01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

1. mál, fjárlög 1956

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það má segja, að verið hafi eitt sameiginlegt í ræðum hv. stjórnarandstæðinga í þessum eldhúsdagsumræðum, að umfram allt þurfi nú að taka upp nýja stjórnarstefnu. Sumir orða þetta þannig, að nú dugi ekkert minna en að hið vinnandi fólk taki stjórnartaumana í sínar hendur, aðrir, að mynda þurfi vinstri stjórn íhaldsandstæðinga eða eitthvað því um líkt, en enginn — alls enginn, gerir hina minnstu grein fyrir, hver hin nýja stjórnarstefna á þá að vera.

Að vísu hafa stjórnarandstæðingar flutt brtt. við frv. ríkisstj. um framleiðslusjóð til stuðnings útveginum, en einnig þar eru þeir sjálfum sér sundurþykkir, engin heildarstefna. Alþýðuflokksmennirnir eru með gömlu úrræðin, að leggja skatta á eignarauka; nú á það að vera allt frá 1940. Þetta á að vera skattur á verðbólgugróða, að því er sagt er, miðast við gangverð eigna, það á að framkvæma birgðatalningu og skrásetja verðbréf. Menn muna eftir eignaraukaskattinum í tíð fyrstu stjórnar Alþýðuflokksins á Íslandi. En mig minnir bara, að stjórnin hafi verið farin frá, áður en kom að því að innheimta skattinn. Hins vegar var í stað þess skatts lagður á og innheimtur stóreignaskattur í samstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna með gengisbreytingalögunum. Alþýðuflokksmenn eru ekki teknir hátíðlega, þegar þeir nú þykjast vilja leggja á eignaraukaskatt 15 ár aftur í tímann, en slík framkvæmd gæfi mörgum höndum mikil skrifstofustörf að vinna.

Brtt. kommúnista eru þeim líkar. Það á bara að taka það fé, sem þarf til stuðnings útgerðinni, af nokkrum fyrirtækjum, bönkum, olíufélögum, skipafélögum, vátryggingarfélögum, verktökum o. s. frv.

Hvaða gagn yrði nú útgerðinni að þessu ímyndaða eignarnámi?

Slíkt er of gagnsæ sýndarmennska, til þess að hægt sé að eyða orðum að henni, eins og aðrir hafa sýnt fram á á undan mér. Hvað meina þessir menn með þessu? Á að taka skipin og húseignirnar af Eimskipafélaginu, af skipaútgerð Sambandsins? Jú, Lúðvík Jósefsson sagði: Eftir reikningum Eimskipafélagsins eru 68 millj. í sjóði. Það má taka þetta fé. — Nú vill svo til, að Eimskipafélagið er nýlega búið að fá leyfi til þess að endurnýja tvö skipa sinna, og með þeirri þörf, sem það hefur fyrir endurnýjun skipanna og vörugeymsluhúsa, verður ekki mikill afgangur af þessu fé. Þess vegna er þetta bara spurning um það, hvort eigi að framkvæma með sérstökum hætti eignarnám. Mér dettur ekki í hug að halda, að Lúðvík Jósefsson og kommúnistar séu sjálfir svo skyni skroppnir, að þeir meini nokkurn skapaðan hlut með þessum till. Það lætur vel í munni að taka peninga, sem þarf, af stórgróðafyrirtækjum og bröskurum. En sem betur fer líta ekki landsmenn svo á, að Eimskipafélagið eða skipaútgerð Sambandsins eða ýmsir aðrir aðilar, sem þarna eru nefndir, séu af þessu sauðahúsi.

Útlán bankanna hafa verið gerð að umtalsefni í sambandi við stuðninginn við útgerðina. Gylfi Þ. Gíslason sagði, að stöðva þyrfti óstjórn bankanna, og Einar Olgeirsson var að tala um stórlán til heildsala og að Útvegsbankinn væri orðinn fjölskyldufyrirtæki. Ég vil af þessu tilefni taka eftirfarandi fram:

Öll útlánaaukning Útvegsbanka Íslands á s. l. ári er í þremur lánaflokkum, og af útlánaaukningunni fær sjávarútvegurinn 92.4%.

