20.01.1956
Efri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er búið að fara í gegnum Nd. og er að finna á þskj. 166. Þegar við nm. fórum að fara í gegnum þetta frv. og bera það saman við núgildandi lög í þessum málum, sem hafa verið tvenn, önnur frá 1947 og hin frá 1950, komumst við að þeirri niðurstöðu, sem ég hef oft komizt að áður og kannske líka hinir meðnm. mínir, að það væri ákaflega óaðgengilegt fyrir allan almenning í landinu að eiga að leita að gildandi lagaákvæðum um sama mál á mörgum stöðum og það væri þess vegna miklu réttara að færa þetta saman og fella brtt. inn í lögin og láta lögin koma ein og afnema eldri lögin, þannig að menn á einu blaði — í einum lögum — gætu séð, hvað gilti í þessum málum. Um þetta vorum við allir sammála. Við töluðum svo við yfirdýralækninn og Guðmund Gíslason, sem hefur haft mest með sauðfjársjúkdómavarnirnar að gera fræðilega séð, sömuleiðis við forstjóra þeirra, Sæmund Friðriksson, og töluðum við þá um ýmsar fleiri breytingar, sem okkur fannst að þyrftu að koma í lögin. Nokkrar af þessum breytingum hafa þegar verið framkvæmdar, eru sumpart alveg framkvæmdar og að öðru leyti reynt að framkvæma þær af sauðfjársjúkdómavörnunum. Þessar umræður enduðu með því, að við erum sammála um að taka upp nokkrar fleiri breytingar en frv. á þskj. 166 gerir ráð fyrir, og þetta birtist nú allt saman í einu lagi á heildarþingskjalinu, sem nú liggur fyrir og er nr. 247. Þar eru lögin eins og þau mundu verða, eftir að þau hefðu verið samþ. af Alþ. í heilu lagi.

Áður en ég byrja að lýsa breytingunum, vil ég aðeins geta þess, að á einni grein, sem við erum búnir að ganga frá og er að finna hér og ég kem að seinna, viljum við helzt fá breytt ofur lítið orðalagi aftur, og ég mun leggja fram fyrir hönd nefndarinnar skriflega brtt. viðvíkjandi þeirri einu grein. (Forseti: Við þessa umr.?) Já, við þessa umr., áður en ég lýk máli mínu. En þetta er engin eða mjög lítil efnisbreyting. Ég hef ekki náð í einn nm. til að bera það undir hann, en ég hygg, að hann sé með því líka, ég hygg, að það sé óhætt að segja það.

Brtt. eru prentaðar með breyttu letri í frv. Hv. þm. geta þess vegna fljótar áttað sig á, hverju er breytt, heldur en ella, því að sannleikurinn er sá, að það að flytja fram brtt. við frv., kannske ein lög, tvenn lög, þrenn lög á einu stóru skjali, er í raun og veru aldrei gert til annars en að þm. veitist léttara að átta sig á breytingunum. Það er meiningin með því, en almenningi veitist alltaf miklu óhægara að vita, hvað lög eru á eftir. En til þess að taka af þingmönnum þann kaleik að þurfa að bera allt saman, hafa breytingar frá eldri lögum verið prentaðar með breyttu letri, svo að þetta kæmi sem greinilegast fram.

Þá er það fyrst 1. gr. í frv. á þskj. 166. Það er fyrsta breytingin, sem kemur fram við heildarlögin og er prentuð hér undir lið 2 á frv. Henni höfum við breytt dálítið. Í þessu er veruleg breyt. frá því, sem nú er í lögunum, ekki frá því, sem var í frv., eins og það var lagt fyrir þingið. Hún er í því innifalin, að það er ætlazt til, að tvær nýjar fjárpestir, annars vegar riða og hins vegar kýlapest, séu teknar inn sem næmir sjúkdómar, sem það opinbera eigi að reyna að hefta útbreiðslu á og kveða niður, ef mögulegt er. Brtt. okkar við 1. gr., eins og hún er í frv. eins og það kom frá Nd., er í því innifalin, að við setjum latnesku nöfnin á sjúkdómana, og þess var alveg sérstaklega þörf um riðuveikina, af því að hér á landi ganga fleiri sjúkdómar, mjög ólíkir og misjafnlega hættulegir, undir nafninu riða. Enn fremur er það, að það verður gefin út sérstök reglugerð viðvíkjandi þessum sjúkdómum, af því að það á ekki það sama við um ráðstafanir til að hefta útbreiðslu þessara sjúkdóma nema að nokkru leyti og ráðstafanir til að hefta útbreiðslu garnaveikinnar og mæðiveikinnar. Þess vegna er greinin dálítið öðruvísi orðuð, en breytingin er yfirleitt ósköp lítil frá því, sem hún er í 1. gr. frv., eins og það kom frá Nd., og eiginlega bara til frekari áherzlu og frekari skýringar.

