27.02.1956
Efri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það hafa einhvers staðar orðið mistök í þessu frv. hér í d. hjá n. eða í prentuninni eða einhvers staðar með breytingu, sem við ætluðum að setja inn í 13. gr. og vorum eiginlega búnir að samþykkja að setja inn og byrjaði þannig: Bannað er að flytja sauðfé eða nautgripi. — Þessi orð „eða nautgripi“, sem við ætluðum að bæta þar inn í, hafa einhvers staðar fallið niður. En af því að við ætluðum að bæta þessu inn í, tókum við út heimild fyrir n., sem áður var í gr., um það, að hún mætti banna þetta. Eins og við hugsuðum okkur það, var það skilyrðislaust bann. Eins og það áður var, mátti n. banna það. Nú þegar þetta kom aftur til Nd. og neðrideildarmennirnir fóru að lesa þetta yfir, sáu þeir, að þarna hafði dottið niður heimildin fyrir sauðfjársjúkdómanefndina til að banna flutning á nautgripum yfir varðlínur, og tóku þess vegna upp heimildina eins og hún áður var í lögunum. Þetta er nú ekki sá meiningarmunur, að ég sjái neina ástæðu til þess að fara að senda frv. í sameinað þing, og ég held, að nm. séu allir sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir. Er þá ekki annar meiningarmunur á frv. núna og eins og n. hér í deildinni hugsaði sér það, að þar sem n. hugsaði sér algert bann við að flytja nautgripi yfir varðlínurnar, er það núna heimild; það er allur munurinn, sem á því er. (Dómsmrh.: Það er nú mikill munur.) Ja, það er nokkuð eftir því, hvernig traust er á þeim mönnum, sem með málin fara, og margir bera nú gott traust til ríkisstj. og framkvæmdastjóra sauðfjárveikivarnanna, ég held, að flestir hér í deildinni geri það. N. leggur sem sagt til, að frv. verði samþykkt.