21.11.1955
Neðri deild: 21. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa á undanförnum árum allmörgum staðið yfir fjárskipti í miklum hluta landsins vegna mæðiveikinnar svonefndu, sem að vísu er meira en einn sjúkdómur, en gengur nú almennt undir því nafni, og í sambandi við þetta hefur landinu, bæði byggðum og öræfum, að miklu leyti verið skipt niður í ákveðin fjárskiptasvæði með girðingum, og þótt búið hafi verið að framkvæma fjárskipti í einu slíku hólfi eða svæði, þá hefur girðingunum víða verið haldið við vegna ótta við, að upp kynnu að koma í einhverjum af þessum hólfum sömu pestir aftur, því að að sjálfsögðu var, eins og allir vita, engin vissa fyrir því, að útrýmingin heppnaðist að fullu í fyrstu umferð. Nú kom það upp í fyrra, árið 1954, að í tveimur af þessum hólfum varð vart við mæðiveiki, að því er fræðimenn telja. Það er í fyrsta lagi hólfið, sem að miklu leyti tekur yfir Dalasýslu, þar sem girt er úr Hvammsfirði yfir Laxárdalsheiði og í Hrútafjörð annars vegar, og hins vegar að norðanverðu úr Gilsfirði í Bitru, sem er stutt girðing, eins og við vitum, en þó geysilega erfið vegna landshátta. Í þessu hólfi eru sjö hreppar, sex þeirra eru í Dalasýslu og einn í Strandasýslu. Að vísu er ekki algerlega fylgt hreppamörkum, en þó má segja, að meginlínurnar liggi þannig. Einnig kom upp eitt tilfelli í Hjaltadal í því geysistóra hólfi, sem þar er, Skagafjörður og aðliggjandi héruð að miklu leyti. Þar var ekki nema ein kind, sem talin var grunsamleg og var drepin og svo drepið niður í fyrrahaust á tveimur eða þremur bæjum, held ég, í Hjaltadal til öryggis.

Síðan hefur ekkert orðið vart við neitt grunsamlegt tilfelli á þessum stað þrátt fyrir ýtarlegar rannsóknir nú í haust, svo að það er vonazt til þess, að þar með hafi tekizt að uppræta veikina þar norður frá, hafi þá verið vissulega um slíkt sjúkdómstilfelli að ræða, sem getur verið náttúrlega dálítið erfitt að dæma um í öllum tilfellum. En í bili a. m. k. hefur alveg verið horfið frá því, að nokkrar ráðstafanir þyrfti að gera þar, eins og nú standa sakir, til frekari útrýmingar veikinnar. Hins vegar var það svo í Dalasýsluhólfinu, eins og það er nefnt, að í fyrrahaust var þar drepið á nokkrum bæjum allt fé, og komu þá upp nokkrar kindur, ég man nú ekki hve margar, sem taldar voru sýktar af mæðiveiki.

Við slátrun í haust kom það fram, eins og nokkurn veginn mátti telja víst, að þessi pest var að útbreiðast þarna vestur frá. Þannig hefur það sýnt sig, að í tveimur hreppum þarna, Laxárdal og Hvammshreppi, hafa komið fram sjúkdómseinkenni á 350 kindum nú í haust og sumar, á fé, sem drepið hefur verið. Bendir það til þess, að þarna sé um tiltölulega mjög mikla sýkingu að ræða. Utan þessara hreppa hefur ekki orðið beint vart við sýkina, en féð gengur vitanlega saman innan svæðisins meira og minna, og má því telja nokkurn veginn víst, að sýkin sé komin í miklu fleiri hreppa á þessu svæði. Og af þessum ástæðum, sem ég nú hef nefnt, var ákveðið samkvæmt till. sauðfjársjúkdómanefndar og með samþykki ríkisstj. allrar, að allt fé skyldi skorið niður í tveimur hreppum í þessu hólfi nú í haust, þ. e. a. s. í Laxárdal og Hvammshreppi. Þetta hefur þegar verið framkvæmt, og það, sem ég nefndi áðan um, að það hefðu fundizt einkenni í 350 kindum, er miðað við þann niðurskurð og það, sem komið hefur í ljós í sambandi við hann.

Nú eru að vísu ákvæði í sauðfjárskiptalögunum, sem gilda um ráðstafanir eins og þær, sem nú voru gerðar, og þurfti raunverulega ekki að breyta lögum, og samkvæmt þeim ákvæðum var niðurskurðurinn ákveðinn í haust í þessum tveimur hreppum. Hins vegar þótti miklu öruggara og landbrn. féllst algerlega á að setja sérstök lagaákvæði um útrýmingu í þessu hólfi nú strax, og væri það þá gert með viðauka við núverandi fjárskiptalög, og það er af þeim ástæðum, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fram borið. Það má kannske að einhverju leyti segja, að það sé of seint fram borið, þar sem búið er að framkvæma fjárskipti í hluta af þessu hólfi, en það voru full lagaákvæði fyrir því að gera slíkar ráðstafanir, en öruggara þykir að ákveða nú þegar útrýmingu á fjárstofninum þarna í hólfinu, og það er ætlazt til, að á næsta ári verði útrýmt, þ. e. drepið niður það fé, sem enn er eftir í hólfinu, sem munu þá vera fimm hreppar, eftir því sem ég nefndi áðan, eða mikill hluti af fimm hreppum. Það má telja nokkurn veginn víst, að sýkin sé eitthvað komin í fjárstofn þeirra hreppa, sem eftir eru, þó að þess hafi ekki orðið vart enn, og þótti því ekki ástæða til að hefja útrýmingu í haust og þá m. a. af erfiðleikum með að geta tekið á móti svo miklu af sláturafurðum, sem þar féllu til, og væri því betra að skipta þessu á tvö ár. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt samkvæmt till. sauðfjársjúkdómanefndar, og í henni eru fimm menn, sem hafa reynt, eftir því sem unnt er, að kynna sér þetta ástand og ekki sízt í því hólfi, sem nú er um að ræða.

