16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

134. mál, skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Með frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því að setja ný lög um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga og gjaldenda, sem fara úr landi, í stað laga nr. 96 frá 1946, sem nú gilda um það efni.

Í athugasemdum, sem frv. fylgja, er skýrt frá þeim nýmælum, sem það felur í sér. Vil ég nefna þau helztu.

Samkvæmt núgildandi lögum eru útlendingar því aðeins skattskyldir hér, að þeir hafi stundað hér atvinnu í einn mánuð eða lengur eða hreinar tekjur þeirra hafi numið a. m. k. 10 þús. kr. Eftir frv. fellur þessi takmörkun niður, en útlendingar borga hér skatta og útsvar af tekjum, sem skattur væri reiknaður af samkvæmt tekjuskattslögunum, ef um innlenda skattþegna væri að ræða.

Eins og nú er, njóta útlendingar ekki neins frádráttar frá tekjum, áður en skattur er á þá lagður. Frá því er þó sú undantekning, að listamenn, sem hingað koma og afla sér tekna, njóta frádráttar, sem nemur 1/3 teknanna. Í frv. er lagt til, að útlendingar fái að draga frá tekjunum kostnað við öflun þeirra eftir sömu reglum og gilda samkvæmt tekjuskattslögunum um innlenda menn. Eftir þessu ákvæði, ef að lögum verður, fá t. d. útlendir sjómenn, sem vinna hér á togaraflotanum, frádreginn hlífðarfatakostnað eftir sömu reglum og íslenzkir starfsbræður þeirra. Virðist þetta sanngjarnt.

Þá er og til þess ætlazt samkvæmt 3. gr. frv., að útlendingar, sem hér vinna, njóti persónufrádráttar eins og innlendir menn, en sé fjölskylda þeirra erlendis, fá þeir þó því aðeins frádrátt hennar vegna, að sannanir liggi fyrir um fjölskyldustærð og framfærslu hennar.

Skattar útlendinga, sem vinna hér aðeins hluta úr ári, eru nú reiknaðir þannig, að skattprósentan er við það miðuð, að gjaldþegninn hafi haft tilsvarandi tekjur yfir allt árið. Ef t. d. útlendur maður hefur unnið hér í sex mánuði og haft í tekjur samtals 25 þús. kr., er skatturinn við það miðaður, að árstekjur hans hafi numið 50 þús. kr., en skatturinn, reiknaður af þeirri upphæð, síðan lækkaður um helming, vegna þess að maðurinn var hér aðeins í hálft ár og hafði aðeins helming þessarar upphæðar í tekjur. Samkvæmt frv. á framvegis að reikna dvalartímann í vikum, en ekki mánuðum, eins og nú er, og fæst nákvæmari skattreikningur á þann hátt. Ákvæðin um þetta eru í 4. gr. frv. Þar er einnig það nýmæli, að við dvalartímann hér á landi skuli bæta 20% vegna þess tíma, sem það tekur útlendinginn að komast hingað til starfs og heim aftur, en þó sé viðbótin ekki minni en ein vika og ekki meira en fjórar vikur. Sýnist þetta vera eðlileg breyting.

Í frv. eru ákvæði um innheimtu skatta og útsvars hjá útlendingum og öðrum, sem fara af landi burt, og ábyrgð kaupgreiðenda á greiðslu þeirra gjalda. Fyrirmæli um þetta eru einnig í gildandi lögum, og eru hér litlar breytingar á þeim gerðar. Þó er hér sú breyting, að í stað þess, að í lögunum segir, að kaupgreiðandi megi halda eftir ákveðnum hundraðshluta af kaupi til tryggingar ábyrgðinni, gerir frv. ráð fyrir, að ákveðið verði í reglugerð, hve miklu megi halda eftir af kaupinu til greiðslu á opinberum gjöldum. Ákvæði frv. um tekjufrádrátt, t. d. persónufrádráttinn, sem nú er ekki í lögum, gera það nauðsynlegt, að ný fyrirmæli verði sett um það, hve miklu megi halda eftir af kaupi til greiðslu á skatti og útsvari.

Ég hef þá nefnt helztu nýmælin, sem frv. hefur að geyma.

Margir útlendir sjómenn, aðallega Færeyingar, starfa nú á íslenzkum fiskiskipum, einkum á togaraflotanum, og hefur svo verið um nokkurt skeið. Nokkurrar óánægju hefur orðið vart hjá þessum útlendu sjómönnum út af þeim reglum, sem nú gilda um skatt- og útsvarsgreiðslu þeirra, og geri ég ráð fyrir, að frv. þetta sé fram borið m. a. þess vegna. Ef frv. verður samþykkt, fá þessir menn nokkrar tilslakanir, sem þeir njóta ekki nú, t. d. persónufrádrátt og tekjufrádrátt vegna hlífðarfatakostnaðar eins og innlendir sjómenn njóta. Munu þeir vafalaust telja þetta nokkra leiðréttingu sinna mála, og er þó ekki lengra gengið en sanngjarnt er, samanborið við þau kjör í þessum efnum, sem landsmenn sjálfir eiga hér við að búa.

Fjhn. hefur athugað frv. og gefið út nál. á þskj. 367. Tveir nefndarmenn gátu ekki mætt á fundi, þegar málið var afgreitt. Nefndin flytur tvær brtt. við frv.

Sú fyrri snertir útlenda listamenn, sem afla sér tekna hér með listum sínum. Þeir fá nú samkvæmt lögum frádreginn 1/3 af tekjum sínum vegna kostnaðar, áður en skattur er á þá lagður, og á það að haldast áfram, en nefndin telur ekki ástæðu til að láta þá hafa aukinn frádrátt vegna kostnaðar né heldur persónufrádrátt, og er brtt. við það miðuð.

Í síðari brtt. er ekki um nýmæli að ræða. Ákvæði um það efni eru nú í 10. gr. laganna, nr. 96 frá 1946, en hafa af einhverjum ástæðum fallið niður, þegar frv. var samið.

Það er till. nefndarinnar, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum, sem eru á þskj. 367.