30.01.1956
Efri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. vildi ekki fallast á þessa brtt., sem ég hef borið hér fram, og taldi, að þau rök, sem ég hefði komið með, væru að nokkru leyti á misskilningi byggð; það væri svo lítill munur á því, á hvaða aldri það fé væri, sem bændur ættu, að þessi rök, sem ég hefði komið fram með, fengju naumast staðizt nema að litlu leyti.

En ég vil þá benda hv. alþingismönnum á það, að hann kom sjálfur með rök til viðbótar þeim rökum, sem ég hafði borið fram, ef eitthvað hefur á skort, sem gerir það að verkum, að það verður að fresta málinu, að mínu áliti. Hann viðurkenndi beinlínis, að það væri hægt að finna aðra reglu réttlátari en þá, sem stæði í 38. gr., og orðaði hana að hálfu leyti.

Það er vitað mál, að bændur á þeim stað, sem ég mæli þarna fyrir, — og ég vænti, að þeir, sem hafa ekki umbjóðendur, sem stendur eins á fyrir, líti þrátt fyrir það með sanngirni á þessa undantekningu, — fara alveg sérstaklega vel með fé. Það veit hv. 1. þm. N-M., og það er staðreynd, að ár eftir ár hefur verið þar fjöldi af tvílembdum ám, og það en enn fremur staðreynd, að þar hefur hvað eftir annað verið mesta meðalþyngd, sem til er á Íslandi. Það er því engin furða, þó að mönnum, sem kannske hafa ekki stórbú, en fara svo vel með, að þeir hafa afurðir eins og búið væri stórt, finnist þungt að búa undir því að eiga að taka bætur eins og þeir, sem hafa lélegt fé og fara kannske í tæpu meðallagi með það. Með þessu móti, eins og ég veit að hv. þm. sjá, er verið að refsa þeim mönnum, sem hafa tiltölulega lítil bú, en fara vel með fé og hafa margar tvílembur. Þeir fá ekki nema lítið hlutfall af þeim bótum, sem hinir fá. Þetta viðurkenndi hv. 1. þm. N-M. og orðaði það, að kannske mætti, sagði hann, láta sér detta í hug að orða þetta þannig, að ríkissjóður skuli greiða fjáreigendum afurðatjónsbætur sem svarar ¾ ærafurða á bótaskylda kind. Hvort sem það verður orðað svona eða með einhverju öðru móti, sagði hann, þá væri það nær því að ná því að vera réttlátt. En n. hefur samt sem áður ekki til þessa fallizt á að breyta því í þetta horf. En sú hugsun, sem liggur í þessu orðalagi, er vitanlega það eina réttláta gagnvart þeim, sem taka bæturnar. Með þessu móti, eins og ég hef bent á og verður ekki of oft sagt og endurtek enn, fá þeir, sem hafa tiltölulega lítil bú og fátt fé, en með miklum afurðum, vegna þess að það er tvílembt og vel með það farið, miklu minna hlutfall í bætur en hinir. Og það er þetta, sem þeim þykir m. a. erfitt að búa undir þarna, þeim bændum, sem ég mæli fyrir. Það er vandalaust að finna þetta. Meðalþunginn er til í verzlununum og tala dilkanna er til í framtölum, og enn fremur má hafa til hliðsjónar, hverju hefur verið slátrað. Ef menn hafa ekki talið það fram, sem ekki kemur nú til þarna á þessum stað, þá kemur það þeim í koll. En þeir eiga að fá bætur í hlutfalli við þann lambafjölda, sem þeir hafa talið fram sem tekjur á undanförnum árum, því að það er það tjón, sem þeir verða raunverulega fyrir.

Þess vegna er það, að ég vil nú taka undir þessi viðaukarefsiákvæði, sem hv. 1. þm. N-M. hefur borið fram, að mér skilst að einhverju leyti í umboði n., og fara fram á, að þessu máli verði frestað og n. athugi þessi ákvæði. Mér finnst varla gerlegt að bera fram skriflega brtt. um refsiákvæði, sem ekki hefur fengizt tækifæri til þess að athuga og bera saman við frv., eins og það liggur núna fyrir. Vildi ég fara fram á, að jafnframt væri athuguð þessi leið, fyrst ekki er hægt að fallast á þá leið, sem ég hef stungið upp á. Og hv. 1. þm. N-M., samkvæmt því, sem hann talaði hér, getur ekki komizt hjá því að taka það upp í n., því að n. má ekki hliðra sér hjá að finna orðalag fyrir meira réttlæti, þó að það sé auðveldara að orða regluna almennt eins og hún er hérna, ef það er raunverulega, eins og ég hef sýnt fram á og hann hefur sýnt fram á, ranglæti gagnvart þeim, sem eiga að taka bæturnar. Ég er ekki í neinum vafa um, að það má finna orðalag yfir þetta, ef n. leggur sig fram í því efni, og það er því ástæða til þess að fresta málinu. Það er ekki nein hætta á, að þetta mál komist ekki í gegnum þingið, og tvöfaldar ástæður, þegar hér koma fram brtt., sem þarf einnig að athuga.