06.12.1955
Neðri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja, en ég vil fyrst þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. N. hefur flutt hér þrjár brtt. á þskj. 161, sem ég get fallizt á að öllu leyti. Ég tel, að meginbrtt. sé fyrsta till. n., og kann að vera, að það hafi einhver aukin útgjöld í för með sér, en ég tel það, sem þar kemur fram og hv. frsm. n., þm. N-Þ., lýsti áðan, réttmætt og því sjálfsagt að samþ. þá brtt. Hinar brtt. get ég mjög vel fallizt á einnig og tel því, að n. sem slík hafi afgreitt þetta mál vel, þannig að ríkisstj., sem að frv. stendur, megi vel við una.

Einn nm., hv. þm. Dal., hefur nú lýst sinni brtt. á þskj. 162, sem fer fram á allmikið auknar bætur frá því, sem var í frv. því, sem ríkisstj. flutti hér sem stjórnarfrv. Ég skil mætavel afstöðu hv. þm. Dal. Það vita náttúrlega ekki fyllilega aðrir en í það komast, hvaða erfiðleikar eru því samfara, þar sem þarf að framkvæma niðurskurð á búfé hvað eftir annað, og mér er það mjög ljóst, og það hefur orðið jafnvel á vissum stöðum í mínu kjördæmi, Skagafjarðarsýslu, að skera þrisvar niður. Og það hefur ekki verið ánægja með þá hluti, síður en svo. Í sambandi við það getur jafnvel skapazt heift hjá vissum mönnum út af því, að ríkisvaldið sé að grípa þarna inn í hluti, sem því kannske komi ekki mjög mikið við og ekkert vit sé að fara með eins og það ályktar að skuli gert. En þó hafa allar þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í niðurskurðarmálum, þótt sjálfsagt megi benda á einhver mistök þar eins og annars staðar, og skal ég ekkert inn á það koma, staðfest það, að enn höfum við geysimikla von um, að takast megi að útrýma vissum búfjársjúkdómum, þ. e. a. s. mæðiveikifaraldrinum, með niðurskurði. Það eru mjög miklar líkur til þess, eins og enn er, hvað sem næstu ár kunna að bera í skauti sínu. Það vitum við aldrei. Og það er það, sem við verðum, Alþingi, löggjafarvaldið og ríkisstjórnin, sem fer með framkvæmdavaldið, að treysta á, að þetta sé enn hægt, og verður þá að skipa málum þannig, að hvort tveggja sé gert að vinna af fullri einbeitni að útrýmingu pestarinnar eða pestanna og hins vegar að gera því fólki, sem verður fyrir þessum ógurlegu búsifjum hvað ofan í annað, þó mögulegt að lifa. Þess vegna skil ég það mætavel, að þingmaður kjördæmis, sem verður fyrir öðru eins afhroði og Dalasýsla verður, þar sem á að skera niður svo að segja í allri sýslunni, sé í sambandi við þetta kröfuharður fyrir hönd sinna umbjóðenda, að miklar bætur séu greiddar. Það er ósköp eðlilegt og sjálfsagt. En ég vildi í þessu sambandi aðeins minna á það, að í því frv., sem hér liggur fyrir og er í meginatriðum óbreytt enn, eftir að hv. landbn. hefur skilað sínu áliti og sínum brtt., er gert ráð fyrir mjög verulegum bótum frá því, sem áður hefur verið ákveðið í lögum vegna niðurskurðarins. Og þetta var gert út frá því, sem sauðfjársjúkdómanefnd lagði til og ríkisstj. féllst á, að þetta væri algerlega nauðsynlegt til þess að gera bændunum þarna kleift að halda við búum sínum, þó að niðurskurður færi nú fram í annað skipti. Og það var svo lítið á af þeim mönnum, sem um þetta fjölluðu, undirbúning þessa frv., að með þessu væri gengið langt til móts við bændurna í Dalasýslu um það að fá sómasamlegar bætur, þó að tekið sé tillit til þess, að þarna er verið að skera niður í annað skipti og erfiðleikar þeirra því sívaxandi hvað þetta snertir.

Ég vildi leyfa mér að taka þetta fram, en skal ekki fara að ræða málið að öðru leyti. Ég gerði það nokkuð hér við 1. umr. málsins og skal ekkert fara að endurtaka af því. En sú till., sem hv. þm. Dal. hefur hér flutt, samrýmist ekki því samkomulagi, sem var í ríkisstj. um bætur vegna fjárskipta í Dalasýslu, og af þeim ástæðum legg ég á móti því, að sú brtt. verði samþykkt. Ég sé mér ekki fært annað en leggja til, að Dalamenn verði að sætta sig við þær bætur, sem felast í frv. eins og það var borið fram í fyrstu, með þeim breytingum þó, sem að vísu eru aðeins litlar, en felast í sameiginlegum till. landbn.

Það var þetta, sem ég aðallega vildi leyfa mér að taka hér fram, þó að ég endurtaki það aftur, að ég skil mjög vel afstöðu hv. þm. Dal. og veit, að á hann muni vera mjög ýtt af sínum umbjóðendum, til þess að lengra sé gengið í þessu máli en enn hefur verið gert með því frv., sem hér liggur fyrir.