21.02.1956
Neðri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Eins og hv. þm. N-Þ. gat um, fylgir n. þessu frv. eins og það kom frá hv. Ed. Ég hef við þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, og einnig innan landbn. reynt að fá fram nokkrar breytingar á þessu frv., sem hefur legið hér fyrir hv. Alþingi, en án árangurs. Það hafa verið felldar tvær till. fyrir mér hér í þessari hv. d., og einnig hafa undirtektir undir breyt. í Ed. ekki verið betri, svo að ég sé ekki ástæðu til að koma nú með brtt., þar sem undirtektir hafa ekki verið betri en raun hefur borið vitni um. En hitt er mér vel ljóst, að eftir að fjárskipti hafa farið fram, munu ýmsir verða á annarri skoðun en þeir hafa sýnt hér við þessar umr., því að ég er ekki í neinum vafa um það, að þau fjárskipti, sem núna eru hafin í annað sinn, marka örlagarík spor í landbúnaðarsögu þessarar þjóðar, og margur, sem hingað til hefur stundað landbúnað, mun eflaust hugsa sig um, hvort hann á ekki að hverfa til ábyrgðarminni starfa, sem eru minna háð sól og regni en bændastaðan er í dag.

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að flótti úr sveitum gæti aldrei talizt æskilegur í neinu þjóðfélagi, því að það hefur sýnt sig, að eftir því sem landbúnaður hefur staðið traustari fótum í einn menningarlandi, eftir því hefur gæfa og gengi þjóðarinnar farið að öðru leyti.

Ég vona, þegar áhrif fjárskiptanna koma betur í ljós á næstu árum, að þeir, sem þá fara með löggjafarvald þjóðarinnar, sýni skilning og festu til að leiða til betri vegar þau atriði frv., sem ekki hafa fengizt leiðrétt nú.