30.01.1956
Efri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

109. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. í tilefni af brtt. hv. þm. V-Sk. (JK) á þskj. 257 við frv. til l. um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum vil ég skýra afstöðu mína með nokkrum orðum.

Fyrri brtt. er sú, að felld verði niður heimild, sem verið hefur í lögum, frá því að þau fyrst voru sett um þetta efni árið 1935, um, að rn. sé heimilt að taka í sínar hendur að nokkru eða öllu leyti póst- og farþegaflutning á vissum leiðum, ef því þykir henta, enda fullnægi bifreiðar þessar settum reglum. Ég tel ekki ástæðu til að fella þetta ákvæði niður nú og tel, að heppilegt og nauðsynlegt sé, að slík heimild sé í lögunum.

Annað atriði í brtt. á þskj. 257 hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur félag eða einstaklingur haft sérleyfisleið eitt leyfistímabil eða lengur, enda rækt starfið svo, að ekki verði með réttu að fundið, og skal þá, sé leiðin óbreytt, sá aðili að öðru jöfnu sitja fyrir um sérleyfið áfram, ef hann æskir þess.“

Í framkvæmdinni mun þessi háttur hafa verið á hafður. Hins vegar tel ég ekki rétt að rígbinda þetta svo sem tillagan felur í sér. Sérleyfisnefndin er m. a. skipuð tveimur fulltrúum frá sérleyfishöfum, og er þeim ávallt opin leið að fylgjast með og gera till. um veitingu hvers einasta sérleyfis. Mun þetta hafa reynzt nægileg trygging fyrir sæmilega réttlátri afgreiðslu hingað til, og tel ég því ekki ástæðu til breytinga. Enn fremur tel ég, að brtt. sé ekki nægilega undirbúin, og hún hefur ekki verið borin undir sérleyfishafana sjálfa, svo að ég viti. Ég vildi því vinsamlegast mælast til, að hv. þm. V-Sk. (JK) taki till. aftur, og vænti ég þess þá, að hv. 6. landsk. (FRV) vildi taka sína till. aftur.