þrátt fyrir hina miklu baráttu ráðherrans styrkt svo aðstöðu sína hér á landi, að það væri nú gengið í heildarsamtök íslenzkra vinnuveitenda. Ég hef líka öruggar heimildir um, að Hamilton hafði um 360 manns í sinni þjónustu í árslok 1954, en 310 nú við áramótin. Slíkur er þá árangurinn af heils árs glímu ráðherrans við Hamilton. Hann endaði ræðu sína á því að lýsa því yfir, að hann hefði yfirleitt enga skoðun á því, hvað fram undan væri í varnarmálunum, sumir segðu þetta, en aðrir segðu hitt. Ég skal játa, að mér þykir vænt um dr. Kristin Guðmundsson, og ég skil ekki, hvers vegna örlögin eru honum svo kaldrifjuð að gera hann að utanríkisráðherra Ólafs Thors. Vildi ég um það segja, að það sé illa farið um góðan dreng o. s. frv., en vegna hinnar fullkomnu uppgjafar hans við að ræða kjarna hernámsins og hermangsins í áheyrn þjóðarinnar mun ég nú taka þau mál nokkuð til meðferðar.

Á mánudagskvöldið snerust þessar umr. aðallega um hinn innlenda þátt í efnahagslífi þjóðarinnar og síðustu ráðstafanir núverandi ríkisstj. til að koma verðbólgu- og gengisfellingarþróuninni á það stig, sem á svipstundu getur leitt óbærilega fátækt og eymd yfir meginþorra landsmanna, en fært lítilli auðmannastétt flestallar eignir og auð þjóðfélagsins í hendur. Var það og að vonum, að talin væri ástæða til að ræða þessi mál, svo geigvænleg sem þau eru, í áheyrn þjóðarinnar eina kvöldstund, og væri að sjálfsögðu yfrin ástæða til að gera það miklu oftar. En þetta má þó að sjálfsögðu ekki skilja svo, að þau mál, sem út á við snúa og að okkur steðja utan frá, séu betur komin í höndum núverandi ríkisstj. Vissulega er svo ekki, enda nánara samband milli þessara tveggja höfuðþátta í lífi og starfi þjóðarinnar en menn gera sér almennt grein fyrir.

Það ætti þó að vera auðskilið öllum hugsandi mönnum, sem nokkur kynni hafa af veraldarsögunni, undirokun smáþjóða og nýlendukúgun, að sú þjóð, sem ásælist yfirráð yfir annarri þjóð, stuðlar auðvitað að því, að ákveðnir þjóðfélagshættir skapist í því landi, sem á að undiroka. Það er því auðskilið, að auðvitað vilja Bandaríkjamenn hafa hér fámenna auðmannastétt og fátæka alþýðu. Slíkir þjóðfélagshættir hafa ævinlega reynzt þeim, sem leggja aðrar þjóðir undir sig, hagkvæmir, þar sem lítil auðmannastétt með öll ráð í hendi sér hefur alltaf reynzt og mun alltaf reynast nægilega spillt og mútuþæg til að vilja selja landsréttindi og líf fátækrar alþýðu fyrir peninga og áhrif í skjóli erlends hers. Það er því engan veginn ætlun okkar þjóðvarnarmanna að svíkjast undan þeirri skyldu okkar að gera þjóðinni nokkra grein fyrir þessum þætti þjóðmálanna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að framkvæmdir Bandaríkjahers hér á landi eru undirrót þeirrar verðbólgu, sem þróazt hefur hér risaskrefum að undanförnu, svo og það, að hernámsframkvæmdirnar og hermangið hefur til þessa verið aðalaflgjafi þessarar verðbólguþróunar. Þessi staðreynd er nú svo augljós hverju mannsbarni, að meira að segja sumir þeirra, sem leiddu bölvun hernáms yfir íslenzka þjóð í maí 1951, eins og t. d. Alþfl. og a. m. k. hluti Framsfl., sjá hana nú og viðurkenna opinberlega og eru jafnvel farnir að iðrast gerða sinna í því efni, þó að þeir reyni vandlega að fela þá iðrun ásamt afglöpum sínum með fölskum afsökunum og blekkingum. Rökin fyrir verðbólguáhrifum hernámsframkvæmdanna og hinum tortímandi áhrifum þeirra í íslenzku efnahagslífi eru líka svo augljós og auðskilin, að þeim tjáir ekki í mót að mæla. Það skilja allir, að lítilli þjóð í örum vexti er fátt eins lífsnauðsynlegt og að festa fé í aukningu framleiðslutækja, auka þær framleiðslugreinar árlega, sem fyrir eru, og byggja upp nýjar til að geta fengið því unga fólki, sem við bætist á ári hverju starf við sitt hæfi og lífsbjargarmöguleika. Nú er það á hinn bóginn ljóst, að þjóðin verður að skiptast í þrjá meginhópa samkvæmt ákveðnum lögmálum og í ákveðnum hlutföllum, þá sem vinna að framleiðslustörfum, að fjárfestingu og að ýmiss konar nauðsynlegri þjónustu. Hlutföllin milli þessara þriggja hópa mega ekki raskast að neinu ráði, eigi þjóðin að búa við jafnvægi í efnahagsmálum, heilbrigt efnahagslíf og stöðugt verðgildi peninga, og alls ekki á þann veg að draga verulegan hluta þeirra, sem að framleiðslunni starfa, frá henni og flytja yfir í óarðbæra fjárfestingu og óþarfa milliliðastarfsemi. En þetta er nákvæmlega það, sem hernámsframkvæmdirnar hafa gert. Til þeirra hefur sogazt íslenzkt vinnuafl í þeim mæli, að aðalatvinnuvegur landsmanna hefði fyrir tveim árum verið algerlega lamaður vegna skorts á vinnuafli, ef efnahagsógæfan hefði ekki ratað að minnstu bræðraþjóð okkar, Færeyingum. En þó að hér hafi að undanförnu verið 700–800 Færeyingar á ári til að halda fiskiflota okkar gangandi, hafa þó mjög mörg skip prýtt fjöruborðið, vegna þess að enginn fékkst til að ýta þeim úr vör. Landbúnaðurinn hefur einnig búið við sívaxandi erfiðleika af þessum sökum.

