01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

1. mál, fjárlög 1956

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Af málflutningi sumra stjórnarandstæðinga mætti ætla, að engin ærleg taug væri til í núverandi ráðherrum né nokkrum þeim þingmanni, er styður hæstv. ríkisstjórn. Svo að tínd séu til nokkur málblóm úr jurtapottum þeirra, þá eru ráðherrar og alþm. stjórnarflokkanna kaupahéðnar, verðbólgubraskarar, mútuþegar og Grimsby-lýður, afætur og ræningjar, sem eiga það hjartans mál eitt að mergsjúga og þrautpína verkamenn, en hlaða auði og skattsviknum ofsagróða undir fáeina forréttindamenn og auðkýfinga, allt til þess að njóta þeirrar fróunar að sjá alþýðu Íslands svelta heilu hungri.

Íslenzka þjóðin er mikil sagnaþjóð og alþýðumenning hennar á hærra stigi en þekkist með öðrum þjóðum. Og nú er mér spurn: Til hverra eru stjórnarandstæðingar að tala með þessum mannskemmandi gífuryrðum? Hverjum ætla þeir að trúa því, að þjóðmálaleiðtogar, sem margir hafa varið starfsþreki heillar ævi til að vinna þjóð sinni, séu þvílíkt undarlegt sambland af illmennum og fávitum? Ef stjórnarandstæðingar eru að tala til íslenzkrar alþýðu og ætlast til, að hún leggi trúnað á þessar lýsingar, þá eru ræðuhöld þeirra og stóryrði óskammfeilin móðgun við íslenzka alþýðumenningu og dómgreind fólksins.

Nei, íslenzk stjórnmál í dag snúast ekki um það, að forustumenn þjóðarinnar séu heimskir og illa innrættir. Við skulum ætla og vona, að alþingismenn yfirleitt vilji þjóð sinni vel og reyni að leggja það til mála, sem þeir telja sannast og réttast. Að vísu er einn hópur manna átakanlega gagnsýrður af siðalögmálum hins alþjóðlega kommúnisma, svo að um fornar og nýjar dyggðir eru þeir á annarri bylgjulengd en venjulegt fólk. En látum það liggja á milli hluta hér.

Það vandamál, sem íslenzkir stjórnmálamenn eiga við að glíma í dag, er atvinnu- og fjárhagskerfi landsins. Það er óneitanlega gengið úr skorðum. Það er staðreynd, að fiskveiðar landsmanna bera sig ekki í dag. Um þetta liggja fyrir margvísleg opinber gögn, m. a. reikningar bæjarútgerðanna í landinu. En hver er ástæðan til þessa hallarekstrar og hvaða leiðir eru finnanlegar og færar til þess, að útgerðin megi bera sig? Þar greinir menn á. Og fyrsta spurning, sem í hugann kemur, er þá þessi: Er útgerðinni illa stjórnað? Væri hún betur komin í höndum annarra en þeirra, sem nú gera út? Eða þurfum við annað rekstrarform? Áður fyrr heyrðist oft, að bjargráðið væri þjóðnýting togara og báta. Nú bólar miklu sjaldnar á þeirri kenningu, enda tjóar engum að halda því fram, að opinber rekstur fiskiskipanna yrði til þess, að þau bæru sig. Við höfum þegar allmörg opinber útgerðarfyrirtæki. Ýmsum þeirra er ágætlega stjórnað, en reynslan sýnir, að halli þeirra er sízt minni en hjá útgerð einstaklinganna, svo að ekki sé meira sagt.

Því hefur verið hreyft hér í umr., að útgerðarmálin mundu leysast með því að taka upp nýtt félagsform fyrir útgerð, framleiðslusamvinnufélög. Um það skal ég ekki dæma, en sjálfsagt er að reyna þá leið líka við hlið annarra. En það ætla ég mála sannast, að íslenzkir útvegsmenn hafi sýnt dugnað og fyrirhyggju í starfi og eigi fremur skilið lof en last.

