01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

1. mál, fjárlög 1956

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Miklir menn erum við, Hrólfur minn, er setning, sem flestum útvarpshlustendum mun hafa komið í hug, þegar þeir heyrðu orðin: Landinu verður ekki stjórnað án okkar, en hæstv. forsrh. Ólafur Thors reyndi að segja þau hér í útvarpsumræðunum s. l. mánudagskvöld. Hv. 2. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, sem talinn er forustumaður þess hluta kommúnistaflokksins, sem næst stendur Moskvukenningunum, taldi, að landinu yrði ekki stjórnað án þeirra. Þá hafa menn það.

Íhaldsandstæðingum í landinu mun ekki hafa komið neitt á óvart í ræðu hæstv. forsrh. um álit hans á sjálfum sér og sínum flokki, nema þá hvað helzt, að stirðmælska háði honum nú venju fremur og það svo, að hann hafði sjálfur orð á.

En ræða kommúnistaforingjans var þungt hnefahögg í andlit þeirra, sem hugsað hafa til myndunar fylkingar gegn íhaldsöflunum. En öll ummæli hans voru svo ítrekuð á forsíðu Þjóðviljans daginn eftir, á sama tíma og mun betri ræða hv. 11. landsk þm., Lúðvíks Jósefssonar, flokksbróður hans, var falin inni í blaðinu.

Eitt var þó sameiginlegt með þessum fulltrúum öfganna báðum, hin einlæga aðdáun þeirra hvors á öðrum og það svo, að mörgum varð hugsað til væntanlegra kosninga í síldarútvegsnefnd. Hæstv. forsrh. fullvissaði þennan vin sinn um, að hann læsi ekki Alþýðublaðið, en hann þakkaði aftur með því að lýsa andúð sinni á jafnaðarmönnum. Allur málflutningur þeirra sannaði þess vegna, svo að ekki verður um villzt, að hægt er og brýn nauðsyn á að losna við öll áhrif þeirra á gang íslenzkra þjóðmála. Þessir forustumenn öfgaaflanna í íslenzkum stjórnmálum hafa oft áður sýnt vilja sinn við lausn þeirra vandamála, sem steðjað hafa að íslenzkri alþýðu, og á öllum þessum prófum hafa þeir fallið, en það er stundum sætt sameiginlegt skipbrot, og mun sú staðreynd undirrótin að þessari Pílatusarvináttu.

Gegn boðskap þessara forustumanna öfganna svarar íslenzk alþýða, að án fullrar samstöðu við hana verði Íslandi ekki stjórnað, svo að vel fari.

Um íslenzka alþýðu sagði hæstv. forsrh.: Fyrst kveikja þeir í húsinu, svo kenna þeir stjórninni um brunann. — Mikil er sú mæða. Rómverjar hinir fornu kenndu kristnum mönnum stórbruna Rómar, og nazistar hinir þýzku kenndu jafnaðarmönnum þinghúsbrunann í Berlín. Þetta eru fyrirmyndir núverandi ríkisstj. Rómverjar og nazistarnir gerðu þó málamyndatilraun til þess að slökkva eldinn, en það gerir íslenzka ríkisstj. ekki. Í þess stað eys hún olíu á eldinn með á þriðja hundrað milljóna króna álögum á þann hluta þjóðarinnar, sem verst má við tekjumissinum. Hlýjan af þessum eldi kann að reynast ríkisstj. skammgóður vermir, því að enn hafa ekki brunnið afltaugar íslenzkrar alþýðu, og þekki hún vitjunartíma sinn, þá hnekkir hún enn misnotuðu valdi.

Elztu verkalýðsfélög landsins eru nú um og yfir hálfrar aldar gömul. Allan þann tíma, sem þau hafa starfað, hefur starf þeirra verið af ákveðnum hópi landsmanna, þeirra, sem gera Sjálfstfl. út nú og gerðu föður hans, Íhaldsflokkinn, einnig út, verið talin tilræði við þjóðfélagið og allt atvinnu- og athafnalíf þjóðarinnar. Við hverja kjarabót hins vinnandi manns hafa hrópin heyrzt um, að þessi og hinn atvinnurekandinn ætlaði að hætta vegna ágangs verkamanna. Þessi neyðaróp deyja þó út, þegar frá líður, og hinir undirokuðu atvinnurekendur halda áfram, allt í þjónustu okkar hinna, sem afkomu okkar byggjum á daglaunavinnu. Síðustu geirfuglar þessa boðskapar hafa enn verið hér í eldhúsi Alþ. í forsvari hæstv. ríkisstj. og undir forustu hæstv. forsrh. Ólafs Thors, og ekki verður það sagt um hann, að hann bregðist skyldu sinni við þá, sem haldbeztir reynast í útgerð Sjálfstfl.