Auk þeirra ákvarðana, sem gerðar eru í þessu frv. um niðurskurð í þessu hólfi á þessum árum, ern hér einnig allmiklar breytingar um bætur til þeirra, sem skorið er niður hjá, og eru bæturnar hækkaðar verulega frá því, sem verið hefur, og ég held það sé samhljóða álit allra, sem með þessi mál hafa farið, að þegar svo hörmulega tekst til, að það verður að skera niður oftar en einu sinni, jafnvel þrisvar sinnum kannske á sama svæði, til að losna við vágest eins og þann, sem hér er um að ræða, þá er ekki nokkur leið, að hægt sé að halda búandfólki við að búa á slíkum svæðum öðruvísi en bætur séu hækkaðar verulega frá því, sem er, þó að um eina útrýmingu sé að ræða á fénu og ein fjárskipti. Ég held því, að sú leið, sem hefur verið farið inn á með þessu frv., að lögfesta hækkun á bótum ekki einungis til þeirra, sem skorið er hjá nú í haust, heldur einnig til þeirra, sem skorið verður hjá næsta haust, þegar alger útrýming á að fara fram í þessu hólfi, sé algerlega sjálfsögð og réttlát. Það er ekki í þágu neins hluta þjóðfélagsins, að viss héruð landsins verði fyrir óbætanlegu tjóni af því, að það verði í fleiri skipti að ganga svo nærri mönnum að drepa bústofn þeirra, sauðféð, að öllu leyti og láta menn vera atvinnulausa, eins og alltaf verður að meira eða minna leyti nokkurn hluta ársins í sambandi við þetta, þó að verulegar bætur séu greiddar frá ríkinu. Ég hef því talið alveg sjálfsagt, að auknar bætur yrðu veittar í sambandi við slíka ógæfu eins og hér hefur átt sér stað og ef til vill kann að koma upp víðar. Annars vil ég leyfa mér að segja það, að hvert árið sem líður frá sauðfjárskiptunum gefur meiri vonir um, að það heppnist að útrýma mæðiveikinni, báðum sjúkdómunum, ég veit ekki, hvað margar þær tegundir kunna að vera. Það gefur miklu meiri vonir um það, og þetta ár er að mínum dómi sérstaklega ánægjulegt að því leyti. Það hefur ekkert fundizt grunsamlegt í sambandi við það eina tilfelli, sem vart varð við norður í Skagafirði í fyrra, og það, sem hefur komið upp í Dalasýsluhólfinu, er aðeins það, sem allir máttu vera viðbúnir að hlaut að koma, eftir því sem komið var upp í fyrra, og hefði kannske mátt búast við, að það væri í enn stærri stil. Þess vegna verð ég að segja það, að ég var í öndverðu ekki mjög trúaður á fjárskiptin, vegna þess að ég var alltaf hræddur um, að erfitt yrði að eyðileggja síðasta gerilinn, síðasta sjúkdómsvaldinn að mæðiveikinni, þannig að henni væri algerlega útrýmt. Þó verð ég að segja, að sú starfsemi, sem hefur verið höfð í þessu sambandi, og sá árangur, sem náðst hefur, hefur gefið mér miklar vonir um, að þetta geti tekizt. Það er a. m. k. ekkert vit í öðru nú en að stefna að því einhuga, og það hefur ríkisstj. ákveðið að gera, m. a. með því að fylgja því frv., sem hér er fram borið. Við teljum, að með þeim auknu bótum, sem eru um þriðjungshækkun frá því, sem áður hefur verið veitt, sé sauðfjáreigendum á þessu svæði veitt geysimikil bót. Það er alltaf erfitt að dæma um það, hvað nóg er, til þess að menn hverfi ekki frá sínu lífsstarfi og reyni að leita annarrar atvinnu, en ég tel, að hér sé þó mjög vel veitt, ef ég á að segja eins og ég meina í þessu efni. Hins vegar hefði verið mikið glapræði að ganga skemmra í þessu máli, og það er með þetta sjónarmið, sem ég hef leyft mér að leggja þetta frv. hér fyrir hið háa Alþingi.

Það verður framkvæmt á næstu árum að útrýma mæðiveikinni í Dalahólfinu. Það er búizt við, að útrýming á þessu svæði kosti ríkissjóð um 16 millj. kr. á fjórum árum. En ég verð að segja, að það er lítil fórn, ef heppnaðist þar með að kæfa þennan sjúkdóm á þessu svæði algerlega og sérstaklega ef það yrði svo samhliða, að ekki kæmu upp aðrar ógnir annars staðar í sambandi við þetta, sem að vísu er ómögulegt að segja ákveðið um, en mér finnst þó, að við getum með nokkrum vonum borið fram, þar sem ekki hefur neitt nýtt komið upp í þessu máli nú síðustu árin. Og hvert árið sem líður tryggir betur og betur, að fjárskiptin hafi orðið til þess að drepa niður sjúkdómsvaldinn og fá hraustan stofn inn í héruðin.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. landbn., fyrst og fremst til 2. umr. og að því loknu til hv. landbúnaðarnefndar.