06.12.1955
Neðri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. N-Þ. hefur gert grein hér fyrir afstöðu n. til þessa frv., sem hér um ræðir, auk þess sem hæstv. landbrh. gerði mjög glögga grein fyrir frv., þegar hann hafði framsögu fyrir þessu máli. Ég vil taka það strax fram, svo að það valdi ekki neinum misskilningi, að ég met mikils þær lagfæringar, sem gerðar eru þarna á lögum um sauðfjársjúkdómavarnir. Mér er það vel ljóst, að ef engar breytingar hefðu farið fram á þessum lögum nú, hefðu fjárskipti a. m. k. í Dalahólfi nú orðið óhugsandi, ef ætlazt hefði verið til, að bændur sætu að búum sínum áfram. En ég tel jafnframt, að þessar tillögur, þó að þær valdi miklum lagfæringum á löggjöfinni, gangi of skammt. Að vísu eru ástæður bænda misjafnar, en það þýðir ekki að einblína á þá, sem geta staðið af sér hörðustu hretin, heldur verður einnig að hafa hina í huga, sem maður veit að búa við hin lakari skilyrði, og þess vegna hef ég leyft mér að koma fram með brtt., sem ég tel að eigi að bæta aðstöðu þeirra sérstaklega, sem verr eru á vegi staddir í þessum efnum.

Við skulum taka eitt dæmi. Tökum bónda, sem á 100 fjár, og hann fargar því og fær fyrir þessar 100 kindur á sláturstað 27 þús. kr., og hygg ég þó, að það sé kannske fullhátt verð undir mörgum kringumstæðum. Nú liður eitt ár, sem hann er fjárlaus, og næsta haust fengi hann bætur samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, um 27 þús. kr., og ég tek nákvæmlega sömu bótatölu og ég veit að sauðfjársjúkdómanefnd hefur tekið í sína útreikninga til fjvn., sem hún hefur lagt fyrir Alþingi. Þessi maður gæti haft til fjárkaupa haustið eftir að hafa verið sauðlaus eitt ár 54 þús. kr. Nú getur hann fengið og vill fá 100 lömb að nýju, og við skulum segja, að þessi lömb, sem hann fær, séu álíka væn og þau lömb, sem hann lét á sláturstað árið áður, og það er enn fremur vitað mál, að á undanförnum árum hefur verðlag á líflömbum verið um það bil 10% hærra en niðurlagsverð á lömbum, eða dilkum, svo að þessi lömb, sem hann kaupir, mundu kosta nálægt 40 þús. kr. Eftir eru þá um það bil 14 þús. kr., sem hann hefði til að leggja fram fyrir sig og sína fjölskyldu á því ári, sem í hönd færi.

Það þarf náttúrlega ekki að vera að fjölyrða um þessa hluti hér, vegna þess að það sér hver heilvita maður, að 14 þús. kr. eru harla lítill hluti til þess að lifa af fyrir eina fjölskyldu og það jafnvel þó að eitthvað falli til af öðrum tekjum, enda er ekki um það að ræða, vegna þess að þar, sem fjárskipti hafa farið fram fyrirvaralaust, hefur ekki verið hægt að hagræða búskapnum þannig, að þessar aðrar tekjur yrðu ýkjamiklu meiri en þær hefðu þá verið undanfarandi ár. Það þarf að borga af skuldum. Fjöldi bænda hefur byggt og ræktað á undanförnum árum og þarf því að borga mikið af skuldum sínum, hvort sem þeir hafa fjárstofn eða ekki, og það eru ekki miklar framkvæmdir, sem búið er að gera hjá þeim bónda, sem skuldaði — við skulum segja milli 50 og 60 þús. kr. við hin betri kjör í Búnaðarbanka Íslands, en þarf þó að greiða af þeim milli 5 og 6 þús. kr. í vexti og afborganir á ári, svo að það fer nú að sneiðast af þessum 14 þús., sem eftir voru eftir fjárkaupin. Þá verður kostnaður við heyöflun sá sami, því að engum dettur í hug að bera ekki áburð á tún né heldur að slá ekki ræktað land. Það er einnig fyrir fram vitað, að nýi fjárstofninn verður fyrsta veturinn að vera í húsi, og það er gert ráð fyrir því einmitt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, til þess að hættan vegna fjárskiptanna verði minni, þ. e. a. s. ef eitthvað skyldi út af bera, svo að kostnaðurinn verður allmiklu meiri. Það er líka vafasamt um arðinn af þessum kindum fyrsta og fyrstu árin, því að þær eru óhagvanar, og því vill oft fara misjafnlega um fé, þar til það venst umhverfinu. Þótt lítið sé um búfé á heimilum, komast bændur ekki að heiman í vinnu, enda hæpið að til falli arðberandi vinna, sem hægt er að stunda jafnframt öðrum heimilisstörfum. Það er því um tvennt að velja fyrir bændur, annaðhvort að vera heima yfir litlu og lifa í trú og von um betri fjárhagsafkomu eða fara og farga þeim fáu skepnum, sem eftir eru, og fá sér þá vinnu í því gósenlandi, sem vinnumarkaðurinn hér á landi hefur að bjóða nú í dag.

Þeir bændur, sem að mínu áliti fara verst út úr fjárskiptum, eru þeir, sem hafa fátt fé, jafnvel talsvert innan við 100 fjár, en hafa fóðrað vel og ræktað það svo, að arðurinn hefur verið góður, kannske allt að 2/3 ánna tvílembdar. Þessir bændur fá tiltölulega litlar bætur, þar sem allar bætur samkv. þessum lögum miðast við fjártölu, en ekki arð af sauðfjárbúunum. Og eftir að þeir hafa fengið fjárstofn að nýju, tekur það mörg ár að rækta fjárstofninn svo, að hann gefi álíka mikinn arð og sá stofn, sem þeir urðu að farga vegna fjárskiptanna. Samkvæmt mínum brtt. mundi þessum mönnum verða gert kleift að fá sér fjárstofn að nýju, sem óvíst er annars að þeir legðu í, ef þeir sæju fram á búskaparbasl og fjárhagsörðugleika næstu árin.

Það má einnig á það benda, að allir æskumenn og konur, sem að heiman komast, fara burt í vinnu og óvíst um afturkomu þess fólks, nema því aðeins að það verði búið það vel að heimilunum, að þau geti eitthvað greitt þeim fyrir vinnu sína, þegar þau koma heim, ef þau kæmu heim að nýju.

Ég vænti þess, að hv. þingmenn fallist á brtt. mína, því að hún er flutt af knýjandi þörf, sem mér er vel kunnugt um. Alþingi gefst þess kostur nú að gera það upp við sig, hvort treysta eigi um of á manndóm og fórnfýsi þess fólks, sem þarna á hlut að máli, eða tryggja því fjárhagslegt öryggi, svo að það geti haldið áfram búskap sínum. En svo er hægt að herða hnútinn hart á sviði fjárhagsafkomu þessa fólks, að það hverfi burt til blómlegri halla, og það tel ég ekki vera farsælt, hvorki fyrir land né þjóð. Það kann aldrei að fylgja því farsæld, að blómlegar byggðir leggist í auðn, en þetta vofir yfir, ef ekki er sómasamlega gengið frá þessum málum hér nú.

Ég vænti því þess, að hv. þm. samþ. brtt. mína, en hún er, eins og till. ber með sér á þskj. 162, þess efnis, að ríkið greiði mismuninn á ærverðinu til innleggs og dilksverðinu til kaups. Þetta mundi verulega bæta afkomu þeirra bænda, sem verst eru á vegi staddir.