Þá komum við með brtt. undir lið 4, það eru reyndar fleiri breyt., en það er þar, sem við erum með aftur enn eina brtt., sem ég legg fram skriflega til forseta.

Fyrsta breytingin, sem þarna er um að ræða, er það, að áður var svo fyrir mælt, að varnargirðingarnar skyldu standa og haldast við í fjögur ár. Við leggjum til, að það verði níu ár, komi níu ár í staðinn fyrir fjögur. Þetta byggist á því, að það er talið hæpið, að fyrr en eftir níu ár fáist úr því skorið, hvort einhver veiki, mæðiveiki sérstaklega, sem skorið hefur verið niður fyrir, sé raunverulega búin eða ekki. Það er nú svo, að sauðfé gengur með hana allt að 3 árum, þangað til sýking kemur greinilega fram. Þá er hugsunin þessi, að ef einhver kind hefur smitazt og tekið veikina í nýju hólfi, þar sem veikin var ekki áður, þá kemur veikin fyrst fram eftir þrjú ár í einni kind. Ef það hittist nú svo á, að þessi kind er hjá bónda, sem er trassi og segir ekki frá henni, eða það hittist svo á, að kindin, sem veikist, hefur smitað aðrar kindur, en drepst svo sjálf til dæmis ofan í, þá veit enginn um, að kindin hafi verið veik, og þá er það ekki fyrr en þrjú ár þar á eftir, sem maður sér aftur kindur og þá tiltölulega fáar, sem hún hefur smitað. Þess vegna er það í þriðju umferð, á níunda árinu, sem maður fer að verða verulega var við veikar kindur. Á þessari hugsun er það byggt að lengja tímann, sem varðlínurnar verði látnar standa, úr fjórum árum upp í níu.

Svo er önnur breyting þarna, í síðustu mgr., og það er við hana, sem ég aftur legg fram skriflega brtt. Með leyfi forseta, hljóðar hún svona, eins og hún nú er prentuð:

„Sauðfjársjúkdómanefnd getur, ef hún telur hættulaust, leyft flutning á sæði milli fjárskiptahólfa í kynbótaskyni, enda sé í hvívetna gætt ýtrustu varúðar og aldrei flutt sæði úr kindum, þar sem garnaveiki eða riða, fósturlát eða aðrir næmir sjúkdómar, sem hætta getur stafað af að áliti yfirdýralæknis, hafa gert vart við sig.“

Nú er það svo, að það er sótt mikið á þessa sæðisflutninga. Menn vita það og vita það vel, að það er oft hægt að fá miklu vænni lömb með því að fá sæði úr reglulega góðum hrút, sem er til einhvers staðar í öðru fjárskiptahólfi, en úr sínum eigin hrút. Hins vegar er vitað, að a. m. k. bæði riða og fósturlát geta flutzt með sæði. Þess vegna viljum við með þessu gefa frekara aðhald en nú er um það, að það sé hægt að fyrirbyggja eða neita þessum sæðisflutningum. Hins vegar var ekki meining okkar með þessari grein að neita um þá fyrir fullt og allt; þó að það hefði komið riða upp fyrir 60–70 árum einhvers staðar og væri fyrir löngu búin á viðkomandi stað, þá mætti aldrei flytja sæði úr hrútum af því svæði. En svoleiðis mætti skilja greinina. Til þess að fyrirbyggja, að hún verði skilin þannig, höfum við breytt henni ofur lítið og orðum hana nú, með leyfi forseta, svona:

„Sauðfjársjúkdómanefnd getur, ef hún telur hættulaust, leyft flutning á sæði milli fjárskiptahólfa í kynbótaskyni, enda sé í hvívetna gætt ýtrustu varúðar og aldrei flutt sæði úr hrútum, þar sem garnaveiki, riða, fósturlát eða aðrir næmir sjúkdómar hafa gert vart við sig, nema með samþykki yfirdýralæknis.“

Við leggjum það undir dóm hans, hvort svo langt sé liðið frá því, að þessi sjúkdómur hafi verið á svæðinu, að það sé óhætt að leyfa sæðisflutningana, en eins og það var orðað áður, mátti segja, að það væri fortakslaust, ef einhvern tíma hefði sjúkdómur komið þar upp. Um þetta er okkar brtt., sem ég bið hæstv. forseta að taka til meðferðar og skal afhenda honum um leið og ég lýk máli mínu.