Næsta spurning, sem rís, er, hvort útvegurinn geti fengið hærra verð fyrir fisk og fiskafurðir en nú fæst. Mest af afurðunum er selt til útlanda, og þar ráðum við ekki verðlagi, en við getum sýnt ötulleik í öflun hinna beztu markaða, og er unnið ósleitulega að því í mörgum löndum, en mikið af fiskinum er unnið í landi, í frystihúsum og öðrum vinnslustöðvum. Í því efni er mikilsvert, að útvegsmenn eigi vinnslustöðvar eða hluti í þeim, eins og nú er orðið töluvert um. Togaraeigendur í Reykjavík hafa fyrir forgöngu bæjarútgerðarinnar sótt um kaup á fiskiðjuveri ríkisins til þess að fullkomna það og auka afköst þess. Eru nú horfur á, að úr þeim kaupum verði. Fiskvinnslustöðvar eru oft og víða ekki starfræktar nema tæpan helming sólarhringsins. Það er tjón fyrir þjóðfélagið, að nýtingartími þessara dýru og afkastamiklu véla og tækja skuli ekki vera lengri. Það þarf að vinna að því, að þessi hús og tæki verði í gangi, þegar hráefnið er til, allan sólarhringinn með vaktavinnu til hagsbóta fyrir alla aðila.

Hv. stjórnarandstæðingar segja, að ýmsir milliliðir mergsjúgi útgerðina og með því að svipta þá þessum ofsagróða verði allt í lagi.

Ég hef farið nú á ný yfir reikninga nokkurra af togurum bæjarútgerðar Reykjavíkur til að aðgæta, hversu miklu nemi þessir liðir, sem sagt er að svo sé okrað geigvænlega á. Það verður fyrst fyrir, að langsamlega stærsti útgjaldaliður togaranna er kaup og fæði skipverjanna. Ég býst ekki við, að stjórnarandstæðingar vilji láta lækka kaupið né draga úr fæðinu. Næsti liður er kostnaður í höfn hér og erlendis, að langmestu leyti vinnulaun og innflutningstollar erlendis, sem við ráðum ekki við. Þá eru næst tryggingagjöld, en það er samtrygging íslenzkra botnvörpunga eða samvinnu- og sameignarfélag togaranna sjálfra, sem annast þá tryggingu. Þá kemur fyrning, 8½%, og má hún vissulega ekki minni vera.

Þessir liðir, sem ég hér hef talið, eru langsamlega mikill meiri hluti útgerðarkostnaðar togaranna. Það eru þá eftir þrír liðir, sem mætti ætla að þetta mikla okur eigi sér stað á, þ. e. kaup á veiðarfærum, olíu og svo viðgerðir skipanna. Að því er snertir viðgerðir skipanna, þá er það svo hjá bæjarútgerð Reykjavíkur, að sérstakur vélaeftirlitsmaður hefur það starf eitt að fylgjast nákvæmlega með því, að þar sé allt rétt og samvizkusamlega gert í viðgerðum og reiknað með réttu verði. Varðandi veiðarfæri annast útgerðin sjálf innkaup á miklu af veiðarfærum, og þannig er það með bátaútveginn, að landssamtök útvegsmanna hafa sína eigin innkaupadeild, sem annast í sífellt vaxandi mæli innkaup til útgerðarinnar. Þá er það olían, sem oft er mest haldið: í lofti. Varðandi þetta útgerðarfyrirtæki, sem ég nefndi, þá er bæjarútgerðin eins og fleiri togaraeigendur stór hluthafi í Olíufélaginu ásamt samvinnufélögum landsins, Hún er því að nokkru leyti að verzla við sjálfa sig með viðskiptum við það félag. En að því leyti sem bæjarútgerðin skiptir við hin olíufélögin, þá er þar sama verð og sömu kjör og hjá Olíufélaginu.

Þegar litið er yfir þessa stærstu útgjaldaliði og málið skoðað ofan í kjölinn, þá ætla ég, að harla lítið standi eftir af gífuryrðum stjórnarandstæðinga um hinn mikla milliliðagróða, sem sé aðalorsök að rekstrarhalla útvegsins. En þótt lítið verði úr þessum fullyrðingum, þá er engu að síður sjálfsagt að kanna til hlítar, hvort álagning eða hagnaður einhverra aðila sé meiri en hóflegt er, og þess vegna hafa þm. Sjálfstfl. borið fram till. á Alþ. um allsherjarrannsókn á svokölluðum milliliðakostnaði.