Enn þá eru allir hlutir, sem aflaga fara í höndum óviturra stjórnmálamanna, sem telja sjálfa sig sjálfkjörna til forustu, verkamönnum og vinnandi fólki að kenna. Þetta vogar hæstv. ríkisstj. sér að bera á borð fyrir það sama fólk sem á hátíðum og tyllidögum þjóðarinnar er talið gagnmenntaðasta og fróðleiksfúsasta þjóð í Evrópu, að ekki sé miðað við þá, sem lægra kunna að standa.

Það kann að vera, að á niðurlægingartímabili þjóðarinnar fyrir 200–300 árum hafi fundizt fólk, sem ekki hafði aðstöðu til að hrekja slíkar fullyrðingar, en í dag er hollast, að forráðamenn þjóðarinnar viðurkenni rökþrot sín með því að segja sannleikann vafningalaust.

Þó að hinir stritandi sjómenn byðust til þess að vinna kauplaust, yrði að styrkja útveginn, þrátt fyrir þá staðreynd, að hinn íslenzki sjómaður afkastar 6–7-földu verðmæti þjóð sinni til handa, miðað við erlenda starfsbræður sína. Finnst ekki eiginkonunum og húsmæðrunum á verkamanna- og iðnaðarmannaheimilunum, sem eiga að teygja viku- og mánaðarkaup eiginmanna sinna til brýnustu lífsnauðsynja, kaupið vera allt of hátt og líklegt til að sliga atvinnulífið, þar sem enn þá er þó næg atvinna? Ætli stallsystur þessara kvenna á Austur-, Norður- og Vesturlandi, þar sem fyrirvinnan gengur atvinnu- og tekjulaus mánuðum saman, sé ekki farið að lengja eftir loforðum hæstv. ríkisstj. um jafnvægi í byggð landsins, og skyldu þær atvinnutekjur ekki vera líklegar til þess að sliga atvinnu- og athafnalíf þjóðarinnar?

Þegar meðalfjölskyldur þessara alþýðustétta þjóðfélagsins berjast í bökkum í nægri dagvinnu og með óeðlilegu yfirvinnuálagi um að láta tekjurnar hrökkva vegna ört vaxandi verðbólgu fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, þá er henni ætlað að trúa því, að hér sé um sjálfskaparvíti að ræða, og vilji hún ekki trúa því, þá er bölvaldinum hótað atvinnuleysi og nýjum skattaálögum.

Allar upphrópanir og harmakvein forustumanna hæstv. ríkisstj. og svör við ádeilum Alþfl. voru á einn veg: Vegna 10–11% kauphækkana urðum við að gera þetta o. s. frv. — Vegna þess, hve almenningur baðar í rósum, eru þessir ábyrgu og umhyggjusömu landsfeður illa haldnir af erfiði til þess að bjarga okkur frá aukinni velmegun. Bjargráðin eru í því fólgin, að 1200–1500 kr. skattar til viðbótar öllum þeim, sem fyrir voru, eru lagðir á hvert einasta mannsbarn í landinu. Aðalástæðan til þessara bjargráða að sögn hæstvirtra ráðh. er úrslit vinnudeilunnar s. l. vor, og það er því rétt að víkja að þeim örfáum orðum.

Þegar Alþ. kom saman haustið 1954, lagði Alþfl. fram þáltill. þess efnis, að ríkisstj. yrði falið að gangast fyrir athugun á verðlækkunum nauðsynjavarnings. Alþfl. lét þess getið við umr. um þessa till., að sýnt þætti, að verkalýðssamtökin yrðu knúin til þess að fá uppborna þá kjaraskerðingu, sem orðið hefði vegna sívaxandi verðbólgu og dýrtíðar. Ríkisstj. lét þessa aðvörun sem vind um eyrun þjóta. Og fjórum mánuðum seinna, þegar fulltrúar verkalýðssamtakanna fóru á fund hennar í janúarmánuði, hafði hún enn enga till. í þessum málum og var ekkert farin að athuga neina möguleika á verðlækkunum, en óskaði einungis eftir, að frestað yrði öllum aðgerðum af hálfu verkalýðssamtakanna. Og ríkisstj. fékk þennan frest í rúman mánuð, en allt kom fyrir ekki. Enn sat við sama úrræðaleysið. Það var ekki fyrr en samningaviðræður voru hafnar, að svar ríkisstj. um verðlækkun barst, og svarið var einfaldlega: Ekkert hægt að lækka.