Þá er á nokkrum stöðum í frv., ég hirði ekki að lesa þá alla upp, sett inn ákvæði um það, að þar sem kindur séu drepnar, sem grunaðar eru um að vera veikar, skuli tafarlaust senda líffæri úr þeim til Keldna til rannsóknar. Á þetta hefur nokkuð skort. Þetta hefur verið reynt að framkvæma, þó að það stæði ekki í lögum. Það er tekið hér beint inn í lögin alls staðar, sem við á, svo að það er ekki um að villast, ef lögin verða samþykkt svona, að þá er það ákveðinn vilji Alþingis, að það sé hert á að þessu leyti og það fáist ævinlega úr því skorið, hvort um sjúkdóm er að ræða eða ekki, þar sem kindur eru grunaðar veikar.

Þá er undir b-lið í 5, tölul. ofur lítil breyting. Hún er í því fólgin, að það er látið sama ganga yfir lömb, sem fengizt hafa í fjárskiptum heim á eitthvert heimili, lömb, sem missts hafa úr hópnum og verið fjarvistum 2–3 daga og menn vita ekki, hvar hafa verið, eins og þau hefðu beint komið saman við sýktar kindur. Þetta er af því, að þegar fjárskiptin fara fram, er það oft svo, að þegar ný lömb koma inn á svæðið að haustinu, er ekki öruggt, að það sé búið að hreinsa það af afréttarfé. Það er ákvæði núna í lögunum, skýrt að því leyti, að ef lömbin koma saman við kindur, þá á að slátra þeim lömbum, sem það gera, og ef það er öll hjörðin á heimilinu, sem kemur þar, þá er henni allri saman lógað, en alveg það sama er nú látið ganga yfir lömb, þó að það sé ekki hægt að sanna, að þau hafi komið saman við kindur, ef þau hafa tapazt og menn ekki vitað, hvar þau hafa verið, en vita af kindum í afrétti eða í óskilum í kring. Dalasýsludæmið hefur skýrt þetta fyrir mönnum, en það er álitið, að einmitt þannig hafi veikin aftur komizt í Dalina.

Þá er tekið upp, að það eigi líka að rannsaka garnaveiki í nautgripum, eins og gert er ráð fyrir í f-liðnum og áður var gert við sauðfé. Það er ekki nema eðlileg afleiðing af því, að veikin er í þeim ekki síður en fénu.

Þá hefur verið gerð á i-liðnum, sem verður 22. gr., dálítil breyting frá því, sem nú er í lögum. Það hefur í fyrsta lagi vantað í lögin ákvæði til ráðstafana, þegar eigendur skepna hafa sýnt mótþróa eða þvermóðsku í að verða við þeim fyrirmælum, sem sauðfjársjúkdómavarnirnar hafa þurft að láta framkvæma og heimtað. Um þetta er tekið upp skýrt ákvæði í seinni hluta i-liðsins í 5. tölulið, en í fyrri liðnum er tekið upp, að kostnaðurinn, sem leiðir af rannsókn garnaveikinnar, sé að nokkru leyti greiddur af því opinbera og að nokkru leyti af mönnunum sjálfum, og það er meiri hluti greiddur af hinu opinbera en nú er. Þó er það ekkert, sem dregur. Það getur aldrei orðið nema sáralítið á ári, sem þar er um að ræða, en það þótti réttara til þess að greiða fyrir framkvæmdinni.

Þá hefur verið dálítill misbrestur á, að úrgangi í sláturhúsum hafi verið eytt nægjanlega. Það er t. d. álitið, að af því að innvols úr garnaveikisjúkum kindum hafi farið í sjóinn vestanvert við Eyjafjörð, hafi veikin borizt yfir á Svalbarðsströndina til fjár, sem þar gekk í fjöruna. Um þetta er ekkert hægt að fullyrða. Við vitum ekki, hvernig veikin komst þangað, en við vitum hitt, að af görnum sérstaklega og reyndar öllu gori innan úr sjúkri garnaveikikind getur stafað smit, og setjum þess vegna inn í lögin ákvæði um það, að smit af því eigi að fyrirbyggja með því að grafa eða eyðileggja öll innyfli. Þetta höfum við reynt að gera áður. Það er engin breyting að því leyti til. En það hefur bara gengið illa, og getur vel verið, að það gangi illa líka, þó að það sé komið inn í lögin. En það er þó von um, að það gangi þá betur a. m. k. Hér hefur maður þó lög á bak við sig til að heimta ákveðna hluti.