Hæstv. forsrh. og fjmrh. hafa rökstutt rækilega í þessum umr. gerðir þings og stjórnar í þessu vandamáli og skýrt ástæður til þess, að stjórnarflokkarnir hafa valið þá einu leið, sem talin er fær nú, og það eru nýjar álögur til að greiða rekstrarhalla útvegsins. Að vísu er mjög deilt um það, hvort hinar nýju álögur séu óþarflega miklar. Um sumar þeirra er ógerlegt að fullyrða fyrir fram, hve miklu nemi. En það er skylda þeirra, sem ábyrgðina bera, að sjá fyrir nægum tekjum, til þess að útgerðin geti gengið, og í því efni verður fyrst og fremst að byggja á áætlunum þeirra ráðh. og sérfræðinga, sem þær hafa gert eftir nákvæma rannsókn og beztu vitund.

En hver eru þá úrræði stjórnarandstæðinga? Vilja þeir gengislækkun? Nei, það vilja þeir ekki. Vilja þeir kauplækkun? Nei, það vilja þeir ekki. Nýja tekjuöflun til að standa undir hallanum? Nei, það vilja þeir ekki. Hvert er þá bjargráð þeirra? Jú, eitt er allra meina bót, vinstri stjórn, stjórn hinna vinnandi manna, Hermanns og Hannibals. Þá er málið leyst. Þetta hafa þeir örugglega reiknað út, þessir miklu reiknimeistarar, af engu minni fimi en sjálfur Sólon Íslandus, þegar hann að sögn Davíðs Stefánssonar reiknaði tvíbura í eina afríkanska, og var annar hvítur og hinn svartur.

Nú má að vísu lengi ræða jafnskemmtilegt rannsóknarefni og vinstri og hægri. Í hinni helgu bók, biblíunni, segir prédikarinn: „Hjarta viturs mann stefnir til hægri, en hjarta heimskingjans til vinstri.“ En annars er hugtakabrenglið með hægri og vinstri orðið allkátbroslegt. Upphaflega mun vinstri pólitík hafa táknað frjálslyndi og framsókn. Nú er svo komið, að hið ófrýnilegasta afturhald, kúgun og skefjalaust ófrelsi vill kalla sig vinstri stefnu, og nú er það umræðuefni víða um heim, hvort Poujade hinn franski, sem vill afnema alla skatta og lætur þm. sína sverja sér blinda hlýðni og hollustu að viðlagðri hengingu, sé lengst til hægri eða lengst til vinstri. Og hvernig mundi svo starfið og stefnan vera, ef þessari svokölluðu vinstri stjórn yrði einhvern tíma hleypt af stokkunum? Hér er skammur tími til að lýsa öllu því brambolti og árekstrum, sem yrðu innanborðs á þeirri fleytu, en eitt vil ég segja þeim þúsundum manna, sem vantar íbúðir og bíða með óþreyju eftir sómasamlegu húsnæði, að stærsti flokkurinn í væntanlegri vinstri stjórn, Framsfl., telur það nú aðalmein Íslendinga, hve mikið sé byggt af íbúðum. Það virðist því vera höfuðkrafa Framsfl. við myndun slíkrar stjórnar og forsenda hennar, að stórlega yrði dregið úr íbúðabyggingum.

En hvernig á að halda verðlagi í skefjum, halda hóflegri álagningu og dreifingarkostnaði? Reynsla flestra annarra þjóða er sú, að heilbrigt verðlag fæst til lengdar hvorki með ströngu verðlagseftirliti né með einokun, heldur með heilbrigðri samkeppni og frjálsri verzlun. Það er farið í kringum verðlagsákvæðin, og svartur markaður blómgast í skjóli þeirra. Og einokun er háskaleg fyrir almenning, hvort sem hún er ríkiseinokun eða hringamyndun fyrirtækja, sem útiloka samkeppni.

Fyrir okkur Íslendinga er tímabært orðið að fá löggjöf til verndar frjálsri, heilbrigðri verzlun gegn voldugum verzlunar- og auðhringum. Bandaríkin riðu á vaðið fyrir mörgum árum, síðar komu Bretar. Á síðustu tveim árum hafa bæði Danir og Svíar endurskoðað löggjöf sína og sett nýja til að koma í veg fyrir ofurveldi og einokunaraðstöðu forréttindaaðila og til þess að vernda og tryggja hina frjálsu samkeppni, sem þessar þjóðir telja að færi almenningi bezta vöru við lægstu verði. Sérstakt ráð vakir yfir framkvæmd þessara mála, bæði í Svíþjóð og Danmörku. Ég tel nauðsynlegt, að Alþ., sem nú situr, láti undirbúa slíka löggjöf hér á landi.