Það virðist því þurfa kaldrifjun til að halda því fram nú, að það hafi verið verkalýðssamtökin, sem höfnuðu verðlækkunarleiðinni, eins og Morgunblaðið og Vísir hafa gert.

Á það er að vísu bent, að kommúnistar hafa aldrei viljað annað en beina kauphækkun í krónutölu til þess að ýta dýrtíðarhjólinu af stað, og sjálfur er ég meðal þeirra, er hafa þá skoðun. Hitt er jafnljóst, að hafi kommúnistar viljað það, þá tók ríkisstj. af þeim vandann um að segja endanlega til.

Verkalýðssamtökunum var því gerður nauðugur einn kostur að krefjast kauphækkunar í krónutölu, þar sem þeim er sniðinn ákveðinn stakkur til þess að mynda kröfur sínar samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Krafan um að fá fram kjarabætur með lækkuðu verði nauðsynjavarnings varð samkvæmt þessum lögum að berast fram sem ósk til ríkisstj., þar sem valdið til þess var í hennar höndum. Þessari ósk neitaði ríkisstj., vegna þess að henni var nauðsynlegt að fá fram kauphækkun til þess að skýla þeim aðgerðum, sem stjórnarliðið hefur verið að framkvæma hér á hv. Alþ. nú síðustu daga.

Milliliðirnir og braskararnir, sem svo oft virðast einráðir í Sjálfstfl., höfðu krafizt bættrar aðstöðu fyrir iðju sína. Við þeim kröfum hefur verið orðið í mynd hækkaðs verðlags og hlutfallslega hækkaðrar álagningar, álagningarfrelsis.

Fyrir þeim kommúnistum, sem aldrei hugsa um nema pólitískan hagnað, vakti það fyrst og fremst að fá af stað sem mestan glundroða, því að í gruggugu fiska þeir bezt, og ríkisstj. aðstoðaði þá mjög dyggilega.

Verkalýðshreyfingin hefur þannig orðið að skotspæni þessara tveggja öfgaafla í þjóðfélaginu til þess að ná fram annarlegum markmiðum, óviðkomandi hagsmunum hins vinnandi manns. Það reynist hér eins og oftast áður, að þeir, sem vildu í raun og sannleika velta launafólkinu stuðning til þess að rétta hlut sinn, voru Alþýðuflokksmenn. Til sönnunar þessu nægir að benda á þá stefnu, sem Þjóðvfl. hefur tekið í þessum málum, en hann lýsti sig eindregið fylgjandi verðlækkunarleiðinni, og vitað er um fjölda þm. meðal stjórnarliðsins og kommúnista, sem telja þetta nú einu færu leiðina, en fá ekki aðstöðu til þess að láta skoðanir sínar í ljós vegna ofríkis ríkisstjórnarinnar, sem saltar öll slík mál hér í þingnefndum.

Fullyrðingar stjórnarliðsins um, að kommúnistar einir hafi ráðið því, að verkalýðsfélögin lögðu til þessarar baráttu, eru vísvitandi blekking. Öll verkalýðsfélög, sem til deilunnar lögðu, ákváðu það með miklum meiri hluta atkvæða og mörg einróma, en vitað er, að í mörgum þessara félaga ráða kommúnistar ekki úrslitum. Það er a. m. k. varasamt fyrir forustumenn hæstv. ríkisstjórnar að stimpla kommúnistum alla þá, sem ötullegast börðust fyrir sem mestum árangri í þessari nauðvarnarbaráttu hins vinnandi fólks, og það verður ekki skrifað á reikning þessa fólks, þó að öfgaöflin til hægri og vinstri í stjórnmálunum vilji notfæra sér versnandi lífskjör þess til pólitísks ávinnings.

Ég tel ekki nauðsynlegt að hrekja hér enn á ný allan þann róg og níð, sem hellt var yfir það fólk, sem í vinnudeilunni stóð, en þó sérstaklega okkur iðnaðarmenn, af forustumönnum stjórnarinnar. Það mun geymt og engu gleymt.

