23.02.1956
Neðri deild: 75. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

159. mál, skattfrelsi Nóbelsverðlauna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þdm. og alþjóð er kunnugt, hafa þau miklu tíðindi gerzt, að Halldóri Kiljan Laxness hafa verið veitt bókmenntaverðlaun Nóbels. Enginn vafi er á því, að þetta gleður alla Íslendinga mjög, og ríkir almennt fögnuður út af því, að Halldór Kiljan skyldi fá þessi merkustu bókmenntaverðlaun, sem til eru, fyrir störf sín.

Ríkisstj. hefur haft til íhugunar þá hlið á málinu, hvort skáldið skyldi greiða tekjuskatt og útsvar af þessum verðlaunum eins og venjulegum tekjum, en í íslenzkri skattalöggjöf er gert ráð fyrir því, að menn greiði skatt af öllum tekjum, sem þeim áskotnast. Álítur ríkisstj., að sjálfsagt sé að gera hér á undantekningu og samþykkja lög um, að skáldið skuli ekki greiða tekjuskatt né útsvar af þessu fé, og frv. það, sem hér liggur fyrir, er um þetta efni, eins og hv. þm. sjá.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona, að þetta sé ekki álitamál í huga neinna, og geri þess vegna ekki till. um, að þessu máli verði vísað til nefndar. Það gæti m. a. sýnt, hversu einhuga menn væru um málið, að það verði afgreitt án þess að fara til nefndar.