Ágreiningurinn milli landsmanna, milli stétta innbyrðis um laun, um skiptingu arðsins, er eitt okkar mesta vandamál, sem leiðir oft til langvarandi vinnustöðvana til óbætanlegs tjóns. Hvað eftir annað hriktir í stoðum hins íslenzka þjóðfélags út af slíkum átökum. Það er vissulega orðin fullkomin nauðsyn, að þjóðfélagið geri allt, sem í þess valdi stendur, til þess að koma á meiri skilningi og samkomulagi milli stéttanna innbyrðis, milli vinnuveitenda, hvort sem það eru einstaklingar eða opinberir aðilar, og verkalýðssamtakanna. Lögin um sáttatilraunir á sínum tíma og vinnulöggjöfin síðar miðuðu vissulega í rétta átt. En það eru margar fleiri leiðir, sem koma til greina. Sjálfstæðismenn hafa á stefnuskrá sinni að koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri. Og fyrir þinginu liggur nú till., flutt af 3 þm. Sjálfstfl., í þá átt að athuga, á hvern hátt þing og stj. geti stuðlað að eflingu slíks fyrirkomulags. Ef hægt er að finna leið til þess, að verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn og aðrir starfsmenn yrðu ýmist meðeigendur eða meðstjórnendur í atvinnufyrirtækjum, um leið og unnt yrði að halda grundvelli hins frjálsa athafnarekstrar og kostum hans, en forðast ágalla þjóðnýtingarinnar, þá væri mikið og stórt skref stigið til aukins vinnufriðar.

Síðasta Alþ. samþ. að fela ríkisstj. að stofna til samvinnu við atvinnurekendur og kaupþegasambönd um skipulagningu vinnubragða og vinnukjara, og er það góðra gjalda vert. En nú er ástandið þannig, að fulltrúar atvinnurekenda og verkamanna eiga litlar viðræður og samskipti, nema þegar kaupgjaldsdeilur eru í aðsigi. Verulegar samningaviðræður hefjast oft og tíðum ekki fyrr en báðir aðilar eru búnir að magna lið sitt til að standa fast á sínum málstað. Síðan er deilt og karpað vikum og mánuðum saman, oft koma langvarandi vinnustöðvanir, og loks þegar allir eru orðnir dasaðir, fæst einhver lausn, eftir að þjóðfélaginu hefur stundum nær blætt til ólífis. Hér þarf að breyta um og það á tvennan hátt. Annað er að stofna til stöðugrar samvinnu, viðtala og kynningar milli forráðamanna stéttarfélaga og vinnuveitenda, ekki þannig, að hlaupið sé til, þegar vinnudeila er yfirvofandi, heldur eigi slík samvinna sér stað allan ársins hring með reglubundnum samtalsfundum. Tilgangurinn með þessu er, að vinnuveitendur kynnist óskum verkamanna um bætt lífskjör, bæði varðandi kaupgjald, vinnuvernd og annað, og jafnframt að verkamenn fái glöggar upplýsingar um fjárhag og afkomu atvinnuveganna. En jafnframt þessu þyrfti í sambandi við slíka samvinnu að fara fram nákvæm hagfræðirannsókn á hverjum tíma um afkomu og greiðslugetu atvinnuveganna og um það, hvaða kaupgjald þeir þola. Um leið og atvinnurekendur geta með réttu haldið því fram, að kaupgjald megi ekki hækka, þegar atvinnuvegurinn sannanlega þolir það ekki, eins er hitt sjálfsagt mál, að þegar afköst aukast og afkoma atvinnugreina batnar, þá eiga starfsmennirnir rétt á því að gerast þátttakendur í þeim hagnaði.

Góðir hlustendur. Núverandi ríkisstj. hefur undir forustu formanns Sjálfstfl., Ólafs Thors, hrundið áleiðis mörgum stórvirkjum á sviði húsnæðismála, raforkumála og fleiri markverðra þjóðmála. Ef þeim öflum verður ágengt, sem sundra vilja núverandi stjórnarsamvinnu, skulum við vinna að því, væntanlega að undangengnum nýjum kosningum, að hér taki ekki við völdum svokölluð vinstri stjórn, máttvana og sjálfri sér sundurþykk, heldur frjálslynd og víðsýn umbótastjórn sjálfstæðismanna, sem stýrir þjóðinni styrkri hendi áfram veginn til vaxandi hagsældar og menningar.