Útlánaaukningin að öðru leyti fer svo í tvo staði, til raforkuframkvæmda og íbúðalána í sambandi við samning við hæstv. ríkisstj. Þegar gróði banka, sem fyrst og fremst er af öðrum tekinn. en útgerð, sem nýtur sérstakra vaxtakjara og hlunninda, er allur notaður í þágu útgerðarinnar sjálfrar, fer að fara lítið fyrir stóryrðum manna hér um útlánastarfsemi bankanna í sambandi við útgerðina. Þetta held ég að ætti að nægja til þess, að þeir hefðu minna um sig, sem ekki virðast hafa vitað, hvað þeir voru að segja í þessu efni.

Þetta er þeim mun eftirtektarverðara, þar sem útlán til útgerðar af heildarlánum Útvegsbankans að undanförnu hafa ekki numið nema milli 40 og 50%, en eru 92–93% af útlánaaukningunni á s. l. ári, þegar útgerðin barðist mest í bökkum.

Ég kann varla að hafa eftir öll hin ógurlegu stóryrði um Sjálfstfl., sem Gylfi Þ. Gíslason viðhafði hérna, um öll þau ódæði, sem þessi flokkur á að hafa sýnt af sér í ríkisstj. Hvað hefur Sjálfstfl. gert í núverandi stjórnarsamstarfi nema í samstarfi við Framsfl.? En þegar kom að honum, var allt annað hljóð í prófessornum. Langur kafli af ræðunni var bænakvak til Framsfl., sem þó hefur unnið öll þessi ægilegu ódæði í samstarfi við Sjálfstfl.

Ég verð nú að segja: Þetta er of mikill fláttskapur, mér liggur við að segja aumingjaskapur, til þess að þingmenn eigi að haga málflutningi sínum þannig. Og það hlýtur að hafa komið eitthvað illa við hv. þm. að heyra þær undirtektir, sem hann fékk hér áðan hjá hæstv. félmrh. Mér sýndist hann ekkert vera hrifinn af bónorðinu.

Nei, við vitum því miður helzt til lítið, hvað þeir vilja, þessir ágætu andstæðingar okkar, eftir umr. í fyrrakvöld og nú. Annað er það, að þeir vilja ekki það, sem þjóðin hefur átt við að búa á undanförnum árum. Það má skyggnast örlítið um farinn veg til þess að ganga úr skugga um það, sem nú á að vera mest nauðsyn að hverfa frá með nýrri stjórnarstefnu og nýjum stjórnarherrum.

Ég skal koma að þeim málum, sem nokkuð hefur borið hér á góma og eru á hverjum tíma veigamikil.

Stjórnarandstæðingar segja, að fjárfestingin sé óeðlileg, hóflaus, stefni í beinan voða. Hvað felst í þessu umbúðalaust? Að þeir telja byggingu íbúðarhúsa allt of öra. Það er hægt að hindra þessa þróun með nýrri stjórnarstefnu, skömmtun byggingarefnis, nýju fjárhagsráði og höftum, sem öllum almenningi eru reyndar í fersku minni. En mundi slíkt afturhvarf vera spor í rétta átt? Ég bið menn að hugleiða eftirfarandi: Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð í september 1953, var samið um tvennt varðandi húsnæðismálin, að létta af fjárfestingarhömlum með því, að frjálst skyldi að byggja íbúðir af hóflegri stærð, og að tryggja aukið fjármagn til íbúðabygginga og leggja grundvöll að því að leysa þetta vandamál til frambúðar. Aukið jafnvægi í þjóðfélaginu með stöðugu verðlagi og geysihagstæðri sparifjármyndun árin eftir gengisbreytinguna réttlættu þessar ráðstafanir og gerðu þær framkvæmanlegar, enda þurfti nú jafnframt að bæta úr margra ára skorti á húsnæði, húsnæðiseklu, sem var orðin alvarlegt þjóðfélagsböl eftir margra ára aðhald haftaáranna. Það væri mikið lánleysi að hindra þá þróun, sem hér er í miðjum klíðum.