Alþfl. hefur ekki látið sitja við það eitt að benda á farsælustu leiðina til heilbrigðra kjarabóta í dægurbaráttu verkalýðsfélaganna. Þingmenn flokksins hafa borið fram og beitt sér fyrir á Alþ. flutningi 15 frumvarpa og þingsályktana, allra í þeim tilgangi að vernda hag og tryggja velgengni fólksins gegn hinum skefjalausu skattaálögum, sem núverandi valdhafar hafa leitt yfir hana undir merkjum frelsisins. Meðal þessara mála eru frv. um verðlagseftirlit og verðlagsdóm, lögfestingu 12 stunda hvíldartíma togaraháseta, um olíueinkasölu, sömu laun karla og kvenna, um félagsheimili verkalýðsfélaga og verkalýðsskóla, svo að nokkuð sé nefnt. Þessari stefnu mun Alþfl. fylgja ótrauður og ekki hika við að vinna þessum málum í heild allt það, sem þingleg aðstaða hans leyfir hverju sinni.

Íslenzk alþýða. Sú staðreynd blasir nú við naktari en nokkru sinni fyrr, að allri alþýðu landsins er nauðsyn á sterkum ítökum hér á löggjafarsamkomunni. Það er og jafnframt nauðsynlegt, að ekki séu í frammi hafðar neinar sjálfsblekkingar um, að nýir stjórnmálaflokkar eða félög leysi þennan vanda, þó að stofnuð séu í yfirskini þess að sameina vinstri öflin í landinu, eins og stundum heyrist. Það detta heldur engar nýjar stjörnur, sem leysa þennan vanda. Slíkt verður aðeins til frekari sundrungar og um leið vatn á myllu íhaldsaflanna. Það sannar dýrkeypt reynsla nú þegar. Þessi vandi verður ekki leystur nema á einum stað, við kjörborðið í næstu kosningum. Þar verður allt vinnandi fólk til sjávar og sveita að fylkja sér um þann flokk, þar sem það er öruggt um að fá sjálft að ráða, hverjir fulltrúar þess eru, með meirihlutaatkvæðagreiðslu innan sinna vébanda. Sá flokkur einn, sem uppfyllir þessi skilyrði, er Alþfl., og undir merkjum hans hafa haldbeztu árangrarnir náðst, á sama hátt og þegar fylgi hans hefur minnkað, hefur hagur fólksins jafnan versnað. Þessum staðreyndum verður erfitt að komast fram hjá.

Við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um, að þegar lokasóknin við næstu alþingiskosningar verður háð gegn ásælni og spillingu, þá verður að heyja þá baráttu á grundvelli stefnu jafnaðarmanna. Þessar staðreyndir hefur alþýða nágrannalandanna gert sér ljósar. Á Norðurlöndum, Bretlandi og í vel flestum löndum Vestur-Evrópu eru jafnaðarmenn ýmist í meiri hluta eða svo þróttmikilli stjórnarandstöðu, að taka verður tillit til þeirra. Þar mundi valdhöfunum ekki haldast uppi með hótanir um skattaálögur og atvinnuleysi í því skyni að fá fram vantrú á samtakamætti verkalýðsfélaganna.

Það kann svo að fara, að ekki liði langur tími til næstu kosninga. Í þeim kosningum reynir á forustumenn allra þeirra þjóðmálaflokka, sem viðurkenna lýðræði og þingræði, en hafa lýst yfir íhaldsandstöðu, hve langt þeir komast í að fylkja liði. Alþfl. hefur þegar gert tilraunir til viðræðna um þessi mál, og árangurinn heyrðist í umræðunum s. l. mánudagskvöld, þegar hæstv. forsrh. tók að sér að svara fyrir hönd Þjóðvfl. Óttinn leyndi sér ekki. Í þessari lokasókn verður barizt gegn því öryggisleysi, sem nú ríkir um afkomu almennings, og fyrir jafnræði og betri afkomu allra landsmanna án tillits til þess, hvar þeir búa á landinu eða hvaða störf þeir vinna. Það mun mikið reyna á forustumennina, en fyrst og fremst mun þó reyna á þig og mig, hlustandi góður, hinn almenna kjósanda.

Alþýðuflokksmenn, karlar og konur, vinnum ötullega að því hvert á okkar stað að efla starf flokksins og áhrif. Á þann hátt tryggjum við samtíð og framtíð bezt gegn illum áhrifum öfganna til beggja handa.