En það er ekki aðeins, að vinnuaflið hafi sogazt til hernámsframkvæmdanna, heldur hefur einnig mikið af bezta vinnuaflinu leitað þangað, svo að íslenzkt efnahagslíf hefur einnig beðið tjón af þeim sökum. Er það t. d. vitað, að þó að færeyskir sjómenn séu góðir, standast þeir þó ekki samanburð við hina harðfengu íslenzku sjómannastétt. En þannig hlaut þetta að fara. Hermangararnir íslenzku hafa ráð á að bjóða verkafólki ýmis fríðindi, sem íslenzku efnahagslífi eru ofviða.

Það hafði lengi verið grunur manna, að ekki væri allt með felldu í starfsemi og gróðabralli hermangaranna. Með því að athuga hagskýrslur og bera saman gjaldeyristekjurnar af hernáminu, vörukaup herliðsins hér og upplýsingar utanrrn. um fjölda þeirra Íslendinga, sem starfað höfðu á vegum herliðsins, kom í ljós, að engar skýringar fengust á því, fyrir hvað herliðið hafði borgað um 100 millj. kr. árið 1953 og um 70 millj. kr. 1954. Hafði blaðið „Frjáls þjóð“ nokkrum sinnum spurzt fyrir um það, hvort hermangararnir græddu slíkar upphæðir á því að leigja herliðinu íslenzkt verkafólk fyrir amerískt kaupgjald, en borga síðan Íslendingum eftir íslenzkum kauptöxtum, sem eru nær helmingi lægri en þeir amerísku. Svör hafa að sjálfsögðu engin fengizt við þessum spurningum fremur en öðrum, sem íslenzkir valdhafar töldu sér hagfelldast að þegja um og reyna með því að fela sekt sína í djúpi þagnarinnar. En svo skeði það, að blað sjálfs varnarmálaráðherrans Kristins Guðmundssonar varð til þess að staðfesta þessa gróðastarfsemi hermangaranna.

Hinn 7. júlí í sumar sem leið skrifaði ungur framsóknarmaður, sem verið hafði fulltrúi flokksins í varnarmálanefnd, grein í Tímann, þar sem hann skýrir frá því, að Sameinaðir verktakar taki greiðslur fyrir þau verk, sem þeir taka að sér, samkvæmt bandarískum kauptöxtum, en borgi aftur Íslendingum eftir íslenzkum kauptöxtum og stingi mismuninum í eigin vasa.