Þá er 6. töluliður, sem sjálfsagt hefur líka verið reynt að framfylgja, en hefur gengið afskaplega illa. Það hefur verið þannig, að þegar lömb hafa verið flutt inn á eitthvert fjárskiptasvæði, hafa menn reynt að dreifa þeim á bæina til bændanna, sem eiga að taka við þeim, á þann hátt, að lömbin yrðu sem allra jöfnust að vænleika. Þetta hefur verið það leiðandi sjónarmið, sem hefur verið haft við dreifingu líflambanna. Þetta hefur aftur orðið til þess, að lömb frá einhverjum ákveðnum bæ, sem þau koma frá, dreifast kannske á svo til alla bæi á svæðinu, sem þau eru flutt inn á, og ómögulegt er að átta sig á, frá hvaða bæ þau eru komin. Ég skal taka sem dæmi, hvaða þýðingu þetta hefur. Ég skal taka sem dæmi það, að riðan t. d. að taka hefur ekki verið sögð til á Vestfjörðum. Engu að síður kemur hún upp í vestfirzka fénu, þegar flutt er á ný fjárskiptasvæði, á einstaka stað. Nú er tvennt til, annaðhvort að veikin hafi leynzt á staðnum, sem lömbin eru flutt á, þó að kannske ár hafi liðið á milli fjárskipta, eða að veikin hafi verið á einhverjum bæ, sem eitthvert lamb kom frá á þennan stað. Hvort heldur er, er ekki hægt að rannsaka, þegar enginn veit, hvaðan lömbin eru, þegar búið er að dreifa þeim á þennan hátt. Hefði það ekki verið gert, þá var hægt að vita, hvaðan lömbin voru, og þá var hægt að ganga úr skugga um, hvort veikin hefði verið þar eða ekki, og þá var fenginn einn mikilsverður liður í rannsókninni á riðunni, hvort vírusinn, sem orsakaði hana, gæti lifað lengi utan kindar.

Þetta er reynt að koma í veg fyrir með því að fyrirskipa þarna, að það skuli dreifa þeim eins lítið og hægt er við fjárskiptin og alltaf halda skrá yfir, frá hvaða bæ lömbin, sem fara á þennan bæ, eru, svo að það sé hægt að vita, hvert hvert lamb fluttist. Lömb frá Hóli, sem fluttust á fjárskiptasvæðið, eru á þessum tveimur bæjum á nýja fjárskiptasvæðinu og annars staðar ekki. Ef eitthvað kemur upp í þeim þar, þá er leitað orsakanna á Hóli, í fénu þar. Þetta atriði getur þess vegna haft töluverða þýðingu, en ég geri ráð fyrir, að það verði dálítið erfitt að framkvæma það. Menn skilja ekki tilganginn með því, og ef lömbin eru misjöfn frá bæjunum, eins og oft vill vera, vilja allir hafa lömbin frá þeim bæjum, sem þeir halda að sé bezt fé á.

Þá koma næst brtt., sem eru í frv. eins og það kom frá n., það er bæði 4. gr., sem er hér í frv. á þskj. 166, og svo aftur 5. gr. Þessar greinar eru teknar hér upp og hefur ekki verið breytt af okkur. Það er aukið framlag til þeirra, sem fjárskipti verða að fara fram hjá, aukið framlag, sem miðað er við þá breyttu staðhætti, sem orðið hafa í landinu, hækkað verðlag á einu og öðru, sem ómögulegt er að komast hjá. En þessir staðhættir náttúrlega gera það að verkum, að fjárskipti hér eftir verða tiltölulega dýrari á kind en áður var, og er ekki hægt við því að gera á einn eða neinn hátt.

Þá er 12. töluliðurinn, hann er líka tekinn upp óbreyttur eins og hann er í frv. á þskj. 166, og er ekki um hann neitt sérstakt að segja, hann er sjálfsagður þar og enginn ágreiningur um hana hjá Nd. né neins staðar frá, þar sem mér er kunnugt um.

Ég hef nú reynt að rekja í stuttum dráttum þessar breytingar, og eins og menn hafa tekið eftir, eru nokkrar breytingar, sem við gerum á frv. eins og það kom frá Nd. Við reynum að herða á ýmsum smáatriðum til þess að reyna að tryggja sóttvarnirnar, svo að hægra verði að hefta útbreiðsluna á sauðfjársjúkdómunum en hefur verið, gefum lagagildi ýmsum ákvæðum, sem hefur verið reynt að fara eftir, þó að lögin ekki beint fyrirskipuðu það. Við höfum reynt þetta. En frv., eins og það kom frá Nd., gekk aðeins út á að taka inn riðuna og kýlapestina í þessa sjúkdóma og hækka greiðsluna til þeirra, sem yrði að skipta um fé hjá, í samræmi við breytingu verðlags og tímanna, sem orðið hafa síðan lögin frá 1950 voru sett.

Ég held ég þurfi ekki að útskýra þetta frekara og skal afhenda forseta þessa brtt., sem ég nefndi að við ætluðum að gera og ekki er veigamikil í sjálfu sér. Vona ég, að tillögur okkar verði samþykktar.