01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, sagði, að landbrh. berðist fyrir því að leggja niður grænmetisverzlunina. Þetta er algerlega rangt. Það, sem hér er á ferðinni, er frv. til l. um að fela framleiðsluráði, þ. e. a. s. forustu bændastéttarinnar í afurðamálum, að reka grænmetisverzlunina. Hér er verið að flytja fram sjónarmið Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Það er alveg óskylt þessu máli, að grænmetisverzluninni hefur verið prýðilega stjórnað. Hér er um skipulagsbreytingu að ræða.

Hv. 7. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, sagði m. a., að stærsti flokkurinn í væntanlegri vinstri stjórn, þ. e. a. s. Framsfl., teldi það helzta bölið, að of mikið væri byggt af íbúðum. Af góðgirni er nú mælt. Það sanna í þessu máli er það, að Framsfl. hefur haft forustu um lánastarfsemi vegna íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og sveitum einnig. Áður en Framsfl. tók upp þessa forustu, var ekkert gert að gagni í þessum málum. Ef Framsfl. réði þessum málum til fulls einn, mundi hann beita sér fyrir því, að með hagkvæmum aðferðum og meiri hófsemi en nú tíðkast yrði hægt að koma upp fleiri íbúðum handa almenningi með minni fjárfestingu en nú á sér stað.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að reyna að krafsa hér í bakkann út af þeirri kenningu sinni, þ. e. a. s. kommúnistarnir, að það væri hægt að verðbæta fiskinn með skipunum og þess vegna þyrfti ekki að leggja á almenning nein gjöld. Hv. 11. landsk. var að þessu hér áðan og sagði, að m. a. vegna þess, að Brúarfoss og Selfoss væru svo lágt bókaðir á reikningum Eimskipafélagsins, væri hægt að gera þetta. En ég skil bara ekki, að það geri neitt mögulegra að borga fiskuppbæturnar með Brúarfossi og Selfossi, þó að þeir séu ekki hærra færðir á efnahagsreikningi en sem svarar einu sófasetti. Það eru rök, sem fara fyrir ofan garð hjá mér.

Ég benti á það í þessu sambandi, sem er alveg óyggjandi og stendur fast, að rekstrarfjárskortur margra þessara félaga, þótt þau séu vel efnuð, sem ættu að láta eignir sínar í fiskuppbætur, er þannig, að bankarnir eru í standandi vandræðum með að sjá þeim fyrir rekstrarfé, þannig að liggur við stöðvun. Hvar eiga þessi félög þá að fá lán út á eignir sínar? Eða ætlast þessir hv. þm. til þess, að þeir borgi fiskuppbæturnar með skipunum, olíutönkunum og skuldabréfunum?

Þetta er ekkert annað en einn blekkingarvefur, svo sem þessum hv. þm. er sjálfum vel ljóst, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt, því miður, að greiða fiskuppbætur öðruvísi en af sjálfum þjóðartekjunum. Það er ekki hægt að taka þær af eignunum, það verður að greiða þær af þjóðartekjum hvers árs.

Varðandi einstaka þætti þessa máls, t., d. eins og það, að af því að Olíufélagið ætlar að kaupa olíuflutningaskip, þá hljóti það að eiga peninga í sjóði, sem það geti látið í fiskuppbætur, þá er það að segja, að Olíufélagið getur ekki keypt þetta skip, nema það fái allt andvirðið að láni eins og það leggur sig. Að maður svo sleppi ekki því, sem má vera eins og innan sviga í þessu sambandi, að fyrirtæki eins og Samvinnutryggingar t. d. úthlutar sínum hagnaði. Sama er að segja um skipadeild Sambandsins, að því leyti sem þar verður afgangur umfram afskriftir, þá kemur það neytendunum til góða í sambandi við viðskipti þeirra við samvinnuhreyfinguna. Það er sama, hvar í þetta er gripið. Hér er bara um sjónhverfingar að ræða, því miður. Það væri ekki vandasamt að leysa þessi mál, ef hægt væri að taka einhverja 3–4 aðila í landinu úr og segja: Þið skuluð leggja fram eignir ykkar til að borga fiskuppbæturnar.

Þó að till. hv. 1. landsk. þm., Gylfa Þ. Gíslasonar, sé að mörgu leyti skynsamleg, og vafalaust kemur að því, að það verður að skattleggja verðbólgugróðann í gegnum stórfellda eignarskatta, þá er ekki heldur hægt að borga fiskuppbætur með því móti af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að innheimta slíkan skatt nema á talsvert löngum tíma, eins og gert var með stóreignaskattinn.

