21.02.1956
Neðri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögunum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra hefur nú verið til meðferðar í hv. Ed. og er aftur komið þaðan fyrir nokkru.

Í hv. Ed. hefur verið gerð sú meginbreyting á málinu, að það frv., sem afgreitt var frá Nd., með þeim breytingum, sem í því felast, hefur verið fellt inn í aðallöggjöfina frá 1947 og sömuleiðis yngri lög um þetta efni. Jafnframt því, sem hv. Ed. gekk þannig frá málinu, hafa verið samþykktar þar nokkrar breytingar á lögunum í heild.

Landbn. þessarar hv. deildar taldi rétt, þegar málið var komið í þennan búning, að athuga það nánar og hefur nú gert það. Henni virðist, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið í hv. Ed. og munu vera gerðar í samráði við sauðfjársjúkdómanefnd, séu yfirleitt til bóta. Þetta eru ekki stórfelldar efnisbreytingar, en miða yfirleitt í þá átt að tryggja varnirnar, eftir því sem verða má, auka öryggi gegn útbreiðslu sauðfjárpestanna. Nefndin telur því rétt, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir frá hv. Ed., og telur til bóta, að það hefur verið fært í þennan búning. Hún leggur þó til, að gerð verði á því ein breyting samkv. sérstakri brtt., sem borin er fram á þskj. 347 við 1. mgr. 13. gr. frv. Sú brtt. er um atriði, sem hefur verið í lögum, en mun hafa fallið niður af vangá við endurprentun í Ed. Nú liggja ekki fyrir aðrar brtt. við frv., sem útbýtt hefur verið. Ég skal geta þess að vísu, til þess að ég þurfi ekki að taka aftur til máls, að fleiri brtt. komu til orða í n., en n. eða meiri hl. hennar sá sér hins vegar ekki fært að mæla með frekari breyt. á frumvarpinu.