Strax á fyrsta þingi núverandi ríkisstj. var byggingarfrelsið innleitt. Lengri tíma tók að leggja grundvöll að nýrri skipan lánsfjármálanna. Var því fyrst byggt í skjóli hinnar öru sparifjáraukningar, sem er mjög athyglisverð. Árin 1950 og 1951 var sparifjáraukningin 15–16 millj. kr. hvort árið, en 1952 94 millj., 1953 177 millj. og 1954 170 millj., m. ö. o. á þremur árum 442.5 millj. kr. Er það þeim mun athyglisverðara þegar haft er í huga, að í árslok 1949 námu allar sparifjárinnstæður landsmanna aðeins 563.8 millj. kr.

Frá því að ríkisstj. tók við í september 1953 og þar til eftir verkfallið mikla á s. l. ári hafði verðlag haldizt nær óbreytt eða vísitala framfærslukostnaðar aðeins hækkað um 3 stig, úr 159 í 162 stig, og var þetta mikilvægt til þess að halda byggingarkostnaði niðri. Nú er enn fremur svo komið, að hið nýja veðlánakerfi hefur hafið göngu sína á liðnu ári, og er við það miðað, að það geti orðið landsmönnum jafnt að liði, hvort sem þeir búa til sjávar eða sveita.

Þróunin í húsnæðismálunum hefur því færzt stig af stigi í rétt horf á liðnum árum. Það hafa aldrei jafnmargar íbúðir verið í smíðum hér í Reykjavík og nú. Þær munu vera um 1808 eftir skýrslu byggingarfulltrúa og þar af 835 fokheldar. Það hefur því miður tekið of langan tíma að ljúka íbúðabyggingum að undanförnu sökum skorts á vinnuafli, þar sem svo mörg járn hafa verið höfð í eldinum. En ef við gerum aðeins ráð fyrir, að framangreindum íbúðum verði öllum að fullu lokið á þrem árum, og er það varlega áætlað, og þar við bættust aðeins 300 íbúðir, sem ekki er enn byrjað á, en fulllokið yrði á sama árabili, þá mundi það samtals nema 2700 íbúðum á árunum 1955–57; og sé reiknað með 4–5 manns í íbúð, skapast hér nýtt íbúðarhúsnæði fyrir 9450 manns. Ef fólksfjölgunin á sama tíma yrði söm og síðustu ár, þá mundi hún nema á þessum þremur árum 3900 manns. Ætti þá að vera til ráðstöfunar nýtt húsnæði fyrir 5550 manns, sem nú eru búsettir hér, en það samsvarar um 1200 íbúðum, miðað við 4–5 manns í hverri, til útrýmingar á herskálum og endurnýjunar á öðru lélegu húsnæði í bænum, en herskálaíbúðirnar munu nú vera rúmar 500 talsins. Þegar þetta er haft í huga, er augljóst, hversu gífurlega þýðingu hefur að leggja nú meginkapp á að ljúka sem fyrst því húsnæði, sem í smiðum er. Við það ætti því öðru fremur að miða aðgerðir og ráðstafanir opinberra aðila, bæjar, ríkis og lánsstofnana, á næstunni. Þá er hægt að létta mörgum lífsbaráttuna og bæta óumræðilega aðstöðu hinnar uppvaxandi kynslóðar.