Þá hefur því verið haldið hér fram í umræðunum af Brynjólfi Bjarnasyni og fleiri þm. kommúnista, að nú væri svo komið, að 5 manna fjölskylda ætti að borga 27 þús. kr. í ríkisgjöld og til framleiðslusjóðsins af tekjum sínum. Allir, sem hlusta á þetta, gætu haldið, að þetta væri þannig, að menn ættu að borga af einkatekjum sínum 27 þús. kr., t. d. maður, sem hefði 50–60 þús. kr. tekjur, ætti að láta 27 þús. af því til ríkisins og í framleiðslusjóðinn. En vitanlega er þetta alls ekki svona. Þetta er herfilegasta blekking, og það vita þeir, sem flytja þetta fram. Dæmið kemur ekki svona út af þeirri einföldu ástæðu, að geysilega mikill hluti af þessum fjárhæðum er borgaður af óskiptu, áður en mönnum eru mældar út tekjurnar í launum. Ég lét fyrir rúmu ári athuga á hagstofunni, hvað borgað væri í ríkissjóð af 40 þús. kr. tekjum, og þá sýndi það sig, að það voru 2700 kr. Að vísu var þá ekki búið að taka til greina það, sem menn greiddu í óvenjulega álagningu á tóbak og áfengi, ef það var notað á heimilinu. En þegar það var tekið frá, þá var greiðslan 2700 kr. Þetta er svolítið önnur mynd og réttari af því, sem láglaunafólk greiðir til ríkisþarfa, en vitanlega breytist þetta og hækkar allt verulega við það, sem nú er verið að gera. En þær tölur, sem þessir hv. þm. hafa verið að nefna í þessu sambandi, eru hreinar blekkingar.

Þá get ég ekki stillt mig um að minnast hér á einn búhnykkinn, sem hv. 8. landsk., Bergur Sigurbjörnsson, hefur minnzt á í þessum umræðum og oft áður á hv. þingi, en það er að afnema söluskattinn. Hann segir, að það eigi að gera þetta til þess að lækka ríkisútgjöldin og að það sé alveg óhætt, því að það lækki ríkisútgjöldin og þá jafnist allt af sjálfu sér.

Söluskatturinn er nú 120 millj. Hann nemur rúmlega 4 vísitölustigum. Vísitalan mundi lækka um rúmlega 4 stig, ef hann væri afnuminn. Hvert stig kostar í útgjöldum ríkissjóðs 1 millj. og 200 þús. til 1½ milljón. M. ö. o.: Ríkissjóður mundi missa 120 millj. kr. tekjur, en sparast mundu 5–6 millj. kr. útgjöld. Helzt mætti ætla af röksemdafærslu hv. 8. landsk., Bergs Sigurbjörnssonar, að það væri mestur búhnykkur fyrir ríkissjóð að afsala sér öllum tollunum og öllum sköttunum til þess að lækka vísitöluna og þannig mundu útgjöldin eyðast af sjálfu sér um leið. Upp á svona speki er mönnum boðið.

Manni hefur skilizt, að þjóðvarnarmönnum væri mjög mikið í mun að fá skrúfað frá útvarpinu þessa dagana til þess að geta látið sitt ljós skína. Það væri því ekki ófyrirsynju, þó að það væri minnzt svona í allri vinsemd á þá sérstaklega og það, sem þeir hafa að leggja til lausnar þeirra vandamála, sem nú liggja fyrir. Þeir lögðu fram í haust till. um vandamál framleiðslunnar, sú till. er óbreytt enn, og henni var lýst með nokkru yfirlæti á mánudaginn var. Þeir virðast nokkuð grobbnir af þessari till. og buðu m. a. upp á, að hún ætti að vera grundvöllur að samstarfi um lausn vandamálanna.

Tillaga þeirra er í sem allra stytztu máli sú að afnema söluskattinn, eins og ég gat um áðan, og vera á móti allri nýrri tekjuöflun, en það mundi þýða hátt á annað hundrað millj. kr. greiðsluhalla á fjárlögunum. En þá er þó ótalið aðalpúðrið, en það er að afnema á einu bretti bátagjaldeyrishlunnindin, rekstrarframlag til togaranna og yfirleitt allan beinan stuðning við útgerðina. Þetta mundi jafngilda því að svipta sjávarútveginn hátt á þriðja hundrað millj. kr. af þeim tekjum, sem menn nú meta að honum sé alveg óhjákvæmilegt að fá, a. m. k. ef sæmileg eigi að vera afkomuvonin.

