06.03.1956
Efri deild: 81. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

172. mál, eignarskattsviðauki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur eignarskattur verið innheimtur með 50% álagi undanfarin ár og lög um þetta verið framlengd á hverju þingi, því að þau hafa ekki verið sett nema til eins árs í einu. Fjhn. lítur svo á, að þó að hér sé ekki um stórvægilegt fjármagn að ræða, sé ekki rétt að svipta ríkissjóð nú þessum tekjuauka og ekki heldur ástæða til annars en að framlengja þennan viðauka við eignarskattinn, þar sem mþn. í skattamálum hefur enn ekki lokið störfum. Að því leyti er því ástandið óbreytt frá því, sem verið hefur, og sömu ástæður virðast vera nú til að framlengja þennan viðauka og verið hafa undanfarin ár. — Eins og sjá má á nál. á þskj. 447, leggur n. því einróma til, að þetta litla frv. verði samþ. óbreytt.