Þegar þetta er upplýst og það siðferði, sem á bak við býr, þarf engan að undra, þó að hernámið hafi reynzt einn versti verðbólguvaldur í þessu þjóðfélagi og grafi nú undan öllum þeim stoðum, sem heilbrigð þjóðfélagsbygging verður að hvíla á. En í því efni farast hinum unga framsóknarlögfræðingi, sem ég vék að áðan, svo orð í Tímanum, blaði utanrrh., hinn 7. júlí s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Sannast sagna er það hrein þjóðarskömm, hversu tala þeirra, er reyna að hagnast á veru herliðsins hér, er há. Almenningur ætlast ekki til, að nokkrir vellríkir einstaklingar og félög græði of fjár á hersetunni. Það verður að segjast eins og er, að hrekklaust fólk fer að efast um nauðsyn varna og dvalar herliðs hérna, ef nauðsynlegt er talið af Ameríkumönnum til þess að halda hér aðstöðu sinni að ausa fé í alls kyns menn og félög, þannig að fjárhagsleg sjónarmið ráði fyrst og fremst afstöðu þeirra til hersetunnar.“

Hér segir hinn ungi framsóknarlögfræðingur nakinn sannleikann um eðli hernámsins. Hann segir, að hrekklaust fólk fari að efast um nauðsyn hernámsins, ef Bandaríkjamenn telja nauðsynlegt að ausa fé í alls kyns menn og félög til að halda hér aðstöðu sinni, þannig að fjárhagsleg sjónarmið ráði öllu um dvöl hers hér á landi. En þetta er einfaldlega forsendan fyrir hersetunni hér á landi, en ekki sá tilbúningur, að Bandaríkjaher sé hér til að vernda íslenzka þjóð, og það af þeirri einföldu ástæðu, að engin þjóð verður vernduð, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur. Það er staðreynd, sem öllum er þegar ljós. Bandaríkjamenn eru að kaupa sér aðstöðu hér á landi fyrir hernámspeninga og gjafafé til árásar í upphafi kjarnorkustríðs, en þá gæti líka alveg eins svo farið, að Ísland yrði Perluhöfn þeirrar styrjaldar. Menn minnast þess, að Japanar hófu styrjöld sína við Bandaríkin í síðustu heimsstyrjöld án stríðsyfirlýsingar með því að þurrka út aðalbækistöð Bandaríkjanna á Kyrrahafi, Pearl Harbour á Hawai-eyjum, í einni árás, og þó voru vopn, sem Japanar réðu þá yfir, hrein barnagull, miðað við það ægiafl, sem nú hefur verið beizlað í vetnissprengjunni. Og hvers vegna skyldum við ætla, að hin austræna heimsheift beitti okkur mildari aðferðum en Japanar Pearl Harbour, ef við sjálfir gæfum því fólki tilefni til árásar með því að leyfa í landi okkar bækistöðvar, sem hin austrænu veldi teldu sér stafa ógn af. Ráðamenn austantjaldsríkjanna mættu þá a. m. k. vera allmiklu meiri góðmenni en Morgunblaðið og Bjarni Benediktsson hafa talið okkur trú um síðustu áratugina. En ef einhverjir skyldu ætla, að kjarnorkuvopn yrðu ekki notuð, ef til styrjaldar kæmi, má minna á þær yfirlýsingar Dullesar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkin hafi nú þegar þrívegis hótað í fyllstu alvöru að hefja kjarnorkustyrjöld gegn Kína, og munu þó fáir á Vesturlöndum a. m. k. hafa látið sér detta þann möguleika í hug, að ein helzta öndvegisþjóð lýðræðis og menningar, Bandaríkin, yrði til þess að stíga fyrsta skrefið á þeirri algeru tortímingarbraut. Við hverju mætti þá búast frá hinum austræna heimi, þegar ástandið vestan megin er ekki betra en þetta?

Af þessu er auðvitað öllum ljóst, að herstöðvar hér á landi eru ekki aðeins gagnslausar til varna, heldur beinlínis hættulegar í stríði. Sú kenning, að herstöðvar hér séu nauðsynlegur liður í varnarkerfi vesturveldanna, er af þeim sökum, sem ég hef hér greint frá, alger falskenning, nema Bandaríkin ætli sér að hefja næstu styrjöld og nota Ísland sem stökkbretti í fyrstu lotu, vitandi það, að í annarri lotu hefðu allar bækistöðvar hér verið þurrkaðar út. Enn þá hafa menn, sem betur fer, ekki slíkar hugmyndir um Bandaríkin, enda bæri Íslendingum siðferðisleg skylda til að hindra það, að land það, sem gæfan gaf þeim, yrði notað á þann hátt. Það er og augljóst, að þörf stórveldanna fyrir bækistöðvar til að stytta vegalengdirnar milli þeirra fer síminnkandi með aukinni tækni og að nú er svo komið, að bæði austur- og vesturveldin ráða yfir eldflaugum, sem skjóta má, hlöðnum vetnissprengjum, milli Rússlands og Bandaríkjanna með fullkominni nákvæmni. Hitt er skiljanlegt, að stórveldin telji æskilegt, að aðvörunarskotið lendi einhvers staðar annars staðar en á þeirra eigin þjóð.