Þessi bjargráð Þjóðvarnar mundu jafngilda algeru rothöggi á sjávarútveginn og kippa alveg fótunum undan afkomu manna, ekki aðeins í sjávarplássunum, heldur að vörmu spori allra annarra.

Þá leggja þeir til, að þegar svona hefur verið búið í haginn fyrir framleiðsluna við sjóinn, séu fiskiðjuverin afhent útgerðarmönnum og fiskimönnum og þeim sagt að sigla sinn sjó við algerlega vonlaus, bókstaflega glórulaus rekstrarskilyrði. Það er ekki furða, þótt mönnunum væri mál á að komast í útvarpið með þessa speki. Þetta mundi jafngilda fullkominni hraðfrystingu alls athafnalífs í landinu, ef nokkur tæki till. þeirra alvarlega.

En nú hefur einnig komið í ljós, að þeir áttu fleiri erindi í lónið. Þeir höfðu vantrauststill. í pokahorninu, sem þeir lögðu fram og kröfðust að kæmi til atkvæða, áður en næst væri skrúfað frá útvarpinu. Auðvitað fengu mennirnir þessum vilja sínum framgengt, sem sjálfsagt var. Þessi vantraustsskrípaleikur þeirra þjóðvarnarmanna mun lengi í minnum hafður á Alþ. Þeir vita, að ríkisstj. er með samþykki stuðningsflokka sinna nýbúin að gera samninga við framleiðendur um stuðning, sem þarf að lögfesta. Engum gæti dottið í hug, að annar hvor stjórnarflokkurinn efndi til stjórnarslita í miðju kafi, þegar verið er að lögfesta samninginn. Þó að þjóðvarnarmenn séu skrýtnir, þá er það þó áreiðanlegt, að þeim datt þetta ekki heldur í hug. Þeir vissu, að þetta mundi ekki ske. Þess vegna var vantraust þeirra broslegur skrípaleikur. En það, sem liggur á bak við, er alvarlegra. Margir álíta sem sé, að þessi vantraustsflutningur eigi að verða þeirra skálkaskjól við áframhaldandi klofningsstarfsemi forustuliðs flokksins í þágu íhaldsins og kommúnistanna. Það á eftir að koma betur í ljós, hvort þetta er rétt eða ekki, en vita mega hinir svokölluðu fyrirmenn í þessu liði, að slíkt verður ekki vinsælt.

Öll er framkoma þeirra þjóðvarnarforkólfa hér með slíkum endemum um þessar mundir, að minnisstæð verður. Viðreisnarplanið, yfirlætið, sleggjudómarnir og svo þar innan um þetta vísindalega útreiknaða, slóttuga vantraustsplan, eða hitt þó heldur, sem sýnir aðeins, hvernig fer, þegar menn vilja leika refsins list, eiga fláttskapinn, en vantar klókindin.

Og um hinn sléttmála fyrirliða þjóðvarnarmanna á Alþ., hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, hefur það eftirminnilega komið í ljós við þessi viðbrögð öll, að honum lætur betur að flytja fræðilegar vangaveltur um heimspeki varnarleysisins en að fást við refskák þá, sem félagar hans vilja láta hann leika hér á hv. Alþ. Hann ætti að halda sér við hinar áferðargóðu vangaveltur áfram.

Annars hefur Þjóðvfl. ýmsum baráttumálum hreyft; það er ekki því að neita. Það má minna á skúrmálið, söluskattsmál flokksformannsins, brotajárnsmálið og nú loks málið um að leggja niður tveggjaeyringana, sem út af fyrir sig er skynsamlegt mál. En það finnst bara mjög mörgum, að það væri mjög skynsamlegt einnig að leggja niður tveggjaeyringana í pólitíkinni. Læt ég svo útrætt um þjóðvarnarmenn að sinni.

Form. Framsfl., hv. þm. Str., Hermann Jónasson, gerði grein fyrir afstöðu Framsfl. til vantrauststillögu þjóðvarnarmanna með svofelldri yfirlýsingu af flokksins hálfu:

„Framsóknarflokkurinn hefur þegar gert samkomulag um afgreiðslu þeirra mála, sem nú liggja fyrir Alþingi varðandi bráðabirgðastuðning við framleiðsluna. Núverandi ríkisstj. beitir sér fyrir þessum bráðabirgðastuðningi samkv. samningi, sem hún hefur gert við samtök framleiðenda. Framsóknarflokkurinn mun því ekki efna til stjórnarslita á þessu stigi. Á hinn bóginn skapast ný viðfangsefni að lokinni afgreiðslu þessara umsömdu mála. Þess vegna hefur undanfarið verið unnið að undirbúningi flokksþings framsóknarmanna, er tæki ákvarðanir um afstöðu flokksins til hinna nýju viðhorfa.“

Til viðbótar þessum skýringum er það eitt að segja, að Framsfl. ákveður sjálfur, hvenær hann efnir til stjórnarslita eða stjórnarmyndunar, en fer ekki eftir því, hvort einhverjum þóknast að kasta fram vantrauststillögu.