Andstæðingar stjórnarinnar í þessum umr. hafa mikið talað um hrun og upplausn. Ef litið er yfir þjóðfélagsþróunina í heild síðustu árin, sjáum við örari vöxt á flestum sviðum en nokkru sinni áður. Hin stórhuga áætlun um rafvæðingu landsins á 10 árum, sem felst í núverandi stjórnarsamningi, er í hraðri framkvæmd. Bátafloti landsmanna er í hraðri nýsköpun. Kostnaðarverð nýrra fiskibáta, smíðaðra hérlendis og keyptra erlendis frá, hefur tvö s. l. ár numið um 40 millj. kr. Fiskveiðasjóður er sú lánsstofnun, sem þessi nýsköpun hefur hvílt á. Á 50 ára afmæli sjóðsins í nóvember s. l. var búið að veita loforð um lán til afgreiðslu á næstu mánuðum um 18 millj. kr., en aðrar fyrirliggjandi lánsbeiðnir um 41 millj. kr. Þá var handbært fé sjóðsins aðeins 16 millj. Síðan hefur hann fengið 10 millj. af tekjuafgangi ríkissjóðs s. l. ár. Þessar tölur tala sinu skýra máli um hina hröðu nýbyggingu bátaflotans og þar af leiðandi miklu fjárþörf. — Byggingarstarfsemin í landinu er meiri en nokkru sinni áður. Ræktun landsins er stórstígari en nokkru sinni áður. Atvinna næg handa öllum, sem vilja vinna.

Það er svo að sönnu rétt, að ekki hefur auðnazt að tryggja þá efnahagsþróun, að atvinnuvegirnir væru reknir halla- og styrkjalaust. Þess vegna er nú óhjákvæmilegt, að Alþ. leggi nýjar álögur á almenning til að tryggja útflutningsframleiðsluna í landinu. í þessu felst aðvörun. Sú aðvörun var reyndar gefin fyrir fram, bæði af hæstv. forsrh. og fjmrh. í ársbyrjun 1955, að ef stofnað væri til kauphækkana að ófyrirsynju og þar af leiðandi aukinnar verðbólgu, mundi framleiðslustarfsemin ekki fá undir því risið og afleiðingarnar yrðu engum til ávinnings. Hefur þetta því miður komið of berlega fram. En það væri mikil missýn að telja þá kominn tíma til að fela þeim mönnum forsjá þjóðfélagsmálanna, sem haft hafa forgöngu um að grafa undan þeirri stefnu, að framleiðslustarfsemi sé rekin styrkjalaust á heilbrigðum grundvelli, en í því efni eiga hv. stjórnarandstæðingar meira og minna sök. Þeir sjá þetta líka sjálfir, og neyðarlegri sönnun þess var naumast hægt að fá en vantraustsandvarp þjóðvarnarmanna á þingi í gær. Umræðurnar um vantraust á hæstv. ríkisstj. stóðu í nokkrar mínútur, og þar með var því máli lokið.

Það má ef til vill til sanns vegar færa, eins og hæstv. viðskmrh. vék að, að nokkur ofvöxtur sé í okkar litla þjóðfélagi. Ég sagði ofvöxtur, en ekki hrun, ofvöxtur, sem einkennist þá af því, að undirstöðuatvinnuvegunum, útflutningsframleiðslunni, er ekki ætlað það rúm til jafns við aðra, sem henni ber, þar sem afkoma almennings veltur á afrakstri hennar, og einnig hinu, að allir keppast um að framkvæma kannske fullört miklar framkvæmdir og gera fullmiklar kröfur til þæginda lífsins.

Með því hins vegar að hefja framleiðslustarfsemina til vegs, ætla henni það rúm, sem henni með réttu ber, miðað við aðrar starfsgreinar þjóðfélagsins, er víst, að fyrir hendi eru í íslenzku þjóðfélagi meiri tækifæri og möguleikar í dag en oftast áður til þess að tryggja öllum góða afkomu og almenningi örugga framtíð. Góða nótt.