31.01.1956
Efri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

17. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 17 um breyt. á l. um tilkynningar aðsetursskipta, er til staðfestingar á brbl. frá 25. ágúst s. l., en þessi brbl. voru sett á þessum tíma til þess að bæta úr örðugleikum á framkvæmd tilkynningarákvæða þeirra laga. Í aths. við frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skrár þær, miðaðar við 1. des. ár hvert, sem allsherjarspjaldskráin lætur sveitarstjórnum í té, eru grundvöllur álagningar allra opinberra gjalda í landinu, og auk þess eru kjörskrár og ýmsar aðrar skrár á þeim byggðar. Skiptir því meginmáli, að þær séu sem fyllstar og réttastar, en til þess að svo megi verða um skrárnar 1. des. 1955, þarf að lögfesta nefndar breyt. nú þegar, þar sem tíma þarf til að láta gera eyðublöð til samræmis og dreifa þeim um landið, áður en haustflutningar hefjast.“

Eins og ráða má af þessu, er frv. þetta flutt til að gera tilkynningarákvæðin gleggri og skýrari en þau voru í lögum þeim, er nú gilda um þetta efni.

Allshn., sem hafði frv. til meðferðar, fór þess á leit við hagstofustjóra, að hann mætti á fundi nefndarinnar til umr. um málið, og varð hann góðfúslega við því. Ræddi n. við hann um frv. og lögin í heild og framkvæmd þeirra, en þetta atriði, framkvæmdin, einkum hvað snerti manntalið sjálft, hafði hv. þm. V-Sk. gert að umræðuefni við 1. umr. málsins. Hann sat einnig fund nefndarinnar ásamt hagstofustjóra, þegar málið var rætt í nefndinni.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta mál. Brbl. eru sett vegna þess, að komið var í ljós, að l. frá 1952 þurfti að breyta í þessa átt, og eins og ég hef tekið fram, er frv. þetta til staðfestingar á þeim. Brtt. þær, sem n. flytur á þskj. 321, eru fluttar að beiðni hagstofustjóra og stefna í þá átt eins og frv. sjálft að gera tilkynningar um aðsetursskiptin gleggri og ákveðnari en þær eru nú í l. En undir þeim er komið, hvort allsherjarspjaldskrá hagstofunnar nær tilgangi sínum, því að nú er það svo í framkvæmdinni, að í stað þess að taka manntal á hverju ári, eins og áður var gert, eru allar breytingar, sem tilkynntar eru á aðsetri fólks í hverju sveitarfélagi, færðar inn á spjald hvers einstaklings í allsherjarspjaldskránni og íbúaskrár, kjörskrár og aðrar skrár, sem sveitar- og bæjarfélögin fá frá allsherjarspjaldskránni, afhentar þannig leiðréttar. Og ef allar breytingar um aðsetursskipti, fæðingar og dauðsföll eru tilkynnt á réttum tíma og á réttan hátt, verða þessar skrár réttar. Er augljóst, hvert öryggi er í þessu, ef þetta er í lagi, og hver vinnusparnaður, a. m. k. fyrir stærri sveitarfélög, sem urðu að taka manntalið sjálf á hverju ári, og öll þau stærstu hafa starfandi manntalsskrifstofur með mörgu starfsfólki.

Eins og segir í nál. allshn. á þskj. 320, leggur n. til, að brtt. á þskj. 321 verði samþ. og frv., þannig breytt, samþykkt.