Samkvæmt þessu verður kallað saman flokksþing framsóknarmanna, og mun það verða snemma í marz. Verður auglýst nákvæmlega næstu daga, hvenær það verður haldið. Því er ætlað þýðingarmikið verkefni, og bið ég framsóknarmenn um allt land að fara nú þegar að undirbúa sókn á þingið.

Ég kem þá loks örlítið að kommúnistum. Kommúnistar töldu sig vist leggja vel í ofninn í vor. Þeir vissu nákvæmlega, hvað á eftir hlaut að koma, og telja nú mál til komið að blása í glæðurnar og hella olíu á eldinn, sem þeir undirbjuggu þá.

Þeir tala mikið um braskarana, en sannleikurinn er sá, að sú pólitík, sem þeir reka, er fyrst og fremst vatn á myllu braskaranna. Enginn græðir á verðbólguástandi eins og einmitt braskarar og blóðsugur. Kommúnistar gætu ekki þjónað þeim betur en þeir gera, þótt þeir væru beinlínis í þeirra þjónustu upp á hlut. Þeirra verkalýðspólitík gefur verkalýðnum ekkert í aðra hönd, enda er hún byggð á allt öðrum starfsaðferðum og allt annarri stefnu en annars staðar þekkist, þar sem umbótasinnað alþýðufólk ræður verkalýðssamtökunum sjálft án íhlutunar kommúnista.

Kommúnistar vita, að fleiri og fleiri sjá þetta. Þeir eru því hræddir; það er auðheyrt á tali þeirra. Fólk skilur, að leiðin til kjarabóta er ekki sú að láta kommúnista hækka kauptaxtana í stórum stökkum, sem svo kemur engum að gagni. Menn vita, að það, sem á að gera, er að hækka í áföngum og eiga af alefli þátt í ábyrgu þjóðmálastarfi til þess að tryggja, að kauphækkanir komi að því gagni, sem þjóðfélagsástæður frekast leyfa. Kommúnistum er ljóst, að fleiri og fleiri skilja, að kjarabaráttan er svo skyld stjórnmálabaráttunni, að alþýðustéttirnar þurfa að eiga sem mestan beinan þátt í stjórn landsins til þess að tryggja sinn hag. Kommúnistar vita líka, að fleiri og fleiri sjá, að það er þeim talsmönnum alþjóðakommúnismans að kenna, að alþýðustéttirnar við sjávarsíðuna á Íslandi eiga ekki jafnríkan þátt í stjórn landsins og þær ættu og þyrftu að eiga. Þess vegna er nú rétt einu sinni sunginn samfylkingarsöngurinn af hálfu kommúnista og svo á milli, að það standi á hinum, nákvæmlega eins og þegar sá, sem stal, reyndi að draga frá sér athyglina með því að skora sem fastast á aðra að grípa þjófinn.

Kommúnistar misnota allan þann trúnað, sem þeim er sýndur, með því að einangra verkalýðinn pólitískt, honum til stórtjóns og landinu til mikils skaða. Og enn eru þeir við sama heygarðshornið og þó mest þegar þeir hrópa hæst um samfylkingu og samstarf. Til vandamálanna hafa þeir ekki annað að leggja en marklaus yfirboð og sjónhverfingatillögur, en höfuðstefna þeirra er, svo sem aldrei hefur komið greinilegar fram en í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar á mánudagskvöldið, sú hin sama og áður, að Ísland eigi að reka sömu pólitík og leppríki Sovétlýðveldanna í Austur-Evrópu. Á þessum mönnum að haldast uppi áfram að leika sundrungar- og klofningsleik sinn? En hann munu þeir leika og sundrunginni munu þeir viðhalda, nema alþýða landsins taki í taumana og styðji önnur öfl til valda. Kommúnistar vita, að þetta skýrist, og þess vegna eru þeir nú hræddir, enda er það ekki að ástæðulausu.