Af þessu má ljóst vera, hver lífsnauðsyn það er íslenzkri þjóð, að hernámi sé hér sem fyrst lokið og hernámssamningunum sagt upp. Það er og ljóst, að þróun heimsmálanna á síðasta ári gerir okkur Íslendingum bæði kleift og skylt að hefjast nú þegar handa í þessu efni. Sú augljósa staðreynd, að mannkynið á nú aðeins um tvennt að velja, algera tortímingu eða frið, hefur neytt sífellt fleiri og fleiri til að horfast í augu við þá bláköldu staðreynd, að draga verður úr hatursáróðri þjóða í milli og efla friðsamleg samskipti þeirra, ef mannkyninu á að takast að vinna friðinn. Til að vinna að því marki hafa sífellt fleiri og fleiri þjóðir tekið upp merki hlutleysisstefnunnar og neitað að láta draga sig í dilka stríðsveldanna í austri og vestri, en í þess stað skipað sér í sveit þeirra, er reyna af fremsta megni að draga úr kalda stríðinu og ryðja úr vegi þeim hindrunum, sem enn standa í vegi fyrir friðsamlegri sambúð allra þjóða. Einhvern merkasta áfanga á þessari braut unnu Finnar á þessu ári, er þeim tókst að fá Rússa til að skila aftur herstöð þeirri á Porkalaskaga, sem Rússar neyddu Finna til að leigja sér til 50 ára við lok síðustu heimsstyrjaldar. Höfðu Rússar þó komið sér upp mun öflugri herstöð í þessari Keflavík Finnlands en Bandaríkjamenn hér og áttu eftir 39 ár af samningstímanum. Er þá svo komið, að Ísland eitt Norðurlanda er hersetið af erlendu stórveldi.

Norðurlandabúum hefur verið gjarnt að líta á sig sem menningarlega heild og verið stoltir af menningu sinni og sögu. Þangað hafa þeir sótt þau rök og þann styrk, sem þeir treystu á til að varðveita sjálfstæði sitt gegn ágengum stórveldum, en ekki til lítilfjörlegra herja sinna. Því ber þó ekki að neita, að meir hafa þessar þjóðir talið sig þurfa að óttast það, að minna tillit yrði tekið til slíkra raka úr austri en vestri. Þess vegna er það, að íslenzk alþýða fær ekki skilið, að hin mikla öndvegisþjóð lýðræðis og menningar, Bandaríki Norður-Ameríku, skuli ekki af sjálfsdáðum fara með her sinn nú þegar af íslenzkri grund, þegar Rússar hafa gert það hvort tveggja að viðurkenna fánýti slíkra herstöðva á kjarnorkuöld og þá hindrun, sem þær eru á braut friðsamlegrar sambúðar þjóðanna, og unnt hinni finnsku menningarþjóð þeirrar viðurkenningar og þess sóma að afhenda henni herstöðina á Porkala löngu fyrir umsaminn tíma án baráttu og langra samningaumleitana. Enn óskiljanlegra er það þó íslenzkum almenningi, að ríkisstj. Íslands og stuðningsflokkar hennar skuli ekkert hafa aðhafzt enn í því efni að losa þjóðina við hina bandarísku hersetu, jafnháskaleg og hún hefur reynzt menningu og efnahagslífi þjóðarinnar. En þrátt fyrir hið sýnilega tjón, sem íslenzku efnahagslífi stafar af hernáminu, og þá fullkomnu tortímingu, sem hér yrði, ef til stríðs kæmi, heldur ríkisstjórnin og hermangararnir áfram að undirbúa og samþykkja enn meiri hernaðarframkvæmdir, eins og hafnargerðin í Njarðvík og kröfurnar um flotahöfn í Hvalfirði bera með sér, og græða á niðurlægingu þjóðarinnar. Er engu líkara en að hið bandaríska gull hafi svipt þá allri dómgreind og sómatilfinningu. Öll rök staðfesta þó, að það sé skylda Alþ. við íslenzka þjóð, líf hennar og sjálfstæða tilveru, að sjá um, að herstöðvasamningnum frá 1951 sé sagt upp nú þegar, að það sé skylda Alþingis Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum og baráttu mannkyns fyrir friði og öryggi að sjá um, að þeirri hindrun, sem herstöðvar á Íslandi eru á þeirri braut, sé rutt úr vegi. Þessa skyldu getur Alþ. rækt með því að fela ríkisstj. að segja upp herstöðvasamningnum frá 1951 lögum samkvæmt og á þann hátt, sem við þjóðvarnarmenn höfum lagt til.